Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1989, Blaðsíða 117
JÓN JÓNSSON
TÓLFAHRINGUR OG LEIÐÓLFSFELL
Tólfahringur
„ — og nafnið helst við plássins að það kallast Tólfahringur. “
Þannig farast séra Jóni Steingrímssyni orð í riti, sem hann nefnir:
„Lítill viðbætir til fróðleiks þeim, er hann með réttri skynsemi skoða
vilja.“ Sá viðbætir er skráður aftan við rit hans um Skaftárelda (Safn til
sögu íslands IV., bls. 51-57). Hin forna byggð hét Tólfahringur,
byggðin er eydd, en örnefnið lifir. Ekki er þetta einsdæmi í Vestur-
Skaftafellssýslu, en þar hefur eyðingarmáttur náttúruaflanna verið
mikilvirkari en víðast hvar annars staðar á landi hér.
Meginstefna Skaftár frá jökli að Bláfjalli er til suðvesturs, en þar
beygir hún til austurs og stefnir eftir það til suð-suð-austurs þar til
suður fyrir Skálarfjall kemur. Alla þessa leið rennur hún meðfram eða
ofan á, víða sandorpnum, hraunum. Það er gróðurlítið land, einkum
vestan ár, þar til kemur suður fyrir Skælinga og Nyrðri-Ófæru, en sú
á og Syðri-Ófæra eru einu meiri háttar vatnsföllin, sem í Skaftá renna
vestan frá. Eftir að suður fyrir Syðri-Ófæru kemur taka við gróin
heiðalönd þar sem jarðvegur er víða mjög þykkur. Syðri-Ófæra rennur
nú meðfram rönd Skaftáreldahrauns, en til hægri við hana er svæði það,
scm enn í dag nefnist Tólfahringur, eða Tólfahringar, því oftast mun
nafnið haft í fleirtölu. Það er gróið land og grösugt með aflíðandi halla
niður að ánni, en gil og grónir skorningar hluta það sundur í misbreiða
fláka. Ljóst er að hrikalegar breytingar hafa í aldanna rás orðið á þessu
svæði af völdum eldgosa, síðast í Skaftáreldum, en það, sem áður hefur
skeð er hulið myrkri aldanna. Þó má færa rök fyrir því að hraun frá allt
að fjórum stórgosum hafi flætt niður þann dal, sem Skaftá fellur um.
Heimildir
Þrennar heimildir eru mér kunnar um byggð í heiðalöndum meðfram
Skaftá. Fyrst mun þess getið í riti Sæmundar Hólm (1784): Om Jord-
branden i Island i Aaret 1783 (bls. 59). Hann telur upp nokkrar byggðir,