Morgunblaðið - 06.06.2002, Blaðsíða 51
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 6. JÚNÍ 2002 51
Sími 562 0200
Erfisdrykkjur
við Nýbýlaveg, Kópavogi
sem þurftu. Sem dæmi má nefna að
allmargir illa settir einstaklingar í
Austurbæ áttu daglega vísan mat hjá
Valgerði. Ákveðnir sísvangir vinir
Matthíasar gengu einnig að sínum
bita vísum í tilteknum skáp í eldhús-
inu. Lóa ólst því ásamt systkinum
sínum upp við lífssýn fórnfýsi, mann-
úðar og mildi sem hún tók sér sann-
arlega til fyrirmyndar. Lóa var elsk-
uð á þessu heimili og hún endurgalt
lífgjöf fósturforeldra sinna margfalt
með óendanlegri umhyggju fyrir
þeim og fjölskyldunni allri. Fjöl-
skylda okkar Matthíasar fór ekki
varhluta af því og fyrir það er þakkað
hér af einlægu hjarta. Sönn hjálp-
arhella var þessi kona og máttar-
stólpi af stærri gerðinni, þrátt fyrir
fínleikann, hversdagshetja, sterkari
en stærstu tröll sem fáir stóðust
snúning.
Í heimi Bergþóru og hennar líka
fær enginn neitt fyrir ekkert. Hver
vinnur þar hörðum höndum fyrir
sínu. Þar er hina sönnu máttarstólpa
samfélagsins að finna. Himinn og haf
skilja að heim Bergþóru og þá sýnd-
arveröld sérgæsku sem nútíminn
einkennist svo af. Allt sem einkenndi
lifnaðarhætti Bergþóru stríðir gegn
græðgi og sérhyggju nútímans þar
sem bumbur eru barðar fyrir þeim
sem skara eld að eigin köku og
„máttarstólpar“ sýndarmennskunn-
ar klappa hverjir öðrum lof í lófa með
skrumi.
Í raunheimum var Lóa húsmóðirin
og verkakonan með rausnarheimili
sem öllum stóð opið. Ásamt eigin-
manni sínum, Ágústi Guðjónssyni,
verkamanni á Eyrinni ól hún upp
fimm börn: Garðar Val, Grétu, Guð-
jón, Hinrik og Valgerði. Móðurhlut-
verki sínu sinnti hún af stakri um-
hyggju enda eru börn þeirra
samhent og farsælt fólk.
Allt var úthald þessa fjölmenna
heimilis á eigin kostnað og rekið með
einstakri reisn þess er öðrum eys og
engum skuldar. Hún ól sjálf þrjú
börn og tók tvö lítil systurbörn sín í
ástríkt fóstur, elskaði þau og tilbað
sem sín eigin. Hún vann innan og ut-
an heimilis hörðum höndum og
greiddi af hverri krónu alla ævi.
Lóa var ávallt hinn rausnarlegi
veitandi, en úr eigin vasa. Litla, fín-
lega Lóa var hláturmild og glaðsinna
og jafnan tilkippileg í eitthvað
óvænt. Að gera eitthvað óvænt,
skella sér í Kjósina eða í sumarbæ til
okkar í Þjórsárdal – ekkert sjálf-
sagðara fyrir Lóu. Aufúsugestur var
hún auðvitað. Verst að aldrei mátti
hafa fyrir henni. Samband mitt og
Lóu varð fljótlega mjög sterkt og
með árunum varð hún mér sem önn-
ur móðir og einlæg vinkona, enda
ung í anda allt til enda.
Lóa var fögur fyrirmynd með heil-
steyptum persónuleika, sterkri,
óeigingjarnri og glaðri lund. Hún var
klettur, eins konar vegvísir í lífi okk-
ar allra þessi glaðbeitta, mann-
gæskukona. Gleggst kom styrkur
hennar þó í ljós í snarpri en harðri
snerru við lævíst innanmein sem
varð henni að aldurtila hinn 30. maí
sl. Hún gerði lítið úr því öllu og sló á
létta strengi – hlífði okkur fram á síð-
ustu stund.
Manneskjur eins og Lóa eru mikill
búhnykkur hverju þjóðarbúi. Bumb-
ur eru þó sjaldnast barðar til heiðurs
slíkum hetjum hversdagsins. Í heimi
raunveruleikans er engin hefð fyrir
skrumi, enginn tími eða þörf fyrir
uppgerð og sýndarmennsku. Þeir
sem klappa henni Lóu lof í lófa nú að
leiðarlokum gera það af einlægri ást
og aðdáun – ekki til málamynda eða
til að sýnast.
Svo uppsker hver sem hann sáir,
segir máltækið og svo mikið er víst
að mikið var hún elskuð af börnum
sínum, afkomendum þeirra og börn-
um okkar Matthíasar. Börnin hennar
báru hana enda á höndum sér um
leið og þau höfðu vit til. Það er því
hópur sannra ástvina sem syrgir
sinn gjöfula og glaðsinna gullfugl í
dag.
Við kveðjum hér ástkæra konu
með trega í hjarta og óskum þess að
allar bestu vættir þessa heims eða
annars geymi hana Lóu. Von okkar
er að það rætist að hún uppskeri nú
svo sem hún sáði. Hugheilar þakkir
fyrir okkur öll.
Elín G. Ólafsdóttir
og fjölskylda.
✝ Ellen Þóra Snæ-björnsdóttir
fæddist í Reykjavík
6. maí 1935. Hún lést
á líknardeild Land-
spítalans í Kópavogi
fimmtudaginn 23.
maí síðastliðinn. For-
eldrar hennar voru
Snæbjörn Eyjólfsson
frá Kirkjuhóli á Snæ-
fellsnesi, f. 6. ágúst
1897, d. 19. ágúst
1973, og Sigríður D.
Jónsdóttir, f. 8. mars
1900, d. 13. apríl
1994. Bræður Ellen-
ar eru: 1) Eyjólfur, f. 4. júní 1928,
d. 25. apríl 1988; k.h. Edith Nico-
laidóttir, f. 23. mars 1923. 2) Búi,
f. 9. ágúst 1929; kh. Áslaug Jóns-
dóttir, f. 3. apríl 1928. Hálfbróðir
samfeðra er Sævar Snæbjörns-
son.
Hinn 20. október 1963 giftist
Ellen Birni Auðunni Blöndal Har-
aldssyni, f. 14. júní 1921, d. 5. apr-
íl 1995. Ellen og Björn eignuðust
fimm börn. Þau eru: 1) Snæbjörn
Heimir Blöndal rafeindavirki, f.
27. febrúar 1958, k.h. Sigrún
Friðþjófsdóttir. Þeirra börn: Frið-
þjófur og Ellen Þóra. Sonur Sig-
rúnar er Daníel Kári Stefánsson.
2) Drengur, andvana f. 1962. 3)
Margrét Sigríður Blöndal hjúkr-
unarfræðingur, f. 4.
júlí 1963, m.h. Guð-
mundur Breiðfjörð.
Börn Guðmundar:
Áslaug og Harrý
Freyr. 4) Kristjana
Elínborg Blöndal
viðskiptafræðingur,
f. 5. desember 1966,
m.h. Gylfi Geir Guð-
jónsson. Þeirra börn
Auðunn Örn og
Benedikt Snær. 5)
Kirstín Erna Blön-
dal söngkona, f. 15.
apríl 1970, m.h. Örn
Arnarsson. Synir
Björns eru: Björn, f. 14. maí 1946,
Gísli, f. 8. júlí 1947, og Kristinn, f.
13. september 1955.
Ellen ólst upp við Laugaveginn
í Reykjavík. Hún lauk gagnfræða-
prófi frá Austurbæjarskóla. Hún
var ritari í Vogaskóla og vann við
umönnun á Kópavogshæli. Hún
var ritari í Öskjuhlíðarskóla, bók-
ari og gjaldkeri hjá heildverslun
Skjaldberg á Laugavegi og skrif-
stofustjóri og læknaritari í Kjar-
valshúsi, seinna Greiningar- og
ráðgjafarstöð ríkisins frá 1975–
2000 er hún lét af störfum vegna
heilsubrests.
Útför Ellenar verður gerð frá
Hallgrímskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 13.30.
Elsku Lilla frænka mín, það er
komið að kveðjustund. Þú varst
yngst þriggja systkina og nafngiftin
Lilla festist snemma við þig í okkar
fjölskyldu. Samband okkar varð
fljótt náið og hélst þannig alla tíð.
Minningar frá Rauðarárstígnum,
Laugaveginum, Grettó og Selinu,
sumarbústað okkar stórfjölskyld-
unnar, leita á hugann.
Tilfinninganæmi þitt var mikið,
enda var gott að ræða við þig um hin
margvíslegustu málefni og vita af
trúnaði þínum. Þú bjóst yfir miklum
listrænum hæfileikum, málaðir,
elskaðir góða tónlist og söngst. Það
var þér eðlislægt að miðla af góðsemi
þinni og elsku og naut ég þess í rík-
um mæli.
Sjúkdómi þínum mættir þú eins
og sönn hetja og hélst þú öllu því
besta í fari þínu allan tímann og til
hinstu stundar.
Ég kveð þig, elsku Lilla mín, með
miklum söknuði um leið og ég er
þess fullviss að þú ert nú meðal engl-
anna.
Elsku Snæbjörn, Margrét, Krist-
jana, Erna og fjölskyldur, þið studd-
uð móður ykkar svo einstaklega vel
og dyggilega í baráttunni. Ykkur,
föður mínum og öllum aðstandend-
um sendi ég mínar innilegustu sam-
úðarkveðjur.
Minning Lillu lifir með okkur öll-
um.
Sigríður frænka.
Og ég sá nýjan himin og nýja jörð,
því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð
voru horfin og hafið er ekki framar til.
(Opinberun Jóhannesar, 21.1.)
Þeir fara hver af öðrum, ástvin-
irnir. Kynslóð foreldra minna.
Fólkið sem ég virti og leit upp til.
Ellen var ein af þessum ástvinum.
Hún var gift föðurbróður mínum
Birni H. Blöndal en hann var ein-
eggja tvíburi við föður minn Gunnar
H. Blöndal. Þannig tengdumst við.
Og tengslin voru afar sterk.
Ég man þig enn og mun þér aldrei gleyma,
minnig þín helgar gamla töfraheima,
blessað sé nafn þitt bæði á himni og jörðu.
(Davíð Stef.)
Raunveruleg snerting manna
verður þegar þeir opnast hið innra
hver fyrir öðrum.
Þannig snerti Ellen mig. Hún bjó
yfir miklum kærleika, var viðkvæm,
blíð og góð kona, allt að því brothætt,
en samt sterk.
Hún unni manni sínum og börnum
og bar hag þeirra alltaf fyrir brjósti.
Hún var líka stolt af þeim og
leyndi því aldrei.
Ættartengslin voru henni mikil-
væg og þegar Blöndalsbræðurnir
féllu frá var henni í mun að við börn-
in þeirra héldum tengslum.
Ellen var elsk að tónlist, en tónlist
var alltaf í hávegum höfð á heimilum
tvíburanna.
Hún naut þess að fara á tónleika
og mannamót.
Hún klæddist fallega og á góðum
stundum, þegar fjölskyldan kom
saman, skein sól hennar alltaf þótt
ekki reyndi hún að vera áberandi.
Hún hafði góða nærveru og átti sér-
staklega fallegt samband við börnin
sín, tengdabörn og barnabörn, en
þau mynduðu þéttan verndarhring
utan um hana, hlúðu að henni og
leiddu hana inn í efri árin með ást og
umhyggju eftir að Bjössi féll frá.
Ellen hélt upp á 67 ára afmælið
sitt á líknardeild Landspítalans í
Kópavogi 6. maí sl.
Þrátt fyrir þjáðan líkamann sat
hún hnarreist eins og hefðarkona,
fallega klædd og naut stundarinnar,
umvafin því sem henni var kærast,
fjölskyldunni og vinunum.
Mér fannst hún alltaf eiga í mér.
Hún sýndi mér og Björgu dóttur
minni alltaf mikinn kærleika og um-
hyggju og fyrir það þakka ég henni.
Ég vil þakka minningarnar sem
eru svo dýrmætar. Þakka samvistir
og samfylgd með látinni vinkonu.
Þakka henni allt sem hún var mér.
Drottinn veiti henni eilífa hvíld og
láti sitt eilífa ljós lýsa henni. Hún
hvíli í Guðs friði.
Ég bið algóðan Guð að umvefja og
helga söknuð fjölskyldu hennar og
trega.
Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum
lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum,
þar sem ég má næðis njóta.
Já, gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína,
og í húsi Drottins bý ég
langa ævi
(23. Davíðssálmur.)
Áslaug M.G. Blöndal.
Nú get ég aldrei heimsótt hana,
hún var svo falleg og góð, en hún er
samt í hjartanu mínu, nú er hún eng-
ill.
Björg Blöndal.
Í dag er komið að kveðjustund.
Sorg og söknuður leita á hugann, en
margar dýrmætar minningar eftir
60 ára einlæga vináttu sitja eftir.
Þess vegna er mér ljúft að minn-
ast Ellenar, bernsku- og æskuvin-
konu minnar, með nokkrum orðum.
Leiðir okkar lágu saman þegar í
sjö ára bekk og æskuárin studdum
við hvor aðra með ráðum og dáð.
Við vorum einstaklega samrýndar
og aldrei varð okkur sundurorða.
Hún hafði ríka réttlætiskennd og
fylgdi hverju máli eftir af festu og
réttsýni.
Eftir því sem árin líða vegur
traust vinátta æ þyngra og verður
ekki metin til fjár.
Reyndar vorum við æskuvinkon-
urnar þrjár, en sú yngsta, Kristín
frænka mín, lést 11. september árið
2000. Þannig er ganga lífsins. Eng-
inn veit hver er næstur.
Æviferill Ellenar verður ekki rak-
inn hér. Það munu aðrir gera, en
mikið á ég eftir að sakna hlýju,
hljómfögru raddarinnar í símanum;
„Sæl Edda mín, þetta er bara ég.“
Alltaf jafn blíð og elskuleg þrátt
fyrir illvígan sjúkdóm. Oftast lauk
hún samtalinu með því að segja:
„Guð veri með þér og þínum.“
Þetta eru yndisleg kveðjuorð og
þannig vil ég minnast hennar, um
leið og ég þakka einstaka tryggð og
vináttu.
Ég trú því að hennar bíði góð
heimkoma, því að frelsarinn gefur
okkur þau fyrirheit, sem við getum
treyst: „Ég er upprisan og lífið. Sá
sem trúir á mig mun lifa þótt hann
deyi.“ (Jóh. 11.25.)
Börnum og öðrum ástvinum sendi
ég innilegar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning mætrar konu.
Evlalía K. Guðmundsdóttir.
Það er komið að kveðjustund. Á
kveðjustundinni líður hugurinn yfir
samverustundirnar á lífsleiðinni.
Ellen Þóra, sem ég kallaði alltaf
Lillu, er látin. Við höfum þekkst frá
því við vorum ungar telpur, innan við
fermingu, bjuggum í sömu götu og
næstu húsum og vissum alltaf hvor
af annarri gegn um árin. Svo vildi til
að seinna meir unnum við saman um
árabil á sama vinnustað. Þar eins og
annarsstaðar var Lilla vel liðin
vinnukraftur og félagi.
Lilla giftist Birni Blöndal sem er
látinn eftir erfið veikindi. Þau eign-
uðust fjögur mannvænleg börn sam-
an. Það voru hennar mestu auðæfi,
enda reyndust þau henni sem best
þau máttu, til hinstu stundar.
Lilla hafði yndi af tónlist, rödd
hennar í söng var hugljúf, eins og
hún var ævinlega.
Lilla fékk því miður ekki að njóta
lengri samverustunda með ástvinum
sínum, ólæknandi sjúkdómur kvaddi
dyra, örlög hennar voru ráðin.
Ég kvaddi hana skömmu fyrir
andlátið, æðrulausa, eins og lífsstíll
hennar var.
Börnin hennar kveðja góða móð-
ur.
Ég bið fjölskyldu hennar blessun-
ar. Hún hvíli í friði.
Halla Bergþórsdóttir.
Þegar fólk vinnur náið saman í
áratugi á litlum vinnustað þar sem
nálægðin er mikil og þar sem sam-
vinna og samhugur í verki skiptir
meginmáli, þá verða böndin sterk
sem tengja slíka vinnufélaga saman.
Ellen var tiltölulega nýkomin til
starfa í Kjarvalshúsi þegar ég steig
þar fæti inn í fyrsta sinn, þá sem
nemi í þroskaþjálfun. Mér er hún
minnisstæð strax frá fyrstu kynnum.
Hún tók glaðlega og hlýlega á móti
mér þessi laglega og huggulega kona
sem sat á bak við ritvélina á skrif-
stofunni og kynnti sig sem læknarit-
ara staðarins og „alt mulig“ mann-
eskju á skrifstofunni: „Ég spila bæði
á síma og ritvél og hvað það nú heitir
allt saman,“ sagði hún og hló og ef
þig vantar eitthvað, elskan mín, þá
talarðu bara við mig, hún Lilla litla
reddar því.“ Það er notalegt að vera
boðin velkomin á þennan hátt og
þessari setningu hef ég aldrei
gleymt. Það má eiginlega segja að
frá þessum degi höfum við unnið
nær óslitið saman, átt samskipti
bæði í blíðu og stríðu, af heiðarleika
og virðingu hvor fyrir annarri. Með
árunum hefur vinskapurinn og
væntumþykjan styrkst, við höfum
gengið lífsveginn samsíða, fylgst
með börnum hvor annarrar vaxa úr
grasi, deilt saman sorg og gleði úr
hvor annarrar ranni. Þannig hefur
lífshlaup okkar verið samofið án þess
þó að við værum með nefið niðri í
öllu er fram fór utan vinnutímans
hvor hjá annarri. Við höfum samt
alltaf verið þarna hvor fyrir aðra ef á
þurfti að halda og það er mikilvægt í
lífinu að eiga slíkt samverkafólk.
Með árunum lærir maður að þekkja
hin ýmsu blæbrigði í daglegu fari og
lesa í dagfarið og á þann hátt vera
nálægur.
Eitt af því sem gefur lífinu á
vinnustað gildi er að geta skemmt
sér og glaðst saman, það gat Ellen
því hún var tilfinningarík og glað-
sinna og hrókur alls fagnaðar á góð-
um stundum. Ellen hafði ákaflega
fallega söngrödd og hún var með af-
brigðum ljóð- og söngelsk. Mér eru
minnisstæðir ljóðaupplestrar henn-
ar á jólagleði í Kjarvalshúsi og eng-
inn söng betur Sóleyjarkvæði en
hún. Nú höfum við sungið saman
Sóleyjarkvæði í hinsta sinn, það
gerðum við örstuttu fyrir andlát Ell-
enar. Hún var þá farin að kröftum og
gat lítið tjáð sig en þegar ég spurði
hvort við ættum að syngja Sóley sólu
fegri, einu sinni enn, brosti hún og
varirnar bærðust eftir hljóðfallinu,
þannig kvöddumst við. Ellen lét af
störfum á Greiningarstöð fyrir
tveimur árum og hún var ákaflega
sátt við þá ákvörðun, þótt vafalaust
hafi ekki verið sársaukalaust að taka
hana. Hún hafði margsinnis orð á því
að sér liði svo vel með þessa ákvörð-
un og að nú ætlaði hún að njóta lífs-
ins með börnum og barnabörnum, en
þá knúði hinn miskunnarlausi vá-
gestur dyra. Ellen greindist með
krabbamein sem að lokum hafði bet-
ur í baráttunni um lífið.
Ég hef lært mikið af því að um-
gangast Ellen þann tíma sem hún
háði hildarleikinn. Með ótrúlegu
viljaþreki, jákvæðni og skapfestu
tókst hún á við sjúkdóminn. Hún lét
aldrei bugast þótt verulega reyndi á
hana og hún sýndi okkur hinum sem
hjá stóðum þvílíkan styrk og æðru-
leysi að maður fór betri manneskja
með gleði í hjarta af hennar fundi.
Ellen stóð ekki ein í þessum hild-
arleik, börnin hennar stóðu við hlið
móður sinnar alveg frá fyrsta degi,
studdu hana og styrktu á þann hátt
að unun var að fylgjast með. Þau
höfðu fengið gott veganesti úr upp-
eldinu og það sýndu þau móður sinni
nú með þeirri ást og umhyggju sem
þau umvöfðu hana með þar til yfir
lauk.
Ég kveð kæra vinkonu og starfs-
félaga með þakklæti í hjarta, hún
hefur kennt mér mikið þessi sein-
ustu ár og ég stend styrkari og ríkari
eftir. Blessun Guðs sé með henni og
eftirlifendum hennar. Börnum Ell-
enar og fjölskyldunni allri sendi ég
mínar einlægustu samúðarkveðjur.
Guð geymi þig, Ellen mín.
Pétrína Ó. Þorsteinsdóttir.
ELLEN ÞÓRA
SNÆBJÖRNSDÓTTIR
Handrit afmælis- og minningargreina skulu
vera vel frá gengin, vélrituð eða tölvusett.
Sé handrit tölvusett er æskilegt, að disk-
lingur fylgi útprentuninni. Auðveldust er
móttaka svokallaðra ASCII-skráa, öðru
nafni DOS-textaskrár. Ritvinnslukerfin
Word og Wordperfect eru einnig auðveld í
úrvinnslu. Senda má greinar til blaðsins í
bréfasíma 569 1115, eða á netfang þess
(minning@mbl.is) — vinsamlegast sendið
greinina inni í bréfinu, ekki sem viðhengi.
Nánari upplýsingar má lesa á heimasíðum.
Það eru vinsamleg tilmæli að lengd greina
fari ekki yfir eina örk A-4 miðað við með-
allínubil og hæfilega línulengd – eða 2.200
slög. Höfundar eru beðnir að hafa skírnar-
nöfn sín en ekki stuttnefni undir greinunum.