Íslenska þjóðfélagið - 01.05.2010, Blaðsíða 9
11
Guðmundur Ævar Oddsson
er sá að einsleitni viðmiðunarhópa – svipuð menntun, störf og laun fjölskyldu og vina –
aflagar í grundvallaratriðum „huglæga úrtakið― sem maður alhæfir út frá um þjóðfélagið
í heild sinni og byggir á huglæga stéttarstöðu.
Fyrir vikið hafa einstaklingar tilhneigingu til þess að sjá sig í n.k. „millistöðu― þar sem við-
miðunarhópar þeirra eru tiltölulega einsleitir (Smits o.fl., 1998) og samanstanda af einstakl-
ingum sem eru bæði fyrir ofan þá og neðan m.t.t. efnahagsstéttar, menntunar, tekna o.s.frv.
(Bott, 1957). Huglæg stéttarstaða endurspeglar því sambland hlutlægrar stéttarstöðu og
„hugmynda jafnaðar og samlyndis sem almennt ríkir meðal fjölskyldumeðlima, vina og sam-
starfsmanna, [þar sem hlutlæg stéttarstaða] er síuð í gegnum aflagandi linsu viðmiðunar-
hópa― (Kelley og Evans, 1995: 158). Í ljósi þessa er tilgáta mín sú að niðurstöður þessarar
rannsóknar eigi eftir að sýna „millistéttar-tilhneigingu― um allt stéttakerfið.
Gögn og aðferðir
Gögnin sem notast er við í þessari rannsókn koma úr íslenskri spurningakönnun sem gerð var
símleiðis á tímabilinu desember 2008 til janúar 2009. Spurningakönnunin var framkvæmd af
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands í samvinnu við Miðlun viðskiptalausnir ehf. Úrtakið er
lýsandi fyrir íslenskumælandi landsmenn á aldrinum 18 til 75 ára. Upphaflegt úrtak var 1524
einstaklingar og þar af tóku 798 þátt. Brúttósvörun er því 52%. Endanlegt úrtak var 1381, þ.e.
þegar búið var að draga frá þá sem voru nýlega látnir, veikir, erlendir ríkisborgarar, staddir
erlendis eða könnunin átti ekki við. Nettósvörun spurningakönnunarinnar er þ.a.l. 58%, sem
er vel við unandi miðað við alþjóðlegar rannsóknir á stéttavitund (Kelley og Evans, 1995). Í
töflu 1 má sjá svörun eftir aldri, búsetu og kyni miðað við upphaflegt úrtak. Ekki reyndist
unnt að fá upplýsingar um brottfall eftir téðum bakgrunnsþáttum miðað við endanlegt úrtak.
Eins og sjá má er lítil kerfisbundin skekkja í svörun m.t.t. aldurs og búsetu. Hins vegar var
þátttaka nokkuð betri meðal kvenna (56%) en karla (49%).
Þrátt fyrir að algengara sé að grafist sé fyrir um huglæga hlið stéttarkerfa með hjálp
eigindlegra rannsóknaraðferða hafa margar merkar megindlegar rannsóknir verið gerðar á
þessu viðfangsefni, sér í lagi með notkun spurningakannana (t.d. Jackman og Jackman, 1983;
Marshall o.fl., 1988; Wright, 1997). Ástæðan fyrir því að spurningakönnunum er beitt í
þessum tilvikum, sem og í þessari rannsókn, er að draga má á grunni þeirra almennar ályktanir
um þýðið og bera saman undirhópa. Slíkt er oftast ógerningur með eigindlegum rannsóknar-
aðferðum á borð við vettvangsrannsóknir (t.d. Fantasia, 1988, 1995) eða djúpviðtöl (Savage
o.fl., 2001). Þess slags rannsóknaraðferðir eru betur til þess fallnar að rannsaka vel skilgreinda
hópa með tiltölulega fámennu úrtaki. Með þetta að leiðarljósi varð spurningakönnun fyrir val-
inu í þessari rannsókn.