Eimreiðin - 01.05.1909, Blaðsíða 66
146
er æfintýri, gullfallegt og efnismikið, þó stutt sé, en af alt annarri teg-
und en hinar sögurnar.
Þrjár næstu sögurnar »Fyrirgefning«, xþurkur* og »Skilnaður«,
eru allar myndir úr daglega lífinu, skýrt dregnar myndir af smáatvikum,
sem fæstir gefa gaum. Þar er sagt frá hugsunum stúlkukrakka, niður-
setnings, um húsmóður sína, sem er dáin, frá dauða gamals útslitins
einyrkja og sorg gamallar konu, sem er að missa son sinn, uppáhalds-
barn sitt, frá sér til Vesturheims.
Snildarlegust af þessum sögum er »Þurkur«. Þar er fyrst lýsing
á slæpingslífi í kauptúni um sumartíma. og fram á þetta leiksvið kem-
ur svo skyndilega höfuðpersónan, Þórður gamli í Króki, bláfátækur, út-
taugaður ómagamaður, sem er dauðsjúkur, en í óráðinu að hugsa um
þurkinn á heyinu sínu, um baráttuna fyrir lífinu, Hann segir æfisögu
sína í þessum fáu, ógleymanlegu orðum: »Mér hefir aldrei lagst neitt
til». Og svo deyr hann.
Það eru hinar tvær andstæðu myndir í þessari sögu, sem mest á-
hrif hafa á lesandann. Öðrumegin verzlunarmaðurinn, sem stritast við
að liggja reykjandi í legubekknum, þreyttur af iðjuleysinu og rnakræð-
inu. Hinumegin útslitni eljumaðurinn, sjúkur á sál og likama, æstur og
óhemjandi af hugsuninni urn að geta ekki unnið. Að lesa hana er eins og
að ganga úti um sumardag í molluveðri. Allir hlutir eru eitthvað
daufir og renna saman, jafnvel sólin sýnist eins og hálflygnt auga.
Skyndilega dregur upp kolsvart ský og innan skamms minna þrumur
og eldingar, haglél eða húðarrigning á að lífið er hvorki eins mollulegt
eða blíðlátt, eins og það stundum í bili getur virzt vera.
Hinar framantöldu sögur hafa allar . verið prentaðar áður. En
síðasta sagan. »Vitlausa Gunna«, birtist hér í fyrsta skifti. Það er
æfisaga almúgastúlku, sem missir alt það, sem hún ann í lífinu. Unn-
usti hennar yfirgefúr hana og barnið hennar deyr. Hún heldur aðeins
eftir endurminningunni og jafnvel á henni hvílir stöðugt kolsvartur
skuggi af eitruðum orðum, sem óvinur hennar hefir varpað inn í sál
hennar og hafa læst sig þar föst. Hún lýkur æfi sinni sem vatnskerl-
ing í Reykjavík, dullát og skapstygg, grafin niður í endurminningar
sínar og sálarkvöl.
Svona sögur, sagðar með þeirri óbreyttu einlægni, sem er ein-
kenni þess bezta í stíl Einars Hjörleifssonar, hljóta að hafa áhrif. Þær
hafa meiri góð áhrif en allar áminningar um mannúð og mannást;
Þær víkka sjóndeildarhringinn og dýpka skilninginn á mannlífinu. Og
það er svo margt, sem aflaga fer af tómum misskilningi. Læri menn-
iinir að skilja, þá læra þeir síðar að fyrirgefa og elska. Skilningurinn
er jafn nauðsynlegur fyrir mannssálina, til þess að nokkuð gott geti
þróast í henni, eins og plægingin er fyrir akurinn.
Og göfugra takmark en þetta, að þýða ísinn og brjóta skelina
utan af sálunum, veit ég að Einar Hjörleifsson getur ekki kosið sög-
um sínum. Sigurfiur Nordal.
MARÍA JÓHANNSDÓTTIR: SYSTURNAR FRÁ GRÆNA-
DAL. Rvík, 1908. (Sig. Kristjánsson).
Bók þessi líkist miklu meira frumdráttum að sögu, en fullkominni