Morgunblaðið - 25.04.2002, Page 26
ERLENT
26 FIMMTUDAGUR 25. APRÍL 2002 MORGUNBLAÐIÐ
BANDARÍSKIR kardínálar, sem
rætt hafa við Jóhannes Pál páfa
undanfarna tvo daga í Páfagarði,
hafa samþykkt að taka upp þá
stefnu, að hver sá prestur er
verði uppvís að kynferðislegri
misþyrmingu skuli tafarlaust láta
af embætti. Framvegis muni
kirkjunnar þjónar því ekki fá
„annað tækifæri“ að því er Theo-
dore McCarrick, erkibiskup í
Washington, greindi frá í gær.
McCarrick sagði að enn væri
óvíst hvort þessi stefna yrði aft-
urvirk, þ.e. yrði látin gilda um
mál sem þegar væri orðið uppvíst
um. Kardínálarnir hugðust birta
lokayfirlýsingu sína í gærkvöld.
McCarrick sagði að ekki léki
vafi á hver hefði verið afstaða
páfa er hann ávarpaði kardínál-
ana á þriðjudaginn og sagði m.a.
að innan kirkjunnar væri ekkert
rúm fyrir menn sem ynnu ungu
fólki mein. Páfi hefði ítrekað
þessa afstöðu sína er hann
snæddi hádegisverð með banda-
rísku sendinefndinni í gær.
Fjöldi hneykslismála er tengj-
ast rómversk-kaþólsku kirkjunni
í Bandaríkjunum hefur komið
upp undanfarið. Hefur þess m.a.
verið krafist að sumir æðstu
menn kirkjunnar segi af sér
vegna þess, að þeir hafi reynt að
hylma yfir ítrekuð kynferð-
isafbrot presta gagnvart börnum
og unglingum.
Prestar
verði sviptir
embætti
Reuters
Bandaríski kardínálinn Theodore McCarrick ræðir við fréttamenn við Péturskirkjuna í Páfagarði eftir viðræður við Jóhannes Pál páfa í gær.
Vatíkaninu. AP.
BRESKA lögreglan réðst í gær
til atlögu gegn barnaníðingum,
sem stundað hafa starfsemi sína
á Netinu. Voru tuttugu og fimm
menn handteknir víðs vegar á
Bretlandi og ýmis tölvubúnaður
gerður upptækar, en talið er að á
tölvum hinna meintu barnaníð-
inga megi finna myndir er sýna
kynferðislegt ofbeldi gegn börn-
um. Um er að ræða stærstu sam-
hæfðu aðgerðir sinnar tegundar
sem breska lögreglan hefur efnt
til.
Alls gerði lögreglan húsleit á
75 stöðum í Englandi, Skotlandi,
Wales og á Norður-Írlandi. Voru
sex menn handteknir í London,
tólf á öðrum stöðum í Englandi
og sjö í Wales. Meðal hinna
handteknu var fólk sem starfar
við umönnun, kennslu og hjúkr-
un. Þá var fimmtán ára gamall
drengur handtekinn.
Lögreglan upplýsti að fylgst
hefði verið með fólki í sex mán-
uði áður en gripið var til aðgerð-
anna í gær. Meðal annars notaði
lögregla ýmiss konar búnað til
þess að rekja tölvur, þar sem
notendur stunduðu spjallrásir er
snerust um barnaklám. Telur
lögreglan að margir af þeim sem
áttu þátt í að miðla klámefni um
Netið hafi einnig stundað kyn-
ferðisofbeldi gegn börnum.
Mikil fjölgun
barnaklámsmynda
Terry Jones, lögreglufulltrúi á
Manchester-svæðinu í Englandi,
sagði að lögreglan væri fullfær
um að koma höndum yfir barna-
níðinga, sem noti Netið, þrátt
fyrir að barnaníðingar beiti ýms-
um aðferðum við dreifingu
mynda og sá fjöldi sem er í um-
ferð aukist stöðugt. Hann benti á
máli sínu til stuðnings að lög-
reglan hefði komist yfir 12
myndir árið 1994 en þær hafi
verið orðnar rúmlega 40 þúsund
árið 1999.
Sagði Jones að fjöldinn væri
orðinn yfirgengilegur. „Við erum
einfaldlega hættir að telja.“
Atlaga gegn
barnaníðingum
London. AFP.
JORGE Batlle, forseti Uruguays, tilkynnti í fyrra-
kvöld, að stjórnvöld í landinu hefðu ákveðið að slíta
stjórnmálasambandi við Kúbu. Sagði hann ástæð-
una vera móðgandi yfirlýsingar Fidels Castros,
forseta Kúbu, en hann kallaði Batlle „Júdas“ fyrir
að hafa staðið að ályktun, sem fordæmdi ástand
mannréttindamála á Kúbu á fundi mannréttinda-
nefndar Sameinuðu þjóðanna í Genf í síðustu viku.
Ályktunin var samþykkt með 23 atkvæðum
gegn 21 en níu sátu hjá. Studdu hana næstum öll
ríki Rómönsku-Ameríku en þar var skorað á
Kúbustjórn að tryggja landsmönnum meiri borg-
araleg og stjórnmálaleg réttindi. Var hún einnig
hvött til að leyfa fulltrúum Sameinuðu þjóðanna að
koma til landsins en Kúbustjórn hafnar því.
Castro kallaði raunar ekki aðeins Batlle „Júdas“
vegna þessarar samþykktar, heldur alla leiðtoga
þeirra ríkja í Rómönsku-Ameríku, sem hana
studdu.
Batlle sagði óþolandi að sitja undir svívirðingum
Castros, sem sagði meðal annars um stjórnmálin í
Ururguay, að þau væru „fyrirlitleg“ og Felipe
Perez Roque, utanríkisráðherra Kúbu, sagði, að
Uruguaystjórn væri handbendi Bandaríkjastjórn-
ar.
„Viðbrögð okkar eru mjög einföld,“ sagði Batlle
í fyrrakvöld. „Það er ekkert, sem mælir lengur
með stjórnmálasambandi við Kúbu.“
Sakar forseta Mexíkó um lygar
Alvarleg snurða hefur einnig hlaupið á þráðinn í
samskiptum milli Kúbu og Mexíkó en þau hafa
verið mjög náin hingað til. Castro hefur birt op-
inberlega hljóðupptöku, sem hann segir sýna, að
Vicente Fox, forseti Mexíkó, sé lygari.
Á upptökunni biður Fox Castro að yfirgefa þró-
unarráðstefnu SÞ í Monterrey í Mexíkó í síðasta
mánuði áður en George W. Bush Bandaríkjafor-
seti komi þangað. Castro gerði það en mexíkanskir
embættismenn hafa neitað því harðlega, að
Mexíkóstjórn hafi átt einhvern hlut í því.
Uruguay rýfur stjórn-
málasamband við Kúbu
Samskipti Mexíkó og
Kúbu einnig mjög slæm
Montevideo. AP, AFP.
SPÁNSKA lögreglan handtók í gær-
morgun Spánverja af sýrlenskum
ættum, sem hún segir hafa verið einn
höfuðpauranna í að fjármagna
hryðjuverkastarfsemi al-Qaeda-sam-
takanna í ýmsum löndum, þar á meðal
í Bandaríkjunum.
Muhammed Galeb Kalaje Zouaydi,
öðru nafni „Abu Talha“, sá meðal ann-
ars um að fjármagna „innsta hring-
inn“ undir stjórn Mohameds Atta,
foringja hryðjuverkamannanna, sem
stóðu að árásunum í Bandaríkjunum
11. september sl., að því er fram kom í
tilkynningu lögreglunnar.
Zouaydi var handtekinn árla morg-
uns og hafa verið birtar myndir af því
er hann var leiddur á brott.
„Fanginn sá um að senda mikið fé
til hryðjuverkahópa, íslamskra öfga-
manna í Bandaríkjunum, Sádi-Arab-
íu, Belgíu, Kína, Tyrklandi, Jórdaníu,
Sýrlandi, Palestínu og víðar,“ sagði í
tilkynningunni og þar kom fram, að
Zouaydi hefði notað byggingarfyrir-
tæki sem skálkaskjól fyrir fjármála-
umsvifin.
Spánska lögreglan nefndi tvo al-
Qaeda-hópa, sem fengu fé frá
Zouaydi:
Annar hópurinn var undir stjórn
Imads Yarkas en hann var handtek-
inn í nóvember ásamt 10 félögum sín-
um. Hann er sakaður um að hafa
fengið menn til liðs við al-Qaeda og
tekið þátt í að undirbúa hryðjuverkin
í Bandaríkjunum. Hinn var eða er
undir stjórn Mamouns Darkazanlis,
sýrlensks inn- og útflytjanda í Ham-
borg í Þýskalandi, en hann er sagður
hafa verið í nánum tengslum við
hryðjuverkahóp Mohameds Atta.
Þýsk stjórnvöld telja sig þó ekki hafa
nægar sannanir gegn honum.
Um miðjan þennan mánuð var Als-
írmaðurinn Ahmed Brahim handtek-
inn í Barcelona en talið er, að hann
hafi verið helsti fjármálastjóri al-
Qaeda á Spáni. Rak hann ýmis fyr-
irtæki í borginni og á Mallorca og er
talinn hafa fjármagnað árásirnar á
bandarísku sendiráðin í Kenýa og
Tanzaníu í ágúst 1998. Alls hafa 20 ísl-
amskir öfgamenn verið handteknir á
Spáni eftir 11. september en nokkrum
verið sleppt.
Háttsettur al-Qaeda-liði
handtekinn á Spáni
Talinn hafa kom-
ið að fjármögnun
hryðjuverka
AP
Lögreglumaður ásamt Zouaydi,
sem talið er að hafi fjármagnað
hryðjuverk víða um heim.
Madrid. AP, AFP.
EINN maður beið bana og yfir eitt
hundrað særðust í borginni Gnjilane
í Suðaustur-Kosovo í gær þegar
jarðskjálfti reið yfir þennan hluta
Balkanskagans. Skjálftinn mældist
5,4 á Richter og fannst einnig í norð-
urhluta Makedóníu, sem og víða í
Serbíu.
Talsverðar skemmdir urðu í mið-
borg Gnjilane við skjálftann í gær.
Jón Guðni Kristjánsson, sem starfar
í Gnjilane, á vegum Íslensku friðar-
gæslunnar fyrir Öryggis- og sam-
vinnustofnun Evrópu (ÖSE), sagði í
samtali við Morgunblaðið að menn
hefðu haldið sig úti við í gær, af ótta
við að annan skjálfta.
Einn dó í
skjálfta í
Kosovo
Gnjilane. AFP.