Goðasteinn - 01.09.2004, Blaðsíða 77
Goðasteinn 2004
Á þeim árum sem liðið hafa síðan vinnu við Búrfellslínu lauk hefur undir-
ritaður átt þess kost að vinna umhverfismat að fleiri verkefnum á svæðinu vegna
fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda í Þjórsá. Við þær athuganir hafa áður óþekktar
minjar komið í Ijós eins og vænta mátti, en sumar þessara fornleifa eru nokkuð
merkilegar. Ritgerð þessi er unnin upp úr rannsóknarskýrslu undirritaðs (1999) og
inn í hana hefur verið bætt nýjum upplýsingum um nokkrar áður þekktar og
óþekktar fornleifar.
í rannsóknunum á Gamla-Seli tóku þátt, auk undirritaðs, Kristján Mímisson,
þá fornleifafræðinemi, Bjarni P. Guðmundsson frá Akbraut, sem stjórnaði
traktorsgröfu og Bryndís G. Róbertssdóttir, jarðfræðingur, sem kom á vettvang til
að skoða gjóskulög og taka sýni úr þeim til greininga. Öll forvarsla var í höndum
Ragnheiðar Valdimarsdóttur, forvarðar á Fornleifafræðistofunni. Hörður Ágústs-
son, fræði- og listamaður, kom með góðar ábendingar varðandi kálgarða og
notkun steinkola á íslandi. Öllum þessum aðilum þakka ég gott samstarf og
ánægjulegar samverustundir. Einnig þakka ég heimafólkinu á Skarði fyrir fróðlegt
spjall um rústir og annað skemmtilegt.
2. Staðhættir við Gamla-Sel
Rústir Gamla-Sels eru staðsettar norðaustan við Skarðsfjall í Holta- og Land-
sveit, ca. 5 km N af Skarði í Landi (sjá mynd 2 og 3).
Eyðibýlið er við SV-endann á svokölluðu Bæjarnesi, grasi grónum hrygg sem
liggur frá Skarðsfjalli að Hagavaði í Þjórsá. Nú liggur malarvegur (línuvegur) að
bæjarstæðinu úr suðri og skiptir hann sér nánast beint undir bæjarstæðinu og fylg-
ir rafmagnslínunni til beggja handa.
Á bæjarhólnum stendur fjórfótungur sem heldur uppi rafmagnslínu frá Búrfelli
suður yfir heiðar (Búrfellslína 1). Áberandi er hve hraunið sunnan og norðan við
Bæjarnesið er blásið og stingur reyndar gróðurinn á Bæjarnesinu dálítið í stúf við
umhverfið.
3. Gamla-Sel í rituðum heimildum
Gamla-Sel mun hafa verið kallað Sel eða Skarðssel áður en bærinn var fluttur
árið 1895 (Brynjúlfur Jónsson 1898:3). Heitið Gamla-Skarðssel kemur fyrir í
örnefnalýsingum. Sagt er að bærinn hafi e.t.v. verið fluttur í tvígang (Örnefna-
skrá). Telur Guðmundur Árnason í Múla mögulegt að bærinn hafi áður staðið í
Selgili, skammt suður af Gamla-Seli, undir Skarðsfjalli (1958:86-87). Allt bendir
til að svo hafi verið (sjá síðar).
-75-