Morgunblaðið - 23.02.2003, Blaðsíða 56
FÓLK Í FRÉTTUM
56 SUNNUDAGUR 23. FEBRÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ
ÍSLENDINGAR eiga fulltrúa áGrammy-verðlaunahátíðinni,sem fram fer í New York íkvöld. Steinar Höskuldsson,
eða S. Husky Höskulds, eins og
hann er kallaður í Bandaríkjunum
er tilnefndur ásamt samstarfsfólki
fyrir bestu plötu ársins, Come
Away With Me, með Noruh Jones,
fyrir hjóðupptöku og -blöndun.
Hann er líka tilnefndur í flokknum
besta hljóðupptaka á plötu fyrir
þessa sömu plötu.
Steinar er búsettur í Los Angel-
es ásamt konu og barni og verður
ekki viðstaddur í kvöld vegna anna
við vinnu. „Ég hef ekki tök á að
fara þó að það hefði verið gaman,“
segir hann og hefði verið ánægðari
með ef hátíðin hefði verið haldin í
Los Angeles. „Hátíðin hefur verið
haldin hér síðustu árin, fyndið að
þeir hafi þurft að stökkva þarna til
New York núna.“
Steinar ólst að mestu leyti upp í
Mosfellsbæ en var búsettur í þrjú
ár á austurströnd Bandaríkjanna,
þar sem foreldrar hans voru við
nám.
Steinar þekkti því sitthvað til
Bandaríkjanna þegar hann flutti til
Los Angeles árið 1991, þá 21 árs, í
þeim tilgangi að stunda nám í upp-
tökustjórn við UCLA. Um var að
ræða eins árs nám sem Steinar
segir hafa verið „hagnýtt og ágætis
leið til að komast inn í landið og
kynnast tónlistarheiminum“. Hann
hefur búið í Englaborginni síðan og
líkar vel. „Ég fékk tölvupóst frá
mömmu áðan, brjálað veður, rok og
rigning og slydda og bílar fastir í
bænum. Á meðan sit ég hérna úti á
svölum í stuttermabol og stuttbux-
um,“ segir Steinar, þannig að það
er engu logið upp á ljúfa lífið í Kali-
forníu.
Byrjað á botninum
Eftir námið fékk Steinar vinnu í
hljóðveri, sem „símsvari og hlaupa-
gikkur“. „Flest stúdíóin virka þann-
ig að maður byrjar á botninum og
vinnur sig upp,“ segir Steinar, sem
gerði nákvæmlega það. „Þetta er
blanda af heppni og almennri bar-
áttu.“
Fljótlega sótti hann um vinnu í
öðru hljóðveri sem aðstoðarupptök-
umaður. „Það var fyrsta skrefið til
að komast upp úr símanum og inn í
stúdíóið sjálft. Þar reyndi ég að
stýra mér þannig að ég kæmist að
þeim, sem ég vildi vinna með,“ seg-
ir Steinar, og bætir við að það hafi
kostað útsjónarsemi og vinnu.
Fyrir þá sem eru ekki með það á
hreinu hvað upptökumaður gerir
útskýrir Steinar það á einfaldan
hátt: „Upptökumaðurinn er í raun
eins og kameramaðurinn í kvik-
myndunum. Upptökustjórinn er
eins og leikstjórinn.“
Gamall draumur rættist
Hann hefur unnið einna mest í
hljóðveri, sem heitir Sunset Sound.
Þetta er þekkt upptökuver, sem
hefur verið starfandi í 40 ár og hafa
margar tónlistarstjörnur á borð við
Doors, Bangles, Rolling Stones,
Prince, Led Zeppellin og Beck
staldrað þar við.
Steinar hefur sjálfur unnið með
þekktu tónlistarfólki eins og Sol-
omon Burke, The Wallflowers, Los
Lobos, Sheryl Crow, Vanessu Para-
dis og Fionu Apple. Síðast en ekki
síst má nefna Tom Waits. Steinar
hljóðblandaði plötuna Blood Money
með kappanum en það hafði lengi
verið draumur hjá honum að vinna
með honum.
„Ein aðalupplifunin var að vinna
með Tom Waits. Maður gleymir því
aldrei. Ég hafði reynt að komast í
samband við hann í sex mánuði.
Sendi honum þrjá diska og þrjú
bréf og skilaboð með öllum, sem ég
þekkti og vissi að væru eitthvað
tengdir honum. Það var mjög gam-
an að það skyldi hafa virkað. Þetta
var mikil upplifun.“
En hvernig skyldi Steinar hafa
fyrst fengið áhuga á starfinu? „Ég
hafði alltaf mikinn áhuga á tónlist
og lærði til dæmis á píanó í nokkur
ár, fyrst hjá ömmu og síðan hjá
Sigga Marteins og Ólafi Vigni í
Mosó, en sá nú fljótt að ég yrði
aldrei atvinnutónlistarmaður. Ég
var alltaf eitthvað tengdur hljóm-
sveitum með kunningjum mínum
en var yfirleitt bestur í þessu
græjudóti. Það var aðalatriðið hjá
mér. Ég ákvað þess vegna að
kanna hvort það væri ekki hægt að
komast í það að búa til plötur,“ seg-
ir Steinar og má segja að það hafi
aldeilis gengið upp hjá honum.
Mikil vinna og langir dagar
Lífið í stúdíóinu einkennist af
mikilli vinnu og löngum dögum;
þetta er skorpuvinna, eins og það
er kallað. „Það er ekki óalgengt að
vinna 12–14 tíma á dag, sex daga
vikunnar. Svo er maður kannski í
fríi viku eða tvær þess á milli.“
Misjafnt er hversu lengi er unnið
að einni plötu. „Ég hef tekið upp
plötur á fjórum dögum og hljóð-
blandað á tveimur. Ég hef líka eytt
sex mánuðum í það. Þetta fer allt
eftir hljómsveitinni og hvað pródús-
erinn er að hugsa.“
Steinar segir að pressan frá
plötufyrirtækjunum geti oft verið
mikil. „Gallinn er sá að ef um er að
ræða stór nöfn og miklir peningar
eru í spilinu, eins og til dæmis með
Wallflowers, eru allir svo stressaðir
yfir því að vera að fylgja eftir
svona stórri plötu að tónlistin
versnar oftast fyrir vikið.“
Tímamót með Joe Henry
Hann segir að það hafi ekki verið
samstarf við neinn einn tónlistar-
mann, sem hafi fleytt honum áfram
í þessum heimi. „Þetta hefur að-
allega gerst smátt og smátt,“ segir
Steinar en segir þó að samstarf sitt
við mann að nafni Joe Henry hafi
markað viss þáttaskil.
„Ég tók upp plötuna Scar með
Joe Henry fyrir um tveimur og
hálfu ári. Það var í fyrsta skipti,
sem ég fékk að ráða hvernig þetta
sándaði allt og passaði saman.
Þetta var í fyrsta skipti, sem ég gat
sent út plötu og sagt mönnum að
þetta sé það sem ég hafi áhuga á að
gera,“ segir Steinar, sem er hreyk-
inn af plötunni.
„Að vissu leyti markaði þetta
ákveðin tímamót. Framan af þurfti
ég að taka því sem bauðst og fékk
ekki að ráða miklu um hvernig
þessar plötur komu út. Wall-
flowers-platan og Sheryl Crow eru
bara venjulegar poppplötur og ekk-
ert varið í þær frá mínum sjón-
arhóli. Núna eru menn hins vegar
farnir að hafa samband við mig
vegna þess að þeir hafa heyrt Tom
Waits, Joe Henry eða Fantomas og
það er frábært fyrir mig. Frábært
að fá að gera nákvæmlega það sem
maður hefur áhuga á.“
Steinar sér fram á að þurfa ekki
héðan í frá að vinna eins langa
vinnudaga. „Núna er ég í fyrsta
skipti farinn að geta stjórnað því
meira. Núna eru menn farnir að
hringja meira í mig en ég í þá. Ég
ákvað það núna um jólin að vinna
ekki eins mikið og lengi fram eftir
og ég hafði gert. Þetta var nýárs-
heitið, að vinna ekki meira en tíu
tíma á dag.“
Á ein Grammy-verðlaun inni
Plata Sheryl Crow, The Globe
Sessions, sem Steinar vann við,
fékk Grammy fyrir hljóðupptöku
árið 1998 en Steinar fékk enga
styttu í hendurnar! „Við vorum
fjögur sem unnum við hana. Á end-
anum voru það fjögur lög, sem ég
tók upp. Einhverra hluta vegna
endaði það þannig í kreditlistanum
að nafnið mitt kom bara fram sem
aukaupptökumaður. Það var ekki
nóg fyrir Grammy-nefndina því
ekki eru veitt verðlaun fyrir þessa
aukahljóðupptöku,“ segir Steinar,
sem var í raun rangnefndur í list-
anum. „Þetta er oftar notað yfir
þann, sem hleypur í skarðið við
upptökur í hálfan dag, sem var ekki
raunin með mig,“ segir Steinar,
sem ætti í raun að vera með eina
styttu heima í stofu.
„Upptökustjórinn og Sheryl sjálf
ræddu við Grammy-nefndina vegna
þessa fyrir hátíðina en henni varð
ekki haggað og engu breytt. „Þetta
var spæling á sínum tíma,“ segir
Steinar, sem fær annað tækifæri í
kvöld.
Frumraun Noruh Jones var tek-
in upp í hjóðveri milljónamærings í
uppsveitum New York. „Við fórum
og tókum upp plötuna í íbúðar-
stúdíói í New York-fylki, rétt hjá
Woodstock, sem heitir Allaire Stud-
ios. Við fórum þangað með hljóm-
sveit og hana og upptökustjóra. All-
ir búa á staðnum og eldað er ofan í
fólkið. Þetta er hálfpartinn eins og
að vera á skíðahóteli. Við vorum
þarna í þrjár vikur og tókum upp
plötuna í heild sinni og hljóðblönd-
uðum.“
Alltaf mikill
græjukall
Steinar Höskuldsson kann vel við
sig í upptökuverinu. Hann hefur
búið í Los Angeles frá árinu 1992.
Grammy-verðlaunahátíðin er haldin í 45. sinn í
New York í kvöld. Steinar „Husky“ Höskuldsson
er fulltrúi Íslands á hátíðinni en hann er tilnefndur
fyrir vinnu við vinsæla breiðskífu Noruh Jones.
Hann sagði Ingu Rún Sigurðardóttur frá tónlist-
arbransanum í Los Angeles og dvöl sinni vestra.
Platan með Noruh Jones var tekin
upp í Allaire Studios í New York.
Steinar Höskuldsson er tilnefndur til Grammy-verðlauna sem afhent verða í New York í kvöld
Mörkinni 3, sími 588 0640
Opið mán.-fös. kl. 11-18,
lau. kl. 11-15
Húsgögn
Sérpantanir
Alltaf á þriðjudögum