Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Síða 40
Viðtal
38 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 100. árg. 2024
Texti: Ragnheiður Haralds Eiríksdóttir Bjarman
Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Sandra útskrifaðist með B.Sc.-gráðu í hjúkrunarfræði úr
Háskóla Íslands árið 2010, bætti svo við sig meistaragráðu í
lýðheilsuvísindum við sama háskóla þegar námsþorstinn gerði
aftur vart við sig tæpum áratug síðar. Hún kynntist fyrst vinnu með
einstaklingum með átraskanir í verknámi í geðhjúkrun. „Þá var
átröskunarteymið til húsa á jarðhæð geðdeildarbyggingarinnar
á Hringbraut. Ég fékk líka að fara aðeins á Hvítabandið þar sem
DAM-meðferðin var veitt á þeim tíma og einhverja daga var ég
á bráðaþjónustu geðsviðs. Við nemarnir fengum nánast ekkert
að gera, fengum ekki að vera með í viðtölum og gátum þannig
ekki kynnst starfi hjúkrunarfræðinga neitt að ráði. Ég man að
verknámið kveikti alls engan áhuga hjá mér að starfa á geðsviði.
Ég veit að síðan ég var í mínu grunnnámi hefur mikið vatn runnið
til sjávar og í dag vil ég trúa því að nemarnir sem koma til okkar í
göngudeildarteymin fái margir hverjir áhuga á geðhjúkrun,“ segir
hún einlæg.
Þegar Sandra var á lokaárinu í hjúkrun fór hún samhliða námi að
starfa á smitsjúkdóma- og meltingardeild en þangað kom gjarnan
fólk með vímuefnavanda: „Þar fékk ég smjörþefinn af geðinu og
áttaði mig á að það væri kannski ekki svo galið að skoða geðhjúkrun
sem mögulegan starfsvettvang.“ Í mars á útskriftarárinu eignaðist
Sandra sitt fyrsta barn og útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur
þremur mánuðum síðar. Hún segir þetta tímabil vera í hálfgerðri
móðu. „Einhvern veginn tókst mér þetta en ég get ekki sagt að ég
muni mikið eftir vormánuðunum þetta ár 2010,“ segir hún og hlær.
Frá heila- og taugadeild á sérhæfða
endurhæfingargeðdeild
Nýbakaða móðirin sneri svo aftur til vinnu, í þetta sinn á heila- og
taugadeild Landspítala þar sem hún starfaði næstu sjö árin og
undi hag sínum prýðilega þar til hún rak, einn góðan veðurdag,
augun í starfsauglýsingu frá sérhæfðri endurhæfingargeðdeild
(SEG) á Kleppi sem þjónustaði ungt fólk með geðrofssjúkdóma og
vímuefnavanda: „Ég man eftir að hafa hugsað með mér að þetta
hlyti að vera spennandi starf og ákvað að sækja um. Þar var ég í tvö
ár þar til önnur auglýsing um starf í átröskunarteyminu greip mig
og það kveikti virkilega í mér. Þetta var sumarið 2020 og hér er ég
enn.“ Málefni tengd vímuefnavanda eru Söndru hugleikin en hún
gerði meistararannsókn sína í lýðheilsuvísindum um tengsl áfalla
í æsku við vímuefnavanda meðal kvenna á Íslandi. Rannsókn
Söndru var til 60 eininga og hún nýtti gögn úr áfallasögu kvenna,
stóru rannsókninni sem Dr. Unnur Valdimarsdóttir prófessor hefur
leitt.
Mikil skörun milli áfalla og geðrænna áskorana
Sandra segist í gegnum starf sitt sjá mikla skörun milli
áfalla og geðrænna áskorana. „Fólkið sem við þjónustum í
átröskunarteyminu er oft með einkenni sem geta átt rót sína í
áföllum og vímuefnavandi er líka algengur. Ég væri alveg til í að
læra áfallameðferð. Tilfinningalegur óstöðugleiki er líka til staðar
hjá mjög mörgum og þá kemur sér vel að við erum í farsælli
sambúð í risinu á Kleppi með DAM-teyminu, þar sem sérhæfð
meðferð er veitt við alvarlegum tilfinningavanda. Mikil samvinna
er milli teymanna og við gerum okkar besta til að finna lausnir sem
henta fólkinu okkar. Það er svo mikilvægt að kerfið hafi ákveðinn
sveigjanleika í stað þess að við ætlumst til þess að skjólstæðingar
okkar, sem eru í mikilli þjáningu, eltist við duttlunga þess. Þarna
finnst mér styrkleiki geðhjúkrunar koma ótrúlega skýrt fram – að
geta farið út úr boxinu og hafa kjark til þess. Við eigum að geta
lagað meðferð að þörfum viðkvæmra skjólstæðinga í stað þess að
vera algjörlega föst í kössum prótókolla.“
Átröskunarteymið hafði verið án hjúkrunarfræðings
í heilt ár
Átröskunarteymið er þverfaglegt göngudeildarteymi innan
meðferðareiningar lyndisraskana. Teymið er þverfaglegt en innan
þess starfa auk Söndru annar hjúkrunarfræðingur, sálfræðingar,
atferlisfræðingur, næringarfræðingur, geðlæknir og ráðgjafi.
Flestir í þjónustu teymisins mæta í meðferðarviðtöl á göngudeild
en ákveðinn hluti skjólstæðinga þarf meiri þjónustu og mætir
á dagdeild. Á dagdeild eru máltíðir og máltíðarstuðningur
mikilvægur þáttur þjónustunnar en einnig gefst þá möguleiki
til þéttari viðtala og aðkomu fleiri fagaðila. Stundum er þörf
á innlögnum vegna átröskunarvanda og þá vinnur teymið
með innlagnardeildum á geðdeildinni á Hringbraut eða
geðendurhæfingardeild á Kleppi. Þegar Sandra kom til starfa í
teyminu hafði það verið án hjúkrunarfræðings í um það bil ár á
undan. Sandra segir það hafa verið áskorun: „Í raun vissi ég lítið
um hvernig ég átti að vera eða hvað ég átti að gera. Ég þurfti
tíma til að finna mitt hlutverk innan teymisins. Það reyndi mest
á að finna hver sérstaða hjúkrunar átti að vera innan teymisins,
Segist sjá mikla skörun milli
áfalla og geðrænna áskorana
Sandra Friðriksdóttir er hjúkrunarfræðingur í átröskunarteymi Landspítala og gegnir auk þess starfi
aðstoðardeildarstjóra á göngudeild lyndisraskana en innan þess eru, auk átröskunarteymis, fjögur önnur sérhæfð
meðferðarteymi. DAM-teymi, áfallateymi, geðhvarfateymi og þunglyndis- og kvíðateymi. Teymin eru til húsa á Kleppi,
fyrir utan það síðastnefnda sem er staðsett í húsnæði geðdeildar við Hringbraut.
Sandra Friðriksdóttir, hjúkrunarfræðingur í átröskunarteymi Landspítala