Goðasteinn - 01.09.2004, Blaðsíða 180
Látnir 2003
Goðasteinn 2004
sama mánaðardag árið 1995. Þeim varð auðið fjögurra barna. Elst var Málfríður
sem dó tveggja daga gömul í nóvember 1927, en yngri systkini Ingólfs voru
Valgeir, fræðimaður á Þingskálum, sem lést 1994, og Sólveig, bóndi þar, sem lifir
bróður sinn.
Ingólfur ólst upp við mikla festu og ástríki foreldra sinna, og vandist við fast-
heldni og tryggð við starfshætti og vinnulag gamla tímans sem lengi var í heiðri
haft á Þingskálum. Hann var bráðger og næmur þegar sem lítill drengur, minnug-
ur svo af bar, og mundi eftir sér óvenju snemma. Þannig kunni hann að vísa til
atvika og persóna sem tengdust heimilinu þegar hann var fárra ára gamall, og
mátti minni hans á slíka hluti svo og það sem hann hafði lesið og numið af
bókum, heita óbrigðult. Ingólfur var líka bókhneigður frá unga aldri, var ekki síst
næmur á bundið mál og kunni ógrynni kvæða og sálma. Sönglist var iðkuð á
Þingskálaheimilinu þótt ekkert væri hljóðfærið, og því gerðist Ingólfur snemma
handgenginn sálmalögum og þjóðlögum. Ekki dró blessað Ríkisútvarpið heldur úr
áhuga hans og þekkingu á þessum þáttum menningarinnar, fremur en öðrurn, en
þangað sótti hann sér ekki síður fróðleik og menntun, og fylgdist jafnan vel með
gangi þjóðlífs og þjóðmála, þótt hvorki væri hann mannblendinn né víðförull.
Ingólfur var þvert á móti hlédrægur inaður og hæverskur, en virti mikils þá er
gáfu honum færi á sér og leituðu samneytis við hann, þótt sannarlega væri hann
ekki allra, sérvitur í besta lagi og langt frá því skoðanalaus, enda kom snemma í
ljós að hann stóð nokkuð fjarri hinni troðnu leið fjöldans. Ingólfur var prúðmenni
í framkomu og ljúfur í umgengni, snyrtiinenni til allra verka og gegndi öllum
skyldum sínum á þann hátt. Verkahringur hans var bundinn búinu á Þingskálum
alla ævi, en góðar gáfur hans, bókhneigð og fræðaeðli nutu sín ekki síður í aðstoð
hans við Valgeir bróður hans þegar Rangvellingabók var í smíðum á sínum tíma,
og hin hliðstæðu verk um ábúendur fleiri sveita hér í héraðinu, sem Valgeir vann
að þegar hann féll frá, og Ragnar Böðvarsson tók við. Honum var Ingólfur innan
handar við verkið eftir það, og á Ragnar þakkir skildar fyrir sinn þátt í því góða
samstarfi sem með þeim tókst.
Ingólfur var athugull maður á alla grein, skynsamur og æðrulaus, og tók af
stillingu því sem að bar, ástvinamissi fyrir tæpum áratug, heimilistjóni í jarð-
skjálftunum sumarið 2000 og breytingum í kjölfarið, og nú síðast veikindum
sínum. Hann mætti örlögum sínum óbugaður, kvartaði aldrei þótt þjáður væri en
lét hverjum degi nægja sína þjáningu. Hann var trúmaður, átti í hjarta sér hina
kristnu von upprisu og eilífs lífs, og kveið ekki vistaskiptunum, sem hverjum
manni eru búin, þegar degi var tekið að halla í lífi hans. Ingólfur lést eftir nokk-
urra vikna sjúkdómslegu á Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfossi 15. mars 2003, 73ja
ára að aldri. Hann varð jarðsettur á Keldum 22. mars 2003.
Sr. Sigurður Jónsson Odcla
-178-