Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1960, Side 72
GÍSLI GESTSSON:
HALLMUNDARHELLIR
Árið 1956 fann Kalman Stefánsson bóndi í Kalmanstungu helli í
ofanverðu Hallmundarhrauni. Hann tók eftir því, að mannvirki voru
í honum og nokkrar beinaleifar og sá, að þetta var allfornlegt og gerði
því þjóðminjaverði viðvart um fundinn.
Laugardaginn 12. júlí 1958 kom ég í hellinn ásamt Þorvaldi Þórar-
inssyni lögfræðingi og Ólafi Briem menntaskólakennara, en Stefán
Ólafsson í Kalmanstungu var leiðsögumaður. Við athuguðum mann-
virkin og mældum og tókum nokkuð af myndum. Sunnudaginn 21.
september 1958 kom ég aftur í hellinn ásamt Guðmundi Kjartanssyni
jarðfræðingi og athuguðum við hellinn nánar, einkum leifar í gólfi,
og tíndum saman nokkuð af beinum. Það sem hér fer á eftir er byggt
á þessum athugunum.
Hellirinn er eins og fyrr segir í ofanverðu Hallmundarhrauni, um
20 mínútna gang frá Syðra Sauðafjalli í stefnu frá Eiríksnípu á mitt
Sauðafjall syðra.1) Þar er niðurfall í hrauninu, um 20 m vítt og nær
40 m langt og stefnir frá austri til vesturs. Austur úr katli þessum
gengur hellir, víður og hár fremst, en þrengist og lækkar austur eftir
og er aðeins mjó tota austast og gjóta undir gólfi hennar, en þunnt
gólfið, svo að ekki er hættulaust að fara í gjótuna. Alls er hellirinn
nær 40 m langur.
15 m innan við hellisopið hefur verið hlaðinn garður þvert yfir
hellinn, þar sem hann er rúmlega 6 m víður. Syðst er garður þessi
tæp mannhæð, en við norðurvegg er hann um 2.75 m hár. Að ofan er
garðurinn víðast nær 1 m breiður, en ekki verður nú séð, hve þykkur
hann er að neðan. Hvergi er minna en mannhæð frá garðinum upp
í hellisrjáfrið. Dyr eru á garðinum rétt norðan við miðju, 0.75 m
1) Á uppdrætti herforingjaráðsins danska, Eiríksjökull 1:100.000, pr. 1948,
stendur Sauðafell á Syðra Sauðafjalli, en ekkert á Nyrðra Sauðafjalli, en það
er beint norður af Syðra Sauðafjalli, 547 m hátt.