Bændablaðið - 02.11.2023, Page 69
69Bændablaðið | Fimmtudagur 2. nóvember 2023
Um nokkurra ára skeið hafa bændur bent á
að heimildir þeirra til samstarfs og samvinnu
séu lakari en í nágrannalöndum. Ekki hafi
verið formfestar skýrar undanþágur fyrir
félög framleiðenda á sambærilegan hátt og í
nágrannalöndum.
Þar með geti bændur
ekki nýtt samstöðu til þess
að sækja sér betri stöðu í
virðiskeðju matvæla og
séu valdlausir þegar kemur
að afurðasölumálum.
Umhverfi landbúnaðar hefur
tekið miklum breytingum á
síðustu áratugum en ekki er
langt síðan að ríkið í gegnum
ýmiss konar nefndir ákvað
framleiðslumagn og verð á vörum bænda.
Það kerfi varð með öllu ósjálfbært og við tók
tímabil kvótakerfa og samdráttar í framleiðslu.
Afurðafélög voru flest í eigu bænda í gegnum
samvinnufélög en þessi staða hefur breyst og
nú eru afurðastöðvar af ýmsu tagi og misjafnt
hvort þær séu í eigu eða undir stjórn bænda.
Í vikunni var samþykkt á fundi ríkisstjórnar
að leggja frumvarp mitt um framleiðendafélög
fram á Alþingi sem stjórnarmál. Með því er
lagt til að horfa til finnsku leiðarinnar og færa
heimildir bænda til samstarfs og samvinnu í
fast form. Lagt er til að slíkar heimildir nái til
félaga undir stjórn bænda og þannig staða þeirra
bætt. Kjarninn í veikri stöðu bænda er sá, líkt
og öldungadeildarþingmaður í framboði lýsti
eitt sinn vestan hafs, að bændur væru þau einu í
hagkerfinu sem kaupa öll aðföng á smásöluverði,
selja allar afurðir á heildsöluverði og borga
flutninga í báðar áttir.
Lærum af reynslu annarra
Rík hefð er fyrir formföstum reglum um
framleiðendafélög víðs vegar í Evrópu og
Bandaríkjunum. Ástæður þess eru einkum þær að
sé markaðsöflunum einum eftirlátið að skipuleggja
virðiskeðju landbúnaðar er samningsstaða
bænda afleit. Staða framleiðenda í vinnslu og
sölu afurða er veik þar sem afurðastöðvar ráða
mestu og stórar keðjur dagvöruverslana. Ekki
nóg með að staða bænda gagnvart söluhliðinni
sé veik, þá er hún að sama skapi veik gagnvart
aðfangakeðjunni, sölumönnum á ýmiss konar
aðföngum til framleiðslu búvara. Þessi staðreynd
hefur leitt til þess að heimildir frumframleiðenda
hafa víða verið formfestar og ríkuleg flóra af
framleiðendafélögum búvara er nú fyrir hendi í
löndum Evrópusambandsins. Tilgangur þeirra er
misjafn, sum eru stór samþætt félög sem eiga og
reka starfsemi á meðan önnur beita sér fyrir bættri
stöðu framleiðenda gagnvart afurðafélögum og
aðfangakeðjunni.
Forsenda fæðuöryggis í landinu er að bændur
búi í sama efnahagslega raunveruleika og aðrir.
Til þess að það geti raungerst tel ég nauðsynlegt
að skilyrði þeirra til að beita samstarfi og
samvinnu séu ekki lakari en annars staðar. Með
finnsku leiðinni í framleiðendafélögum getum
við fært bændum verkfærin til þess að styrkja
stöðu sína. Á næstu vikum mun ég mæla fyrir
málinu á Alþingi þar sem það fer svo til þinglegrar
meðferðar.
Svandís Svavarsdóttir
matvælaráðherra.
A Wendel ehf.
Tangarhöfða 1, 110 Reykjavík,
S:551 5464 - wendel@wendel.is
www.wendel.is
Hilltip Icestriker 900–1600L
Salt og sanddreifari í tveim
stærðum fyrir stóra pallbíla og
minni vörubíla. Rafdrifinn 12V.
Hilltip Icestriker 380–550L
Salt og sanddreifarari í tveim
stærðum, fyrir minni pallbíla.
Rafdrifinn 12V.
Hilltip Icestriker 600 TR
Rafdrifinn kastdreifari
fyrir dráttarvélar m/öflugum
efnisskömmtunarbúnaði.
Hilltip Snowstriker VP
Fjölplógur fyrir pallbíla, minni
vörubíla og jeppa. Fáanlegur í
185–240 cm breidd.
Hilltip Snowstriker SP
Snjótönn fyrir pallbíla, minni
vörubíla og jeppa. Fáanleg í
165–240 cm breidd.
Hilltip Fjölplógur MVP
Fjölplógur fyrir ameríska
pallbíla t.d. RAM 3500,
GMC 3500 og FORD 350.
Báknið:
Þegar sett eru lög um starfsemi
sem í raun fela í sér bann
Árið 2011 voru sett lög um
skeldýrarækt sem þáverandi
formaður Samtaka atvinnulífsins
sagði í viðtali að ætti frekar að kalla
„lög um bann við skeldýrarækt“.
Leyfisveitinga- og eftirlitskerfið
sem sett var í kringum greinina
kæfði hana í fæðingu eins og varað
var við á þeim tíma.
Í dag ræktar
enginn krækling
(bláskel) til sölu
á markaði. Þeir
sem störfuðu
innan greinarinnar
þegar lögin tóku
gildi eða sóttu
um leyfi eftir það,
hafa allir lagst í
dvala eða hætt
alveg. Ástæðan er meðal annars
blýhúðunin svokallaða sem þýðir
að embættismenn hér á landi „nýta
ferðina“ og þrengja þau skilyrði sem
eru í regluverkinu sem verið er að
innleiða. Önnur ástæða er að annars
staðar í Evrópu er litið á eftirlit með
slíkri ræktun sem lýðheilsumál,
ekki eitthvað sem eigi að íþyngja
ræktendum.
Af þeim sökum sér ríkið um
sýnatökurnar og kostnaðinn af þeim,
ekki ræktendurnir eins og hér á landi.
Rétt er að taka fram að sýnatakan er til
að kanna hvort skelfiskurinn sé laus
við eiturefni sem er mikilvægt til að
tryggja matvælaöryggi. Þess vegna
er líka áreiðanlegra að ræktendurnir
séu ekki sjálfir að sjá um sýnatökuna.
Verðum af milljörðum
í útflutningstekjur
Blýhúðuninni var í tilfelli skeldýra-
ræktar beitt af slíku offorsi að rekstrar-
grundvöllur greinarinnar brast
fullkomlega. Regluverkið tekur
þar að auki ekkert tillit til stærðar
eldisins. Hið smæsta eldi þarf að
undirgangast sömu skilyrði og þau
stærstu. Það skýtur því ansi skökku
við að í 1. gr. er meginmarkmið
laganna sagt vera „að skapa skilyrði
til ræktunar skeldýra, setja reglur um
starfsemina og efla þannig atvinnulíf
og byggð í landinu“. Samkvæmt 15.
gr. laganna hefur ráðherra heimild
til að setja reglugerð sem meðal
annars tekur tillit til áhættuþátta og
hagsmuna þeirra sem eru með litla
framleiðslu, en ekkert bólar á henni,
rúmum áratug síðar.
Einu og hálfu ári áður en lögin voru
sett var fjallað um bláskelsræktun í
Morgunblaðinu. Í fréttinni kom
fram að hún gæti skilað 1.500 tonna
framleiðslu á næstu árum og 6.000
tonnum eftir sex ár. Til að það
mætti verða yrðu ræktunarmenn
að spýta í lófana sem þá töldu 17
fyrirtæki. Bláskelin væri eftirsótt á
Evrópumarkaði og þessi framleiðsla
gæti skilað tveimur milljörðum í
útflutningstekjur á ári (3,4 ma á
núvirði) og skapað 175 störf við
ræktun og fullvinnslu. Á núvirði
væri það um fjórir milljarðar. En í
stað þess að spýta í lófana, lögðu þau
upp laupana, hvert á eftir öðru. Eini
skelfiskurinn á markaði hér á landi er
sá sem menn veiða í fjörðum landsins
(villtur, ekki ræktaður) og er fyrst og
fremst seldur til veitingastaða.
Staðan einungs versnað
Ég átti samtal við frumkvöðul um
daginn sem er af erlendu bergi brotin.
Hún gengur með þá hugmynd í
maganum að koma á fót kræklingarækt
í sinni heimabyggð, svipaðri þeirri
sem hún þekkir frá sínu heimalandi í
Evrópu. Enda í hennar huga ekki svo
flókið mál; einfaldlega leggja kaðla í
sjó og bíða svo eftir því að kræklingar
festi sig á böndin og vaxi.
Mín fyrsta spurning var hvort hún
hefði ekki heyrt að á Íslandi væru í
gildi lög sem væru ígildi banns við
slíkri ræktun sem hefðu í raun gengið
af greininni dauðri. Hún hafði ekki
heyrt af því og rak upp stór augu.
Bergsveinn Reynisson er einn
þeirra sem stundaði kræklinga
rækt og var formaður Skelræktar,
hagsmunasamtaka kræklingaræktenda
um tíma, en hann er einnig félagsmaður
í Samtökum smáframleiðenda
matvæla. Að hans sögn hefur staðan
á undanförnum árum versnað, ef
eitthvað er.
Ef frumkvöðullinn fyrrnefndi
ákveður að hefja ferlið mun hún
þurfa að standa straum af kostnaði
við eftirlitið og leyfin, þar á meðal
af launum eftirlitsaðila og kostnaði
vegna aðstöðu, áhalda, búnaðar,
þjálfunar og ferðalaga, auk kostnaðar
við rannsóknir og sýnatökur. Ferlið
sem hún þarf að fara í gegnum er
eftirfarandi í stórum dráttum.
Starfsleyfi, tilraunaleyfi
og heilnæmiskönnun
Sækja um starfsleyfi til Matvæla-
stofnunar (MAST) og gera skýrslu um
ellefu rekstrarþætti, grænt bókhald,
áhættumat og viðbragðsáætlun.
Ef rækta á meira en 200 tonn þarf
fyrst að sækja um starfsleyfi til
Umhverfisstofnunar.
Sækja um tilraunaleyfi til að
hámarki þriggja ára og skila inn
fjölda fylgigagna. Það leyfi veitir
ekki heimild til dreifingar afurða
til neyslu. Afla þarf umsagna frá
Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun,
Landhelgisgæslunni, Matvæla-
stofnun, Náttúrufræðistofnun, Orku-
stofnun, Siglingastofnun, Umhverfis-
stofnun og viðkomandi sveitarstjórn.
MAST mun framkvæma heilnæmis-
könnun og krefja frumkvöðulinn um
sýni, bæði af sjó og skel, einu sinni í
mánuði í heilt ár.
Ræktunarleyfi, uppskeruheimild,
eiturefnaprófanir og vinnsluleyfi
Ef framangreint gengur upp er sótt
um ræktunarleyfi og þá hefst ferlið
aftur upp á nýtt. Útbúa þarf fylgigögn
og svo þarf nýjar umsagnir frá
ofangreindum níu aðilum. Að auki
þarf frumkvöðullinn að láta rannsaka
sjávarbotninn undir köðlunum á að
lágmarki fimm ára fresti.
Að því loknu þarf að sækja
um uppskeruheimild og svo aftur
á tveggja vikna fresti meðan á
uppskerutíma stendur. Til að fá þá
heimild og viðhalda henni þarf að
gera eiturefnaprófanir á skelfisknum
í hvert sinn. Senda þarf sýnin til
Svíþjóðar þar sem greiningin tekur
allt að fimm daga. Ef starfsmaður
MAST ákveður hins vegar að þörf sé
á örari sýnatökum hefur hann heimild
til að krefjast þeirra á fimm daga
fresti, einungis byggt á huglægu mati.
Þetta var kornið sem fyllti mælinn
hjá Bergsveini og hans félögum. Þeir
einfaldlega gáfust upp og „köstuðu
inn kaðlinum“.
Að lokum þarf að sækja um
vinnsluleyfi sem er svo flókið að
MAST gerði leiðbeiningabækling
um umsóknarferlið.
Kæfðum eina sjálfbærustu
matvælaframleiðsluna
Ráðamenn þjóðarinnar þreytast
ekki á því að tala um sjálfbærni og
fæðuöryggi; að við séum matvælaþjóð
sem eigi að vera leiðandi í heiminum
á því sviði.
Á sama tíma setja þeir matvæla-
framleiðslu þvílíkar skorður að
í greinum eins og skeldýrarækt
er meirihluti skelfisks hér á landi
innfluttur, þrátt fyrir að á Íslandi
séu fullkomnar aðstæður til slíkrar
starfsemi og ræktunin ein sú
umhverfisvænasta og sjálfbærasta
matvælaframleiðsla sem um getur.
Oddný Anna Björnsdóttir
framkvæmdastjóri.
Oddný Anna
Björnsdóttir.
Svandís
Svavarsdóttir.
Förum finnsku leiðina
AF VETTVANGI STJÓRNARRÁÐSINS
LESENDARÝNI