Morgunblaðið - 28.05.2002, Blaðsíða 40

Morgunblaðið - 28.05.2002, Blaðsíða 40
MINNINGAR 40 ÞRIÐJUDAGUR 28. MAÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ Við erum að leggjast að bryggjunni og við bíðum spennt eftir að hefja enn eitt ævintýrið á Grund, þú stendur á bryggjunni eins og alltaf til að taka á móti okkur. Framundan eru skemmtilegar stundir á Vesturgötu 41 og nágrenni. Elsku amma Ragga, þegar lækn- arnir sögðu að þú væri komin með frekar stórt hjarta kom það okkur ekki á óvart því enginn í heiminum hafði stærra hjarta og betri faðm en þú. Þú hefur kennt okkur að það er fjölskyldan sem skiptir okkur mestu máli og alltaf varst þú ánægðust þeg- ar þú hafðir okkur öll í kringum þig. Þegar við lítum til baka varstu allt- af til staðar á öllum tímamótum í lífi okkar hvort heldur var afmæli, íþróttaviðburðir eða tónleikar, alltaf varstu tilbúin, hafðir tíma og hvattir okkur áfram. Þau væru mörg augna- blikin gleymd ef ekki væri fyrir myndavélarnar þínar. Engan vitum við sem var jafn ötul og þú að taka myndir sem á því augnabliki virtust ekki skipta máli en í dag eru þetta gersemar sem við geymum vel. Þær voru ófáar gönguferðirnar um Langasand, dýfa tánum í sjóinn og safna ýmsu dóti sem virtist vera hin mesta gersemi. Þú hafðir óendanleg- an tíma fyrir okkur öll og vini okkar sem ávallt voru velkomnir með okkur. Þú vissir alltaf hvað okkur þótti best og varst með það tilbúið þegar við komum. Þú vissir ekki hvað orðið kynslóðabil þýddi enda voru vinir þín- ir á öllum aldri og þú gast flautað og raulað með allri tónlist sem við hlust- uðum á. Þú kenndir okkur að takast á við lífið með bros á vör og bera virðingu fyrir okkur sjálfum og umhverfinu. Elsku amma, takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum með þér. Þú ert okkar fyrirmynd. Guð geymi þig. Guðjón, Jón Árni og Ingibjörg. Það er komið að kveðjustund. Í dag er amma, Ragnheiður á Grund, borin til grafar. Það er margt sem kemur upp í hugann þegar ég lít yfir farinn veg. Amma Ragga var nokkurs konar skilgreining á hinni fullkomnu ömmu, enda var það svo að margir kölluðu hana ömmu Röggu þrátt fyrir að hún væri ekki amma þeirra. Þetta var nokkuð sem mér fannst skrýtið sem ungum snáða, en skildi betur síðar að amma var þeim hæfileika gædd að laða að sér fólk. Hún hafði áhrif á fólk sem varð á vegi hennar og allir voru jafnir. Hennar jákvæða viðmót og jafnaðargeð var þekkt. Í augunum á ömmu voru allir sérstakir og hún gaf fólki tíma. Það var því ekki furða að öllum liði vel í návist hennar. Heimili ömmu, Grund, var miðpunkturinn. Þar var ávallt mikill gestagangur enda var þangað gott að koma. Þegar rennt var í hlaðið var amma oftar en ekki búin að elda uppáhaldsmatinn, baka skyrtuhnappa-súkkulaðikökuna svo ekki sé minnst á kæfuna og heimabakaða brauðið. Hún gerði allar heimsóknir sérstakar. Á yngri árum dvaldi ég oft uppi á Skaga hjá ömmu og afa og voru það ógleymanlegir tímar. Tíminn leið fljótt enda var í mörg horn að líta, hvort sem það var við stíflugerð í lækjarsprænum uppi við Akrafjall, skeljatínslu á Langa- sandi, innkaupaferðum í Sláturfélagið eða Einarsbúð, nú eða í fótbolta á Merkurtúni og að ógleymdum jóla- innkaupunum með ömmu í „brot- hættu“ búðirnar. Þetta var sannur ævintýraheimur. Í dag geri ég mér betur grein fyrir því hvað ég var lán- samur að eiga svona góða ömmu og afa, sem gáfu mér ómældan tíma og athygli. Nú þegar ég kveð ömmu Röggu er ljóst að hún skilur eftir sig stórt skarð sem ekki verður fyllt. Amma Ragga kenndi mér mikið um lífið og til- veruna og mun minningin um þessa yndislegu konu lifa með mér um ókomna tíð. Amma mín, það tekur mig sárt að vera ekki heima til að fylgja þér síð- asta spölinn, en það friðar sálina að vita til þess að bænin muni sameina okkur þangað til við hittumst næst. Ég kveð þig með söknuði. Þinn Þorsteinn Guðjónsson (Doddi). Mín fyrstu kynni af ömmu Röggu voru fyrir níu árum. Þá var ég nýbúin að kynnast honum Dodda mínum. Hann bauð mér með sér í 80 ára af- mæli hennar upp á Skaga. Ég man svo vel eftir þessum degi, amma Laufey var okkur samferða upp eftir, veðrið var svo fallegt og Hvalfjarð- arvegurinn skartaði sínu fegursta. Þegar við komum í afmælið brá mér svo, því aldrei hafði ég séð eins mikið af blómum. Eftir veisluna komst mað- ur varla inn í stofuna á Grund fyrir blómum. Blómin lýstu ekki aðeins vinsældum ömmu Röggu, heldur var hún í raun öll þessi blóm, svo litrík og falleg persóna. Hún var svo einstök og gædd sérstökum persónuleika sem tók öllum jafnt. Hún gerði aldrei upp á milli fólks, barna, barnabarna, eða stjúpbarnabarna. Hún var mikið á ferðinni og ávallt var hún með mynda- vélina uppi við hvert tækifæri. Ég trúi því að persónur komi inn í líf okkar til kenna manni, en amma Ragga hefur kennt mér að allt sem skiptir máli í lífinu eru í raun góð fjöl- skyldubönd. Ekki hef ég séð jafn mikla hlýju eins og í hennar fjöl- skyldu. Amma Ragga ræktaði sam- bandið við sína fjölskyldu vel. Hún var svo lánsöm að eiga þrjár dætur og einn son. Þegar ég horfi á þau, hugsa ég um hana. Hún var í daglegu sam- bandi við þau, það var mikil um- hyggja og mátti amma Ragga ekkert aumt sjá. Böndin milli hennar og barnanna hennar voru einstök og svo sannarlega til fyrirmyndar. Amma Ragga var dugleg að koma suður til Reykjavíkur í heimsókn og var það unun að sjá kraftinn í henni. Amma Ragga tók Alla mínum frá fyrsta degi sem við kynntumst. Tók utan um hann alltaf þegar hún sá hann. Síðan komu drengirnir okkar Dodda sem fengu sömu hlýjuna frá henni. Það var sunnudagsnóttina sem við fengum hringingu út til Alabama. Ég var nýkomin af ráðstefnu og fór óvenju seint að sofa, en þegar ég er að sofna heyri ég svo fallega tónlist. Ég skildi ekki hvaðan tónarnir komu því ég hef ekki heyrt svona áður. Síminn hringir hálftíma síðar og það er tengdamamma og hún segir: „Hún er farin blessunin.“ Mín fyrstu kynni af ömmu Röggu tengdust blómum og þau síðustu tónlist sem endurspeglar minningu mína um þessa yndislegu persónu. Elsku amma Ragga, tárin streyma niður kinnarnir þegar ég skrifa þetta því ég sakna þín mikið og kveð þig með söknuði. Elsku Doddi minn, tengdamamma og pabbi, Milla, Doddi, Peta og aðrir aðstandendur, mínar samúðarkveðju sendi ég ykkur öllum. Bjargey Aðalsteinsdóttir, Aðalsteinn, Arnar Steinn og Pétur Steinn, Bandaríkjunum. Ég vil þakka Ragnheiði Þórðar- dóttur fyrir samfylgdina. Amma Ragga einsog hún er ávallt kölluð var yndisleg manneskja. Hún lýsti upp líf okkar allra með óendanlegri um- hyggju og jákvæðni. En nú er komið að kveðjustund. Hildur, Þorsteinn og Ingibjörg Elín syrgja þig hvert á sinn hátt. Þau gleyma þér aldrei. Guð blessi þig, amma Ragga. Sigríður Sigurðardóttir. Hinn 20. maí 2002 sofnaðir þú hinsta sinni. Þú ert horfin en minn- ingin um þig lifir með okkur. Ávallt höfum við vitað um þig og þína – og Ísland. Ragnheiður og Jón og fölskyldan þeirra hefur alltaf verið íslenska fjöl- skyldan okkar. Þú og mamma voruð pennavinkon- ur síðan 1929. Í 65 ár skrifuðust þið á hvor á sínu móðurmáli. Bréfin þín hófust alltaf á: „Elsku Oddrún mín...“ og enduðu á: „... Þín vinkona, Ragn- heiður“. Báðar eignuðust þið fjöl- skyldur, þú fyrst og fjögur mannvæn- leg börn uxu úr grasi á Grund. Mamma og pabbi giftu sig 1944. Þeg- ar friðurinn komst á í Noregi 1945, kom pakki með barnafötum frá þér. Þú hafðir rétt fyrir þér, þú vissir hvað okkur gæti vanhagað um. Smám sam- an fjölgaði í Björlo-húsinu og börnin urðu þrjú; Guri, Magne og Öystein. Árið 1954 fengum við loks að hitta ykkur hér í Álasundi, Jón og þig. Seinna á Akranesi og aftur í Álasundi. Hlýjan þín umvafði okkur ávallt. Það var svo gott að vera hjá ykkur á Grund! Þú fórst með okkur á Byggða- safnið á Akranesi. Sýndir okkur gömlu skólastofuna þína úr barna- skólanum, þar sem þú hafðir, sem ung stúlka fengið heimilisfang annarrar ungrar stúlku í Örsta í Noregi. Það varð að ævilangri vináttu sem flyst áfram til næstu kynslóða. Ísland hefur alltaf verið okkur mik- ilvægt. Íslenski fáninn var alltaf uppi við hjá foreldrum mínum og þessi fagri fáni skreytti líka jólatréð okkar á hverju ári. Við lærðum „Ó Guðs vors lands“ þegar við vorum lítil og við minntumst 17. júní og þekktum Al- þingi. Við fylgdumst af ákafa með í „þorskastríðunum“ og alltaf þegar Ís- land blandaðist í mál og málefni. Þegar byggðasafnsvinir frá Sunn- möre skipulögðu ferð til Íslands 1991, bauðstu upp á kaffi og ljúffengar pönnukökur. Það var ógleymanleg heimsókn fyrir 34 ferðalanga, sem fengu hjartanlegar móttökur á nota- legu heimili þínu, þegar fararstjórinn hitti íslensku móður sína. Þú átt ekki marga þína líka og það var auðvelt að þykja vænt um þig. Svo glöð og ljúf, svo jákvæð og gjafmild í áhuga þínum og umhyggju fyrir okk- ur. – Þegar Ásgeir litli kom í heim- sókn frá Noregi, aðeins tveggja ára gamall, leið honum bezt í fanginu þínu, þú varst honum amma rétt eins og þú varst þínum eigin barna- og langömmubörnum. Núna munt þú hvíla við hlið elsku Jóns þíns. Þín verður sárt saknað af okkur, en við varðveitum minningarn- ar frá mörgum og góðum árum. Takk fyrir allt það, sem þú varst okkur, kæra Ragnheiður. Í djúpri þökk minnumst við þín. Ásgeir í Bergen, Magne í Houston, Janne í Drammen, Alvhild, Gjertrud, Harald og Olav í Örsta, Öystein, Lena, Birgitte, Öivind og Guri í Álasundi. Mikil sómakona, Ragnheiður Þórð- ardóttir, Grund á Akranesi, er nú lát- in eftir 88 ára viðburðaríka ævi. For- eldrar hennar voru Emilía Þorsteinsdóttir á Grund og Þórður Ásmundsson, útgerðarmaður frá Há- teigi á Akranesi, en hún var fjórða elst af níu börnum þeirra hjóna. Af- komendur Þórðar og Emilíu eru nú um 200 alls og flestir búsettir hér á Akranesi. Eins og svo margir jafnaldrar hennar þá ólst Raggga upp við mikið frjálsræði á Akranesi um og upp úr fyrra stríði. Hún gekk í barnaskólann til Svövu Þorleifsdóttur, skólastjóra og fleiri góðra kennara, sem áttu eftir að hafa mikil og góð áhrif á hana. Aðalleiksvæðin á sumrin voru tún- in á niðurskaganum, fjörurnar við Krókalón og Lambhúsasund; Grenj- arnar og Breiðin að ógleymdum Langasandi. Eftir að búið var að taka upp á haustin, voru kartöflugarðarnir verðugur leikvangur, og þegar vetur var genginn í garð voru það skauta- svellin uppi við Mýrarhús og Garða. Lengri ferðir til leikja voru farnar upp í Garðaflóa eða upp á Akrafjall. Þetta var það umhverfi og líf sem Ragga tók mikinn þátt í og átti svo mikið eftir að móta hana. Eftir hefðbundna skólagöngu fór hún suður í Kvennaskólann og var þar í tvö ár. Þegar heim kom vann hún í verslun Sláturfélags Suðurlands í tvö ár, en um sumarið 1933 giftist hún Jóni Árnasyni, síðar alþingis- manni. Jón rak þá eigin verslun á Akranesi. Hann hætti þeim rekstri síðar og hóf störf við verslun tengda- föður síns og enn síðar tók hann við rekstri fyrirtækja Þórðar, þ.e. versl- un Þórðar Ásmundssonar, útgerðar- félagsins Ásmundar hf. og hraðfrysti- hússins Heimaskaga hf. Veitti hann fyrirtækjunum forstöðu ásamt mági sínum Júlíusi og svila Ólafi Frímann. Jón hafði frá fyrstu tíð haft mikinn áhuga á bæjar- og landsmálum og þegar Sjálfstæðisfélag Akraness var stofnað gekk hann þegar til liðs við það. Hann var kosinn í bæjarstjórn Akraness 1942, þegar Akranes fékk kaupstaðarréttindi og sat í henni í 28 ár. Árið 1959, um vorið, var hann kos- inn til Alþingis sem síðasti þingmaður Borgfirðinga því um haustið var kosið aftur eftir kjördæmisbreytinguna og var hann kosinn sem annar þingmað- ur Vesturlandskjördæmis, en þá var Sigurður Ágústsson í Stykkishólmi fyrsti þingmaður flokksins. Jón tók við af Pétri Ottesen hinum mikla þingskörungi Borgfirðinga en það var talið mikið vandaverk og ekki á allra færi. Það urðu mikil umskipti fyrir Röggu þegar Jón hafði verið kjörinn á þing og þurftu þau að hafa annað heimili í Reykjavík. Mikill erill var jafnan á heimili þeirra, bæði á Akra- nesi sem og í Reykjavík. Bæði voru það ættingjar og vinir til að heim- sækja þau bæði og eins fólk sem kom í hinum ýmsu erindagjörðum til Jóns með mál sín sem hann leysti ávallt vel úr; þá hringdi síminn langt fram eftir hverju kvöldi. Þetta var alls konar fólk, ungir og aldnir, og ekki endilega samherjar í pólitík, því allir gátu leit- að til Jóns um stuðning. Það var Jóni mikill styrkur að hafa Röggu sér við hlið. Bæði var hún holl- ráð, gestrisin og góður vinur; einnig hafði hún sjálf starfað mikið að alls kyns félagsmálum. Hún gekk ung til liðs við kvenskátahreyfinguna og Kvenfélag Akraness. Þá starfaði hún lengi í sjálfstæðisfélögunum á Akra- nesi; var formaður sjálfstæðiskvenn- afélagsins Bárunnar í tvígang og í stjórn Landssambands sjálfstæðis- kvenna. Þá vann hún lengi í sjálfboða- starfi með sjúkravinum Rauða kross- ins, m.a. við bókasafnið á Dvalarheimilinu Höfða. Ragga var fróð um gamla tímann og sagði vel frá. Hún var frá unga aldri áhuga- ljósmyndari og átti mikið safn gam- alla og nýrra mynda, bæði héðan frá Akranesi sem og annars staðar að af landinu. Við frændfólkið, sem lengi bjó á Vesturgötu 45, viljum þakka Röggu frænku fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman, og aldrei bar skugga á; fyrst á gömlu Grundinni, þar sem þau hjón bjuggu í 15 ár og síðar í nýja húsinu, Vesturgötu 41 og á Hjarðarhaganum í Reykjavík. Sú vinátta og tryggð sem Ragga sýndi okkur krökkunum á Akranesi er okk- ur ofarlega í huga. Hún var traustur vinur okkar og hafði ávallt jákvæð áhrif á umhverfi sitt. Hún var sann- arlega ein af göfugri dætrum Akra- ness. Á kveðjustund sendum við börnum hennar og tengdabörnum ásamt öðr- um ættingjum innilegar samúðar- kveðjur. Ásmundur Ólafsson. Það er nú einu sinni þannig að þeg- ar að kveðjustund kemur hrannast upp myndir og minningar um þann sem í huga manns er, og þá fer maður ósjálfrátt að velta fyrir sér tilgang- inum með lífinu og tilverunni. Þegar ég horfi til baka, til barna- og ung- lingsáranna voru þær ófáar stundirn- ar sem ég átti hjá þeim Jóni og Röggu á Grund og var ég hálfgerður heim- alningur þar á þeim tíma. Fyrir mig var þetta mikið lán því betri mann- eskjur var vart hægt að hugsa sér. Nú þegar Ragga frænka kveður og ald- urinn færist yfir mig sé ég hvað hún hefur haft góð áhrif á mig með sinni léttu lund og hvatningu til góðra verka. Ragga frænka eins og við krakkarnir í Grundarættinni kölluð- um hana var einstök manneskja, góð og blíð og lét sér annt um alla. Hún átti stórt hjarta þar sem við öll í ætt- inni áttum stað, stórfjölskyldan var henni hugleikin og hún fylgdist mjög vel með okkur öllum. Þau áhrif sem foreldrar þeirra Grundarsystkina hafa haft á þau hafa skilað sér áfram, það skynja ég mjög vel þegar maður lítur yfir þan stóra afkomendahóp Þórðar og Emilíu á Grund. Ég sagði í upphafi að margar myndir og minningar hafi farið í gegnum hugann á þessari stundu og þær allar góðar, ég mun geyma þær með sjálfum mér þar til við hittumst á ný. Þó get ég ekki látið hjá líða að segja frá okkar síðustu stund saman, en þannig var að kórinn minn kom í heimsókn á Dvalarheimilið Höfða og Ragga kom og umvafði mig eftir sönginn og lýsti ánægju sinni með hann og sérstaklega að ég stæði á sama stað og afi Þórður stóð í sínum kór. Stolt með sína ætt eins og þær systur allar. Að leiðarlokum er mér efst í huga þakklæti, þakklæti fyrir það að fá að vera litli strákurinn, og þakklæti fyrir það að fá að alast upp í þessu um- hverfi ástar og umhyggju. Móðir mín og fjölskylda vilja þakka samfylgdina og áralanga tryggð, því að þegar erf- iðleikar steðjuðu að var hún Ragga frænka alltaf til staðar. Fjölskyldunni ✝ RagnheiðurÞórðardóttir fæddist á Akranesi 22. ágúst 1913. Hún lést á Sjúkrahúsi Akraness að morgni 20. maí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Emilía Þor- steinsdóttir og Þórð- ur Ásmundsson út- gerðarmaður, Grund, Akranesi. Systkini Ragnheiðar eru: Ólína Ása, f. 1907, Júlíus, f. 1909 (látinn), Steinunn, f. 1910 lést í æsku, Steinunn, f. 1915, Arndís, f. 1917, Ingibjörg Elín, f. 1920, Þóra, f. 1922 (látin), og Emilía, f. 1927. Hinn 3. ágúst 1933 giftist Ragn- heiður Jóni Árnasyni frá Akra- nesi. Þau eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Emilía, f. 3. febrúar 1934, gift Pétri Georgssyni, hann er látinn. Dætur þeirra eru Ragn- heiður Jóhanna, Vilborg, Margrét og Petrea Emilía. 2) Þorsteinn, f. 24. september 1937, kvæntur Margréti Þórarinsdóttur. Sonur þeirra er Jón Ágúst, dóttir Þor- steins er Anna Berglind Margrét, f. 11. júní 1945, gift Guðjóni Mar- geirssyni. Börn þeirra eru Ragn- heiður, Þorsteinn, Kristín Laufey, Daði og Árni. 3) Petrea Ingibjörg, f. 14. nóvember 1949 gift Kristni Guðmundssyni. Börn þeirra eru Guðjón, Jón Árni og Ingibjörg. Langömmubörnin eru 25 og langalangömmubörnin fjögur. Ragnheiður og Jón hófu búskap á Grund 1933 og bjuggu þar alla tíð, fyrst á Gömlu Grund og síðan reistu þau sér hús á Grundar- lóðinni nr. 41 við Vesturgötu árið 1948. Fyrstu átta ár- in bjó Þorsteinn afi Ragnheiðar hjá þeim eða þar til hann lést 1941. Frá 1959 er Jón var kos- inn á Alþingi héldu þau tvö heimili, ann- ars vegar á Grund og hins vegar á Hjarðarhaga 56 í Reykjavík, allt til ársins 1977 er Jón lést. Síðast- liðið rúmt ár bjó Ragnheiður á Dvalarheimilinu Höfða á Akra- nesi. Ragnheiður stundaði nám við Kvennaskólann í Reykjavík í tvö ár. Eftir Kvennaskólann vann hún í verslun Sláturfélags Suðurlands á Akranesi í tvö ár eða þar til hún gifti sig. Hún var einn af stofn- endum Kvenskátafélags Akraness og var skáti alla tíð. Hún var einn- ig einn af stofnendum Bárunnar – félags sjálfstæðiskvenna á Akra- nesi og átti sæti í stjórn Lands- sambands sjálfstæðiskvenna. Hún var virkur þátttakandi í mörgum öðrum félögum eins og Kven- félagi Akraness, Rauða krossi Ís- lands o.fl. Hún hafði mikinn áhuga á íþróttum og fylgdist með liði sínu ÍA af lífi og sál. Útför Ragnheiðar fer fram frá Akraneskirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 14. RAGNHEIÐUR ÞÓRÐARDÓTTIR
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.