Goðasteinn - 01.09.2004, Page 11
Goðasteinn 2004
Við gluggann minn
Ég horfi út um gluggann - á hóla, brekku og tún,
ég horfi niður flötina á gilsins dökku brún.
Ég horfi á austurfjöllin svo hvít og blá og skær,
ég horfi líka á ána sem líður djúp og tær.
Ég horfi út um gluggann er í varpann kemur vor,
þá vaknar allt af dvala og aftur léttast spor.
Er jörðin rís af blundi og bleikan fellir kjól,
þá bænum lifnar yfir, hann ljómar móti sól.
Ég horfi út um gluggann þá hásumars er tíð,
nú heiðskírt er í lofti og sveitin mild og fríð.
Er blærinn strýkur grasið er bylgjast túni á,
þá berst um stund í sálina lífsorka og þrá.
Ég horfi út um gluggann þá húmið fellur á,
haustið er að koma og fjöllin verða grá.
Úr haga renna kindur, en hrím fellur á stein,
þá halda fuglar burtu og fellur lauf af grein.
Ég horfi út um gluggann, er vetur tekur völd.
Vindurinn er napur, en stjörnubjart um kvöld.
En oft var áður gaman við sögur bæði og söng,
er sátum við í baðstofunni vetrarkvöldin löng.
Ég horfi út í bláinn, sem barn ég tómið spyr,
báturinn er farinn, en ég er ennþá kyr
Með honum fóru allir, en ég varð eftir ein.
Ætli ég hafi gleymst - eða varð ég svona sein?
-9-