Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1933, Side 130
130
litlu víkina sunnan höfðans og norðan Grettistanga, heldur fellur hún
i vatnið nokkru fyrir sunnan Grettistanga. En vert er að athuga þetta
betur á staðnum.
Þess má geta um Grettishöfða, að munnmæli voru um það, að
þar hefði Þorbjörn öngull grafið niður höfuð Grettis, sem hann ætlaði
að reiða með sér til alþingis, sbr. upphaf 84. kap. í Grettis-sögu. Þessi
munnmæli koma fram í bók Benedicte Arnesen-Kall (dóttur Páls
Arnesens), Smaaskizzer fra en Islandsreise i Sommeren 1867, I., bls.
162—63, og í bók drs. Pauls Herrmanns, Inner- und Nordost-Island,
bls. 120; áleit hann, að munnmælin kynnu að vera rétt og að nafn
höfðans kynni að hafa valdið því, að hin upprunalega frásögn um
það féll í gleymsku. Þetta er vitanlega allsendis ólíklegt. Sagan geymir
hina fornu frásögn, sem ekki er ósennileg. Þorbjörn fer á stað að
heiman, frá Viðvík, og hefir höfuðið með sér. Þegar hann er kom-
inn á veg, spyr Halldór Þorgeirsson, mágur hans, hann að þvi, hvort
þeir skyldu hafa höfuðið með sér til alþingis, og er Þorbjörn sagðist
ætla að hafa það með, kvað Halldór það óráð. »ÖnguII lét þá taka
höfuðit ok grafa niðr í sandþúfu eina; er þat kölluð Grettisþúfa«.
Segir ekki í sögunni, hvar sú þúfa hafi verið. Þeir »ætluðu at ríða
Sand suðr«, segir í sögunni; hafa farið fram Skagafjörð (Blönduhlíð)
og upp Mælifellsdal, og að líkindum hafa þeir þegar á fyrstu dagleið
eða fyrsta áfangastað grafið niður höfuðið. Það er engin ástæða til
að ætla, að þeir hafi reitt það suður að Arnarvatni (á Grettishöfða)
né suður á Stóra-Sand.J) Sagan gefur ótvírætt í skyn, að þeir Þor-
björn og Halldór hafi talað um höfuðið, og að Þorbjörn hafi þá grafið
það í sandþúfuna, áður en þeir voru komnir suður á Sand, en að
vísu eftir að þeir voru »komnir á veg«, þ. e. lagðir á stað frá Við-
vík. — Síðar í sama kapítula sögunnar segir, að höfuð Grettis hafi
verið grafið heima að Bjargi að kirkju. Er það einnig allsendis senni-
legt; hefir Ásdís, móðir Grettis, látið sækja höfuðið til að grafa það
að kirkju sinni heima og í vígðri mold, viljað það heldur en að láta
flytja það norður að Reykjum á Reykjaströnd, þar sem Grettir hafði
verið grafinn að kirkju. — En að grafa hann upp þar og flytja einn-
ig að Bjargi, það gat naumast komið til mála og því síður til
framkvæmda.
Dr. Paul Herrmanngetur þess í bók sinni, Inner-und Nordost-Island,
bls. 117, að skálinn á nesinu, sem gengur sunnan í vatnið milli
Skammárvíkur og Ceciliuvíkur, þ. e. fiskiskáli Húsfellinga, heiti Grettis-
1) Eins og R. C. Boer hefir álitið, sbr. útg. hans af Grettissögu, bls. 293,
neðanmáls. Sbr. einnig Islands-Beskrivelse Kálunds, II., 51.