Goðasteinn - 01.09.2004, Page 39
/
Goðasteinn 2004
Sveinn Auðunsson:
Þrjú ljóð
Hjá gröf móður minnar
Hvar undir sverðinum sefur
nú sit ég við krossinn þinn.
Hve tíminn burt horfið hefur
hratt, núna vel ég finn.
Þann dag man nú löngu liðinn
er lögð varstu hér í gröf.
Hérna loks fannstu friðinn.
Fær nokkur betri gjöf?
A ný lifi æskuárin,
ærslin í glöðum leik,
grátinn og gleðitárin.
Hve gat verið lundin veik.
Þá huggun og frið gat fundið
í faðmi þér, móðir kær.
A angur gast enda bundið.
Aftur varð drengur vær.
Ei löng var þín lífsins ganga,
í lending komst snemma að.
Þú sofnaðir svefninum langa
er sól var í hádegisstað.
Var ætlað þér öðru að sinna,
æðra og göfugra svið,
hvar meiri er fegurð að finna,
frið, von og réttlætið?
Þá vissum að varstu á förum
er vék stöðugt máttur þinn.
Enn man er þig bar á börum
úr bænum í hinsta sinn.
Þitt líf var út lengi að fjara
uns loksins bugaðist reyr.
Ó! Hve sárt var að sjá þig fara
og sjá þig svo aldrei meir.
Úr bernskunnar mistri að minnast
margs er ef að er gáð.
Þér auðnaðist ei þó að kynnast,
en annað ei meir hef þráð.
Þá mörg voru ei æviárin
mín enn og því langt í kvöld
með hryggð, sorg og harmatárin,
hærur og syndagjöld.
Nú halda verð brátt til baka
beðinu þínu frá,
því enn um sinn víst má vaka,
vona, elska og þrá.
Það hljóðnar og hallar degi,
húmar og senn er nótt.
I sinni er sorg og tregi.
Sofðu nú, mamma, rótt.
(2003)
-37-