Heilbrigt líf - 01.12.1947, Blaðsíða 96
FRÉTTAPISTILL FRÁ AMERÍKU
YERÐUR UNNT AÐ LÆKNA BERKLAVEIKI MEÐ LYFJUM?
Nýlega var ég í Washington D.C. og heimsótti þar
lækna, er stjórna tilraunum þeim, sem ríkið er að gera
með streptomycin og önnur lyf, sem líklegust eru
talin til að vinna bug á berklaveikinni. Dr. Charles
Armstrong, forstöðumaður rannsóknarstofnunarinnar,
sem aðallega vinnur að þessum rannsóknum, sagði mér,
að hann hefði mjög góða von um, að þess yrði ekki mjög
langt að bíða, að þetta langþráða lyf íyndist. Strepto-
mycin getur læknað berklaveiki á byrjunarstigi og hefur
gert það í nokkrum tilfellum, sem annars hefðu leitt til
bráðs bana (heilabólgu og bráðaberkla). En langvinna
(króniska) lungnatæringu er hæpið að lækna með því,
eins og nú standa sakir. Sennilegt er þó, að þetta standi
allt til bóta. Verið er að prófa ný efni og endurbæta önn-
ur, svo að bezt gæti ég trúað, að innan 5—10 ára verði
það að sínu leyti jafn ánægjulegt fyrir læknana að eiga
við berklaveiki og það hefur verið kvíðvænlegt hingað
til, fyrir bæði lækna og sjúklinga.
Eins og er, þarf afar stóra skammta af streptomycini
til þess að lækna berklaveiki, en hins vegar er ekki unnt
að framleiða nema tiltölulega lítið af því. En þannig
var það líka fyrst með penicillín og rættist mjög fljótt
úr öllum slíkum torfærum. Fullkomin ástæða er til að
ætla, að svipuð verði reynslan með streptomycin, og búizt
er við, að önnur lyf finnist, sem taki því fram.
210
Ileilbrigt líf