Morgunblaðið - 25.04.2001, Blaðsíða 30
LISTIR
30 MIÐVIKUDAGUR 25. APRÍL 2001 MORGUNBLAÐIÐ
UM MIÐJAN mánuðinntóku norrænir listamennað verða óvenju fyrir-ferðarmiklir í þýskum
fjölmiðlum. 12. apríl var frumsýn-
ing á nýjustu mynd Lukas Mood-
ysson („Fucking Åmål“), „Tilsamm-
ans“. Sama dag var hljóðsett útgáfa
„Engla alheimsins“ í leikstjórn
Friðriks Þórs Friðrikssonar tekin
til sýningar í fimmtán þýskum
borgum og er þetta stærsta frum-
sýning íslenskrar kvikmyndar í
Þýskalandi. Einar Már Guðmunds-
son (handritshöfundur) og Moodys-
son voru til skiptis í viðtölum í
þýska morgunútvarpinu á sama
tíma og auglýsingaspjöld héngu
víða um borgina vegna Berlínar-
tónleika „Sigur Rósar“ á annan í
páskum. Þótt hljómsveitin sé með
tvö lög í mynd Friðriks voru þeir
þó í höfuðborginni á eigin vegum
og Berlín bara einn viðkomustaður
af mörgum á tónleikaferðalagi
þeirra um Evrópu.
Samruni Norðurlanda
Þótt Þjóðverjar eigi landamæri
að Svíþjóð og Danmörku er þekk-
ing þeirra á Norðurlöndunum tak-
mörkuð. Ekki það að Þjóðverjar
viti lítið um Skandinavíu heldur
eiga þeir erfitt með að greina hin
einstöku lönd, þ.e. Danmörku, Nor-
eg og Svíþjóð, í sundur. Þótt nefna
mætti ótal mörg dæmi um slíkan
rugling skal hér látið nægja að
nefna eitt. Þegar landi Moodys-
sons, Lasse Hallström, kom til
Berlínar á dögunum til að kynna
nýjustu mynd sína „Chocolat“ birt-
ist ítarleg grein um leikstjórann í
„prófessora“-blaðinu „Frankfurter
Allgemein Zeitung“, sem telst eitt
vandaðasta þýska dagblaðið, þar
sem Hallström var kynntur sem
danskur leikstjóri. Ef Þjóðverjar
ættu ekki landamæri að Danmörku
væri hægt að fyrirgefa þeim þá
villu að telja Hallström vera danskt
eftirnafn þótt það innihaldi bókstaf-
inn „ö“ sem ólíkt „ø“ er ekki hluti
af danska stafrófinu.
Sem Íslendingur þarf Friðrik
Þór þó ekki að hafa áhyggjur af því
að þýskir fjölmiðlar kynni hann
sem norskan leikstjóra. Í hugum
Þjóðverja er Ísland langt frá því að
vera land sem rennur saman við
Danmörku, Svíþjóð og Noreg. Með-
al-Þjóðverjinn þekkir íslensku höf-
uðborgina, Geysi, íslenska hestinn,
íslenska hvalinn og íslenska álfinn.
Hann hefur séð eina heimildamynd
um Ísland, jafnvel íslenska kvik-
mynd, getur nefnt íslenskan rithöf-
und á nafn og þekkir Björk (og
jafnvel Sigur Rós og Emilíönu
Torrini). Eitt af því sem auðveldar
Þjóðverjum að greina Ísland frá
Skandinavíu er að þeir hafa mjög
fastmótaðar hugmyndir um landið í
norðri. Hugmyndir þessar byggjast
sjaldnast á raunverulegri þekkingu
á Íslandi heldur fremur á því að
Þjóðverjar sjá Ísland í hyllingum í
gegnum „gleraugu“ sem eru þýsk
smíð. Þjóðverjar dýrka Ísland.
Þegar Íslendingur búsettur í Berlín
fer og býður nýjan nágranna vel-
kominn getur hann því átt von á
því að honum sé óskað til hamingju
með að vera Íslendingur.
Íslenski álfurinn
En hvers vegna er Ísland heilagt
í huga Þjóðverja? Kannski vegna
þess að þeim virðist eyjan í norðri
vera síðasta náttúruland vestrænn-
ar siðmenningar, síðasta evrópska
náttúruþjóðin sem er ekki orðin of
skemmd af nútímavæðingu hins
vestræna heims til að eiga áfram
ósýnilega vini í náttúrunni. Tilhugs-
unin um Ísland vekur upp „fortíð-
arþrá“ í hugum þýskra borgarbúa
og vitneskjan um hina dularfullu
eyju norður í Atlantshafi veitir
þeim stuðning til að takast á við lítt
dularfullan þýskan hversdagsleika.
Það er því ljóst að hin sérstaka Ís-
lands-ímynd er mörgum Þjóðverj-
um mikilvæg. Bendi Íslendingar
Þjóðverjum kurteislega á að hug-
myndir þeirra um Ísland samræm-
ist ekki alveg íslenskum veruleika
getur fokið í þá og þeir vísað í
þýska fjölmiðla máli sínu til stuðn-
ings. Þeir Þjóðverjar sem ekki hafa
komið til Íslands eiga sér oftast vin
eða ættingja sem hefur farið til
draumaeyjunnar. Ferðir þeirra til
Íslands verða sjaldnast til annars
en að staðfesta þá ímynd sem þeir
höfðu þegar af Íslandi. Það er því
best fyrir Íslendinginn að fara
sparlega með athugasemdirnar og
láta sér nægja að brosa að hinum
trúgjörnu Þjóðverjum sem halda að
Íslendingar trúi í raun á álfa.
Sökum þessarar Íslands-ímyndar
Þjóðverja verða íslenskir listamenn
að vera viðbúnir því að segja nýj-
ustu fréttir af álfunum þegar þeir
kynna sig í Þýskalandi. Og þótt
fulltrúar yngri kynslóðarinnar á
borð við Hallgrím Helgason trúi
því að íslenskir listamenn geti
markaðssett sig í Þýskalandi án
þess að „kóa“ með Þjóðverjum í
álfa-fíkninni – og halda jafnvel að
þeir þoli að heyra að þýsku nátt-
úrubörnin séu nefnd „jökla-nördar“
af Íslendingum – vita eldri menn á
borð við Guðberg Bergsson að ís-
lenskir listamenn þarfnast álfanna
ætli þeir að eiga möguleika á því að
vekja á sér athygli í Þýskalandi.
Guðbergur, sem ólst upp á þeim
tíma þegar enn bjuggu álfar á Ís-
landi, er því ávallt með nýja álfa-
sögu í farteskinu þegar hann kem-
ur til Berlínar og kaldhæðin kímnin
er of djúp til þess að Þjóðverjar
geri sér grein fyrir því að höfund-
urinn sé undir niðri að gera grín að
trú Þjóðverja á álfatrú Íslendinga.
Tröllin í trjánum
Líkt og Guðbergur er Friðrik
Þór meðvitaður um það hversu
mikilvæg Íslands-ímyndin er Þjóð-
verjum. Þegar leikstjórinn er
spurður að því í viðtali við „Berlin-
er Zeitung“ hvort rétt sé að á Ís-
landi sé hætt við að leggja braut-
arteina ef í ljós kemur að á
svæðinu búi álfar eða tröll í trjám
eða steinum lætur hann vera að
fræða blaðakonuna um járnbrauta-
kerfið á Íslandi og það hversu erfitt
sé fyrir óvenjulegar verur að búa í
íslenskum trjám. Líkt og svo marg-
ir aðrir Þjóðverjar er blaðakonan
heilluð af þeirri fullyrðingu í „Cold
Fever“ að aðeins heimskingjar trúi
eingöngu því sem hægt er að sjá
eða snerta. Annar gagnrýnandi
blaðsins segir myndir Friðriks
Þórs einkennast af þversögninni
milli náttúru og mannlegra örlaga,
goðsagna og nútíma, og túlkar
„Engla alheimsins“ sem afturhvarf
til hins hrífandi andrúmslofts í
„Börnum náttúrunnar“ og Pál sem
einmanna náttúrubarn. Gagnrýn-
andi „Die Welt“ segist sakna meiri
„natúralisma“ í nýjustu mynd Frið-
riks og lengir líklegast eftir mynd
sem er enn meira í ætt við „Börn
náttúrunnar“. Þjóðverjar eru heill-
aður af þeirri mynd, sem er nokk-
urs konar spegill þýska náttúru-
barnsins, halda meira upp á hana
en til dæmis „Djöflaeyjuna“. Sem
dæmi um hið yfirnáttúrulega í fyrr-
nefndu myndinni nefnir gagnrýn-
andi „Süddeutsche“ engilinn
(Bruno Ganz) án þess að leiða hug-
ann að því að hann kemur ekki frá
hinum auðtrúa Íslendingum heldur
úr „Englaverksmiðju“ Wim Wend-
ers í Berlín. Viðkomandi sér auk
þess ástæðu til að taka sérstaklega
fram að geðveiki Páls orsakist
hvorki af álfum né tröllum. Gagn-
rýnandi „Berliner Zeitung“ veitir
því athygli í „Englum alheimsins“
að forsetinn býr „á grænum hól“ og
er „nágranni allra Íslendinga“.
Ekki er víst að Austfirðingar séu á
sama máli og varla eru allir Reyk-
víkingar meðvitaðir um að forset-
inn búi á grænum hól.
Á meðan að þýsku dagblöðin eru
með færri blaðamenn í Reykjavík
en í París og New York er ekki við
öðru að búast en að skrif þýskra
blaðamanna um Ísland byggi að
mestu leyti á sögusögnum. Mik-
ilvæg undantekning er þó Wolf-
gang Müller lausapenni hjá „taz“
sem skrifar hátt í helming þeirra
greina sem birtast um Ísland í
þýskum dagblöðum. Hann hefur
dvalist nógu lengi á Íslandi til að
geta t.d. miðlað þeim upplýsingum
um Klepp „að stofnunin liggi milli
annars sjaldséðra trjáa og hins
kalda hafs“. Það er þó mótsagna-
kennt að á sama tíma og Müller
þekkir Ísland betur en flestir aðrir
kollegar hans hefur listamaðurinn
verið manna duglegastur við að
krydda Íslandsumfjöllun sína með
álfasögum. Hann notar einnig tæki-
færið í þessari grein til að benda á
að 52,3 prósent Íslendinga trúi á
álfa og tröll, og bætir við tölfræð-
ina að þriðji hver Íslendingur hafi
séð „Engla alheimsins“. Müller
segir Óla Bítil og Viktor sannfær-
andi aukapersónur og myndina í
heild mikið afrek.
„Guðfaðir íslenskrar
kvikmyndagerðar“
Í tímaritinu „Tip“, sem lýsir
Friðriki Þór sem „feiminni nor-
rænni veru“ með yfirvaraskegg,
fær myndin næsthæstu einkunn
líkt og „Tilsammans“. Í umfjöll-
uninni fær Baltasar Kormákur að
halda á-inu en Björn Jörundur
missir ö-ið jafnt sem r-ið og verður
„Fridbjonsson“. Þýskir fjölmiðlar
eru þó á einu máli um að Ingvar
Sigurðsson, sem er þekkt nafn á
meginlandinu eftir að hann hlaut
evrópsku kvikmyndaverðlaunin, sé
hvorki Ingvar né Invar E. heldur
Ingvar Eggert. Þótt gagnrýnandi
„Süddeutsche“ sé heillaður af
myndinni lætur hún hin óljósu
mörk milli geðveiki og heilbrigði
fara í taugarnar á sér, og spyr sig
hvort þetta þýði að allir Íslend-
ingar eða allur heimurinn sé geð-
sjúkrahús, eða hvort enginn sé geð-
klofi í raun. Niðurstaða gagn-
rýnandans er að ef til vill sé
Íslendingum einum fært að skilja
þessa mynd þar sem sagt sé að
geðklofi sé þjóðareinkenni Íslend-
inga. Greinina byrjaði blaðakonan á
þeirri fullyrðingu að Ísland sé und-
arlegt land og nefndi söng Bjarkar
og kvikmyndir Friðriks Þórs sem
dæmi.
Ójafnvægi milli harm-
leiks og kímni
Gagnrýnanda „Die Welt“, sem
lætur upphrópunarmerki fylgja
þeim upplýsingum að á Íslandi séu
framleiddar kvikmyndir, finnst
myndin ekki nógu sannfærandi.
Þróunin í lífi Páls sé ekki alltaf
skýr auk þess sem stundum sé
ójafnvægi milli harmleiks og kímni.
Í viðtali við blaðið segist Friðrik
Þór ekki hrifinn af þeirri goðsögn
að geðklofa einstaklingar séu snill-
ingar þar sem þetta fólk sé einfald-
lega veikt og þurfi á aðstoð að
halda, og því sé ástæðulaust að
upphefja geðklofa. Í framhaldi af
því segist hann á léttu nótunum
vita um íslenskan leikstjóra sem
haldi að allir telji hann vera snilling
hagi hann sér eins og vitstola mað-
ur. Greinin endar á því að gagnrýn-
andinn spyr sig við hvern Friðrik
gæti átt en ekkert svar fylgir og
því ólíklegt að viðkomandi þekki
nógu marga íslenska leikstjóra til
að geta ráðið í þetta skot. Gagnrýn-
andinn er hins vegar ákveðinn í því
að myndin eigi að fá þrjár stjörnur
af fimm mögulegum en „Tilsamm-
ans“ fær fullt hús.
Gagnrýnandi „Frankfurter
Rundschau“ segir myndina afar
sérkennilega og þessa skoðun sína
líklegast stafa að einhverju leyti af
vanþekkingu sinni á íslenskri
menningu. Greinin ber undirtitilinn
„Handan Evrópu“ og vísar í þá til-
finningu Þjóðverja að líta svo á að
„náttúruþjóðin“ sé á mörkum Evr-
ópu nútímans. Nafn leikstjórans
finnst henni einnig framandi þar
sem að í því séu nokkrir bókstafir
sem minni einna helst á rúnir og
séu að minnsta kosti ekki að finna í
þýska stafrófinu. Blaðakonan yrði
eflaust vonsvikin að heyra að stafir
þessir séu venjulega raktir til
tungumáls sem er ekki meira fram-
andi en fornenska. En þótt gagn-
rýnandinn sé fastur í Íslands-
ímynd Þjóðverja er kvikmynda-
greining hennar áhugaverðari. Hún
er hrifin af myndmálinu og segir
„Friðriksson“ nota andstæður ljóss
og myrkurs, inni og úti, uppi og
niðri til að undirstrika jaðarstöðu
Páls. Hún segir leikstjórann leggja
áherslu á að geðveikin sé háð stund
og stað. Þannig sé Páll ekki alltaf
geðveikur né sé hann það í augum
allra. Ókost þessarar „snilldar-
myndar“ segir gagnrýnandinn
þann að hún sé óákveðin á köflum.
Þannig virðist leikstjórinn ekki
geta ákveðið sig hvort raunsæið
eða myndlíkingin eigi að ráða ferð-
inni, hvort leggja eigi áherslu á
ævisögulega eða samfélagslega
þætti. Að lokum spyr hún sig á
léttu nótunum hvort orsökin fyrir
þessari óákveðni gæti mögulega
tengst geðklofa íslensku þjóðarinn-
ar.
Á meðan morgunútvarpið fagnar
Moodysson sem endurreisn
sænskrar kvikmyndagerðar nefnir
„Die Welt“ Friðrik Þór „guðföður
íslenskrar kvikmyndagerðar“,
„Berliner Zeitung“ segir íslenska
kvikmyndagerð óhugsandi án hans
og „Tagesspiegel“ segir Friðrik
Þór samheiti fyrir íslenska kvik-
myndagerð. Á meðan Moodysson
fær næsthæstu einkunn hjá öllum
gagnrýnendum í kvikmyndaspegli
vikunnar fær Friðrik sömu stiga-
gjöf hjá þremur gagnrýnendum,
myndin fær einni stjörnu minna hjá
ríkissjónvarpinu, tveimur finnst
hún „bæði og“ og dagblaðið „Tag-
esspiegel“ er fúll á móti. Þar sem
þýskir gagnrýnendur eru frekar
grimmir verður þessi gagnrýni að
teljast nokkuð góð, og þá sérstak-
lega þegar haft er í huga að Friðrik
Þór er ekki frá landi Volvo, ABBA
og IKEA heldur „landi engla, álfa
og trölla“.
Þýskir gagnrýnendur fara á frumsýningu „Engla alheimsins“
RÚNIRNAR Í NAFNI
FRIÐRIKS ÞÓRS
Ingvar Sigurðsson og Hilmir Snær Guðnason í hlutverkum sínum í Englum alheimsins.
Á meðan þýsku
dagblöðin eru með færri
blaðamenn í Reykjavík
en í París og New York
er ekki við öðru að búast
en að skrif þýskra
blaðamanna um Ísland
byggist að mestu leyti á
sögusögnum, segir
Davíð Kristinsson,
fréttaritari í Berlín, í til-
efni af frumsýningu
Engla alheimsins
í Þýskalandi.