Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Side 75

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Side 75
3. tbl. 97. árg. 2021 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 73 o.fl., 2015). Konur sem höfðu verið greindar með þunglyndi á meðgöngu og tóku þátt í rannsókn Bennett o.fl., (2007) sögðu að þær hefðu jafnvel haldið líðan sinni leyndri fyrir vinum og fjölskyldu af því þær skömmuðust sín og voru hræddar við fordóma. Við teljum því mikilvægt að fylgja konum, mæðrum og frumbyrjum strax eftir og bjóða upp á HAM-námskeið sem veitir þeim stuðning frá upphafi meðgöngu og áfram eftir fæðingu. Stuðningurinn og eftirfylgnin skiptir öllu máli en í rannsókninni fannst konunum sem þátt tóku mikil heilun í því að deila reynslu sinni sín á milli og vita að þær væru ekki þær einu sem glímdu við kvíða. Í hópnum sem í voru eingöngu barnshafandi konur, sköpuðust meiri umræður því þær fundu fyrir stuðningi hver frá annarri en í blandaða hópnum fundu konurnar fyrir minni stuðningi og fannst vanta meiri umræður. Áður hafa birst rannsóknarniðurstöður sem sýna að þátttaka í HAM-hópi reynist dýrmæt fyrir konur. Þær eru þakklátar fyrir stuðninginn frá hópnum sem hvetur þær til aukinnar félagslegrar virkni (Cramer, o.fl., 2011). Rannsóknarniðurstöður okkar ásamt niðurstöðum (Masood o.fl., 2015) gefa vísbendingar um að mikilvægt sé að hafa námskeiðin kynjaskipt og einnig að bjóða upp á námskeið fyrir konur í fæðingarorlofi. Konunum í okkar rannsókn fannst mikilvægt að vera spurðar um andlega líðan sína og vera fylgt eftir og það voru einnig dæmi þess að þær óskuðu eftir því að fá meiri stuðning og eftirfylgni frá heilsugæslunni, sérstaklega frá ungbarnaverndinni. Höfundum fannst áberandi að konurnar töluðu lítið um þann stuðning og eftirfylgd sem ungbarnaverndin getur veitt. Það er reynsla höfunda að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður á heilsugæslunni geta haft jákvæð og góð áhrif á konur með andlega vanlíðan í barneignarferlinu því þau hitta fjölskylduna reglulega og geta veitt henni stuðningsmeðferð, virka hlustun og ráðleggingar. Ritrýnd grein | Scientific paper Niðurstöðurnar gefa hins vegar sterka vísbendingu um að sá stuðningur þurfi að vera sýnilegri og meira afgerandi en með HAM gætu hjúkrunarfræðingar og ljósmæður veitt konum sem þurfa, aukinn stuðning. Í nýlegri kanadískri tilraunarannsókn þar sem hjúkrunarfræðingar fengu þjálfun og kennslu til að bjóða mæðrum upp á HAM-námskeið á heilsugæslunni kom fram að dregið hafði úr andlegri vanlíðan þeirra. Þær voru líka með minni áhyggjur, tengslamyndun á milli móður og barns var betri og heimsóknum vegna andlegrar vanlíðanar á heilsugæsluna fækkaði (Van Lieshout o.fl., 2019). Rannsóknin okkar veitir innsýn í reynslu kvenna sem hafa sótt HAM-námskeið á heilsugæslustöðvum, en það efni hefur ekki verið rannsakað áður hér á landi. Styrkleiki rannsóknarinnar felst í rannsóknaraðferðinni sem notuð var en einnig að þátttakendur voru á misjöfnum aldri og bjuggu við ólíkar aðstæður. Veikleiki rannsóknarinnar er fyrst og fremst fólginn í því hve fáir þátttakendur eru í rannsókninni og eins og í öðrum eigindlegum rannsóknum er ekki raunhæft að alhæfa út frá niðurstöðum. Einnig má nefna sem veikleika að úrtakshópurinn kom frá tveimur mismunandi hópum. Sú leið var farin vegna þess hversu erfitt var að nálgast þátttakendur á rannsóknartímanum en það kann að hafa áhrif á niðurstöðurnar. Þakkir Konurnar sem tóku þátt í rannsókninni fá hrós og þakklæti fyrir að koma og deila persónulegri reynslu sinni, því án þeirra hefði rannsóknin ekki verið möguleg. Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er þakkað fyrir að gefa leyfi fyrir rannsókninni. Karli Rúnari Þórssyni er þakkað fyrir yfirlestur og góð ráð. Einnig viljum við þakka fyrir styrki frá Vísindasjóði Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Fagdeild heilsugæsluhjúkrunarfræðinga.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.