Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Side 34
Viðtal
32 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 100. árg. 2024
að láta hitt foreldrið vera með barnið í nokkra daga. Við vorum
í eilífum vandræðum með að láta allt ganga upp og þess vegna
hætti ég á gjörgæslunni. Reyndar var ég komin í annað samband á
þessum ferðalagatíma og seinni maðurinn minn tók dætur mínar
alveg að sér á meðan ég var á ferðalögum, sem var alveg einstakt.“
Eftir að þessum kafla hjá Taugagreiningu lauk fór Sjöfn að vinna
á skurðstofu og kunni vel við sig. „Þar var rosalega mikill hraði og
hálfgerð akkorðsvinna – annaðhvort inni á skurðstofu, í aðgerð
eða inn á vöknun,“ lýsir Sjöfn en hún stoppaði þó stutt við á skurð-
stofunni áður en næsta tækifæri bauðst.
Starfaði í ferðaþjónustu en fór svo aftur í
heilalínuritabransann
Ári eftir að hún hóf störf á skurðstofu dembdi Sjöfn sér óvænt inn
í ferðabransann. „Bróðir minn sem var þá búsettur í Þýskalandi,
hafði verið að selja Þjóðverjum ferðir til Íslands í nokkurn tíma og
hann vantaði aðila til að taka á móti þessu fólki. Mér finnst gaman
að breyta til og að láta reyna á mig og sló því til. Þetta var árið
2006 og eiginlega engir innviðir hér á Íslandi til að taka á móti
ferðamönnum. Þarna starfaði ég til ársins 2012 og var eiginlega
stanslaust á símavakt því við þjónustuðum þessa ferðamenn vel,“
segir Sjöfn en hún segist hafa verið farin að sakna þess að starfa í
heilbrigðisgeiranum.
„Þó að ferðaþjónustan sé að mörgu leyti heillandi bransi, þá
togaði alltaf í mig að starfa frekar í heilbrigðisgeiranum. Þess
vegna var ég fljót að ákveða mig þegar ég fékk símtal frá gömlum
kollega úr heilalínuritabransanum sem bauð mér vinnu hjá
fyrirtæki sem heitir Mentis Cura. Ég stoppaði samt frekar stutt hjá
þeim, því að fyrrum samstarfsfélagar mínir hjá Taugagreiningu
höfðu stofnað fyrirtæki sem heitir Kvikna og vissu af mér og ég
færði mig yfir til þeirra. Þar fór ég að vinna í svipuðu starfi og ég
sinnti hjá Taugagreiningu. Við tóku ferðalög og ég hitti gamla
félaga í bransanum á ný. Ég hafði mjög mikla trú á heilasíritanum
sem fyrirtækið hafði þróað en eins og með Taugagreiningu þá kom
bandarískt fyrirtæki fáum árum síðar og keypti fyrirtækið Kvikna.
Þar var ekki áhugi fyrir því að halda áfram þróun síritans fyrir
gjörgæslu svo ég hætti hjá fyrirtækinu. Þetta var árið 2019 og ég
ákvað að taka mér frí og njóta þess að verða amma í fyrsta skiptið.
En svo fór ég að hugsa hvað tæki næst við.“
Vissi að það yrði átak að byrja aftur á gjörgæslu
Í gegnum þau 24 ár sem Sjöfn starfaði ekki á gjörgæslunni leitaði
hugur hennar ítrekað þangað aftur. Og fyrrum kollegar voru sama
sinnis: „Þegar ég hitti gömlu vinnufélagana fékk ég spurningar
hvenær ég ætlaði að koma aftur, jafnvel að öllum þessum árum
liðnum. Eftir því sem lengra leið fannst mér þessi hugmynd
fráleitari. Ég veit að það er löng og ströng þjálfun að byrja að vinna
á gjörgæslu. Það breytist margt og ég vissi að það yrði talsvert
átak að byrja aftur. En mér þótti vænt um þessi tengsl og það var
alltaf eitthvað sem togaði í mig að byrja aftur,“ útskýrir Sjöfn og
bætir við að hún hafi nefnt það við eiginmann sinn að kannski
væri kominn tími til að snúa aftur. „Honum fannst það frábær
hugmynd og hvatti mig áfram,“ segir Sjöfn sem segist einnig hafa
fengið mikinn stuðning frá fjölskyldu og vinum. „Ég ræddi þetta
við vinkonur mínar sem vinna á gjörgæslunni og fékk mikinn
stuðning frá þeim. Ein sagði reyndar að ég sæi þetta í of miklum
dýrðarljóma, þetta væri ekki alveg svona gott,“ segir Sjöfn og
skellir upp úr. „Ég hugsaði þetta fram og til baka og nefndi þetta
við Ólöfu, þáverandi deildarstjóra og vinkonu mína, sem tók
svakalega vel í þessa hugmynd. Við ákváðum í sameiningu að ég
myndi byrja þann 1. apríl 2020. Svo skall á heimsfaraldur.“
Hálfgert brjálæði að hefja störf í fyrstu bylgju covid
Það gefur því augaleið að endurkoma Sjafnar á gjörgæslu kom
á krítískum tíma en hún hefur aldrei skorast undan áskorunum
og fannst enn mikilvægara að koma aftur til starfa við slíkar
aðstæður. „Við Covid varð ég eiginlega enn spenntari fyrir því að
byrja aftur að vinna á sjúkrahúsi. Mig langaði svo að leggja mitt af
mörkunum. Ég mætti með uppbrettar ermar og tilbúin þann fyrsta
apríl en þegar ég lít til baka sé ég að það var hálfgert brjálæði að
byrja þarna á þessum tímapunkti. Fyrsta bylgjan var í hámarki og
spítalinn varla búinn að ná tökum á aðstæðum. Þegar mest var
vorum við með 22 öndunarvélapláss. Svo fór að róast í maí og allir
héldu að þetta væri búið en þá kom næsta bylgja,“ segir Sjöfn og
finnst, þegar litið er í baksýnisspegilinn, að mögulega hafi það
verið aukaálag að fá hana í aðlögun á þessum tímapunkti. „En eins
og hjúkrunarfræðinga er von og vísa, þá gekk þetta þó upp og mér
finnst ótrúlegt hvað mér var vel tekið og hvað mér var sýnd mikil
þolinmæði. Sumt þurfti ég algjörlega að læra upp á nýtt. Ég kunni
varla að draga upp lyf í sprautu. En svo voru önnur handtök sem
voru í bókstaflega í vöðvaminninu líkt og að soga úr barkarennu
sjúklinga. Allt saman rifjaðist þetta svo hægt og rólega upp. Á
þessu tímabili voru allir í framandi aðstæðum, ekki bara ég. Ég
fann samt að ég hafði góða reynslu í farteskinu. Til dæmis hafði
ég góða þekkingu á menningarlegum samskiptum og ég hafði
öðlast mikla reynslu í samskiptum sem nýtist vel bæði sambandi
við sjúklinga og aðstandendur.“
Sjöfn lýsir aðlögun sinni í heimsfaraldri með kostum og göllum.
„Það sem var jákvætt við að byrja í heimsfaraldinum var að ég
lærði það mjög vel að sinna þessum sjúklingahópi. Það var lítið
um önnur veikindi eða slys á þessum tíma. Þegar covid lauk fóru
að leggjast inn sjúklingar með fjölbreyttari veikindi og eftir slys og
þá upplifði ég að ég væri í smá vandræðum. Ég þurfti að spyrja
mjög mikið og læra enn þá meira. En sem betur fer er þannig
menning á þessari deild að það þykir sjálfsagt og eðlilegt að spyrja
hvert annað og samvinna milli stétta er mjög góð,“ segir Sjöfn og
bætir við að teymi sjúklings sé alltaf að ræða saman um hvernig
megi koma sjúklingnum í gegnum veikindin á sem bestan hátt.
„Maður er aldrei einn á vaktinni. Það er svo mikill stuðningur í
umhverfinu frá hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, læknum og
öðrum fagstéttum. Teymisvinnan er eitt af því sem mér þykir svo
skemmtilegt við að vinna á gjörgæslunni.“
Vaktavinnan hentug
Í dag þykir Sjöfn vaktavinnan henta sínu fjölskyldumynstri mun
betur en hún gerði fyrstu árin eftir útskrift. „Í seinni tíð, nú þegar
börnin eru uppkomin, kann ég sérstaklega vel við að vinna á
vöktum. Mér finnst frábært að eiga frí á virkum dögum og eiga
tíma fyrir sjálfa mig. Í vaktavinnu á maður frí í miðri viku meðan
aðrir eru í vinnu eða skóla og það er algjör draumur. Mér finnst
líka gaman að vinna allar vaktir og hver vakt hefur sinn sjarma.
Á tímabili hætti ég að vinna næturvaktir en svo saknaði ég þess
þannig að núna tek ég nokkrar næturvaktir í hverjum mánuði þótt
ég þurfi þess ekki, vegna aldurs,“ segir Sjöfn brosandi.
„Maður lærir að hafa kjark til að
efast um aðferðir og meðferðir.“