Íslenska þjóðfélagið - 01.05.2010, Side 60
62
Vöxtur félagslega leiguíbúðakerfisins
Þrátt fyrir framboð viðbótarlána til lágtekjuhópa, lék eigi að síður nokkur vafi á því að það
næði til sömu markhópa og hið eldra kerfi hafði gert. Þá setti síhækkandi markaðsverð á
almennum fasteignamarkaði alvarlegt strik í reikninginn, því alvarlegra sem eignabóla veltiára
hinnar nýbyrjuðu þúsaldar þandist meira út. Eftir 2004, þegar 90% lán Íbúðalánasjóðs stóðu
öllum til boða án tekjumarka, varð hins vegar æ ljósara að lágtekjufólk átti í raun sífellt minni
möguleika á að fóta sig á húsnæðismarkaði.
Í þann mund sem uppstokkun nýrra húsnæðislaga var að koma til framkvæmda 1999-
2000, lét félagsmálaráðuneytið gera könnun á þörf fyrir leiguhúsnæði, eins og hún var metin
hjá sveitarfélögunum (Félagsmálaráðuneytið, 2000). Mörg þeirra töldu vaxandi þörf á leigu
húsnæði eftir að félagslega eignaríbúðakerfinu var lokað. Þetta hefur reynst rétt mat, því á
þeim árum sem liðin eru frá aldamótum hefur hlutur leiguíbúa undir félagslegum formerkjum
og einnig búseturéttaríbúða aukist talsvert, eins og fram kemur í töflu 3.
Fjöldi leiguíbúða sveitarfélaga nærfellt tvöfaldaðist frá 1999 til 2007 og fjöldi náms-
mannaíbúða rúmlega það, enda átti sér stað mikil uppbygging íslenska háskólakerfisins á
tímabilinu. Fjöldi búseturéttaríbúða fjórfaldaðist á tímabilinu og munar þar bæði um tilkomu
húsnæðissamvinnufélags eldri borgara, Búmanna og einnig um verulega fjölgun slíkra íbúða á
Akureyri. Í Reykjavík starfrækir Búseti einnig leiguíbúðir innan sérstaks leigufélags. Ef litið
er til allra félagslegra íbúða, þ.e. bæði eignaríbúða og leiguíbúða, er hins vegar ljóst að hlutur
félagslegs húsnæðis 2007 var orðinn mun rýrari en hann hafði verið árið 1999, því þetta
hlutfall hafði fallið úr 10,7% af öllu íbúðarhúsnæði á landinu 1999 í aðeins 6,5% árið 2007.
Mikilvæg forsenda fyrir uppbyggingu hins nýja stofns félagslegra leiguíbúða og bú
seturéttaríbúða, er komið hefur í stað verkamannabústaðanna og síðar eignaríbúðakerfisins, er
tilkoma húsaleigubóta frá og með árinu 1995. Hlutur þeirra hefur stöðugt farið vaxandi, eða úr
324 milljónum króna árið 1995 í 1605 milljónir króna árið 2007 (á verðlagi ársins 2007)
(Félagsmálaráðuneytið, 2008).
Tafla 3 Fjöldi félagslegra leiguíbúða og búseturéttaríbúða 1999 og 2007
Athugasemdir: Tölur fyrir 2007 eru fengnar af heimasíðum byggingaraðilanna eða með
svörum þeirra við tölvupóstum greinarhöfundar. Fjöldi íbúða í eigu samtaka fatlaðra er að
nokkru áætlaður af greinarhöfundi.
Heimild: Félagsmálaráðuneytið 2000 (tölur frá 1999).
1999 2007
Leiguíbúðir sveitarfélaga 2289 4546
Samtök fatlaðra 679 (825)
Nemandagarðar 706 1662
Búseturéttaríbúðir 374 1192
Félagslegar íbúðir samtals 4048 8229