Póllinn - maj 2023, Side 27
En í löndum eins og Kongó þar sem flóknari saga er milli nýlendunnar og herraþjóðarinnar,
þar sem nýlenduvæðingin var einnig stjórnarfarsleg, er enn erfiðara að losna undan haldi
tungumáls nýlenduþjóðarinnar. Vegna þess hversu samofið tungumálið var í
stjórnmálasamhengi er erfitt að aðgreina þetta tvennt. Nýlega hefur verið reynt að kenna
staðbundin mál og mállýskur í skólum en í Kongó eru töluð u.þ.b. 50 mál. Franska er enn
samt sem áður ráðandi tungumál á opinberum vettvangi og í skólakerfinu.
Tilraunir Íslendinga og Kongóbúa til að reyna að losna við áhrif máls fyrrverandi
herraþjóðar hafa gengið misvel þó að sjálfsögðu séu þessar aðstæður mjög ólíkar. Þær eiga
það þó sameiginlegt að eitt mál tók næstum yfir móðurmál þeirra. Ástæðan fyrir
erfiðleikunum er hversu rótgróin tungumálin eru í menningunni, en það er að sjálfsögðu
ekki fyrir tilviljun.
Uppbygging þjóða (e. nation-building) hefur það markmið að efla þjóðríkið með því að auka
samheldni íbúa, t.d. með því að efla þjóðernisvitund, samræma venjur og tungumál og með
útskúfun þeirra sem ekki samlagast. Það hefur verið herkænskubragð drottnunarríkis að það
sé nauðsynlegt skref í að innlima nýlenduna og til að tryggja fullkomna stjórn. Því skiptir
máli hvaða tungumál er notað í landinu. Tungumálamissir er hægt ferli og hann snýst um að
glata umdæmum, t.d. fréttamiðlum, opinberri stjórnsýslu, tækni og menntakerfinu. Talað er
um umdæmismissi þegar tungumál þessara stofnana eru á öðru máli en móðurmáli íbúa
landsins. Sameiginlegt tungumál og sameiginlegur menningararfur eru nokkuð sem íbúar
hverrar þjóðar eru gífurlega stoltir af. En þegar þegnar þjóðar verða fyrir umdæmismissi
tapa þeir hluta af þjóðarsál sinni og samlagast þess í stað menningu og siðum drottnara sinna.
Íris Björk Ágústsdóttir
25