Morgunblaðið - 10.07.2002, Blaðsíða 33

Morgunblaðið - 10.07.2002, Blaðsíða 33
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 10. JÚLÍ 2002 33 gjarn og vildi gera hvað sem var fyrir fjölskyldu sína og aðra. Hann kenndi okkur margt og við eigum margar góðar minningar um hann. Hann var alltaf á fullu, annaðhvort að ferðast með ömmu, vinna eða dytta að og bæta. Af einhverri ástæðu kunni afi nánast að gera við allt, hann hætti aldrei fyrr en hann var búinn að klára verkið sem hann var að vinna. Hann kenndi okkur að negla með hamri, smíða spýtubáta og hjálpaði okkur að búa til kofa úti í skógi þegar við bjuggum í Am- eríku. Oft fóru afi og amma með okkur uppí sumarbústað, í berjamó, spiluðu við okkur á spil eða við fór- um bara á rúntinn að kaupa ís. Afi vissi að Jón Ágúst var spennt- ur fyrir endurvinnslunni, og stund- um þegar hann átti leið framhjá setti hann poka með flöskum og dósum í bílskúrinn hjá okkur. Dag- inn sem afi dó hringdi Jón í afa til að þakka honum fyrir poka, hreyk- inn með ávísunina sína úr Sorpu. Marinella dáðist mjög að því hvað afi var góður sjúklingur í læknisleik með þeim frænkunum úti í Norður- Karólínu um páskana. „Hann þoldi allt næstum því. Við fórum með hann inní skáp af því að það átti að vera aðallæknisherbergið. Svo var hann alltaf í góðu skapi.“ Þegar við vorum lítil sagði hann okkur alltaf að ef við vildum verða stór og sterk eins og Jón Páll þá þyrftum við að taka lýsi á hverjum einasta degi. Í okkar augum var afi einmitt þannig, sterkur og hraust- ur, og þess vegna vorum við engan veginn búin undir dauða hans. Hann virtist eiga svo mikið eftir. Okkur fannst afi ljóma síðustu vikurnar, hann var alltaf með glampa í augunum. Rúmum mánuði áður en hann dó fór öll fjölskyldan saman til Portúgal til að fagna 50 ára brúðkaupsafmæli þeirra. Hann geislaði af gleði í þeirri ferð og var þakklátur fyrir að hafa alla fjöl- skylduna í kringum sig. Við munum öll geyma minningarnar úr þeirri ferð eins og fjársjóð. Síðustu tvær helgarnar í lífi afa var hann viðstaddur brúðkaup barnabarna sinna. Þar dansaði hann við ömmu og naut lífsins glað- ur og ánægður. Daginn sem hann dó var hann að taka upp rabarbara með ömmu. Á fullu eins og alltaf. Líklega hefði hann kosið að deyja á þennan hátt frekar en að liggja á spítala í langan tíma. Við munum sakna hans sárt en erum þakklát fyrir að hafa átt hann. Hrafnhildur, Víkingur, Marinella og Jón Ágúst. Elsku besti afi. Mikið erum við þakklát fyrir að hafa eytt góðum tíma með þér þegar þið amma dvölduð hjá okkur í Ameríku fyrr í vor. Ógleymanlegar minningar á ég frá hinum ýmsu gönguferðum um hverfið okkar, upp á róló eða þegar þú hjálpaðir mér að hjóla ýmist úti á götu eða inni í bílskúr, eða hjálp- aðir mér að læra að sparka fótbolta og fórst með mér á fyrstu fótbolta- æfingarnar. Sumarið áður hjálpaðir þú mér að synda í sundlauginni ná- lægt heima hjá okkur. Eða þegar við komum til Íslands og foreldrar mínir voru enn sofandi eftir langt ferðalag fórstu með mér að gefa öndunum brauð niður á læk í Hafn- arfirði. Það var líka alltaf svo gam- an að koma með ykkur ömmu í sum- arbústaðinn og leika úti með þér eða fara í pottinn. Við eigum skemmtilegar myndir og fallegar minningar. Þakka þér fyrir allt, elsku besti afi, og Guð geymi þig. Nú legg ég augun aftur, ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virzt mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. (Þýð. S. Egilsson) Þín afabörn Marinella Ragnheiður og Jón Haukur. Mánudagskvöldið 1. júlí bárust okkur þær hræðilegu fréttir að elsku Jón afi okkar væri látinn. Þetta var sorglegur endir á yndis- legu vori sem öll fjöldskyldan hefur átt saman. Malla amma og Jón afi hafa verið kjölfestan í fjölskyldulífi okkar. Fréttin af andláti hans kom eins og þruma úr heiðskíru lofti, þar sem afi var hinn hressasti og skemmti sér konunglega í brúð- kaupunum tveimur hjá barnabörn- um sínum sem voru síðustu tvær helgarnar á undan. Einnig naut hann þess mjög að eiga yndislegan tíma með allri fjölskyldu sinni úti á Portúgal í lok maí, þar sem haldið var upp á gullbrúðkaup hans og ömmu. Margar minningar leita á hugann þegar við hugsum til afa. Hann hafði margar skemmtilegar matar- venjur. Sultan hennar ömmu var ómissandi á borðum hjá honum. Þá var sama hvort hann var að borða stórsteik eða pizzu. Amma hugsaði alltaf vel um afa og að hann borðaði rétt. Eftir góðan mat hjá ömmu fannst honum gott að fá sér góðan lúr, en þann eiginleika sem og ýmsa aðra höfum við barnabörnin fengið í arf frá honum. Afi hafði mjög gaman af að ferðast. Hann og amma hafa heim- sótt mörg framandi lönd síðustu ár- in og naut hann þess mjög að skoða heiminn. Ófáar urðu ferðirnar upp í Húsafell með ömmu og afa og eig- um við margar góðar minningar þaðan. Afi var listasmiður og eyddi hann mörgum stundum í að smíða með okkur barnabörnunum uppi í Húsafelli. Þar var alltaf nóg til af hömrum, nöglum, sögum og spýtum og byggði hann sjálfur stóran hluta af umgjörðinni kringum bústaðinn. Fyrir tíu árum voru hann og Halli Hrannar nokkra daga að byggja virki úr trjágreinum í lautinni á bak við rólurnar, sem stendur að hluta til enn. Einnig má nefna hluti eins og kassabíla, báta og frumlegar músagildrur sem smíðaðar voru uppi í Húsafelli með afa. Eitt af því sem afi hafði áhuga á voru bílar og var hann með mikla bíladellu. Hann er einn fárra Ís- lendinga sem hafa eignast skrið- dreka og það þrjá. Í hvert sinn sem við höfum séð gamlan bíl á götunni segir pabbi: „Svona bíl átti afi einu sinni. Þrátt fyrir að afi og amma hafi verið gift í 50 ár, fékk afi alltaf stjörnur í augun í hvert skipti sem hann sá ömmu. Hann var ófeiminn við að sýna hvaða tilfinningar hann bar til hennar. Alltaf var talað um þau sem eitt, en ekki sitt í hvoru lagi, þau voru mjög samheldin. Elsku amma, missir þinn er mik- ill og við biðjum góðan Guð að styrkja þig sem og alla fjölskyld- una. Elsku afi. Þín verður sárt saknað og við þökkum fyrir allar samveru- stundirnar og góðu minningarnar sem við eigum. Þín barnabörn Gísli, Marinella og Haraldur. Kær frændi minn er fallinn frá. Við vorum systrabörn og amma og afi, Gissur Sigurðsson og Jónína Ásgrímsdóttir, áttu aðeins fjögur barnabörn. Ég var elst þeirra, dótt- ir Guðrúnar, þeir bræður Jón og Þórir synir Steinunnar og Ásbjörg dóttir Ásu. Ég var þriggja ára þeg- ar Jón fæddist og því mikið að gera með litla frændann. Mínar fyrstu æskuminningar tengdust líka hon- um og hans fólki.Við systrabörnin fjögur nutum mikillar athygli afa og ömmu sem þá bjuggu í Reykjavík. Þegar við stálpuðumst fengum við að heimsækja þau í bæinn, sem var ólíkur heimi sveitarinnar. Þegar við Nonni vorum að alast upp í Lands- veitinni, ég á Minni-Völlum og hann í Hvammi, höfðum við mikið saman að sælda. Á milli bæja var rúmlega klukkustundar gangur. Við fengum að fara í heimsókn hvort til annars og gista. Það kölluðu mæður okkar orlofsnætur. Þá var alltaf mikil til- hlökkun og spenna. Ég minnist þess eitt sinn að við mamma vorum að gæta að lambfé og vorum á hesti, ég fyrir aftan. Þá sáum við hvar Steinka og Nonni komu gangandi. Ég var með svipu og svo mikill hug- ur var í mér að ég sló í hestinn og máttum við mæðgur þakka fyrir að detta ekki af baki í látunum. Þetta sýnir hvað við vorum samrýnd. Svo þurftum við alltaf að sýna hvort öðru allt það sem okkur þótti mikið til koma, svo sem fjárhúsin, hest- húsin o.fl. Gegnum árin höfum við frændsystkinin haft jafnt og nokk- uð mikið samband þrátt fyrir mis- munandi aðstæður og áhugasvið. Mér var Nonni frændi alltaf mjög kær. Þegar ég svo eignaðist eigin fjölskyldu og heimili að Nýlendu á Stafnesi var hann til staðar, hjálp- fús við flutninga á byggingarefni og við aðra aðstoð. Auðvitað komu þau hjónin svo alltaf fyrst upp í hugann þegar bjóða átti til veislu ferminga eða stórafmæla. Einnig nutum við mikillar gestrisni og hlýju hjá þeim. En ég er viss um að það verða aðrir til að rekja starfsævi Jóns, þetta voru bara minningarbrot Jónu frænku. Kallið er komið, komin er nú stundin, vinaskilnaðar viðkvæm stund. Vinirnir kveðja vininn sinn látna, er sefur hér hinn síðsta blund. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. (V. Briem.) Ég bið öllum aðstandendum frænda míns Guðs blessunar, ekki síst hans góðu konu Möllu sem nú kveður lífsförunaut sinn sem hún kynntist ung að árum. Huggun hennar er glæsilegur hópur barna og fjölskyldna þeirra. Hvíl í friði. Jóna Guðríður Arnbjörns- dóttir, Sandgerði. Kveðja frá Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar Skáldið mælti: „Lífið er sjóferð þar sem við erum öll á sama skipi.“ Jón Guðmundsson útgerðarmað- ur var manna á meðal ávallt kall- aður Jón í Sjóla. Það er með mikilli virðingu og þakklæti sem við kveðj- um hann eftir þann hluta sjóferðar lífs Jóns sem við vorum saman í áhöfn. Jón var lærður húsasmiður og starfaði nokkuð við þá iðn auk þess sem hann sinnti ýmsum störfum svo sem akstri leigubíla til að fram- fleyta fjölskyldu sinni. Afskipti Jóns af útgerð hófust með farsælu samstarfi hans og tengdaföðurins Haraldar Kristjánssonar skip- stjóra. Jón og Marinella kona hans fluttu til Hafnarfjarðar1989. Hér í Hafnarfirði ráku þau og fjölskyldan kraftmikla útgerð og fiskvinnslu til margra ára en á síðari árum hefur reksturinn á fyrirtækinu færst til annarra landa. Þau reka nú eitt framsæknasta útgerðarfyrirtæki á Íslandi.. Jón varð félagi í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar í júní 1990 og starf- aði því í klúbbnum í 12 ár. Hann var með afbrigðum góður félagi og í sönnum anda Rótarý ávallt til þjón- ustu reiðubúinn væri eftir því leit- að. Jón var mikill hvatamaður að fyrirhugaðri ferð klúbbsins á slóðir Íslendinga í Vesturheimi og var öt- ull liðsmaður í undirbúningsnefnd- inni. Jón og Marinella eiginkona hans og sannur vinur okkar allra deildu með okkur samferðafólkinu ríkulega af fyrri förum þeirra og kynnum af Vestur-Íslendingum og hafa þannig aukið á eftirvæntingu okkar ferðalanganna. Fyrir tveimur vikum sátum við úti í garði á góðviðrisdegi og lögð- um á ráðin ásamt forseta Íslend- ingadagsins í Manitoba og var Jón að vanda í hlutverki hins hægláta og stefnufasta bjartsýnismanns og jók enn á væntingarnar með frjóum hugmyndum. Vesturferðin verður eftir fjórar vikur og Jón verður ekki með í okkar hópi en ég trúi því að hann fylgist grannt með okkur á sínu nýja himinfleyi. Jón var sannur athafnamaður og innsæi hans með afbrigðum gott. Sæi hann tækifæri og nýja mögu- leika, hvort sem var í viðskiptum, félagsstarfi eða í einkalífi, var hann ekkert að tvínóna við hlutina og fljótur að taka ákvarðanir. Auk frábærra samvista okkar í Rótarý og eiginkvenna okkar í Inn- er Wheel voru það forréttindi að vera nágrannar þeirra hjóna Mar- inellu og Jóns í Háahvamminum. Heimili þeirra, garður en ekki síst viðmót þeirra og gestrisni báru vitni um að þau kunnu vel að rækta garðinn sinn í víðtækum skilningi. Það var unun að fylgjast með hinni stóru og samheldnu fjölskyldu sem nú sameinast á sorgarstund. En Jón Guðmundsson lifir í minning- unni sem góður drengur og mann- vinur. Síðasta sinn sem við sáumst í lif- anda lífi var fjórum dögum fyrir andlát Jóns er hann stóð brosandi með hundinn Perlu í bandi úti á stétt og spjallaði við ungmenni úr Vinnuskóla Hafnarfjarðar. Hann náði greinilega vel til unga fólksins með hæglæti sínu og vinsemd. Hugir okkar Rótarýfélaga eru hjá Marinellu eiginkonu og besta vin til hinstu stundar, börnum þeirra og fjölskyldunni allri. Við vottum þeim okkar dýpstu samúð. Almar Grímsson, forseti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar. Mér var illa brugðið þegar hringt var í mig á mánudagskvöldið 1. júlí og mér tilkynnt að Jón Guðmunds- son væri allur. Hann hafði þá um daginn komið á skrifstofuna til okk- ar eins og hann gerði iðulega til að ræða málin og fá fréttir af gangi skipanna. Þá var hann hress og ekki var hægt að finna að nokkuð amaði að. En svona er lífið, fullt af óvænt- um atburðum sem enginn getur séð fyrir nema sá sem öllu ræður. Leiðir okkar Jóns lágu fyrst sam- an fyrir rúmum 35 árum þegar ég byrjaði að koma í Grænuhlíðina með Haraldi syni hans skólabróður mínum og vini. Á þeim tíma var Jón rétt byrjaður að brasa í útgerðinni með tengdaföður sínum Haraldi Kristjánssyni skipstjóra á Sjóla RE 18. Allir sem þekkja til Jóns vita að hann var eirðarlaus ef hann gat ekki nýtt tækifæri til að auka verð- mæti og skapa tekjur ef hann sá einhvern flöt á slíkum möguleikum. Það varð því úr að hann byrjaði að salta og setja í skreið fisk af Sjóla RE 18 til að auka verðmæti aflans til hagsbóta fyrir útgerðina. Þá kynntist ég fyrst fiskvinnslunni þegar við skólastrákarnir fengum að vinna um páskana við að salta fisk og hengja upp skreið. Starf- semi Jóns jókst með árunum og ég fylgdist með því hvernig vertíðar- bátarnir urðu að togurum og tog- arar að fullvinnsluskipum. Sama gilti með landvinnsluna, hún dafn- aði þokkalega enda var samspil út- gerðar og landvinnslu nauðsynleg framan af. Örlögin höguðu því svo 1993 að leiðir okkar Jóns lágu sam- an til mikillar og náinnar samvinnu. Ákveðið var að ég kæmi til að vinna tímabundið verkefni í fyrirtækinu, en þau hafa orðið öllu fleiri og öðru- vísi en ætlað var í upphafi. Fram að þeim tíma voru kynni mín af Jóni að mestu af persónu- legum toga, en nú tók við alvara lífsins og ég kynntist athafnamann- inum Jóni. Það var fyrst þá sem ég skildi hvers vegna reksturinn hafði náð að vaxa svona í þeim ólgusjó sem útgerð á Íslandi hefur verið boðið upp á. Í dag er talið að til þess að ná langt í viðskiptum þurfi að hafa góða menntun og óteljandi hæfileika á öllum sviðum. Jón Guð- mundsson hafði að mínu mati þá tvo kosti sem skipta máli til að ná ár- angri í rekstri og þá í ríkum mæli, en þeir eru þrautseigja og sá ein- staki hæfileiki sem Jón hafði að skynja rétta tímasetningu fyrir ákvarðanatöku. Þessu til skýringar má nefna að Sjólaskip hf., undir for- ustu Jóns, höfðu frumkvæði og þor til að leggja út í rekstur sem aðrir höfðu ekki lagt í eða þurft að hverfa frá. Þar má fyrst nefna úthafskarf- aveiðarnar, sem nú í dag skila þjóð- arbúinu ómældum verðmætum og síðan útgerðarrekstur á fjarlægum miðum. Í báðum þessum tilfellum var ár- angurinn ekki í sjónmáli fyrr en eft- ir mikla þrautagöngu, en hann hafð- ist. Ég má eiginlega til með að segja smásögu af þrautseigju Jóns. Svo var að við höfðum farið til Eistlands til að skoða togara og ákveðið var að kaupa hann. Einfalt mál átti að vera að klára kaupin, enda öll aðal- atriði afgreidd áður með símbréfum og samtölum á milli landa. Við fór- um því tveir saman til þess að klára málið, gerðum ráð fyrir að það tæki ekki nema nokkra daga, en við rák- um okkur fljótlega á að íslenska skrifræðiskerfið er barnaleikur í samanburði við það sem ræður ríkj- um þarna fyrir austan. Í sex vikur máttum við fara vonsviknir og nið- urbeygðir í rúmið á kvöldin eftir lé- legan eða engan árangur dagsins áður en yfir lauk. Á þessum tíma kynntist ég vel þeirri hlið á Jóni þar sem hæfileikar hans nutu sín best; glíma við endalaus og óleysanleg vandamál að mér fannst allan dag- inn og svo umræður á kvöldin um hvað gera þyrfti daginn eftir til þess að málin leystust og það sem skemmtilegast var, að aldrei lét hann hvarfla að sér að fara heim og gefast upp, enda lauk kaupunum á farsælan hátt á endanum. Jón dró sig til hlés frá daglegum störfum síðustu árin og var farinn að njóta lífsins með Möllu og fjöl- skyldunni, enda mikið um að vera í sístækkandi fjölskyldu. Það er því mikill harmur að hann hafi ekki fengið að njóta uppskeru ævistarfs- ins örlítið lengur. Ég vil að lokum votta þér, Malla mín, og ykkur systkinum mína dýpstu samúð í von um að sá sem öllu ræður styrki ykkur í sorg ykk- ar. Guðmundur Viborg. Stutt er síðan við Jón sátum tveir saman og spjölluðum. Margt bar á góma, þar á meðal andlát bróður míns úr hjartasjúkdómi skömmu áður, langt fyrir aldur fram. Fáum dögum síðar var Jón burt kvaddur úr þessum heimi. Kynni okkar Jóns hófust upp úr 1990 þegar ég sem formaður hafn- arstjórnar í Hafnarfirði kynntist rekstri hans og fjölskyldunnar á umfangsmikilli útgerð og fisk- vinnslu. Kynni okkar styrktust enn frekar á vettvangi Rotaryklúbbs Hafnarfjarðar þar sem við vorum báðir félagar. Jón var einstakur frumkvöðull og brautryðjandi. Þetta virðist stór fullyrðing en hún er fyllilega rétt- mæt að mínu mati. Honum voru þessir eiginleikar í blóð bornir og hann hafði sjálfur aflað sér þekk- ingar sem til þurfti. Hann markaði ekki einungis spor í atvinnusögu Hafnarfjarðar heldur þjóðarinnar allrar. Fyrirtæki hans hans, Sjóla- stöðin, hóf fyrst íslenskra útgerða veiðar á úthafskarfa á Reykjanes- hrygg og hélt hann ótrauður út í það ævintýri þrátt fyrir vantrú og úrtölur annarra. Nú er nýting þess- arar auðlindar mikilvægur þáttur í íslenskum þjóðarbúskap. Fyrir fáum árum hófu Sjólaskip, fyrir- tæki sem hann stjórnaði ásamt son- um sínum, stórútgerð á fjarlægum miðum eftir að hafa keypt til þess þrjú öflug verksmiðjuskip í Eystra- saltslöndunum. Jón hafði einstakt auga fyrir nýj- um tækifærum, en einnig einurð og áræði til að nýta þau. Hann var út- sjónarsamur, hagsýnn og sérlega laginn við að velja sér hæfileikaríkt samstarfsfólk. Við það batt hann sterk trúnaðarbönd. Hann var jafn- framt fastur fyrir þegar því var að skipta og hélt stefnunni ótrauður á það mið sem hann hafði sett. En velgengni í viðskiptum hafði ekki áhrif á hógværð hans og alþýðlegt og hlýlegt viðmót. Hans er sárt saknað af fjölskyldu og vinum. Fyrir hönd hafnarstjórnar í Hafnarfirði færi ég Jóni þakkir fyr- ir hans merka framlag til at- vinnuþróunar og nýsköpunar og votta Marinellu og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð. Eyjólfur Sæmundsson.  Fleiri minningargreinar um Jón Guðmundsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.