Íslenska þjóðfélagið - 01.05.2010, Blaðsíða 48
50
Inngangur
Þróun þéttbýlis og fjölbreyttari verkaskiptingar hófst ekki að marki á Íslandi fyrr en á síðasta
fjórðungi 19. aldar; árið 1880 bjuggu aðeins um 7% landsmanna í nokkrum smáþorpum
(Hagstofa Íslands, 1997). Þróunin varð hins vegar hröð eftir að hún komst á nokkurt skrið, því
hálfri öld seinna, árið 1930, bjuggu 56,5% landsmanna í þéttbýli (Hagstofa Íslands, 1997).
Á fyrstu áratugum 20. aldar voru húsnæðisaðstæður íslensks almennings í hinu ört
vaxandi þéttbýli við sjávarsíðuna um margt bágbornar og jafnvel heldur verri en annars staðar
á Norðurlöndum. Þá ályktun dró í það minnsta einn af fyrstu hagfræðingum Íslendinga,
Gunnar Viðar, í formála að skýrslu bæjarstjórnar Reykjavíkur um rannsókn á húsnæðis
aðstæðum almennings er fram fór í Reykjavík sumarið 1928 (Bæjarstjórn Reykjavíkur, 1930).
Annar úr hópi fyrstu hagfræðinga hérlendra, Héðinn Valdimarsson, sat í bæjarstjórn
Reykjavíkur á þriðja áratugnum sem fulltrúi Alþýðuflokksins og flutti þar umbótatillögur í
húsnæðismálum (Þorleifur Friðriksson, 2007). Árið 1928, þá orðinn alþingismaður, flutti hann
frumvarp til laga um byggingu verkamannabústaða í hinum upprennandi kaupstöðum, bæjum
og þorpum landsins. Frumvarpið náði þó ekki fram að ganga á því þingi, en var samþykkt,
nokkuð breytt, sem fyrstu lögin um verkamannabústaði vorið 1929. Á næstu árum hófust
byggingar verkamannabústaða víða um land, hæst bar byggingar Byggingarfélags alþýðu í
vesturbæ Reykjavíkur. Þetta markar upphaf samfelldra íbúðabygginga á félagslegum
grundvelli á Íslandi.
Húsnæði er stór þáttur í útgjöldum fjölskyldna og er snar þáttur í öryggi þeirra. Þetta er
því mikilvægt rannsóknarefni félagsfræðinga, en því hefur verið lítill gaumur gefinn að
undanförnu hér á landi. Þessi grein hefur að markmiði að fjalla um það hvernig félagslegum
aðgerðum á sviði húsnæðismála hefur undið fram á Íslandi og bera jafnframt saman þróun hér
á landi við stöðu mála í nálægum löndum. Þá verður leitast við að svara spurningum um þátt
stjórnmálaflokka, verkalýðshreyfingar og pólitískrar hugmyndafræði í þróun félagslegs
húsnæðis.
Greinin hefst á almennri umræðu um félagslega húsnæðisstefnu og velferðarríkið og
fjallar síðan um eftirfarandi þróunarþætti íslenskra húsnæðismála: Upphaf verkamanna
bústaðanna og hæga þróun þeirra, innreið samráðsstefnunnar á sjöunda áratugnum, upp
stokkun húsnæðismála á tíunda áratugnum, lokun félagslega húsnæðiskerfisins 1999 og
viðbótarlán sem valkost og loks tilurð félagslega leiguíbúðakerfisins eftir árþúsundamótin.
Félagslegt húsnæði og velferðarríkið
Sé litið út fyrir landsteina Íslands blasir við að félagslegar íbúðabyggingar hófust víða í
nokkrum mæli eftir lok heimsstyrjaldarinnar fyrri, þegar það hafði sýnt sig að áður viðteknar
markaðsáherslur dugðu lítt við lausn aðsteðjandi húsnæðisvanda friðartímans. Fljótlega eftir
1920, er ný efnahagsuppsveifla hófst í heiminum, var hvarvetna í meginatriðum horfið aftur
til fyrri stefnu. Á kreppuárunum eftir 1930 fóru samt nokkur ríki, einkum Svíþjóð undir stjórn
fyrstu ríkisstjórnar jafnaðarmanna, að beita sér fyrir félagslegum íbúðabyggingum, bæði sem
félagslegum umbótum og jafnframt sem atvinnuskapandi aðgerð gegn hinni aðsteðjandi
heimskreppu. Þetta var mjög í anda þeirrar nýju hagfræðistefnu sem æ síðan er kennd við
John Maynard Keynes og varð ráðandi um meginstraum hagfræðihugsunar næstu áratuga á
Vesturlöndum (Harloe, 1995; Waldén, 1996; Bengtsson, 2006a).