Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1985, Page 126
130
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Mannvirkjaleifar
Um mýrina þvera er garðlag, nú allmjög sokkið í jörð, en þó vel
greinanlegt (1. mynd). Annað garðlag er á sama hátt gilja milli eftir
áður nefndum hjalla. Á þennan hátt hefur þarna verið allstórt, afgirt
svæði. Ofan við mýrina, austan undir hjallanum, eru rústir allmiklar.
Aðalrústin er rétt við nyrðra gilið og tekur yfir svæði sem er um 70x45
m. Sveinn Pálsson segir: „Það er almenn sögn að þar hafi verið 18
hurðir á hjörum, og má af því marka húsakostinn" (Ferðabók, bls. 159—
160). Brynjúlfur Jónsson skoðaði þessar rústir, mældi þær lauslega og
gerði grein fyrir athugunum sínum í Arbók hins íslenzka fornlcifafélags
1909, bls. 16. Hann virðist lítið hafa skoðað nema aðalrústina, en þarna
eru raunar margar rústir framan undir fellinu og um tunguna þvera
ásamt garðlögum innan þessa afmarkaða svæðis. Sérstaklega vekur
athygli hvað þarna eru margar hringlaga rústir. Mér taldist þær vera
a.m.k. 12 og sem næst í röð austan undir hjallanum. Sumar ná því að
vera allt að 2 m yfir umhverfið og cru 5-7 m í þvermál. Út frá einni
þeirra má greina tvö lítið eitt bogadregin garðlög, sem gætu hafa verið
byggð sem aðhald þegar fé var rekið inn í borgina hafi þetta fjárborg
verið. Við syðra gilið er rúst scm er 10 m löng og 4—5 m breið og við
hana lítil hringlaga rúst. í stuttu máli sagt eru þarna í heild rústir umtals-
verðra mannvirkja. Ekki var það ætlun mín að fjalla nánar um rústir
þessar sem slíkar, heldur var markmiðið aðeins það að reyna að finna
á hvaða tíma þarna hafi byggð verið, hvenær hún kom til og hvenær
hún leið undir lok og einnig að finna hugsanlegar orsakir þess að svo
fór.