Óðinn - 01.01.1925, Blaðsíða 16

Óðinn - 01.01.1925, Blaðsíða 16
16 ÓÐINN og yfir höfuð fór traustið á honum sem lækni vax- andi eftir því sem lengra leið. Fæðingalæknir var hann alla tíð talinn ágætur. Barnalækningar var og jafnan talið, að honum hepnuðust sjerlega vel. Maga- sár og magaveiki ýmis konar tókst honum oft fram- úrskarandi vel við. Margir hjeldu, að hann hefði lít- inn áhuga á læknisvísindum og læsi lítið, en það var misskilningur. Meðan jeg þekti til keypti hann stöð- ugt og las útlend læknisfræði-tímarit og hafði ánægju af að tala um læknisfræðileg efni, við þá er skyn báru á slíkt. Ekki fóru skoðanir hans í þeim efnum fremur en öðrum eftir því, hvað var tíska í þann og þann svipinn, og sjálfsagt var hann stundum full-tor- trygginn gagnvart nýjum kenningum; en þar er mjótt mundags hófið milli ofmikillar íhaldssemi og hins, að gleypa við öllu nýju hugsunarlítið, »láta hrekjast fyrir hverjum kenningaþyt«, og verða þeir færri, sem geta stært sig af því, að hafa jafnan þrætt þann þrönga veg svo, að til hvorugrar hliðar hafi skeikað. Hin fyrstu ár ]úlíusar í Húnavatnssýslu heyrði jeg að lítið álit hefði verið á búmensku hans. Menn hjeldu að hann, Reykvíkingurinn, kynni ekki að búa í sveit; og svo ráku menn augun í ýmsa nýbreytni og óvanalegan tilkostnað, er þeir hugsuðu, »að ekki kynni góðri lukku að stýra«. En þetta fór af, og síðari árin, sem hann bjó í Klömbrum, var það víst almannarómur, að hann væri ágætur búmaður. Verkin sýndu líka merkin: Hann tók við Klömbrum í mestu niðurníðslu, húsalausum að kalla, túnið ógirt og í órækt, og mikið af því þýft. Eftir áratug eða svo var hann búinn að byggja íbúðarhús úr steini, það fyrsta þar um slóðir, tvö geymsluhús, öll pen- ingshús og hlöður við sum þeirra, girða túnið og sljetta mikið af því. Klömbrur urðu höfuðból í hans tíð. Var þar oft gestkvæmt, þótt ekki væri í þjóð- braut, enda gestrisni húsbændanna við brugðið. Mannmargt var heimilið jafnan og nóg að starfa fyrir alla, sem vetlingi gátu valdið, og ekki þóttist húsbóndinn of »fínn« til að taka þátt í störfum, ef því var að skifta, þótt embættismaður væri. Var heimilið að þessu leyti hollur skóli börnum Júlíusar og unglingum þeim öðrum, er ólust þar upp að meira eða minna leyti; virðing á vinnu og starfsemi og óbeit á allri ómensku, leti og læpuhætti, lá þar í loftinu. Júlíus fór ekki fremur en aðrir, er til vits og ára komast, á mis við ástvinamissi og ýmislegt mótlæti; mun hann, jafn-tilfinningaríkur maður, hafa tekið sjer alt slíkt nærri, þótt ekki sæjust þess merki að jafn- aði; einkum harmaði hann mjög sonarmissi, er hann varð fyrir um aldamótin. En gæfumaður var hann engu að síður í því sem mestu varðar: hann átti ágæta konu, er trúði á hann, og góð og efnileg börn, er hann lifði það að sjá vel farnast, þeim er komust á fullorðins ár. Og hann var af öllum mest metinn, er þektu hann best. En þá »gæfu«, sem fólgin er í metorðum og krossaláni, fór hann alger- lega á mis við. Það er um þess konar gæfu, sem Klettafjallaskáldið kveður: líklegastur er til gæfu sá, sem getur helst með hæfu sig af meðalmensku stært. Svo að það fór að vonum að Júlíus yrði ekki gæfu- maður í þessum skilningi, því að um hann mátti segja með sanni, að í engu var hann meðalmaður. Sigurjón Jónsson. Vísur. Kaldabaðið. Valt er að treysta blíða blænum, bölið mun þig köldu lauga. »Tíðkast slíkt á salta sænum«, selur kvað. Hann misti auga. Oft veltir lítil þúfa — Smáar bárur ala breiðar bylgjur og brotsjóirnir eru þeirra fylgjur. Lítil atvik einnig stórslys skapa ólánsmönnum, dæmdum til að tapa. Loksins! Nú er slungið sál við sál sjafnar þungum dróma; — eldi þrungin óðarmál órar tungur róma. Fnjóskur. %L

x

Óðinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Óðinn
https://timarit.is/publication/205

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.