Íslenska þjóðfélagið - 01.05.2010, Síða 5
7
Guðmundur Ævar Oddsson
segja til um hvaða þjóðfélagsstétt þeir tilheyra og hvort svör viðmælenda komi heim og
saman við félagslegar aðstæður þeirra (Evans, 1996).
Skýran greinarmun verður að gera á hugtakinu „stéttavitund― og hinu vel þekkta og um-
deilda hugtaki „stéttarvitund― (e. class consciousness). Í þrengstu merkingu hugtaksins ætti
einungis að tala um stéttarvitund þegar aðstæður verkalýðsstéttarinnar kalla fram samvitund
sameiginlegra hagsmuna í krafti pólitísks umboðs (Engels, 1975; Lukacs, 1975; Marx, 1963).
Ennfremur er stéttarvitund ekki einstaklingsbundið fyrirbrigði eins og Georgy Lukacs, sá sem
ber mesta ábyrgð á útbreiðslu hugtaksins, lagði mikla áherslu á (Lukacs, 1975). Grundvallar-
atriði er að stéttavitund er einungis frumstig stéttarvitundar (Giddens, 1973; Mann, 1973).
Nánar tiltekið: Ef fólk er ekki meðvitað um þjóðfélagsstéttir getur það ekki samsamað sig á-
kveðinni þjóðfélagsstétt og öðlast stéttarvitund. Hvað sem því líður er ekki grundvöllur fyrir
því að leggja þessi tvö hugtök að jöfnu (Scott og Marshall, 2005). Með öðrum orðum: Að
vera meðvitaður um þjóðfélagsstéttir er ekki það sama og hafa stéttarvitund.
Áður en við vindum okkur í niðurstöðurnar mun ég gefa yfirlit yfir innlendar rannsóknir
og afleidd gögn sem varpa ljósi á hið íslenska samhengi þessarar greinar. Í kjölfarið mun ég
sýna hvernig sambland kenningar Webers um þjóðfélagsstéttir og kenninga annarra fræði-
manna um viðmiðunarhópa útskýrir huglæga stéttarstöðu. Þá reifa ég tilgátu um tengsl ein-
staklingsvæðingar og aukinna áhrifa viðmiðunarhópa á huglæga stéttarstöðu. Loks mun ég
lýsa þeim gögnum og aðferðum sem ég notast við í þessari rannsókn.
Fræðilegur bakgrunnur
Innlendar rannsóknir
Íslandi hefur jafnan verið lýst af leikum og lærðum sem miklu jafnaðarþjóðfélagi (t.d. Helgi
Gunnlaugsson og Galliher, 2000). Sumir fræðimenn hafa jafnvel lýst Íslandi sem einstaklega
jöfnu og „stéttlausu― þjóðfélagi (Tomasson, 1980). Þó að fyrsta lýsingin sé ekki fjarri lagi,
standast seinni tvær ekki gagnrýna skoðun (t.d. Stefán Ólafsson, 1981, 1982). Hins vegar
hefur goðsögnin um hið „stéttlausa― íslenska samfélag verið býsna lífseig meðal landans, þrátt
fyrir að rannsóknir sýni að raunveruleikinn er annar (t.d. Sigurjón Björnsson o.fl., 1977; Þor-
björn Broddason og Webb, 1975).
Dóra S. Bjarnason (1974) kemst að þeirri niðurstöðu að Íslendingar vilji ekki viður-
kenna tilvist stéttaskiptingar á Íslandi þrátt fyrir vitneskju þeirra um mismunandi aðstöðu
fólks og efnahag (Dóra S. Bjarnason, 1974). Þorbjörn Broddason og Webb (1975) sýna fram á
margvíslegan ójöfnuð hérlendis en draga ekki í efa staðhæfingar Dóru S. Bjarnason (1974)
um veika stéttavitund meðal Íslendinga. Viðmælendur Sigurjóns Björnssonar og félaga (1977)
héldu því almennt fram að Ísland væri stéttlaust þjóðfélag og túlkuðu ekki efnahagslegan mis-
mun sem vísbendingu um stéttaskiptingu. Að mati Sigurjóns og félaga (1977) virðist sem Ís-
lendingar trúi ekki á tilvist stéttaskiptingar í þjóðfélaginu. Þá heldur Tomasson (1980) því
fram að jafnaðarandinn sé helsta menningararfleifð Íslendinga og byggir þessa staðhæfingu
sína aðallega á því að Íslendingar sýna lítinn mannamun í samskiptum sín á milli. Á þessum
grundvelli dregur Tomasson (1980) þá ályktun, líkt og ofangreindir fræðimenn, að stéttavit-
und sé hverfandi meðal Íslendinga.
Á hinn bóginn hefur Stefán Ólafsson (1981, 1982, 2003) bent á það að gera verði
greinarmun á þjóðfélagsstétt (efnahagslegri stöðu) og þjóðfélagsstöðu (virðingarstöðu) (Chan