Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1933, Qupperneq 47
Fornar minjar á Hvalnesi í Lóni.
Fyrir 20 árum byggði ég mér timburhús, og þegar ég var að
grafa fyrir kjallaranum, þá fann ég í einu horninu beinahrúgu í þröngri
gryfju, þrjár álnir niðri í jörðu. Beinin voru mjög hrein, og vel af
þeim skafið, og sá ég strax, að þau voru síðan í fornöld, því það
var mikið af svínsbeinum og nokkuð af galtartönnum. Ég gaf mér
ekki tíma til þess þá að rannsaka þetta nánar, en hugsaði mér að
gera það síðar, og skildi nokkuð eftir af beinunum, það sem ekki
var fyrir hleðslunni. Svo byggði ég fjós vestan-undir húsinu, og fyrir
tveim árum byggði ég hlöðu norður af fjósinu og gróf hana niður á
fastan sandgrunn. Varð ég þá þess strax vísari, að ég kom ofan á
gamlar byggingar, og var illt að átta sig á þeim í fyrstu. Þó fann ég 1
vegg, sem stóð óhaggaður, rúmar 3 álnir niðri í jörðu, og skólprennu,
sem lá frá austri til vesturs. Hún var fet á hæð og breidd, og hellur yfir.
Býst við því, að hún liggi suður að læk. Mikið kom þarna upp af
brunnum trébútum og kljásteinum af mörgum tegundum. Svo kom
ég ofan á lag af hvítri mauk, misjafnlega þykkt, 1—2 þumlungar.
Datt mér í hug, að það myndi vera skyr frá fornöld, en allt benti
til þess, að þarna hefði bærinn brunnið til kaldra kola. Þessi mauk
var að minnsta kosti 3 álnir undir yfirborði jarðar.
Svo sá ég greinilega móta fyrir 3 kerum, talsvert víðari en
tunnur gerast nú á timum, og hafa þau verið grafin nokkuð niður
í fastan sandinn. Neðsta jarðlagið hér undir túninu er fínn ægissandur,
en af því að hann er svo mikið járnborinn, þá hefir hann storknað
saman, og er nú orðin samstorkin sandklöpp, en þó er hægt að
höggva hann upp með öxi. Mér virtist þessi 3 ker, sem ég fann
hlöðunni, hafa verið höggvin nokkuð niður i sandklöppina. Hreinsaði
ég allt upp úr þessum hringum, og var hvíta maukin lang-þykkust
þarna. Hvergi sá ég móta fyrir tunnustöfum í þessum hringum, en
neðst á botninum var örþunnt lag af heiðbláum sandi, sem ég held,
að sé ekki til í Hvalnesslandi. Lítur út fyrir, að það hafi verið látið
til þess að þétta botninn í sandklöppinni.