Bændablaðið - 02.11.2023, Side 4
4 Bændablaðið | Fimmtudagur 2. nóvember 2023
FRÉTTIR
Þuríður Lillý Sigurðardóttir,
sauðfjárbóndi á Sléttu í
Reyðarfirði, segir undanfarin ár
lítið hafa verið gert til að ýta undir
nýliðun í landbúnaði.
Það sýni sig í að kynslóðaskipti í
greininni séu með minnsta móti. Hún
hélt erindi á baráttufundi Samtaka
ungra bænda í liðinni viku.
Þuríður segir baráttufundinn
hafa verið til að fá ráðamenn og
almenning, sem eru ekki endilega
nátengdir landbúnaði, til að sjá
hversu alvarleg staðan er. Það þýði
ekkert fyrir stjórnvöld að vakna
upp eftir einhver ár þegar búskapur
í landinu hefur hnignað varanlega,
því matvælaframleiðsla byggist ekki
upp á einni nóttu. Tækifærin séu enn
til staðar og það eru enn til ungir
bændur og blómleg bú sem hægt er
að taka við. „En maður rís ekki upp
úr öskunni eftir tíu ár þegar allt er í
niðurníðslu. Það þarf að vera hægt
að taka við búum þegar þau eru enn
í blóma.“
Nær ómögulegt án
fjölskyldutengsla
Samkvæmt Þuríði geta bændur
nánast aldrei tekið við bújörðum
nema þegar eiga sér stað ættliðaskipti
innan fjölskyldu. Í þeim tilfellum
sé þó engin leið góð því þær séu
allar þannig að einhver tapi á þeim.
„Annaðhvort þarf sá sem selur að
selja svo ódýrt að hann hefur ekkert
upp úr sínu ævistarfi – eða þá að
ungi bóndinn þarf að skuldsetja sig
svo hátt að hann getur ekki lifað af
búskap, heldur þarf hann að vinna
utan bús.“ Þetta geri það oft að
verkum að þótt yngri kynslóðin taki
til starfa á bænum þá dragist þau
hreinu skipti á búrekstrinum sem
eru nauðsynleg til að unga fólkið
geti hafið sína uppbyggingu.
„Maður veltir fyrir sér af hverju
ungt fólk sé að fara í þessar aðstæður
þar sem er mikil vinna fyrir nánast
engin laun.“
Þetta þurfi að verða eftirsóknar -
verð starfsgrein og segir Þuríður
ekki aðlaðandi fyrir ungt fólk að
vinna úti og koma svo heim í lok
dags og þurfa að sinna bæði búskap
og heimili.
„Ungir bændur standa ekki undir
því í mörg ár að vinna hundrað og
fimmtíu til tvö hundruð prósent
vinnu. Á meðan allar stéttir eru að
fara í styttri vinnuviku og lengri
sumarfrí eru bændur að horfa á það
að reyna að ná endum saman.“ Hún
bætir við að næga atvinnu sé að hafa
og hætta sé á að fólk sem annars færi
í búskap leiti í önnur störf.
Í raun starfsmaður búsins
Þuríður segist heppin að taka við
góðu búi hjá föður sínum, en samt
þurfi hún og eiginmaður hennar að
vinna utan bús – Þuríður í sextíu
prósent starfi og maki hennar í fullu
starfi. Móðir hennar er jafnframt í
fullri vinnu.
Faðir Þuríðar, sem er kominn yfir
sjötugt, sótti lengst af vinnu utan
bús en í seinni tíð hefur hann verið
ungu hjónunum innan handar, enda
kominn á eftirlaun.
Þau hafa stofnað einkahlutafélag
í kringum búreksturinn og þótt
Þuríður sjái um allan daglegan
rekstur þá er faðir hennar enn
eigandi búsins. „Við höfum ekki enn
fundið þá leið sem er best til þess að
ég geti keypt af honum. Þó ég vildi
óska þess að ég gæti sagt að ég ætti
bæði reksturinn og jörðina, þá er ég
í rauninni bara starfsmaður.“ Ungu
hjónin eiga hluta bústofnsins og hafa
byggt sér einbýlishús á jörðinni.
Þuríður segir að eftir að hafa reist sér
heimili þá sé ekki mikið sem standi
eftir til að kaupa fyrirtæki og jörð.
Þuríður þakkar fyrir að hún hafi
ekki verið búin að skuldsetja sig
mikið í ljósi þeirra vaxtahækkana
sem hafa verið undanfarið. Hún veit
til þess að þetta sé mjög erfitt fyrir
þá bændur sem tóku skrefið til fulls
og að margir geti ekki staðið undir
afborgunum. Fyrir vaxtahækkanirnar
þurftu bændur að vinna með búskap
og nú sé umhverfið orðið mun verra.
„Tekjurnar hafa ekki hækkað í
neinum takti við útgjöldin.“ /ÁL
Þuríður Lillý Sigurðardóttir.
Vernd landbúnaðarlands
í landsskipulagi
Drög að hvítbók um skipulagsmál
liggur í Samráðsgátt stjórnvalda,
en frestur til umsagnar rann út
31. október.
Hvítbókin verður grunnur að
þingsályktunartillögu um nýja
landsskipulagsstefnu til 15 ára,
með fimm ára aðgerðaráætlun, þar
sem meðal annars verður kveðið
á um vernd landbúnaðarlands.
Í kaflanum Markmið um
samkeppnishæft atvinnulíf er
undir einum liðnum sérstaklega
fjallað um áherslur í skipulagi
hvað varðar landbúnaðarland
í dreifbýli og þéttbýli. Þar er
kveðið á um að skipulag eigi
að stuðla að möguleikum á
fjölbreyttri og hagkvæmri nýtingu
landbúnaðarlands í sátt við
umhverfið og stuðli að auknu
fæðuöryggi þjóðarinnar.
Gert er ráð fyrir að við
skipulagsgerð í dreifbýli verði land
sem hentar vel til ræktunar matvæla
almennt ekki ráðstafað til annarra
nota með óafturkræfum hætti.
Skipulagsákvarðanir um
ráðstöfun lands til landbúnaðar og
annarrar nýtingar munu byggjast
á flokkun landbúnaðarlands
með tilliti til ræktunarskilyrða,
auk landslagsgreiningar og
vistgerðaflokkunar. Ákvarðanir um
uppskiptingu lands munu byggjast
á skipulagsáætlunum. Áhersla er á
að stefna í skipulagsáætlunum um
ræktun stuðli að framleiðslu afurða
með lítið kolefnisspor, svo sem
innlendri grænmetisframleiðslu.
Þá verður í skipulagi dreifbýlis
stutt við fjölbreytta nýtingu
landbúnaðarlands, svo sem
í tengslum við nýsköpun og
ferðaþjónustu. Gert er ráð fyrir
að við skipulagsgerð í þéttbýli
verði vaxtarmörk þess skilgreind,
meðal annars með það fyrir augum
að standa vörð um verðmætt
landbúnaðarland. Í skipulagi verði
hugað að tækifærum til aukinnar
ræktunar matvæla í þéttbýli. /smh
Gert er ráð fyrir vernd landbúnaðarlands í dreif- og þéttbýli í nýrri hvítbók
um skipulagsmál.
Ungir bændur:
Nýliðun nauðsynleg
– Landbúnaðurinn endi í niðurníðslu ef ungt fólk tekur ekki við bújörðum
Getum stutt landbúnað betur
– Samanburður skakkur vegna innsláttarvillu
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka
fyrirtækja í landbúnaði, segir flest öll lönd í heiminum
styðja við landbúnað með einhverjum hætti.
Íslensk stjórnvöld geti gert betur og ættu helst að
horfa til Noregs, þar sem aðstæður eru sambærilegar.
Í erindi á baráttufundi Samtaka ungra bænda í
liðinni viku sýndi Margrét gögn þar sem hún bar saman
stuðning við nýliðun á Íslandi, Noregi og ESB. Í Noregi
sé skattkerfið nýtt til að liðka fyrir ættliðaskiptum og
hafi bújörð verið í eigu fjölskyldu í meira en tíu ár sé
ekki greiddur fjármagnstekjuskattur þegar hún er seld
til fjölskyldumeðlima.
Á Íslandi sé fjárfestingastuðningur til nýliða í
landbúnaði mun lægri en í Noregi og ESB. Hér er
hámarkið níu milljónir, eða að hámarki tuttugu prósent
af heildarfjárfestingu. Í Noregi geti styrkurinn verið allt
að fimmtíu prósent og allt að áttatíu prósent í löndum
ESB og er hámarksupphæðin hærri en býðst íslenskum
bændum. Þá sé nýliðunarstyrkur frádráttarbær hér
á Íslandi ef sami aðilinn fær líka framkvæmda- eða
fjárfestingarstuðning, sem Margrét telur afar sérstakt.
„Stóra atriðið er að þegar er verið að tala um stuðning við
landbúnað á Íslandi þá verði að huga að þeirri sérstöðu
sem við búum við. Meðal annars hvað varðar landgæði,
en þar erum við í raun mun líkari því sem þekkist í Noregi
heldur en innan ESB. Þar af leiðandi gefur samanburður
við stuðning innan ESB ekki rétta mynd.“
Margrét segir að samkvæmt opinberum gögnum
sé stuðningur við landbúnað á Íslandi um eitt
prósent af landsframleiðslu, sem sé hærra hlutfall en
í samanburðarlöndum. Þær tölur séu þó rangar, því
stuðningur við kynbótastarf í nautgriparækt hafi verið
ofmetinn tífalt undanfarin ár vegna innsláttarvillu.
Það leiddi af sér skekkju upp á rúmlega einn og
hálfan milljarð.
Þó talað sé um aðgerðir til að bæta þá stöðu sem er
komin upp núna kallar Margrét eftir því að litið sé til
lengri tíma og öll okkar nálgun á stuðning við landbúnað
verði endurskoðuð. „Viðunandi afkoma er óhjákvæmileg
forsenda eðlilegrar nýliðunar í landbúnaði eins og öðrum
atvinnugreinum. Og til þess að tryggja afkomu – og þar
með nýliðun – þarf tvennt að koma til: Annars vegar
að ná niður framleiðslukostnaði og hins vegar aukinn
opinber stuðningur.“ /ÁL
Margrét Gísladóttir.
FB Reykjavík
Korngarðar 12
570 9800
FB Selfoss
Austurvegur 64 a
570 9840
FB Hvolsvöllur
Duftþaksbraut 1
570 9850
www.fodur.is
fodur@fodur.is
* Tilboðið gildir nóvember 2023 eða á meðan birgðir endast.
TILBOÐ MÁNAÐARINS*
20% AFSLÁTTUR
AF STÖMPUM
FYRIR NAUTGRIPI
• STEINEFNABLANDA
• MAGNESÍUM / SELEN
• ORKUSTAMPUR
• LIFELINE PRE-CALVER
Þú kaupir 2 stampa
og færð Kúastein
FRÍTT með.
FYRIR SAUÐFÉ
• STEINEFNABLANDA
• SAUÐFJÁRSTAMPUR
• ORKUSTAMPUR
• LIFELINE LAMB & EWE
Þú kaupir 2 stampa
og færð Sauðfjárstein
FRÍTT með.
FYRIR HESTA
• HESTASTAMPUR
• STEINEFNABLANDA
Þú kaupir 2 stampa
og færð Hestastein
(2 stk.) FRÍTT með.
ÞÚ KAUPIR 2 STAMPA MEÐ 20% AFSLÆTTI
OG FÆRÐ SALTSTEIN FRÍTT MEÐ KAUPAUKI
Ráðuneytissjórar
skoða stöðu bænda
Stjórnvöld hafa skipað sérstakan
starfshóp til að skoða fjárhags-
stöðu bænda og koma með tillögur
að úrbótum.
Í starfshópnum sitja ráðuneytis-
stjórar þriggja ráðuneyta; matvæla-
ráðuneytis, fjármála- og efnahags-
ráðuneytis og innviðaráðuneytis.
Hópurinn mun leggja mat á þá stöðu
sem upp er komin í landbúnaði í
kjölfar endurtekinna hækkana á
stýrivöxtum og verðhækkana á
aðföngum, eins og segir í tilkynningu
frá Stjórnarráðinu.
Þar segir jafnframt að höfuðstóll
verðtryggðra lána hafi hækkað
hratt síðustu misseri og þannig rýrt
eiginfjárstöðu bænda eins og víðar
í samfélaginu.
Staða landbúnaðar sé þó sérlega
erfið að því leyti að rekstur búa
er nátengdur heimilum bænda og
hækkanir við fjármagnskostnað og
aðfangaverð hafi haft íþyngjandi
áhrif. Rekstur í landbúnaði sé
því orðinn þungur hjá mörgum
framleiðendum.
Starfshópurinn mun draga saman
nýjustu gögn um stöðuna og þróun
síðustu missera.
Í framhaldinu verða lagðar fram
tillögur með hliðsjón af þessum
gögnum og jafnframt leiða leitað
til að auðvelda kynslóðaskipti og
nýliðun í landbúnaði. Hópurinn mun
verða í samráði við Byggðastofnun
og önnur fjármálafyrirtæki auk
hagsmunaaðila í landbúnaði. /sá