Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Side 65

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Side 65
3. tbl. 97. árg. 2021 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 63 Gagnrýnin umfjöllun um áhrif og virkni þjónandi forystu í skipulagsheildum Þjónandi forysta hefur jákvæð áhrif á starfsánægju. Óháð uppbyggingu og skipulagi skipulagsheildar þá munu stjórnendur sem beita þjónandi forystu stuðla að meiri starfsánægju starfsfólks en þeir sem gera það ekki (Eva o.fl., 2021). Engu að síður er mikilvægt að taka til greina formgerð vinnustaðarins. Niðurstöður rannsóknar Eva o.fl. (2021) sýna að þjónandi forysta hefur veigameiri áhrif á starfsánægju hjá stofnunum með óformfasta skipulagsheild. Í ákveðnum tilfellum getur aukin formfesta á skipulagi og stjórnun komið í staðinn fyrir þjónandi forystu (Eva o.fl., 2021). Þrátt fyrir marga jákvæða eiginleika þjónandi forystu hefur nálgunin nokkrar takmarkanir. Fyrst má nefna þá merkingarfræðilegu togstreitu sem fram kemur í titlinum og hefur aðferðin stundum verið álitin óraunsæ eða duttlungafull. Að vera þjónandi leiðtogi felur í sér að fylgja og það að fylgja er talið andstæðan við að leiða. Þrátt fyrir að nálgun þjónandi forystu taki til greina áhrifavald er samspil þess og virkni við þjónandi forystu ekki útlistað á sértækan hátt (Northouse, 2018). Umfjöllun um þjónandi forystu hefur oft þann undirtón að góður leiðtogi þurfi að setja sjálfan sig í síðasta sæti og sýna fórnfýsi. Ósérplægin nálgun á stjórnarháttum getur vissulega verið aðdáunarverð en felur jafnframt í sér útópískan brag. Þar sem framleiðni, stjórnun, markmiðasetning og mótun á framtíðarsýn getur stangast á við grundvallaratriði leiðtogafærni (Northouse, 2018). Meðal fræðimanna innan aðferðarinnar hefur verið ágreiningur um hverjir kjarnaþættirnir raunverulega eru. Í þjónandi forystu er gengið út frá að hjá stjórnandanum séu til staðar ákveðnir eiginleikar, hæfni og hegðun. Þrátt fyrir ýmsar rannsóknir hefur ekki enn tekist að ná eiginlegum samhljóm um skilgreiningu á hugmyndafræðilegum ramma aðferðarinnar. Þjónandi leiðtogi þarf að búa yfir sjálfsþekkingu og meðvitund um eigin styrkleika og veikleika. Ákvarðanataka byggist ekki eingöngu á staðreyndum heldur þarf stjórnandinn, í gegnum ígrundun og sjálfsþekkingu, að treysta á innsæi sitt. Einlægur áhugi á þankagangi annarra, næmni og lægni við að bera kennsl á þarfir annarra flokkast undir meginstoðir þjónandi forystu. Þeir þættir þurfa að vera til staðar hjá stjórnandanum (Greenleaf, 2008). Sé þessi útlistun skoðuð út frá mismunandi persónugerðum einstaklinga má sjá að ekki er öllum slík hegðun og færni jafneðlislæg. Skipulagsheildin gæti því stjórnast að mestu eftir upplagi, persónueinkennum og eiginleikum stjórnandans (Greasley og Bocârnea, 2014). Ekki er ljóst af hverju hugtakið „að setja sig í spor annarra“ er talið upp sem einn af atferlisþáttum þjónandi leiðtoga. Slíkur eiginleiki felur í sér að skilja fólk án þess að vera endilega sammála. Færa má rök fyrir því að flokka mætti hugtakið sem ákveðna hugræna færni frekar en hegðun. Enn fremur, hver eru rökin fyrir því að velja hugtakið sem úrslitaþátt þjónandi forystu? Það að geta sett sig í spor annarra er án efa mikilvægur eiginleiki hvers kyns stjórnanda (Northouse, 2018). Þjónandi forysta hefur verið tengd við góð samskipti, traust og virðingu á milli yfirmanns og starfsfólks. Aukin afköst í vinnu, aukna starfsánægju og hollustu til stofnunar, minni starfsmannaveltu og meiri ánægju með stjórnendur. Að því gefnu mætti draga þá ályktun að ef leiðtogar innan heilbrigðiskerfisins tileinka sér þjónandi forystu í auknum mæli gæti það dregið úr mönnunarvanda sem þar ríkir að einhverju leyti. Athyglisvert væri að sjá nánari rannsóknir á því sviði. Þjónandi forysta er stjórnunarstíll sem á einkar vel við í heilbrigðisþjónustu og ekki síst í starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga. Má í því samhengi nefna umönnun sjúklinga, forgangsröðun og úthlutun verkefna og að eiga uppbyggileg samskipti við samstarfsfólk. Einnig eru hjúkrunarfræðingar kennarar og veita öðrum hvatningu og leiðsögn í starfi. Því má segja að þjónandi forysta ætti að vera eðlislæg stjórnendum á hjúkrunarsviðum og falli vel að umhverfi heilbrigðiskerfisins. Rannsóknir sýna að starf hjúkrunarstjórnenda sé krefjandi og töluvert streituvaldandi. Engar rannsóknir fundust sem skoða tengsl á milli þjónandi forystu á hjúkrunarsviðum og streitu í starfi en væri það áhugavert rannsóknarefni í náinni framtíð. LOKAORÐ Að lokum verður að hafa í huga þann svip sem persónugerð einstaklinga setur á stjórnunarstíl. Þjónandi leiðtogi þarf að búa yfir ákveðnum eiginleikum sem ekki er öllum stjórnendum jafneðlislægt að tileinka sér. Einlægur áhugi stjórnandans á öðrum og vilji hans til að tileinka sér sjálfsskoðun og ígrundun eru grundvallarþættir. Rannsakendur velta einnig fyrir sér undirliggjandi áhrifum þeirrar fórnfýsi og meðvirkni sem hefur lengi þrifist í vinnustaðarmenningu hjúkrunarfræðinga. Þurfa hjúkrunarstjórnendur sem vilja tileinka sér aðferðir þjónandi forystu jafnvel að gæta sérstakrar varfærni þegar kemur að hinu tvíeggja sverði sem ósérplægni getur verið? Fræðigrein

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.