Morgunblaðið - 23.02.2003, Blaðsíða 25
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 23. FEBRÚAR 2003 25
Hökull Jóns Arasonar og stjörnu-
merki Grundarstólsins
Í lok samtals okkar Margrétar
Hallgrímsdóttur förum við og skoð-
um geymslur Þjóðminjasafnsins í
Vesturvör í Kópavogi.
„Þessar glæsilegu geymslur varð-
veita bæði rétt og vel stærstan hluta
þeirra dýrgripa sem Þjóðminjasafn
Íslands á. Með því að koma þeim upp
svo veglega sem raun ber vitni hefur
verið byrjað á réttum enda. Fyrst
eru byggðar geymslur við hæfi, síð-
an kemur sýningaraðstaðan í endur-
nýjuðu húsi safnsins við Suðurgötu
og loks verður sem fyrr gat innrétt-
að húsnæði þar skammt frá fyrir
skrifstofur safnsins,“ segir Margrét
og gengur með blaðamanni inn í um-
ræddar geymslur. Fyrst komum við
inn í herbergin þar sem forvarsla fer
fram. Þar er m.a. verið að forverja
hökul Jóns heitins Arasonar bisk-
ups, þess sem sagt er að allir núlif-
andi Íslendingar reki ættir til. „Það
er ekki vanþörf á að dytta að hökl-
inum enda er hann kominn til ára
sinna, hefur eflaust verið saumaður
á fyrri hluta sextándu aldar, en Jón
var hálshöggvinn 7. nóvember 1550
sem kunnugt er og eru siðaskiptin á
Íslandi miðuð við þann atburð.“
Því næst opnar Margrét okkur
leið inn í herbergi þar sem bein for-
feðranna úr fornum gröfum eru
varðveitt í tölusettum pappakössum.
Síðan komum við í hið allra helgasta
sem er geymslan þar sem allir helstu
gripir safnsins eru geymdir. Kennir
þar margra grasa. Grundarstóllinn
frægi er þar í hillu með sín dularfullu
útskornu stjörnumerki. Á vegg ein-
um skammt frá hanga fornir speglar
í tugatali. Helstu persónur vax-
myndasafnsins, m.a. styttur af þeim
sem sátu í fyrstu ríkisstjórn lýðveld-
isins og ákváðu „morgungjöfina“ til
safnsins, eru í hillum beint á móti
speglaveggnum og gætu stytt sér
biðina eftir sýningaraðstöðu með því
að spegla sig – ef ekki væri fyrir það
að þær eru allar hauslausar – haus-
arnir eru geymdir sér í kössum. Inn-
an um ótal muni af ýmsu tagi rekur
blaðamaður augun í kirkjubekk sem
á er máluð mynd af persónu sem er
nauðalík einum af núlifandi sagn-
fræðingum okkar.
„Kannski væri hægt að rekja þá
saman?“ segi ég um leið og við Mar-
grét göngum fram hjá harðlokuðum
dyrum þar sem DNA-rannsóknir Ís-
lenskrar erfðagreiningar á jöxlum
forfeðranna fer fram. Jaxlarnir eru
einu hlutar beinagrindanna sem
hafa nægilega einangrað DNA-efni,
ómengað af DNA-efni starfsmanna
og annarra sem farið hafa höndum
um beinin. Við skoðum líka sal, full-
an af gömlum fatnaði og silfurgrip-
um af íslenskum og erlendum upp-
runa og loks opnar Margrét dyrnar
á dimmum sal, þaðan sem streymir
ískalt loft á móti okkur. Þar inni eru
geymdar gamlar ljósmyndir og film-
ur sem sýna liðna landa okkar og
umhverfi þeirra.
„Allt sem hér er geymt er í raun
„fjöregg“ þjóðarinnar og starfsfólkið
sem hér vinnur hefur sterka vitund
um mikilvægi þess að varðveita það
vel,“ segir Margrét þegar hún kveð-
ur mig og snýr sér að því að velja í
félagi við samstarfskonur sínar silki-
blóm til þess að koma vingjarnlegum
blæ á fundarherbergið í hinu veg-
lega geymsluhúsnæði Þjóðminja-
safnsins, þar sem á að varðveita
þjóðargersemar okkar um ókomin
ár og jafnvel aldir.
ask@visindi.is
Lifandi vísindi komið í verslanir
Áskriftarsími 881 4060
LÆKNAVÍSINDI • FORNLEIFAFRÆÐI • ERFÐAFRÆÐI • STJÖRNUFRÆÐI • LÍFFRÆÐI • SAGA • GEIMVÍSINDI