Sjómannadagsblað Snæfellsbæjar - 01.06.2016, Side 52
Allt stórvinir mínir
Ég spyr Gísla um samtímamenn hans í Grundarfirði eins og
Soffanías Cesilsson, Guðmund Runólfsson og fleiri. „Þetta voru allt
stórvinir mínir og félagar," segir Gísli og segir mér nokkar sögur
um þá og brosir. Hann segist hafa farið með stórvini sínum Runólfi
Guðmundssyni skipstjóra nokkra túra á skuttogaranum Runólfi og
það hafi verið engin smá breyting frá því að vera á síðutogurunum
sem hann þekkti svo vel. „Þetta var bara eins og að vera í frystihúsi
allt undir þiljum, aldrei skvetta á mann. Þetta er bara innivinna. Þessu
var ekki saman að jafna," segir Gísli er hann gerir samanburðin.
„En þetta mátti líka lagast skal ég segja þér" eins og hann segir
svo oft í viðtalinu „miðað við þrældóminn sem áður var. Svo fór
ég nokkra róðra með Jóa tengdasyni mínum á Tjaldinum en hann
var á dragnót og þar var líka nánast allt undir þiljum. Ég var að
reyna hjálpa honum bæði með mið og annað. Það er náttúrulega
allt annað að kasta eftir asdiktækjum á bleyðurnar heldur en áður
var," segir Gísli er hann rifjar upp þennan tíma.
Góður sjómaður
Gísli fór alltaf vel með bæði báta og veiðarfæri. Hann var mjög
fær netamaður og eftirsóttur sjómaður. Netamönnum fylgja bæði
nál og vasahnífur og hann fékk aldrei skeinu á sig þótt mikið lægi
við að bæta hvort sem það var troll eða dragnót. Og svo kenndi
hann sjómönnum listina við að bæta og splæsa víra og það kom
sér vel fyrir sjómennina sem hann tók að sér. Ég ræddi við sjómenn
sem voru með honum á sjó og öllum bar saman um að Gísli væri
eldklár í öllu og góður sjómaður. A hans formannstíð urðu engin
slys um borð hjá honum og alltaf var hann með góða menn með
sér. Hann er gamansamur og stríðinn á stundum og sagði sögur.
Snyrtimennskan var alltaf í fyrirrúmi og hann var mjög veðurglöggur,
klár á öll mið og var m.a. glúrinn við lúðuveiðar. Þá var hann líka á
hákarlalóð og sá veiðiskapur gekk líka vel hjá honum. Gísli segist
vera ánægður með höfnina í Grundarfirði og segir að hún sé alveg
lífhöfn eftir að garðarnir voru komnir fyrir stóru bátana. Þetta var
mjög slæmt áður en það var ekki hægt að landa í sunnanrokunum.
Þeir urðu þá að fara út á fjörð og andæfa þar meðan þau stóðu að
sögn Gísla.
Fjölskyldan
Gísli og Lilja kona hans kynntust 1950 í Reykjavík en hún vann þá
í sjoppu í bænum sem hét Vest End og var á Vesturgötunni ofan við
Daníelsslippinn. Lilja er frá Seyðisfirði og er elst ellefu systkina. Á
þessum árum sem þau kynntust var helst farið út að skemmta sér í
Sjálfstæðishúsinu og Borginni og þau höfðu gaman af því. Það var
gaman að heyra frá Lilju nokkrar sögur og atvik frá Seyðisfirði þeim
merka bæ. Gísli og Lilja giftu sig árið 1953 og presturinn sem gaf
Gnýfari SH 8.
Lilja og Gísli með börnum sínum þeim Katrínu, Kristínu, Sturlaugi, Guðrúnu og Hafdísi.
þau saman var sr Jón Auðuns og það var gert heima hjá honum
og í leiðinni var Kristín fyrsta barn þeirra skýrð. Gísli og Lilja eiga
fimm börn saman og elst þeirra er Kristín fædd 1952. Þá kemur
Sturlaugur, svo Guðrún, Hafdís og Katrín er yngst. Fyrir átti Lilja
eina dóttur og Gísli átti einn son. Gísli segir að þau hjón hafa verið
heppin með börnin og allt gengið vel hjá þeim. Gísli og Lilja höfðu
gaman af því að ferðast bæði um landið og eins erlendis. Gísli hafði
gaman að fara í golfið meðan hann gat það og það er hin besta
skemmtun.
Það er búið að vera mikill skóli fyrir mig að ræða við Gísla um
lífið og tilveruna. Hann er með ótrúlegt minni og hvergi var komið
að tómum kofanum er við ræddum liðna tíð. Gísli talar vel um alla
menn bæði vini sína og aðra og ber þeim öllum vel söguna. Þau
hjón eru heimilsmenn á Jaðri eins og sagði í byrjun og eru bæði afar
sátt við tilveruna þar. Ég vil þakka Gísla fyrir skemmtilegt spjall og
eins Lilju. Gangi þeim allt í haginn. Viðtal: Pétur Steinar Jóhannsson
Eins og áður sagði þá kann Gfsii margar góðar sögur og hvort
sem þær eru sannar eður ei en sagan á ekki að gjalda þess. Hér
kemur ein. Einu sinni, líklegast í kringum 1990, var auglýst eftir
bæjarstjóra í Ólafsvík. í auglýsingunni var talið upp það sem
prýða þarf umsækjandann. Það eru nokkrir sem sækja um og
meðal annars Ingi Hans Jónsson í Grundarfirði. Þar telur hann
upp sitt ágæti og lætur fylgja með umsókninni. Þess var getið í
auglýsingunni að meðmæla væri krafist og það gerði Ingi Hans
og nefndi m.a. Gísla skipstjóra en hann hafði þá verið á sjó
með Gfsla skömmu áður á Sveinbirni Jakobssyni SH. Nokkrum
dögum síðar þá hringir framámaður f Ólafsvík í Gísla og spyr
um hvernig maður Ingi Hans sé og hvort hann væri tækur í
embættið. „Hvað eigið þið nokkra peninga þarna í Ólafsvík og
þurfið þið ekki fá mann sem fer vel með?" spyr Gísli á móti.
„Jú, jú, segir hinn en getur þú nefnt einhver dæmi þar um,"
segir Ólsarinn. „Já, góði minn ég skal nú bara segja þér með
hann Inga að hann var kokkur hjá mér f hálfan mánuð og ég
léttist um 8 kíló. Kallar þú það ekki að fara vel með," segir þá
Gísli og skellihlær. En þessi meðmæli dugðu þó ekki til þess
að Ingi Hans fengi bæjarstjóraembættið í Ólafsvík en sagan er
góð.
Pétur Steinar Jóhannsson
50