Morgunblaðið - 03.05.2001, Qupperneq 12
FRÉTTIR
12 FIMMTUDAGUR 3. MAÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
STARFSHÓPUR um framleiðslu-
og markaðsmál gróðurhúsa og garð-
ávaxta, grænmetisnefndin svokall-
aða, hefur skilað áfangatillögum í
sex liðum til Guðna Ágústssonar
landbúnaðarráðherra og fela þær í
sér aðgerðir til lækkunar á græn-
metisverði til neytenda. Ráðherra er
ætlað að skila áliti um áfangatillög-
urnar fyrir næsta fund nefndarinnar
sem áætlaður er í næstu viku.
Morgunblaðið hefur tillögurnar
undir höndum en sú fyrsta er í þá átt
að fella niður 30% verðtolla á græn-
metistegundir sem ekki eru fram-
leiddar hér á landi. Í flestum til-
vikum er um sjaldgæfar afurðir að
ræða en þær algengustu eru laukur
og spergill, eða ferskur aspargus.
Þannig eru um 1.200 tonn af lauk
flutt inn árlega. Af öðrum tegundum
má nefna ísbergsalat, kúrbít,
eggaldin og chili-pipar. Í grein-
argerð með tillögunum er talað um
enn sjaldgæfari tegund, „jarðar-
tískokku“, sem mun vera stilkmat-
jurt í ætt við spergil, eftir því sem
Morgunblaðið kemst næst.
Það er mat nefndarinnar að þess-
ar tegundir séu ekki í samkeppni við
innlenda framleiðslu um markað og
því þjóni tollar eingöngu því hlut-
verki að vera fjáröflun í ríkissjóð.
Samkvæmt upplýsingum Morgun-
blaðsins hafa þessar tegundir gefið
um 30 til 50 milljónir króna í rík-
issjóð á ári af um 150 milljóna króna
tollgreiðslum af innfluttu grænmeti
á ári.
Nefndin leggur einnig til að heim-
ilt verði að leyfa fjórðungslækkanir
á verðtolli og magntolli hvorum fyrir
sig. Fela á ráðgjafarnefnd, sem
starfar samkvæmt lögum um fram-
leiðslu, verðlagningu og sölu á bú-
vörum að fjalla um og meta þá breyt-
ingu er kann að verða af afnámi
tollanna. Í því sambandi verði nefnd-
inni falið að gera drög að lagafrum-
varpi í samræmi við tillögugerðina.
Alþýðusamband Íslands, sem á full-
trúa í nefndinni, leggur ríka áherslu
á að fyrrnefndum tillögum verði
hrint í framkvæmd sem allra fyrst
og fyrir þinglok. Einnig leggur ASÍ
áherslu á að önnur tillaga komi til
framkvæmda þegar í stað, þ.e. að
samkeppni á mörkuðum verði efld
með verðkönnunum og virkari upp-
lýsingagjöf en verið hefur.
Telur nefndin að slíkar aðgerðir
geti spornað gegn hringamyndun og
samráði í vörudreifingu og margvís-
legri þjónustu.
Greiðslur til framleiðenda
Af öðrum tillögum nefndarinnar
skal fyrst nefna að hún kanni mögu-
leika á og taki afstöðu til þess að
taka upp greiðslur til framleiðenda.
Greiðslurnar myndu þá renna til
framleiðenda vegna rekstrarfanga,
framleiðslueininga, afurðaeininga,
framlaga til rannsókna og þróunar
og vegna byggðastyrkja. Vegna
þessarar tillögu hefur utanríkisráðu-
neytið bent nefndinni á, samkvæmt
heimildum Morgunblaðsins, að op-
inberir styrkir til landbúnaðar séu í
hámarki nú þegar samkvæmt al-
þjóðlegum skuldbindingum og ef
styrkja eigi grænmetisframleiðend-
ur þurfi að taka af einhverjum öðr-
um á móti.
Ein af áfangatillögunum snýr að
því að nefndin vinni greiningu á
verðmyndun afurða garð- og gróð-
urhúsa á framleiðslustigi, heildsölu-
stigi og smásölustigi. Eftir því sem
unnt er verði gerður samanburður á
þessum kostnaði milli Íslands og
tveggja Norðurlanda, þ.e. Danmerk-
ur og Noregs.
Þá leggur grænmetisnefndin til að
möguleikar verði kannaðir á að
draga úr skattlagningu á framleiðslu
og/eða afurðir til að ná fram lækkun
á verði til neytenda.
Tollaþörfin verði metin
Loks leggur nefndin til að lagt
verði mat á hver þörfin fyrir tollum á
innflutt grænmeti sé. Þar þurfi að
taka tillit til nokkurra atriða þannig
að tryggja megi framleiðslumögu-
leika á afurðum garð- og gróður-
húsa. Jafnframt verði metin sam-
keppnisstaða garðyrkju í saman-
burði við aðra matvælaframleiðslu
og möguleikar skoðaðir á að leita
leiða til að gera verðmyndunina
gegnsærri hverju sinni. Þannig verði
til leið að hóflegri verðmyndun og
lægra verði til neytenda, svo vitnað
sé beint í greinargerð er fylgdi til-
lögunum til ráðherra.
Grænmetisnefndin samþykkti
fyrrnefndar tillögur á fundi sínum sl.
mánudag. Að mati nefndarinnar
gefst með þessu fyrirkomulagi svig-
rúm til að vinna þau verkefni sem
nauðsynleg eru til úrvinnslu sam-
kvæmt fyrirmælum landbúnaðar-
ráðherra. Nefndarmenn segjast í
bréfi til ráðherra ætla að hraða
störfum sínum eins og kostur sé og
skila lokatillögum í haust.
Áfangatillögur grænmetisnefndarinnar eru komnar til landbúnaðarráðherra
Tollar á afurðir, sem
ekki eru framleiddar
hér, verði felldir niður
Samkeppni á
mörkuðum verði
efld með verð-
könnunum og
virkri upplýs-
ingagjöf
UNDIRSKRIFTUM var safnað
víða í Skagafirði til að mótmæla
þeirri ákvörðun sýslumanns að
hækka aldurstakmark úr 16 í 18 ár á
dansleikjum í félagsheimilum fjarð-
arins. Á þetta bann að taka gildi til
reynslu um miðjan þennan mánuð,
eða um það leyti sem sveitaböllin
svonefndu fara að hefjast fyrir al-
vöru.
Aðstandendur mótmælanna af-
hentu sýslumanni, Ríkarði Mássyni,
undirskriftalista í gær með nöfnum
ríflega 1 þúsund einstaklinga, en í
sveitarfélaginu Skagafirði búa ríf-
lega 4 þúsund manns þannig að segja
má að um fjórðungur Skagfirðinga
hafi skrifað undir mótmælin. Að-
standendur mótmælanna íhuga að
afhenda dómsmálaráðherra einnig
afrit af undirskriftalistunum.
Við afhendingu mótmælanna í
gær sagðist sýslumaður ætla að
standa við þessa breytingu. Það ætti
síðan eftir að koma í ljós hvað félags-
heimilin gerðu en samkvæmt upp-
lýsingum Morgunblaðsins er talið
líklegt að forráðamenn félagsheim-
ilisins Miðgarðs í Skagafirði muni
kæra þessa ákvörðun sýslumanns til
dómsmálaráðuneytisins.
Markmið sýslumanns með þessum
breytingum á aldurstakmarki er
m.a. að draga úr áfengisnotkun ung-
linga en aðstandendur mótmælanna
telja að áhrifin verði þveröfug. Ald-
urstakmark á almenna dansleiki er
16 ár víðast hvar annars staðar á
landinu.
Undirskriftalistar höfðu legið
frammi í verslunum og víðar í tæpa
viku. Á listunum er sýslumaður
hvattur til að draga til baka tillögur
sínar um dansleikjahald í Skagafirði.
Þrír ungir menn í Skagafirði á
aldrinum 18–20 ára stóðu að undir-
skriftasöfnuninni. Einn þeirra, Ingi
Björn Árnason, sagði við Morgun-
blaðið að viðbrögðin hefðu verið
langtum meiri og betri en þeir höfðu
þorað að vona. Fólk á öllum aldri
hefði ritað nafn sitt, fullorðið fólk þó í
meirihluta og sá elsti væri á 82. ald-
ursári.
„Við teljum það enga forvörn að
banna 16–18 ára krökkum að fara á
dansleiki. Þetta mun auka vandann
ef eitthvað er og færa skemmtun
unga fólksins í heimahús eða á göt-
urnar. Það er skárra að hafa þetta í
einhverju félagsheimili undir gæslu
dyravarða og lögreglu. Gæsla í
stærsta félagsheimilinu, Miðgarði í
Varmahlíð, hefur verið til fyrir-
myndar og við teljum að hana ætti
frekar að efla,“ sagði Ingi Björn.
Ljósmynd/Sveinn Anton Jensson
Vilhjálmur Árnason, Ingi Björn Árnason og Helgi Rafn Viggósson afhentu Ríkarði Mássyni, sýslumanni í Skaga-
firði, undirskriftir sem safnað var til að mótmæla ákvörðun sýslumanns um hækkun aldurstakmarks á dansleiki.
Hækkun á aldurstakmarki á dansleiki í Skagafirði
Ríflega þúsund manns
skrifuðu undir mótmæli
TILLÖGU borgarfulltrúa Sjálf-
stæðisflokksins um að framlög til
einkaskóla yrðu reiknuð á sama
grundvelli og til annarra skóla var
vísað frá á síðasta fundi borgarráðs.
Inga Jóna Þórðardóttir, oddviti
sjálfstæðismanna, segir að tillagan
verði lögð aftur fram á fundi borg-
arstjórnar í dag, 3. maí. Hún segir
það sanngirnismál að einkaskólar fái
sömu framlög frá borginni og aðrir
grunnskólar.
Nú fá einkaskólar framlag á hvern
nemanda frá Reykjavíkurborg sem
nemur u.þ.b. 2/3 þess sem hver nem-
andi í almennum grunnskólum kost-
ar. Inga Jóna sagði sjálfstæðismenn
vilja að sú viðmiðunarregla sem
stuðst væri við yrði endurskoðuð og
skólarnir fengju sama framlag hvort
sem borgin eða einkaaðilar sæu um
rekstur skólanna.
Hún sagði að þessi tillaga væri
forsenda fyrir raunverulegu sjálf-
stæði skóla, sem fulltrúar R-listans
hefðu stundum látið í veðri vaka að
þeir styddu. Inga Jóna sagði að sú
regla sem nú væri stuðst við byggð-
ist á jaðartilvikum, en miðaðist ekki
við raunverulegan kostnað.
Framlög til einkaskóla hækka
um 50% á þremur árum
Sigrún Magnúsdóttir, formaður
fræðsluráðs, sagði að í ágúst á síð-
asta ári hefði verið samþykkt sam-
hljóða í fræðsluráði að greiða sömu
upphæð til einkaskóla og Samband
íslenskra sveitarfélaga miðar við
þegar sveitarfélög greiða fyrir nem-
endur sem stunda nám í öðrum sveit-
arfélögum, þ.e. fyrir nemanda í
Reykjavík sem stundar nám í Garða-
bæ eða Kópavogi svo dæmi væri tek-
ið.
Hún sagði að ekki væri óeðlilegt
að sveitarfélög greiddu lægri fram-
lög til einkaskóla en almennra
grunnskóla þar sem einkaskólar
væru að hluta til reknir fyrir framlög
frá foreldrum. Hún sagðist ekki vera
fylgjandi því að einkaskólar fengju
það sama og almennir grunnskólar
sem ekki nytu framlaga frá foreldr-
um.
Sigrún sagði að á síðustu þremur
árum hefðu framlög Reykjavíkur-
borgar til einkaskóla hækkað um
50% og myndu væntanlega hækka
enn á næstunni þegar Samband ís-
lenskra sveitarfélaga gæfi út nýjar
viðmiðunarupphæðir.
Tillaga sjálfstæðismanna í borgarráði
Einkaskólar fái
það sama og al-
mennir skólar
Í DAG mun dr. Ari Kristinn Jóns-
son, sérfræðingur í gervigreind og
vísindamaður hjá Geimferðastofnun
Bandaríkjanna, NASA, halda fyrir-
lestur fyrir almenning um gervi-
greind og hvernig hún kemur við
sögu við undirbúning ferða ómann-
aðra geimfara um sólkerfið. Fyrir-
lesturinn hefst í Háskólanum í
Reykjavík kl. 17:15.
Í fyrirlestrinum verður gefið yf-
irlit yfir þá gervigreindartækni sem
verið er að þróa í Ames-rannsókn-
arstöð NASA og hvernig sú tækni
hefur verið og verður notuð í geim-
ferðum. Sérstaklega verður fjallað
um nýlega tilraun þar sem geimfari
var í fyrsta skipti stýrt með gervi-
greindarkerfi, atburði sem lýst hefur
verið sem þáttaskilum í þróun gervi-
greindartækni. Umræðurnar munu
m.a. snúast um framtíðarferðir út í
geiminn, m.a. til að kanna hugsan-
legt líf á Mars og á tunglinu Evrópu.
Ari Kristinn hefur undanfarin 4 ár
starfað sem vísindamaður hjá NASA
við þróun nýrra aðferða fyrir sjálf-
virka áætlanagerð fyrir ómannaðar
geimferðir. Hann lauk BS-prófi í
stærðfræði frá Háskóla Íslands árið
1990 og BS prófi í tölvunarfræði frá
sama skóla ári síðar, með hæstu
einkunn frá stofnun námsbrautar-
innar. Hann lauk MS-prófi í tölvun-
arfræði frá Stanford University 1995
og doktorsprófi 1997.
Íslenskur
starfsmaður NASA
Fyrirlestur
um gervi-
greind