Morgunblaðið - 03.05.2001, Blaðsíða 32
ERLENT
32 FIMMTUDAGUR 3. MAÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
ANFINN Kallsberg, lögmaður
Færeyja, reynir nú enn að fá Poul
Nyrup Rasmussen, forsætisráð-
herra Danmerkur, til að fallast á
nýjar viðræður um sjálfstæðisáætl-
anir landstjórnarinnar en þingkosn-
ingar verða í Færeyjum ekki síðar
en í apríl að ári.
Í bréfi til Rasmussens leggur
Kallsberg til, að viðræður verði
hafnar síðar í þessum mánuði um
þær tillögur, sem færeyska lögþing-
ið samþykkti nýlega. Vill Kallsberg,
að þá verði rætt um þá málaflokka,
sem Færeyingar geti tekið við úr
höndum Dana, og um danska styrk-
inn, sem er upp undir 16 milljarðar
íslenskra króna á ári. Til þessa hefur
verið samið um hann til þriggja ára í
senn og rennur núverandi samning-
ur út í árslok.
Danski styrkurinn
lækki strax á næsta ári
Í nýjum sjálfstæðistillögum land-
stjórnarinnar segir, að þegar á
næsta ári verði danski styrkurinn
skorinn niður um allt að fimm millj-
arða ísl. kr. og hefur það verið harð-
lega gagnrýnt af stjórnarandstöð-
unni, Jafnaðarflokknum og Sam-
bandsflokknum. Auk þess vill land-
stjórnin, að allir málaflokkar, sem
nú eru í höndum Dana, verði komnir
í hendur Færeyinga í síðasta lagi ár-
ið 2012. Í því efni vill hún, að fær-
eyska kirkjan og skólamálin hafi for-
gang.
Í bréfi sínu til Rasmussens setur
Kallsberg fram þá ósk, að velvilji og
gagnkvæm virðing einkenni væntan-
legar viðræður ólíkt því, sem var í
viðræðunum á síðasta ári. Vísar
hann í því sambandi til fyrirrennara
Rasmussens, Pouls Schlüters, og
samningsins, sem hann gerði við
Færeyinga um landgrunnsréttindin.
„Samningurinn sá er gott dæmi
um hvernig finna má einfaldar
lausnir á flóknum, lögfræðilegum
álitaefnum. Þær fólust í pólitískum
velvilja og geta orðið okkur fordæmi
þegar við förum að ræða um yfir-
töku ýmissa málaflokka,“ segir
Kallsberg í bréfinu til Rasmussens.
Bíða spenntir eftir
afstöðu Rasmussens
Rasmussen hefur fátt sagt enn um
nýju sjálfstæðisáætlunina en með
henni var einnig ákveðið að aflýsa
fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu
um sjálfstæðismálin en hún átti að
fara fram seint í maí. Var áætlunin
samþykkt í lögþinginu í síðustu viku
og þar er því lýst yfir, að Færeying-
ar hafi fullan ákvörðunarrétt yfir
sínu eigin landi. Ætlaði Rasmussen
að skýra afstöðu sína til áætlunar-
innar á fundi í Færeyjanefnd danska
þjóðþingsins í dag og ennfremur til
samningsins um landgrunnsréttind-
in en samkvæmt honum eiga þau að
færast í hendur Færeyinga 9. maí
næstkomandi.
Í Færeyjum er þess beðið með
einna mestri eftirvæntingu hvort
Rasmussen telur, að yfirlýsingin um
„færeyskt sjálfstæði“ jafngildi fær-
eysku fullveldi. Geri hann það, mun
hann vafalaust ítreka fyrri yfirlýs-
ingar um, að danski styrkurinn falli
þá niður á fjórum árum. Skoðana-
kannanir í Færeyjum sýna hins veg-
ar, að meira en 60% landsmanna
vilja ekki fullveldi ef það þýddi, að
danski styrkurinn hyrfi á svo
skömmum tíma. Eru hagfræðingar
sammála um, að það myndi hafa al-
varlegar afleiðingar í för með sér
fyrir færeyskt efnahagslíf.
Versnandi sambúð
á stjórnarheimilinu
Nýja sjálfstæðisáætlunin er ekki
jafn afgerandi og sú gamla, til dæm-
is er ekki nefnt hvenær efna skuli til
þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, en
svo virðist sem landstjórnin, sam-
steypustjórn þriggja flokka, sé sam-
mála um, að markmiðið sé fullt sjálf-
stæði. Það er líka það eina, sem
flokkarnir eru sammála um.
Samstarfið milli flokkanna, Þjóð-
arflokksins, Sjálfstjórnarflokksins
og Þjóðveldisflokksins, hefur aldrei
gengið verr en nú. Allt frá því Kalls-
berg, sem er í Þjóðarflokknum, blés
af þjóðaratkvæðagreiðsluna hefur
andað mjög köldu milli hans og
Høgna Hoydals, sem er í Þjóðveld-
isflokknum og fer með sjálfstæðis-
málin í landstjórninni. Þá hefur
Þjóðarflokkurinn, sem er til hægri í
stjórnmálunum, gagnrýnt harðlega
þjóðveldisflokksmanninn Karsten
Hansen, sem fer með fjármálin í
landstjórninni, fyrir samninga hans
við opinbera starfsmenn en þeir
kveða á um 12,5% launahækkun á
rúmum tveimur árum. Þjóðveldis-
flokkurinn hefur síðan vakið gremju
innan Þjóðarflokksins með bréfi,
sem hann hefur sent formönnum
samstarfsflokkanna, en þar eru þeir
áminntir um að vera ekki með
flokkspólitískar yfirlýsingar í fjöl-
miðlum.
Kosningabarátta í heilt ár?
Við þetta bætist síðan, að Þjóð-
arflokkur Kallsbergs snerist á sveif
með stjórnarandstöðunni og greiddi
atkvæði með lægri skatti á bensín og
í framhaldi af öllu þessu lagði Hel-
ena Dam í Sjálfstjórnarflokknum til,
að efnt yrði til kosninga sem fyrst.
Sagði hún, að kosningabaráttan væri
í raun hafin þótt ár væri eftir af kjör-
tímabilinu og rétt að hlífa lands-
mönnum við því stappi í svo langan
tíma. Var Helena sökuð um að hafa
haft hagsmuni sína og síns flokks í
huga er hún lagði þetta til og síðan
hefur hún tekið tillöguna aftur.
Anfinn Kallsberg lögmaður segir,
að kosningum verði ekki flýtt þótt á
ýmsu gangi í landstjórninni og þá
aðallega vegna þess, að mikilvægt sé
að ganga endanlega frá áætluninni
um sjálfstæði Færeyja og fram-
kvæmd hennar.
Anfinn Kallsberg, lögmaður Færeyja, fer fram á viðræður við Dani um sjálfstæðistillögurnar
Morgunblaðið/Auðunn Arnórsson
Séð yfir Þórshöfn í Færeyjum með Nólsoy í baksýn.
Deilt um flest
nema sjálf-
stæðismálin í
landstjórninni
Þórshöfn. Morgunblaðið.