Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1960, Blaðsíða 41
GERT VIÐ SNORRALAUG
45
Kópareykjum, var úr klöpp, undan jarðvegslagi, og var mun harð-
ara. Þegar hinir minni hleðslusteinar voru höggnir til, tók það
einn mann 2—3 klukkustundir, en það gat tekið 4—6 klukku-
stundir að Ijúka við stærstu steinana. Þegar ekki vantaði nema eitt
lag ofan á hinn endurgerða laugarvegg, var steypt á bak við hann til
að styrkja hann og þétta. Steinarnir í efsta laginu, og hinir nýju í
botnsetinu og tröppunum, voru einnig festir með steypu. Tröppurnar
voru ekki færðar úr stað; voru höfð í þeim tvö þrep, eins og síðast,
og blágrýtishella lögð við barminn. Ekki þótti ráðlegt að fara eftir
lýsingu Kálunds, sem segir vera fjögur þrep í tröppunum, til þess
skorti upplýsingar um efni og útlit. Fremsti hluti aðrennslisstokks-
ins var hlaðinn á ný, úr sama grjótinu, en nýhöggvin hveragrjóts-
hella sett á barm opsins. Þá var yfirfallið fært 4 sm ofar; er það nú
í 70 sm hæð frá botni á sama stað.
Umhverfið var lagfært. Var ekið mold í laugarhvilftina og sléttað
úr ójöfnum, síðan tyrft yfir hana. Var stefnt að því að viðhalda hinu
sérkennilega skálarlagi hennar. Hér mun ekki gerð frekari grein
fyrir viðgerðinni á jarðgöngunum fornu, en geta má þess, að stein-
veggirnir inni í þeim voru endurhlaðnir að verulegu leyti og tölu-
verðar lagfæringar gerðar á svæðinu milli gangadyranna og laugar,
kamparnir hlaðnir á ný, úr grjóti og sniddu, en gangstétt úr blá-
grýtishellum lögð frá lauginni upp að dyrum. Verkinu lauk 10. ágúst.
Snorralaug er nú ólíkt heillegri en áður. Botninn var ekki hreyfð-
ur, svo að í rauninni er mishátt upp á barma, en þeir liggja nákvæm-
lega í sama fleti. Vegghæðin er mest við suðurhluta laugarinnar, eða
87 sm. Steinarnir í veggnum, tröppunum og setinu eru nú að sjálf-
sögðu með ýmiss konar lit og áferð, en taka væntanlega á sig sama
blæ fyrir áhrif vatnsins og gufunnar. Ef til vill er Snorralaug enn
þá mjög áþekk og hún var á dögum Snorra Sturlusonar, hún hefur
tæplega breytzt mikið, hvorki að lögun, gerð né vatnsdýpt, síðan
snemma á 18. öld, og fullyrða má, að hún sé nú að flestu leyti eins og
hún kom mönnum fyrir sjónir eftir viðgerðina 1858.
Reykjavík, 3. febrúar 1960.
Þorkell Grímsson.