Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1989, Síða 114
118
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
er greint frá því hvaða skemmtan þar fór fram, að öðru leyti en að þar
var drukkið fast og talað margt.8
Þetta bendir til þess að lengi hafi eimt eftir af hefðbundinni Nikulás-
ardýrkun í Odda, og styður að Sæmundur fróði sé einmitt sá sem flutt
hafi fylgisvein Nikulásar með sér til íslands á selnum forðum. Allar
sögurnar um baráttu hans og hrekki við Kölska og púka hans, geta að
einhverju leyti átt rót sína að rekja til þess, að Sæmundur hafi reynt að
innleiða þennan sið á íslandi í veislum sínum á Nikulásarmessu, og því
orðið fyrstur manna hér til að klæðast gervi Nikulásar. Þá hefur hann
auðvitað haft einhvern hrekkjóttan púka sér við hlið, sem hann gat
tuktað til að vild. Er ekki að efa, að slíkt tiltæki hafi vakið mikla athygli
hér uppi á íslandi og verið lengi í minnum haft og getað orðið kveikja
að mörgum góðum sögum, ekki síst ef almenningur hefur meira eða
minna misskilið boðskapinn. Það er að minnsta kosti mjög skemmtileg
tilhugsun að hugsa sér Sæmund fróða fara á kostum í gervi heilags
Nikulásar, með púkann í bandi sér við hlið.
Hugsanlega hefur þessi siður fallið niður eða blandast öðrum jóla-
siðum við siðaskiptin hér á landi, svipað og gerðist með öðrum
þjóðum. Sögurnar um Sæmund og púkann hafa hins vegar varðveist
meðal almennings. En það gæti líka verið að siðurinn hafi borist hingað
að nýju síðar, til dæmis með þýskum eða hollenskum kaupmönnum.
Eins og áður sagði þá eiga jólasiðir sér mjög flókna sögu sem oft er erf-
itt að henda reiður á, vegna þess að þegar þeir flytjast milli svæða, vilja
þeir blandast og aðlagast siðum og venjum sem fyrir hendi eru til þess
að falla inn í hugmyndaheim fólksins á hverjum stað og hverjum tíma.
Niðurstaða
Niðurstaða þessa máls hlýtur í stuttu máli að vera sú, að jólahafurinn
norski og jólakötturinn okkar séu báðir afsprengi púkans sem fylgdi
Nikulási forðum og var tákn hinna illu afla í heiminum. Slík tákn getur
verið erfitt að kveða niður, jafnvel þó að uppruninn sé löngu gleymdur.
Enda er það líka alveg ástæðulaust. Hvort sem jólakötturinn hefur bor-
ist til landsins með Sæmundi fróða eða einhverjum öðrum, hefur hann
fyrir löngu öðlast traustan sess í menningarsögu okkar og vona ég að
hann muni lifa áfram í vitund þjóðarinnar lcngi enn.
8. Sturlunga saga I, bls. 265.