Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Page 76
74 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 100. árg. 2024
Næringarástand eldra fólks á Akureyri og nágrenni
hreyfigetu og lélegri samhæfingu geta leitt til aukinnar byltuhættu
ásamt því að beinþynning og samfallsbrot aukast með hækkandi
aldri (Norman o.fl., 2021). Sár gróa einnig verr hjá vannærðum og
hefur næringarástand áhrif á teygjanleika húðarinnar og þar með
sáramyndun. Skortur á prótíninntöku hægir á gróanda sára, lengir
bólgutíma og sýkingar verða algengari (Norman o.fl., 2021).
Í rannsókn Lim og félaga (2012) reyndust vannærðir sjúklingar
dvelja að meðaltali 1,5-1,7 sinnum lengri sjúkrahússlegur en aðrir
og legudagar voru að meðaltali 6,9-7,3 dagar hjá þessum hópi
samanborið við 4,6-5,6 daga hjá vel nærðum sjúklingum. Einnig
reyndust vannærðir sjúklingar mun líklegri til að leggjast inn
aftur ásamt því að dánartíðni þeirra var þrefalt hærri innan árs frá
útskrift (Lim o.fl., 2012).
Rannsóknir hafa leitt í ljós að stór hluti eldri skjólstæðinga á
sjúkrahúsum eru vannærðir eða með sterkar líkur á vannæringu
ásamt því að næringarástandi þeirra hrakar á meðan á
sjúkrahúsdvölinni stendur (Thorsdottir o.fl., 2005; Shin o.fl.,
2018). Rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið síðasta áratuginn
á öldrunardeildum Landspítalans sýna að 66% skjólstæðinga
voru með ákveðnar eða sterkar líkur á vannæringu árið 2016
(Katrín Sif Kristbjörnsdóttir 2016) og 49% árið 2019 (Ásdís Lilja
Guðmundsdóttir, 2019). Greint hefur verið frá sambærilegum
niðurstöðum á sjúkrahúsum á hinum Norðurlöndunum
(Sobestyansky, 2021; Thomsen o.fl., 2022). Sömuleiðis sýndi nýleg
rannsókn meðal íbúa á Heilsuvernd (n=197) hjúkrunarheimilum
á Akureyri svipaðar niðurstöður en þar reyndust 56,3% íbúa
vannærð eða í mikilli áhættu á vannæringu ásamt því að 24,4 %
voru í áhættu á vannæringu (Blondal, 2022.)
Vandinn er því mikill á íslenskum stofnunum en fáar rannsóknir
hafa skoðað stöðuna meðal eldra fólks í sjálfstæðri búsetu.
Erlendar rannsóknir benda til þess að tíðni vannæringar meðal
eldra fólks í sjálfstæðri búsetu sé oftast undir 10% (Cereda o.fl.,
2015; Lozoya o.fl., 2017; Leij-Halfwerk o.fl., 2019) en að meira en
helmingur þessa aldurshóps sé þó í mikilli áhættu á vannæringu
(Poínhos o.fl., 2021). Þær rannsóknir sem hafa verið framkvæmdar
hér á landi hafa fyrst og fremst beinst að eftirfylgni skjólstæðinga
eftir útskrift af sjúkrahúsi (Blondal o.fl., 2022a;2022b).
Greining á vannæringu
Snemmtæk greining á vannæringu er einn af mikilvægustu
þáttunum til að koma í veg fyrir eða hægja á vannæringu (Norman
o.fl., 2021). Skimun fyrir áhættu á vannæringu er fljótlegt ferli,
framkvæmt með matstæki sem hefur verið gildismetið fyrir
viðkomandi þjóðfélagshóp og auðvelt í notkun (Mathewson,
2021). Mikilvægt er að skimun fari fram reglulega til að hægt sé að
greina áhættu á vannæringu tímanlega og að viðeigandi inngrip
verði framkvæmd (Embætti landlæknis, 2018). Í ráðleggingum
frá Embætti landlæknis (2018) kemur fram að allt eldra fólk á að
vera skimað fyrir áhættu á vannæringu innan heilbrigðiskerfisins
og nota eigi skimun til að meta næringarástand hjá eldra fólki
sem fær þjónustu heilsugæslu, heimaþjónustu, dagvist eða á
hjúkrunarheimili. Mati á næringarástandi hefur ekki verið sinnt
eins og ráðleggingar segja til um og hefur það verið rakið til
tímaskorts og vanþekkingar hjá læknum og hjúkrunarfræðingum
(Norman o.fl., 2021).
Næringarástand eldra fólks í sjálfstæðri búsetu er lítið rannsakað
en ef næringarþörf þessa viðkvæma hóps er mætt má mögulega
stuðla að auknum lífsgæðum, lægri þjónustuþörf, færri legudögum
á sjúkrahúsum og ótímabærum búferlaflutningi á öldrunarheimili.
Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna næringarástand
eldra fólks í sjálfstæðri búsetu á Akureyri sem fékk þjónustu í mars
2022, frá heimahjúkrun Heilbrigðistofnunar Norðurlands (HSN),
þ.e. skoða hversu stór hluti eldra fólks hafði ákveðnar eða sterkar
líkur á vannæringu samkvæmt mati fyrir áhættu á vannæringu og
hverjir voru veigamestu áhættuþættirnir hjá þessum hópi.
AÐFERÐAFRÆÐI
Rannsóknarsnið og þátttakendur
Rannsóknin var lýsandi þversniðsrannsókn (e. descriptive cross
sectional study). Úrtakið var hentugleikaúrtak og í þýðinu (n=193)
voru allir skjólstæðingar heimahjúkrunar HSN á Akureyri í mars
2022 sem uppfylltu gefin skilyrði. Skilyrði fyrir þátttöku voru að
skjólstæðingarnir væru 65 ára eða eldri, í sjálfstæðri búsetu og
þjónustuþegar heimahjúkrunar HSN á Akureyri.
Gagnaöflun – mælitæki
Starfsfólk heimahjúkrunar HSN skimaði skjólstæðinga sína með
mælitækinu „mat á áhættu fyrir vannæringu“ sem finnst í Sögu
sjúkraskrárkerfi.
Áreiðanleiki mælitækis
Mælitækið „Mat fyrir áhættu á vannæringu“ er gildismetið
(e. validated) og hefur verið notað á Landspítala (LSH) síðan
2001, í klínískri meðferð til að bera kennsl á sjúklinga með litlar,
ákveðnar eða sterklar líkur á vannæringu (Thorsdottir o.fl., 2001;
2005; Thorsdottir og Geirsdóttir, 2008). Mælitækið hefur næmni (e.
sensitivity) 0,83 og sértækni (e. specifity) 0,96 hjá sjúklingum með
krabbamein (Thorsdottir og Geirsdóttir, 2008) en hjá sjúklingum
með COPD var næmni 0,69 og sértækni 0,90 (Thorsdottir o.fl.,
2001).
Framkvæmd
Skjólstæðingar voru vigtaðir og svöruðu spurningum um heilsufar
sitt sl. tvo mánuði. Þegar hæð og þyngd var skráð í matstækið
reiknast líkamsþyngdarstuðull sjálfkrafa og fást stig fyrir að
vera undir viðmiðunarmörkum (tvö stig þar fyrir að vera 18,5-20
kg/m2 í LÞS og fjögur stig fyrir að vera undir 18,5 kg/m2 í LÞS).
Þyngdarsaga skjólstæðings undanfarið var einnig skoðuð í Sögu
og gefin stig eftir hversu mikið þyngdartap var (>5% sl. mánuð eða
>10 % sl. mánuði 4 stig, 5-10% sl. mánuði 2 stig). Ef hakað er í „Veit
ekki“ fást 2 stig og „Nei“ (ekkert þyngdartap) 0 stig).
Í spurningum um vandamál sl. vikur eða mánuði, þ.e. dagleg
uppköst í meira en þrjá daga, daglegan niðurgang (þunnar hægðir
þrisvar á dag eða oftar), viðvarandi lélega matarlyst eða ógleði,
erfiðleika við að kyngja eða tyggja, sjúkrahúsdvöl í fimm daga eða
lengur sl. tvo mánuði og hvort skjólstæðingur hafi gengist undir
aðgerð sem telst veruleg sl. mánuð fékkst eitt stig fyrir hverja
spurningu sem svarað var játandi. Spurningar um sjúkdóma,
bruna >15%, innlögn v/vannæringar eða fjöláverka (e. multiple
trauma) gáfu fimm stig fyrir hvert ef svarað var játandi. Eitt stig
kemur sjálfkrafa ef skjólstæðingurinn er 65 ára eða eldri og þarf
ekki að reikna það sérstaklega eða slá inn kennitölu því mat fyrir
áhættu á vannæringu er gert á svæði skjólstæðingsins innan Sögu.
Heildarniðurstaða fæst þegar öllum spurningum skimunarinnar
hefur verið svarað og er stigagjöf á bilinu 0-30 stig. Stig 0-2 flokkast
sem litlar líkur á vannæringu, 3-4 stig sem ákveðnar líkur á
vannæringu og fimm stig eða fleiri sem sterkar líkur á vannæringu.