Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Page 49
47
Ritrýnd grein | Peer review
Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 100. árg. 2024
Hafði loksins orku í lífið nefnist fjórða undirþema. Í þessu þema er
lýst hvernig þátttakendur höfðu loksins aukna orku og fundu fyrir
þörf að hreyfa sig og gera það sem þeim þótti skemmtilegt. Bára
sagði: „Mér finnst þessir hormónar gefa mér svolítið kraftaverk.
Þetta er svo mikil bylting á lífsgæðum og líðan. … og eftir að ég
byrjaði á hormónum var ég farin að kannast við sjálfan mig. Bara
með rosa orku. Ánægja af því sem ég var að gera.“
Það kviknaði aftur á mér
Annað meginþema nefnist Það kviknaði aftur á mér og skiptist
það niður í fjögur undirþemu sem eru: Meiri innri ró, Aukin nenna,
Heilaþokan fór og Aukið sjálfsöryggi. Margar töluðu um að fyrir
hormóna þá hafi það verið sófinn sem var þeirra besti vinur og
þær áttu mjög erfitt að standa upp úr honum og upplifðu aukna
andlega deyfð. Hugrún sagði að fyrir hormóna hafi hún upplifað
sig sem litla mús og var farin að fela sig. En eftir að hún byrjaði á
hormónum lýsti hún: „Ég varð ég sjálf. Létt og kát, hress, hnyttin,
dugleg, vinnusöm og svona sterkur karakter eins og ég er.“
Fyrsta undirþemað er Meiri innri ró. Í viðtölum kom fram að allir
þátttakendur fundu fyrir andlegri vanlíðan fyrir töku hormóna.
Ingunn hélt að breytingaskeiðið snerist nær eingöngu um hitakóf
og kom það henni mjög á óvart: „Ég fékk rosa mikla depurð. Ég er
alltaf í góðu skapi og brosandi og það var mjög ólíkt mér. En eftir
töku hormóna fór mér að líða miklu betur andlega. Ég varð aftur
eins og ég á mér að vera.“
Annað undirþemað ber yfirskriftina Aukin nenna. Konurnar
upplifðu orkuleysi, áhugaleysi og nenntu engu áður en þær voru
settar á hormóna. Kristín sagði: „Ég gerði ekki neitt. Keypti mér
jogginggalla og var bara í honum. Ég fór upp í sófa. Fór og náði
mér í prjónana. Mér fannst geggjað að sitja og horfa á sjónvarpið
á kvöldin. Mér fannst drævið fara. Maður var flatur og leiðinlegur.
Þú nennir ekki í líkamsrækt. Ég fann bara strax mun á og estrógeni
og utrogestan. Þetta hafði mjög mikil áhrif á allt þetta sjálfstraust
og drive og maður fór bara allt í einu að plana sumarfrí og svona
til í hlutina.“
Heilaþokan fór er þriðja undirþemað. Allar áttu það sameiginlegt
að hafa upplifað heilaþoku. Algengt var að konurnar upplifðu að
þær væru komnar með skemmd í heila, áttu erfitt með tal og fóru
jafnvel í sneiðmynd af heila til að útiloka sjúkdóma. Ef heilabilun/
Alzheimer-sjúkdómur var í fjölskyldunni þá jók það áhyggjur
þátttakenda í rannsókn. Ingunn sagði: „Mér fannst ég bara
rosalega gleymin. Sem að var mjög nýtt fyrir mér bæði í vinnu og
heima. Dóttir mín sagði kannski; mamma ég var að segja þér þetta
í gær. Það jafnaði sig síðan.“
Aukið sjálfsöryggi nefnist fjórða undirþemað. Það var mat margra
þátttakenda að þau upplifðu aukið sjálfsöryggi eftir töku hormóna.
Þátttakendur voru einnig farnir að huga meira að heilsunni.
Hreyfðu sig meira, borðuðu hollari mat og fengu betri svefn sem
gerði það að verkum að þeim leið betur og virtist það hafa góð
áhrif á sjálfsöryggi þeirra. Þátttakendur töluðu um mikilvægi
þess að hlusta á líkamann og aðlöguðu hormónaskammt eftir
því. Kristín upplifði gríðarlega mikinn mun eftir að hún var sett á
testósterón og sagði: Já núna þegar maður er á testósteróni, þá er
maður hress og með þetta „confidence“ sem maður var með. Ég
hefði aldrei trúað þessu. Það er svo lítið sem ég er að taka. Það er
mest sjálfstraustið og gleði. Að vera frjáls og fíflast. Ég myndi segja
að testóið sé lífsgleðin, sjálfstraustið og kjarkur.“
Félagslegu tengslin byggð upp
Þriðja meginþemað nefnist Félagslegu tengslin byggð upp. Sumar
kvennanna höfðu misst sitt tengslanet því þær höfðu dregið sig
inn í skel. Þannig að eftir að þær byrjuðu á hormónum og fóru að
fá aukna orku þá fóru þær að endurvekja vinskap og endurheimta
tengslanetið. Aðrar endurheimtu ánægjuna af því að vera í
tengslum við sitt fólk.
Fyrra undirþemað er nefnt Endurheimti tengslanetið sem lýsir
hvernig þátttakendur fóru að endurvekja vinskap sem þær höfðu
vanrækt í nokkur ár vegna vanlíðanar og hversu erfitt það gat
verið að endurheimta tengslanetið. Anna lýsti á eftirfarandi hátt:
„Maður hefur ekki haldið við vinskap við vinkonur. Og svo þótt
manni líði betur og langi þá er það óyfirstíganlegt þegar maður
hefur ekki látið heyra í sér í tvö til fjögur ár. Er eiginlega með
símakvíða. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að byrja samskipti
aftur og það er held ég afleiðing af því að ég er búin að draga mig
í hlé.“ Í dag líður Önnu betur og er að reyna að vera virkari‚ „... ég
er svona að reyna að vera jákvæð að fara út. En svo er ég að reyna
að finna leiðir hvernig maður ræktar eða vekur upp samskipti. Ég
allavega byrjaði að hringja til þriggja vinkvenna í staðinn fyrir að
senda þeim Facebook afmæliskveðjur.“
Seinna undirþemað ber yfirskriftina Endurheimti ánægjuna að
vera í tengslum við fólkið mitt. Þátttakendur sögðust hafa gert allt
sem var ætlast til af þeim og mættu í fjölskylduboð en upplifðu
ef til vill ekki ánægjuna af því að hitta fólk. En eftir hormónatöku
fundu þátttakendur fyrir aukinni ánægju af að hitta sitt fólk og
fjölskylduna. Kristín lýsti þessu svona: „Langa að klæða mig upp
og fara út. Hlakka til að fara eitthvað. Ég finn aldrei núna að ég
nenni ekki af því ég er þreytt. En ég er mjög peppuð í huganum.“
Eftirsjá að tímanum sem ég missti
Fjórða meginþemað er nefnt Eftirsjá að tímanum sem ég missti.
Þetta þema lýsir hvernig margar konurnar voru búnar að vera með
einkenni í nokkur ár áður en þær fengu hormóna og upplifðu missi
af þeim tíma sem þeim hefði getað liðið betur.
Fyrra undirþemað Margir mánuðir sem fara til spillis lýsir því
hvernig þátttakendur upplifðu að þær hefðu misst af nokkrum
góðum árum vegna þess að hafa ekki byrjað fyrr á hormónum.
Þátttakendur upplifðu að ekki var tekið mark á þeirra einkennum
og þær ekki rétt greindar þegar þær leituðu fyrst til læknis.
Þyrí sagði: „Ég sé svo eftir þessum fimm árum sem ég hefði getað
verið í fullri virkni og gert eitthvað alls konar.“
Fagfólkið seint að grípa inn í er seinna undirþemað. Þetta þema
lýsir vonbrigðum þátttakenda að fá ekki meðferð sem hentar
þeim. Þátttakendur höfðu leitað til læknis vegna einkenna um
heilaþoku, depurðar og svefntruflunar og fengið ávísun á svefnlyf
og þunglyndislyf. María lýsti þessu þannig: „Þá var ég komin
með alls konar einkenni. Svefntruflanir, heilaþoku og hækkaðan
blóðþrýsting og ég var komin á lyf við því. Þarna leitaði ég til
heilsugæslunnar og hitti lækni sem er karlmaður á sextugsaldri
og hann setur mig á kvíðalyf og svefnlyf.“
Virk hlustun og samskipti
Virk hlustun og samskipti er fimmta meginþemað. Öllum þátt-
takendum fannst mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk hefði þekkingu
á breytingaskeiðinu og viðurkenndu vanda skjólstæðinga. Ásamt
því fannst öllum mikilvægt að auka þurfi fræðslu til almennings.