Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1985, Síða 133
HÖRÐUR ÁGÚSTSSON
MEÐ DÝRUM KOST
Athugun á viðarleifum frá Hrafnagili og skurðlist þeirra
I
Hugsum okkur að við fyndum brot eða búta úr öndvegisverkum
íslenskrar myndlistar á 20. öld í skúmaskotum eða háaloftum hrörlegra
húsa einhverntíma í óraframtíð, ræmu úr Heklumynd Ásgríms frá
1909, snifsi af Útigangshestum Jóns Stefánssonar eða fleyg úr Nátttrölli
Einars Jónssonar, hefðum engin gögn önnur í höndunr og ættum síðan
að ráða í allt í senn, hvernig þau hefðu litið út í heild sinni, hver hefði
gert þau, hvar unnin og hvenær. f slíkum sporum stendur reyndar sá
er virðir fyrir sér þær tréskurðarleifar íslendinga frá gullöld 12. og 13.
aldar er skolað hefur á fjörur okkar yfir haf tímans. Og fjaran er forn-
aldarsálur þjóðmenningarsafns íslendinga. í fjölda ára hefur mér, eins
og mörgum safngesti, orðið það á að láta hugann reika andspænis
þessum knöppu skilaboðum, þessum fátæklega vitnisburði um skapandi
vinnu forfeðranna, er þar gefur að líta, og spurt: hver var hann lista-
maðurinn er sveiflaði svo leikandi létt oddmjóum, hárbeittum sýl yfir
fjölunum frá Flatatungu, sá er vatt uppá snigil Möðrufellsborða eða
hinn þriðji er skóp þvingunarlaust vafteinungsvíddir Laufásstafa? Hvað
hugsuðu þessir snilldarmenn, hvernig var menntun þcirra háttað, höfðu
þeir séð sig um í heiminum, voru þetta bændur í aukavinnu eða lærðir
listamenn, sem stunduðu grein sína einvörðungu? Var þá eins og nú
deilt um stíl og stefnur, flugu nöfn einhverra þeirra um landið fyrir
frægðar sakir? Og enn má spyrja: hvernig komu verk þeirra alþýðu
manna fyrir sjónir, voru þau dáð, umdeild, foröktuð sakir fordóma,
voru þau einungis til augnayndis og prýði eða báru þau í scr dýpri skír-
skotun, guðfræðilega, goðsögulega eða einungis sögulega? Hverjir báðu
um þessi verk, hverjir kostuðu þau og hvar í húsi var þeim fyrir komið,
hverskonar húsi, kirkju eða bæ? Auðvitað verður mér, sem fleirum,
svarafátt andspænis slíkri spurningaþulu, en hún getur engu að síður
verið nauðsynleg. Fornleifar hafa tilhneigingu til þess að taka að lifa
sjálfstæðu lífi í huga safngesta, verða ný verk óháð uppruna sínum.
Þarna hafa þær á vegg verið, vinstra megin eða hægra megin við ein-
hver önnur, rauðbrún á gráum grunni, grá á rauðunr, þarna eru þau og