Morgunblaðið - 04.01.2002, Blaðsíða 4
FRÉTTIR
4 FÖSTUDAGUR 4. JANÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ
ÍSLENSKUR maður, sem var á
heimleið frá Washington í Banda-
ríkjunum í fyrrakvöld, var handtek-
inn og færður í fangageymslur á
flugvellinum eftir að hafa sagt að
hann væri „alla vega ekki með
sprengjur í skónum“. Þurfti hann
að dúsa um þrjá og hálfan klukku-
tíma í steininum áður en fulltrúar
lögreglunnar og bandarísku alrík-
islögreglunnar (FBI) ákváðu að láta
mál hans niður falla.
Friðrik Jónsson, sendiráðsritari í
Washington, var fyrir tilviljun
staddur á flugvellinum þegar atvik-
ið átti sér stað. „Maðurinn var í inn-
rituninni hjá Flugleiðum þar sem
verið var að fara yfir þessar hefð-
bundnu öryggisspurningar. Þar var
hann meðal annars spurður að því
hvort hann hefði pakkað sjálfur í
töskurnar sínar. Í einhverju gríni
svaraði hann því til að það hefði
hann gert og alla vega væri hann
ekki með sprengjur í skónum. Þá
var hann umsvifalaust handtekinn
og færður í fangageymslur.“
Friðrik segist hafa tekið eftir
manninum þegar búið var að hand-
taka hann og verið var að flytja
hann í fangaklefa. Hafi hann þegar
látið vaktstjóra Flugleiða á staðnum
vita um að hann væri frá sendi-
ráðinu. Í kjölfarið ræddi hann við
yfirmann lögreglunnar á flugvell-
inum og fulltrúa FBI auk þess sem
hann lét ferðamanninn vita af því að
hann væri að vinna í máli hans.
Getur orðið annaðhvort fylkis-
glæpur eða alríkisglæpur
Segir hann viðkomandi hafa verið
fullan iðrunar á því að hafa misst
þetta út úr sér og hafi það eflaust
hjálpað til við lausn málsins. „Þegar
menn gera eitthvað svona getur það
annaðhvort orðið fylkisglæpur eða
alríkisglæpur og FBI-maðurinn og
kapteinninn á staðnum gátu ekki
ákveðið sig hvor þeirra vildi gefa út
ákæru á hann,“ segir Friðrik og
bætir því við að eftir viðræður milli
aðila og afsökunarbeiðni hafi þeir
komist að þeirri niðurstöðu að best
væri að láta málið niður falla.
„Ég held að þeir séu í eilitlum
vandræðum með hvernig þeir eiga
að meðhöndla útlendinga í þessu og
það var alveg ljóst að maðurinn var
engin ógn. Hann var fyrst og
fremst sekur um skelfilegt dóm-
greindarleysi og lélegan húmor og
það er spurning hvort menn vilji
endilega setja menn í fangelsi fyrir
slíkt.“
Segir Friðrik að hann hafi verið
beðinn um að tala svolítið yfir
hausamótunum á samlanda sínum
og mælast til þess að hann biði með
það í nokkra mánuði að koma aftur
til Ameríku hefði hann það í huga.
Var búist við að viðkomandi myndi
fljúga heim til Íslands í gærkvöld.
Tók ferlið allt, frá því maðurinn var
handtekinn og þar til hann var lát-
inn laus, um þrjá og hálfan tíma.
Friðrik segir óhemju mikilvægt
að ferðalangar séu ekki að ögra
starfsmönnum á flugvöllum með
vanhugsuðum athugasemdum eins
og gerðist í þessu tilfelli. „Það er
tekið fast á þessum málum, hvort
sem fólk er með lélegt grín við
starfsmenn á flugvöllum hér eða
menn eru að senda sykur í pósti.
Lögum samkvæmt er bannað að
vera með gabb, sérstaklega á flug-
völlum og ekki síður á þessum síð-
ustu og verstu tímum.“
Hámarksdómur
allt að 15 ár í fangelsi
Hann segir litla þolinmæði hjá
starfsmönnum flugvalla og lögreglu
í slíkum málum. „Hér vinna allir yf-
irvinnu og flestir eru á tólf tíma
vöktum í stað átta tíma áður. Því
eru menn svolítið eins og strengdir
upp á þráð þannig að um leið og
eitthvað ber út af þá verður allt vit-
laust. Hann var gífurlega heppinn
að þeir voru ekki í verra skapi því
þeim var alveg í sjálfsvald sett hvað
þeir gerðu úr þessu. Ef hann hefði
lent á þeim á slæmum degi þá hefðu
þeir látið hann koma fyrir dómara
daginn eftir og ef sá dómari hefði
verið illa fyrirkallaður þá hefði
hann getað horft fram á nokkur ár í
fangelsi.“
Að sögn Friðriks virðast ekki all-
ir gera sér grein fyrir alvöru máls-
ins. „Ég veit að fyrir nokkrum dög-
um lenti rúmlega tvítug íslensk
stúlka í þessu í New York. Hún var
hálfdrukkin og með einhverjar
svona athugasemdir og hún endaði í
gólfinu með nokkra lögreglumenn
ofan á sér. Hins vegar tókst stöðv-
arstjóra Flugleiða á staðnum að
leysa þetta og hún komst meira að
segja heim með vélinni sama kvöld.
Þannig að það eru nokkur dæmi um
þetta. Ég sá til dæmis í fjölmiðlum
hér á dögunum að það var banda-
rísk kona sem hafði uppi óviður-
kvæmileg orð hér á flugvelli og hún
situr nú í tukthúsinu og sér fram á
hámarksdóm upp á allt að 15 ára
fangelsi.“
Íslenskur karlmaður hafði sprengjumál í flimtingum á flugvelli í Bandaríkjunum
Mátti dúsa á fjórða
tíma í fangaklefa
ÚTSÖLUR í verslunum eru þegar
hafnar mjög víða og fjölgar raun-
ar með hverjum deginum sem líð-
ur. Verslun er lífleg að sögn versl-
unareigenda enda væntanlega
víða hægt að gera góð kaup. Dæmi
munu vera um að verslanir bjóði
viðskiptavinum sínum að greiða
vöruna með greiðslukortakvittun
sem dagsett er fram yfir næsta
kortatímabil og því þarf ekki að
greiða fyrir vöruna fyrr en í mars.
Morgunblaðið/Ásdís
Útsölur í fullum gangi
FYRIRTÆKI í atvinnulífinu ætla
að fækka starfsfólki um tæpt hálft
prósent á næstu tveimur til þremur
mánuðum, samkvæmt könnun sem
Samtök atvinnulífsins framkvæmdu
um miðjan desember. Telja sam-
tökin að í bili virðist sem þenslunni
á höfuðborgarsvæðinu sé lokið, en
eftirspurn eftir vinnuafli aukist hins
vegar á landsbyggðinni.
Könnunin var þannig fram-
kvæmd að sendur var netpóstur til
um 1.200 fyrirtækja og bárust svör
frá 422 fyrirtækjum eða um 30%.
Niðurstöðurnar voru þær að 58 fyr-
irtæki ætluðu að bæta við sig
starfsfólki, 72 ætluðu að fækka fólki
og 283 ætluðu að hafa jafn marga í
vinnu og áður. Ætluðu fyrirtæki
með starfsemi á höfuðborgarsvæð-
inu að fækka við sig starfsfólki um
1% en fyrirtæki á landsbyggðinni
vildu fjölga starfsfólki um hálft pró-
sent.
Fram kemur að fyrir ári síðan
hafi þessu verið öfugt farið, en þá
var vilji til fækkunar á landsbyggð-
inni og mikil þensla á höfuðborg-
arsvæðinu. Segir að lækkun krón-
unnar og kvótaaukning séu
líklegustu skýringarnar á þessum
viðsnúningi, auk þess sem mörgum
stórframkvæmdum sé að ljúka á
höfuðborgarsvæðinu.
Þá kemur fram að fyrirtæki með
færri starfsmenn en tíu hyggist
fjölga fólki en stærri fyrirtæki
fækka fólki. Fyrirtæki í fiskvinnslu
vilji fjölga fólki um 2-2,5%, fyr-
irtæki í fjármálaþjónustu vilji fjölga
fólki um 1,5%, og fyrirtæki í útgerð
vilji fjölga um hálft prósent. Í öðr-
um atvinnugreinum vilji menn
fækka starfsfólki um 1,5%, og gildir
það um fyrirtæki í verslun og þjón-
ustu, rafverktaka og í iðnaði, en í
ferðaþjónustu sé samdrátturinn
minni.
Ný könnun Samtaka atvinnulífsins
á atvinnuástandinu á landinu
Vilja fækka
starfsfólki um
hálft prósent
FULLTRÚI erlendra fjárfesta
kom hingað til lands til þess að
skoða Perluna skömmu fyrir jól
og átti óformlegar viðræður við
forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur
þar sem hann spurðist fyrir um
bygginguna. Fleiri aðilar hafa
sýnt húsinu áhuga.
Að sögn Alfreðs Þorsteinsson-
ar, stjórnarformanns Orkuveit-
unnar, var það í gegnum fast-
eignasöluna Íslenska auðlind sem
maðurinn kom hingað til lands.
„Þessi aðili kom hér og skoðaði
Perluna og ræddi við forstjóra
Orkuveitunnar,“ segir hann og
bætir við að um óformlegar við-
ræður hafi verið að ræða.
Formlegrar fyrir-
spurnar að vænta
Alfreð segir að ekki hafi borist
formlegt tilboð í Perluna en telur
von á einhverju slíku frá viðkom-
andi aðila. „En þetta getur tekið
sinn tíma eins og salan á síman-
um og fleiru.“
Guðmundur Þóroddsson, for-
stjóri Orkuveitunnar, segir fleiri
hafa sýnt Perlunni áhuga. „Það
hafa verið fyrirspurnir og þess
háttar frá öðrum sem fasteigna-
salarnir hafa svarað.“ Aðspurður
segir hann fyrirspurnirnar hafa
komið bæði erlendis og innan-
lands frá. „Hins vegar er þetta
það sem hefur gengið lengst því
þessi aðili er sá eini sem hefur
komið til landsins og skoðað.“
Guðmundur vill ekki gefa upp
hvaða aðili hafi verið þarna á
ferðinni en segir að um sé að
ræða hóp fjárfesta. „Þeir
spurðust fyrir um húsið og
möguleika og þess háttar og ætl-
uðu svo að senda okkur á nýju
ári bréf með formlegri fyrir-
spurnum sem við gætum þá svar-
að. Þeir vilja alla vega taka
næsta skref.“
Erlendir fjárfestar
skoða Perluna