Morgunblaðið - 18.08.2001, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 18.08.2001, Blaðsíða 28
UMRÆÐAN 28 LAUGARDAGUR 18. ÁGÚST 2001 MORGUNBLAÐIÐ ÞESS eru mörg dæmi í út- löndum, að staðarheiti verði að mannanöfnum og berist kannski sem slík út um víðan völl. Tekoa er virkisbær í Júd- eu og verður ekki betur séð en bæði karlar og konur hafi feng- ið nafn sitt af honum. Og viti menn. Árið 1801 er tekið alls- herjarmanntal hér úti á Íslandi og þá heitir 14 ára mær á Rifi á Snæfellsnesi Tekóa. Þetta mun vera staknefni hérlendis. Í þætti 1119 var minnst á nafnið Blær. Það hefur hér á landi orðið bæði heiti karla og kvenna. Í Dictionary of First Names eftir Júlíu Cresswell er ráð fyrir því gert, að manns- heitið Blair sé orðið til úr skosku viðurnefni og áður staðarnafni. Í gelísku máli er þetta Blar og á að merkja „slétt votlendi, mýrar“. Nú er frá því að segja, að á okkar tungu eru til orðin blær = andvari og blær = hrútur. Af hinu seinna eru til örnefni sem gefa til kynna að eignar- fallið hafi verið blævar. Til var Blævardalur (Blævadalur) og Blævardalsá eða Blævadalsá. Nú er, sem sagt var, svo komið hér á landi að Blær er bæði heiti karla og kvenna. Karlmannsnafnið Blær veldur ekki miklum vanda. Þó má deila um hvort eignarfallið eigi að vera Blæs eða Blævar. Ég mæli með síðarnefndu gerð- inni. En þegar Blær er orðið kvenheiti vandast málið. Í Nöfnum Íslendinga eftir Guð- rúnu Kvaran og Sigurð Jóns- son er gefin tvennskonar beyg- ing: annaðhvort Blær, Blæ, Blæ, Blær eða Blær, Blæ, Blævi, Blævar. Mér finnst hvort tveggja vandræðalegt, enda veit ég ekki til þess að mannanafnanefnd hafi viður- kennt Blær sem kvenmanns- nafn. Á þriðja tug þessarar aldar fékk einn sveinn nafnið Blær, og í þjóðskrá 1989 voru þeir orðnir fimm, allt síðara nafn. Árið 1957 kom út bókin Brekkukotsannáll eftir Hall- dór Kiljan Laxness. Þar er konan nefnd Blær. Það hygg ég hafi ýtt undir íslenskt fólk að taka upp þetta kvenheiti. Elsta dæmi sem ég þekki er frá 1973, og í þjóðskránni 1989 var aðeins ein. Þess má geta, að til er karlheitið Blævar.  Inghildur austan kvað: Hrúturinn Janúar jarmaði, út af jafnvægisleysi sér barmaði, fannst skrílmenna siður að skera ær niður; ó, hve Snaghyrnu heitna ’ann harmaði.  Niðurlag bréfs frá próf. Baldri Jónssyni: „Þá dettur mér allt annað í hug. Hvað skyldi vera unnið við það að segja t.d. „tvötvö- jafntefli“ fremur en „jafntefli, tvö tvö“, eða „þrjútvösigur“ fremur en „sigur, þrjú tvö“? Tískan lætur ekki að sér hæða. Það er annars mesta furða hvað „bóingsjöhundruðtutt- uguogsjöþotur“ endast. Ævinlega blessaður.“  Sigurður Einarsson (1898– 1967) var gott skáld og afburða ræðumaður. Ég minnist þess að hann kom einu sinni til Ak- ureyrar og flutti þá ræðu af svo funandi sannfæringar- mætti og orðsnilld, að ég man varla aðra slíka. Það var helst að manni dytti í hug það sem sr. Matthías orti um Benedikt Sveinsson: Féll sem flaumiða, foss og háskriða – fólk stóð forviða – fall hans málkviða. En und brábarði brann sem logvarði hugurinn skapharði er sitt hauður varði. En af kveðskap Sigurðar langar mig að tilfæra ljóð hans „H.K.L.“, um gamlan skóla- bróður. Þetta ljóð birtist 1952 í bókinni Yndi unaðsstunda: Beiskur og hýr, bitur og glettinn í senn. Alltaf á verði og ögn til hliðar við aðra menn. Tómlátlegt fas, tillitið spurult og kalt. En hugsunin, stíllinn, tungutakið tindrandi snjallt. Engum andartak sýnt, hvað innst í sefa býr. Ellinnar dul og aldanna reynsla – og alltaf nýr.  Grjót er „steinar, steinasam- safn“, segir Ásgeir Blöndal Magnússon. Grjót er því safn- heiti (lat. nomen collectivum) og sjaldhaft í fleirtölu. Ekki er það þó dæmalaust, og mér finnst of mikið af því gert að tala um hnullungana, grettis- tökin, sem „grjótin“. En limru man ég eftir, þar sem mér þótti skaplegt að hafa grjót í fleir- tölu. Ekki man ég lengur hver orti: „Ég syndi yfir flaumbólgin fljótin og fleygist um aurana og grjótin, svo vakur og þolinn,“ hneggjar Vindheima-folinn, „og gef Rauðskjónu (skeifu) undir fót- inn.“ Skrattinn sjálfur lenti einu sinni í grjótvandræðum, en þá átti hann að slá allt túnið á Tindum á einni nóttu. En í Tindatúni var frægt tóftarbrot, kallað Gníputótt, sem var mjög illslægt og seinslægt. Fór svo að kölski hafði ekki lokið við að slá það, þegar dagaði. Í upp- gjöf sinni kvað hann vísu sem allir hafa ekki á einn veg, en til dæmis svona: Grjót er nóg í Gníputótt, glymur járn í steinum. Þó túnið sé á Tindum mjótt, tefur það fyrir einum. Auk þess er ekki rétt að tala um að draga „að sér“ fé, ef menn taka fjármuni með ólögmætum hætti, en á þessu var margstagast í fréttum á „Aksjón“. Þetta heitir að draga sér fé, sjá baksíðu Morgunblaðsins 19. júlí sl. Meira um þetta síðar. En Broddi Broddason fær gildan staf fyrir engin eftir- mál, þar sem glapyrðingar hefðu trúlega sagt: „Engir eft- irmálar.“ ÍSLENSKT MÁL Umsjónarmaður Gísli Jónsson 122. þáttur UNDIRRITUÐ átti því láni að fagna að vera stödd erlendis meðan gerningaveðrið vegna ógæfu Árna Johnsens reið yfir. Ég ætla því ekki að fara neinum orðum um það hér hvað mig tekur sárt að sjá samstarfsmann og ágætan vin í þessum sporum. Það var því ekki fyrr en ég kom heim og tók að lesa dagblöð liðins mánaðar að ég gat séð hvernig þar hafði verið tekið á þessu máli. Þótt ég læsi þau skrif nokk- uð vandlega gat ég ekki annað séð en að dagblöðin hefðu, þrátt fyrir smá- broslega sjálfumgleði fjallað um þessa frétt, því að frétt var þetta vissulega og hún ekki af hversdags- legra taginu, með faglegum hætti. Ég sá hins vegar ekki sjónvarp né hlust- aði á útvarp á þessum tíma og veit því ekki hver orð kunna þar að hafa fallið sem gætu réttlætt hrollvekjandi myndhverfingu Björns Bjarnasonar sem sá Árna sem særða hind með iðr- in úti á vonlausum flótta undan hræ- gömmum. Sjálfsagt hefur Björn séð eitthvað það sem olli þessum hug- renningartengslum. Ég ætlaði svo sannarlega að leiða hest minn frá allri umræðu um þetta mál en það sem því veldur að ég get hreint ekki orða bundist er dæmalaust viðtal við Davíð Oddsson í Dag- blaðinu nú fyrir stuttu. Þar slær Davíð frá sér eins og fyrirsögnin kynnir. Davíð virðist gera því skóna að and- stæðingar hans í stjórn- málum muni nota þetta mál til að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn og ríkisstjórnina og því skipti nú öllu máli að koma þeim í vörn með því að rifja upp öll hugs- anleg hneykslismál allt frá lýðveldisstofnun og leiða þau öll til þeirrar niðurstöðu að enginn hafi nokkru sinni tekið ábyrgð á gerðum sínum nema sá hinn sami hafi verið skírður og fermdur bæði inn í Heim- dall og Sjálfstæðisflokkinn. Nú eru slíkar hugleiðingar, rétt eins og hindin menntamálaráðherr- ans, einkaleg tilfinningamál og þegar slík eru borin á torg setur menn hljóða og blygðast sín. Í hæsta lagi að menn segi eins og aldursforseti þingsins,sem sjálfsagt þekkir hjörtu og nýru ríkisstjórnarflokkanna flest- um betur að þetta sé „auðvitað dæmalaus þvæla“. Ég gat hins vegar ekki orða bundist þegar ég sá að Dav- íð, þegar hann seildist í ýmsar áttir eftir samanburðarefni við hrösun Árna, hafði tekið dæmi af Guðrúnu Helgadóttur, fyrrverandi forseta Al- þingis, sem hann sagði hafa tekið fé og „endurgreitt tveim árum síðar þegar upp komst“. Á sínum tíma gerði Guðrún fulla grein fyrir því hvernig þetta mál var vaxið og efa ég ekki að Davíð Oddsson viti það jafn- vel og ég. En eins og flestir vita þá er það gömul trú að tyggi menn sömu lygasöguna nægilega oft verði hún að lokum að sannleika. Ráði menn flest- um fjölmiðlum og sanngirni þvælist ekki fyrir þeim verður slíkum sorg- lega oft að þessari trú. Í þeirri von að þetta greinarkorn megi tefja þá þróun ætla ég að rifja upp þetta 12 ára gamla „hneykslis- mál“. Þegar Guðrún Helgadóttir var kjörin forseti sameinaðs Alþingis í október árið l988 lá fyrir að hún færi bráðlega í heimsókn til Póllands á þing þingforseta Evrópulanda. Af þessari upphefð leiddu ýmis nokkuð óvænt útgjöld sem ekki eru í heim- ilisbókhaldi kvenna almennt. Það kom sum sé í ljós að þegar Ís- lendingar kusu í fyrsta sinn í sögu sinni konu sem forseta Alþingis ætl- uðust þeir til að í opinberum heim- sóknum væri hún klædd sem slíkri stöðu hæfði. Meðan tæpast eru gerð- ar aðrar kröfur til karlmanna í slíkri stöðu en að þeir geti hjálparlaust val- ið sér hálsbindi við hæfi eru kröfur um klæðnað kvenna aðrar og til muna útgjaldafrekari. Þegar Guðrún bar sig upp vegna þessa kostnaðar, sem bar vegna um- ræddrar farar brátt að og taldi sig tæpast í stakk búna til fararinnar vegna hans, var henni sagt bæði af fjármálastjóra og skrifstofustjóra Al- þingis að þess væru dæmi að Alþingi hefði fyrirframgreitt laun „þegar um væri að ræða óvænt útgjöld í tengslum við störf fyrir Alþingi“. Vandkvæði Guðrúnar voru því leyst með fyrirframgreiðslu launa sem hún svo endurgreiddi með venjulegum út- lánsvöxtum. Að sjálfsögðu var um- rætt lán og greiðslur af því í bókhaldi Alþingis og auðsæjar öllum sem vildu sjá. Það er mín skoðun að best fari á því að mál Árna Johnsen sé sem minnst rætt meðan rannsókn fer fram og í ljósi hennar verði brotalamir í eftirliti kerfisins lagfærðar og dómar kveðnir upp. Það er algerlega ótímabært meðan málið er enn í rannsókn og margt í sambandi við það óljóst, svo sem það hvar liggur ábyrgðin á því að þetta gat í rauninni gerst þrátt fyrir það eftirlitskerfi sem á að vera í gangi, að upphefja einhvern leðjuslag vegna þess. Ég tala nú ekki um að draga að ósekju inn í umræðuna konu sem ekki er lengur þátttakandi í hinni pólitísku baráttu en situr á friðarstóli sem einn af virtustu rithöfundum þjóðarinnar. Ágæti forsætisráðherra. Svona gera menn ekki. Af samanburðarfræðum Sigríður Jóhannesdóttir Hneykslismál Vandkvæði Guðrúnar voru leyst með fyrirframgreiðslu launa, segir Sigríður Jóhannesdóttir, sem hún svo endurgreiddi með venjulegum útlánsvöxtum. Höfundur er alþingismaður Sam- fylkingarinnar í Reykjanes- kjördæmi. Í ÁRANNA rás hafa staðið umræður um hinar og þessar úrbæt- ur í samfélagi okkar mannanna. Víst er að við búum í tiltölulega flóknu samfélagi og höfum sett okkur margvíslegar reglur til þess að ráða við að halda nokkurn veginn frið hvert við annað. Og ef einhverjum verð- ur á að brjóta reglurn- ar hefjast margir upp á afturlappirnar til að benda á það sem af- laga hefur farið við reglusetninguna eða til að skamma þá sem eiga að fram- fylgja reglunum. Allt of sjaldan beinist athyglin að ábyrgð þess sem hefur brotið af sér. Fyllirí og vitleysa því tengd eru dæmi um þetta. Borgarstjórn Reykjavíkur stendur frammi fyrir flóknum vanda vegna þess að í mið- borgina kemur fólk sem ræður ekki við sig – það ku vera borgarstjór- anum að kenna! Mikið hefur verið rætt um ofbeldi og skrílslæti á Eld- borg um verslunarmannahelgina og mótshaldari þar er í nauðvörn – þetta var víst allt honum að kenna! Maður er tekinn fyrir of hraðan akstur og lögreglan sektar hann – þessar löggur eru klikk! Víst má benda á ábyrgð þeirra sem eiga að setja reglurnar en ábyrgðin er og verður hinna, þeirra sem missa vitið í einskærri hamingju yfir því að geta í skjóli fjöldans látið eins og villidýr – nei, þetta er nú ekki góð samlíking því villidýr komast ekki í hálfkvisti við Íslendinga sem eru viti sínu fjær af einskærri lífsgleði. Og nú er líka allt svo ódýrt, jafnvel ókeypis – sem hlýtur að leiða af sér virðingarleysi manna gagnvart eign- um sínum sem aftur hlýtur að leiða til virð- ingarleysis þeirra gagnvart eignum ann- arra. Hitt er síðan þessu tengt og öllu verra að beri maður ekki virðingu fyrir sjálfum sér getur hann varla borið virðingu fyrir öðrum mönnum. Samábyrgðin er og verður okkar allra. Sú tíð að við Íslendingar gætum talist ein stór og hamingju- söm fjölskylda virðist liðin. Hér þekkja ekki allir alla, eins og stund- um er í hávegum haft, og höfðatalan er orðin afstæð. Við erum bara öll svo ótrúlega falleg að jafnvel útlend- ingar eru farnir að flykkjast hingað til þess að berja okkur augum. Ann- að skiptir minna máli. Eins og það að hver og einn finni einhver góð gildi til þess að rækta í sjálfum sér. Og að foreldrar finni góð gildi til að rækta með börnum sínum, já, og tíma til ræktunarstarfanna. Þetta er langtímaverkefni sem íslenska þjóð- in verður að sameinast um. Margir að standa sig auðvitað vel en enginn má undan skilinn. Reglur einar og sér munu ekki leiða íslensku þjóðina til góðs – það er blessuð þjóðarsálin sem meira máli skiptir og bót á henni verður ekki fundin í ,,blóðugum“ tölvuleikj- um og sýndarveruleika kvikmynda eða í erlendum sjónvarpsþáttum þar sem aðalsöguhetjurnar eru annað- hvort samkynhneigðar eða einbúar – nema hvort tveggja sé – og allt loft úr gamanspennunni ef einhverj- um yrði það á að verða ástfanginn í alvörunni og hjónaband er bannað í ,,Handritagerð hamingjuveitunnar ehf.“. Nei, þá er betra að ,,elska“ bara sófann og sjónvarpið, popp- kornið og pitsuna. Svoleiðis dót er nefnilega til friðs. Þessar löggur eru klikk Jóhann Guðni Reynisson Höfundur er forstöðumaður upplýs- inga- og kynningarmála hjá Hafn- arfjarðarbæ. Hegðun Allt of sjaldan, segir segir Jóhann Guðni Reynisson, beinist at- hyglin að ábyrgð þess sem hefur brotið af sér.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.