Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1933, Side 73
73
inga. Fyrir verk sitt skyldi hann fá frjálsar ferðir fyrir sig, bróður
sinn og fjölskyldur beggja, og 940 ríkisdali að verkinu loknu. Af
þessu átti hann að launa bróður sinn. Ennfremur átti ríkið að leggja
honum til múrstein og kalk, alla flutninga á byggingarstaðinn, 6 hjól-
börur, 4 handbörur, 1 vagn, 1 sleða og aktygi á 4 hesta.
Flutning á efni og fólki frá Kaupmannahöfn til Vestmannaeyja
tók stjórn hinnar Alm. Isl., Finmarkske og Grönlandske Handel að sér.
Skrifaði rentukammer þeim Thodal stiftamtmanni og Finni Jónssyni
biskupi 14. maí 1774, og skýrði þeim frá því, að efni til bygg-
ingar Landakirkju og smiðir sé sent til Vestmannaeyja, og beri að
byggja kirkjuna samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti.
Lagði skipið í haf frá Kaupmannahöfn í maímánuði 1774, og
kom til Vestmannaeyja í byrjun júlímánaðar. Var byrjað á uppskipun
efnisins 7. júlí, en lokið við hana 22. ágúst.
Var nú strax tekið til óspiltra málanna við undirbúning verk-
sins. Er ennþá hægt að sjá, hvernig miðað hefur verkinu, vegna þess
að Kristófer Berger gaf rentukammeri árlega skýrslu um það, sem
unnið hafði verið. Skýrslur þessar eru nú geymdar í Þjóðskjalasafni,
ásamt Landakirkju-skjölum, sem Danir hafa nýlega skilað. Er frásögnin
um þessa kirkjubyggingu byggð á þeim skjölum.
Árið 1774 var í fyrstu lagður vegur á byggingarstaðinn, og
mun það vera fyrsti vísirinn að Kirkjuvegi í Eyjum. Var vegur þessi
lagður vegna aðflutninga á efni, sem virðist hafa verið flutt á vagni
á byggingarstaðinn. Þetta ár unnu flest 17 menn við bygginguna,
en fæst tveir. Árið 1775 var stöðugt unnið, og voru við verkið 7
menn flest, en fæst tveir. Árið 1776 var unnið frá 1. janúar til 1.
desember, og unnu þá flest 8 menn, en fæst tveir. Fyrir árið 1777
vantar skýrslu frá Berger, en sjá má af bréfi, dags. 8. júlí 1777, frá
Hans Klog kaupmanni til Thodals stiftamtmanns, að þá hefir Berger
átt eftir 3 daga vinnu af steinsmíðinni, og 7. ágúst skrifar Thodal
rentukammeri, og tilkynnir, að allri steinsmíði við kirkjubygginguna
sé nú lokið, og Kristófer Berger hafi í hyggju að sigla aftur í haust.
í þessu sama bréfi skýrir Thodal svo frá, að ekkert sé enn
byrjað á trésmíði við bygginguna, og gerir um Ieið þá fyrirspurn fyrir
Hans Klog kaupmann, sem sá að nokkru um bygginguna, hvort allir
innviðir megi ekki vera úr nýju timbri, þar eð ekkert úr gömlu
kirkjunni sé nothæft til þeirra hluta. Hafði Klog í bréfi sinu 8. júlí
1777 talið heppilegra að smíða alt úr nýjum viði, og getið þess, að
ekki mætti heldur rýja svo gömlu kirkjuna, að ekki verði hægt að
halda þar guðsþjónustur meðan nýja kirkjan sé ófullgjör.