Morgunblaðið - 23.01.2003, Blaðsíða 23
SUÐURNES
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 23. JANÚAR 2003 23
LANDIÐ
Á FUNDI bæjarstjórnar Stykkis-
hólms þann 16. janúar var samþykkti
fjárhagsáætlun bæjarsjóðs fyrir ný-
byrjað ár.
Þessi fjárhagsáætlun er sú fyrsta
sem gerð er í samræmi við ný lög og
reglur um bókhald og reikningsskil
sveitarfélaga. Meginbreytingin er að
sérstakur eignasjóður á og rekur þau
mannvirki sem Stykkishólmsbær
hefur verið að byggja fyrir íbúa sína
og þjónustu á liðnum árum.
Þessi kerfisbreyting veldur því að
mjög erfitt er að bera saman rekst-
urinn við liði ár. Skatttekjur eru áætl-
aðar 333 milljónir krónur og þjón-
ustugjöld um 84,2 milljónir krónur.
Skatttekjurnar skiptast þannig að út-
svar er áætlað 245 milljónir krónur,
fasteigngjöld 43 milljónir krónur og
Jöfnunarsjóður 45 milljónir krónur.
Rekstur sveitarfélagsins mun kosta
meira á þessu ári en í fyrra og er svo
komið að skatttekjurnar rétt duga
fyrir rekstrarkostnaði. Það kom fram
hjá Óla Jóni Gunnarssyni bæjar-
stjóra að nokkur óvissa er varðandi
tekjur sveitarfélagins og stafar það
einkum af því að í dag liggur ekki fyr-
ir hver verður þróun skelveiða á
næstu vertíð. Sá málaflokkur sem
mest tekur til sín eru fræðslumál og
er 178 milljónum króna varið til þess.
Óli Jón telur að mjög myndarlega sé
staðið að fræðslumálum, íþrótta- og
menningarmálum. Menntun hvers
nemenda í grunnskólanum kostar um
540 þús kr á ári. Langmestur hluti út-
gjalda fara í laun og launatengd gjöld
eða um 315 milljónir kr með undirfyr-
irtækjum bæjarins.
Í nýja eignasjóðnum koma fram
eignir Stykkishólmsbæjar og eru þær
verulegar eða um 1.300 milljónir
króna eða rúmlega ein milljón á
hvern íbúa eftir að skuldir hafa verið
dregnar frá.
Eins og síðustu ár er stefnt að
lækkun skulda og er reiknað með að
þær lækki um 14 milljónir á árinu.
Ekki verður um neinar stórfram-
kvæmdir á vegum bæjarsjóðs á árinu.
Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason
Bæjarstjórn Stykkishólms hefur afgreitt fyrstu fjárhagsáætlun sína.
Fremri röð frá vinstri: Elísabet Björgvinsdóttir, Dagný Þórisdóttir, Óli Jón
Gunnarsson og Bylgja Baldursdóttir. Efri röð: Davíð Sveinsson, Hilmar
Hallvarðsson, Eyþór Benediktsson og Rúnar Gíslason.
Fjárhagsáætlun 2003 samþykkt
Eignir rúmlega ein
milljón á hvern íbúa
Stykkishólmur
SKÍÐALYFTAN í Stöllum í
Húsavíkurfjalli var í gær
opnuð í fyrsta skipti í vetur.
Þrátt fyrir kulda og strekk-
ing þar efra mætti þónokk-
uð af börnum og unglingum
til að renna sér í brekkunni.
Jafnframt var verið að troða
skíðasvæðið í Skálamel sem
er rétt við skólana og lyftan
þar verður því opnuð fljót-
lega ef svo heldur fram sem
horfir.
Skíðalyftan
opnuð í fyrsta
skipti í vetur
Húsavík
Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
„MÉR fannst óttalega napurt hér
þegar ég kom hingað í fyrsta sinn
og leist satt að segja lítið á staðinn.“
Þannig lýsir Brynja Pétursdóttir
fyrstu komu sinni í Garðinn, en
þangað hélt hún í leit að framtíð-
arheimili fyrir fjölskyldu sína eftir
að hún missti allar eigur sínar í eld-
gosinu í Heimaey fyrir 30 árum.
Hún var þá tveggja barna móðir,
með dóttur á fjórða ári og dreng á
níunda ári.
Blaðamaður Morgunblaðsins hitti
Brynju og elstu börn hennar tvö,
þau Rafnkel Jónsson og Lilju Berg-
lindi Jónsdóttur á heimili Brynju
nýverið. Yfir höfði okkar trónir
málverk af Kirkjubæjarhverfinu í
Heimaey eins og það leit út fyrir
eldgos. Húsnæði fjölskyldunnar,
sem stóð næst eldstöðvunum, er nú
grafið undir 60 metra þykku lagi af
hrauni og 5 systkini og foreldrar
sem öll bjuggu í sama hverfi tvístr-
uðust í allar áttir.
Höfuðborgin hentaði illa
„Eftir allt sem gerðist gat ég eig-
inlega ekki hugsað mér að fara aft-
ur til Eyja og ekkert af Kirkjubæj-
arfólkinu gerði það, nema ein
fjölskylda,“ segir Brynja og Rafn-
kell bætir við að þetta hafi verið
eina fólkið sem hann þekkti þegar
hann hélt aftur til Vestmannaeyja
rúmum 10 árum eftir gosið. „Það
var mjög einkennilegt að koma aft-
ur til Eyja og í raun samlagaðist ég
aldrei. Mér leið alltaf eins og ég
væri utangátta, þótt ég hefði alist
þarna upp til 8 ára aldurs.“
Strax eftir gosið fór fjölskyldan
til Reykjavíkur, til að ná áttum, eins
og Brynja orðaði það, en henni hafði
þá verið úthlutað Viðlagasjóðshúsi í
Mosfellssveit sem hún gaf frá sér. „Í
Reykjavík leið okkur aldrei vel,
þetta var allt svo ólíkt því sem við
höfðum búið við. Ég þurfti að taka
tvo strætisvagna til og frá vinnu,
með viðkomu í leikskólanum hennar
Lilju, og var ekki komin heim fyrr
en seint og um síðir. Rafnkeli leið
ekki vel í skólanum og Lilja, sem
hefði átt að byrja í skólanum haust-
ið sem við fluttum í Garðinn, var svo
mikil títla að hún náði ekki upp í
strætisvagninn,“ sagði Brynja.
Systir Brynju, Guðrún, venslafólk
hennar og foreldrar þeirra systra
fluttu í Garðinn strax eftir gosið,
þar sem skyldfólk eiginmanns Guð-
rúnar hafði boðið þeim vinnu. Þegar
Brynja og fjölskylda hennar hafði
tekið þá ákvörðun að í Reykjavík
gætu þau ekki búið fóru þau að líta
til Garðsins. „Ég vissi að foreldrum
mínum og systur leið vel þarna og
þó að mér hafi sjálfri ekki litist á
staðinn í upphafi, átti það eftir að
breytast. Fólk tók okkur mjög vel
og samheldnin var mikil. Ég fékk
strax vinnu og maður féll strax vel
inn í hópinn. Hér myndaðist líka
smásamfélag Vestmannaeyinga og
það var mikil öryggistilfinning að
hafa hluta fjölskyldunnar í kringum
sig.“
Lilja Berglind sagðist eiginlega
ekkert muna eftir sér fyrr en hún
flutti í Garðinn. „Ég var þá 6 ára og
var fljót að eignast vinkonu, auk
þess sem ég átti frænkur á staðnum.
Ég held að það hafi líka breytt
miklu að ég fylgdi jafnöldrum mín-
um frá upphafi skólagöngu.“
Margt líkt með Garðinum
og Vestmannaeyjum
Rafnkell féll líka strax vel í hóp-
inn og segist hafa kunnað vel við sig
í Garðinum. „Besti vinur minn, sem
jafnframt var frændi minn, hafði
flutt í Garðinn strax eftir gosið og
ég hafði nokkrum sinnum farið í
heimsókn til hans. Ég var því ekki
að koma þangað í fyrsta sinn. Við
gosbörnin fengum líka oft mikla at-
hygli, þó að sú athygli hafi stundum
verið óþægileg. Það var mikið horft
á okkur,“ sagði Rafnkell. Lilja
Berglind og Rafnkell eru nú bæði
búsett í Reykjanesbæ.
Að sögn Brynju minnti margt í
Garðinum á Vestmannaeyjar og
kannski þess vegna hafi þeim liðið
strax svona vel þarna. „Nú gátum
við aftur farið um allt fótgangandi
og eins og gengur og gerist í litlum
samfélögum var fólk náið og sam-
gangur mikill milli manna. Þetta
líkaði okkur vel.“
Árin í Garðinum nálgast nú 30 og
Brynja er hvergi á leiðinni burt.
Hún er nýflutt í glæsilegt einbýlis-
hús innst í Garðinum með útsýni yf-
ir hafið, alveg eins og hún hafði í
Vestmannaeyjum forðum.
Fluttu á Suðurnes eftir Vestmannaeyjagosið fyrir 30 árum
Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir
Brynja Pétursdóttir með tvö elstu börnin sín, þau Lilju Berglindi Jónsdóttur og Rafnkel Jónsson.
Aftur með útsýni yfir hafið
Garður
AÐALFUNDIR deilda Kefla-
víkur, ungmenna- og íþrótta-
félags, verða haldnir næstu
daga. Aðalfundur Keflavíkur
verður síðan haldinn í febr-
úarmánuði. Fundirnir verða
haldnir í félagsheimilinu á
Hringbraut 108 og er það í
fyrsta skipti sem allir aðalfund-
irnir eru í eigin félagsheimili
Keflavíkur.
Fyrsti fundurinn er í dag,
fimmtudag, þegar taekwondo-
deildin heldur sinn aðalfund.
Hann hefst klukkan 20 eins og
fundir hinna deildanna. Á
morgun er fundur badminton-
deildarinnar.
Skotdeildin fundar á mánu-
dag í næstu viku, sunddeildin
þriðjudaginn 28. janúar, fim-
leikadeildin miðvikudaginn 29.
janúar, körfuknattleiksdeildin
fimmtudaginn 30. janúar og
knattspyrnudeildin föstudag-
inn 31. janúar.
Aðalfundir
deilda
boðaðir
Keflavík
SANDGERÐISLISTINN boðar til
opins fundar um atvinnumál í Sand-
gerði í dag, fimmtudag. Fundurinn
fer fram á Veitingahúsinu Vitanum
við Vitatorg í Sandgerði og hefst
klukkan 20.30.
Frummælendur eru Kristján
Gunnarsson, formaður Verkalýðs-
og sjómannafélags Keflavíkur og
nágrennis, Ketill Jósefsson, for-
stöðumaður Svæðisvinnumiðlunar
Suðurnesja, og Gunnar Bragi Guð-
mundsson hjá Ný-fiski ehf. í Sand-
gerði. Ólafur Þór Ólafsson, oddviti
Sandgerðislistans, verður fundar-
stjóri.
Í fréttatilkynningu um fundinn
kemur fram að miklar breytingar
hafi orðið í atvinnumálum í Sand-
gerði á síðustu árum og skipti þar
mestu samdráttur í útgerð og
vinnslu sjávarafurða. „Til að
tryggja áframhald blómlegrar
byggðar verður að snúa vörn í sókn
og þá er ekki nóg að takmarka um-
ræðuna einungis við Sandgerði
heldur verður að fjalla um málin út
frá heildarhagsmunum Suðurnesja.
Það er von okkar á Sandgerðislist-
anum að fundurinn verði til þess að
örva jákvæða umræðu um atvinnu-
mál og geti orðið eitt skref af mörg-
um til betri framtíðar,“ segir þar
ennfremur.
Opinn fundur um
atvinnumál
Sandgerði