Morgunblaðið - 20.09.2003, Blaðsíða 37
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 20. SEPTEMBER 2003 37
þau hjónin höfðu fest kaup á húsinu
Borgarhól við Kirkjuveg. Með mikl-
um dugnaði sínum og barnanna
tókst henni að halda heimilinu sam-
an. Jafnframt eignaðist hún tvö börn
til viðbótar með Magnúsi Magnús-
syni seinni manni sínum. Sorgin
sagði ekki skilið við Öllu því síðar
missti hún næstelsta son sinn Birgi í
sjóslysi við Eyjarnar aðeins 32ja ára
gamlan.
Þegar ég kynntist Öllu í Borgar-
hól bjó hún ein á Vestmannabraut-
inni og Borgarhóll löngu kominn
undir hraun. Hún kom mér fyrir
sjónir sem glæsileg og lífsglöð kona.
Hún vildi líta vel út og lagði mikið
upp úr því að vera vel til fara. Naut
hún þar gjafmildi barna sinna sem
færðu henni falleg föt og annað sem
hana vanhagaði um. Hún var sér-
staklega geðgóð og glaðvær enda
var stofan hennar oftar en ekki full
af fólki, hún bókstaflega dró fólk að
sér. Allir kíktu inn hjá henni hvort
sem voru börn, tengdabörn, barna-
börn eða vinir og tengdafólk enda
var hún skemmtileg heim að sækja
og hafði einstaklega þægilega nær-
veru. Ég naut návistar hennar enn
betur þegar við áttum spjall saman í
rólegheitum og sagði hún mér þá
sögur úr lífi sínu, sorgum og gleði.
Hún var sátt við líf sitt þótt það
hefði oft verið erfitt og var stolt af
börnum sínum og afkomendum.
Síðustu árin átti Alla við ýmis
veikindi að stríða en baráttuþrekið
var ekki búið og var ótrúlegt að sjá
hve hún var dugleg að rísa upp að
nýju eftir erfið tímabil. Það var eins
og hún gæti ekki gefist upp. Hún
dvaldist á dvalarheimilinu Hraun-
búðum í góðri umsjón starfsfólks
þar síðustu þrjú árin og lést þar 8.
september sl. Aðeins rúmri viku áð-
ur heimsótti ég hana og var þá
greinilegt að degi væri tekið að halla
hjá henni hvað varðaði líkamlega
heilsu. Engu að síður var hún and-
lega hress og til marks um það
spurði hún frétta af mér eins og
venjulega af sinni eðlislægu um-
hyggju fyrir öðrum og bað um spegil
til að gæta að hvort útlitið væri í
lagi.
Öllum aðstandendum hennar
votta ég mína innilegustu samúð.
Elsku Alla mín. Guð gefi þér góða
heimkomu. Ég veit hvernig þú vildir
að hún yrði og ég vona að þér verði
að ósk þinni.
Vildís Guðmundsdóttir.
Mig langar með nokkrum orðum
að minnast ömmu minnar, Aðal-
bjargar Jóhönnu, eða Öllu ömmu
eins og ég kallaði hana alltaf. Þó ég
hafi ekki séð hana jafnmikið síðustu
árin og ég gerði þegar ég var yngri
stóð hún mér alltaf nærri. Í sumar
náði ég að heimsækja hana á elli-
heimilið í Vestmannaeyjum þar sem
hún dvaldist síðustu æviárin og vera
hjá henni dálitla stund. Þó að amma
væri orðin 83 ára og farin að missa
heilsuna vantaði ekkert upp á að hún
væri enn skýr og minnug. Enda er
það nær ómögulegt fyrir mig að
ímynda mér ömmu sem ósjálfbjarga
og út úr heiminum – jafnákveðin og
skýr og hún var.
Sem strákur kom ég oft í heim-
sókn til hennar út í Eyjar og fékk að
gista í sófanum í stofunni og svo
eyddum við tímanum í að spila og
spjalla saman. Ég man að vísu ekki
nákvæmlega um hvað við ræddum
en ég man hins vegar vel eftir því að
á stofuveggnum hjá ömmu hékk
mynd sem henni var gefin þegar hún
varð sjötug. Á myndinni eru andlits-
myndir af öllum afkomendum ömmu
sem voru býsna margir þá og hefur
fjölgað mikið síðustu árin, en fyrir
miðri mynd var svo amma sjálf, höf-
uð ættarinnar, umkringd öllum
börnunum sem hún ól upp við erf-
iðar aðstæður sem margir gætu ekki
hugsað sér að búa við í dag. Það var
einkennandi fyrir ömmu og fólk af
hennar kynslóð að gefast ekki upp
þótt á móti blási og mér finnst það
vel við hæfi að þessi minning, um
ömmu umkringda fjölskyldu sinni,
lifi.
Árni Helgason.
Mikið á ég eftir að sakna ömmu.
Hún var yndisleg manneskja. Ég á
svo margar góðar minningar um
hana frá því að ég var yngri, enda
eyddi ég miklum tíma heima hjá
henni. Það var svo gott að vera hjá
henni, hún hafði svo mikinn skilning
á hvernig var að vera barn og ung-
lingur, talaði við mig eins og full-
orðna manneskju og hafði mikinn
skilning á táningsvandamálunum.
Ég sótti í að fá að gista hjá henni, og
það var ekki bara ég sem sótti í
hana, heldur líka Maggi og Jón
Helgi og fleiri, og við Jón Helgi slóg-
umst oft um hver mætti sofa uppi í
hjá henni. Hún leyfði okkur að vaka
fram eftir og sofa lengi, horfa eins
mikið á sjónvarp og við vildum og á
það sem við vildum. Á morgnana gaf
hún okkur oft skotsilfur og við fór-
um á neðri hæðina og náðum í eitt-
hvað gómsætt úr bakaríinu, og oftar
en ekki var síðan spilað rommí eftir
það. Þetta voru yndislegir tímar. Ég
sakna þeirra.
Hún amma hafði svo marga góða
eiginleika sem ég ætla að reyna að
tileinka mér. Óbilandi bjartsýni, trú
á hið góða í fólki og vera sjálfri sér
nóg voru bara fáir af mörgum góð-
um eiginleikum sem hún skartaði.
Hún var algjör Pollýanna.
Það er svo erfitt að kveðja. Hún
var svo hamingjusöm inni á Elló, leið
svo vel og ég óskaði þess að hún ætti
nokkur góð ár þar í viðbót. Ég hefði
líka viljað að hún gæti kynnst fyrsta
barninu mínu sem kemur í heiminn í
árslok, séð mig klára háskólanám,
gifta mig og vera hamingjusöm í líf-
inu. En ég veit að hún fylgist með
mér að ofan. Ég veit líka að afi og
strákarnir tveir, sem hún missti, og
saknaði svo sárt, taka vel á móti
henni. Þar mun hamingjan ríkja.
Ég kveð ömmu mína með söknuði,
en einnig með þakklæti í huga,
þakklæti fyrir að hafa átt hana að í
lífinu.
Ömmustelpan
Birgit Jóhannsdóttir.
Nú er hún amma okkar farin frá
okkur og okkur langar til að festa á
blað hinstu kveðju til hennar. Hún
amma var okkur mjög kær. Það
voru ófáar stundirnar sem við vorum
hjá henni. Alltaf var jafngott að
koma til hennar og eiginlega má
segja að hún hafi verið okkur önnur
mamma. Það var alltaf hægt að leita
til hennar. Oft var slegið í lönguvit-
leysu, rommí eða Olsen-Olsen og þá
var lagt með á borðið ristað brauð og
kakómalt. Okkur var mikið kapps-
mál að fá að gista hjá henni því að þá
fékk maður að vaka lengur og við
gátum spjallað við hana um heima
og geima, óratíma í senn.
Amma var ellefu barna móðir og
hafði lifað tímana tvenna: Hún hafði
frá mörgu að segja og naut þess að
deila sinni visku með okkur.
Það er margt sem stendur upp úr
þegar við minnumst hennar. Hún
hafði gaman af því að elda handa
okkur og var kjötsúpan hennar mjög
eftirsótt, svo að ekki sé minnst á
bjúgu með uppstúfi sem stundum
minnti meira á steypu því að við vild-
um hafa uppstúfið mjög, mjög
þykkt. Það var ávallt jafngaman að
koma til hennar og horfa á Matlock,
Morðgátu og Villa Spætu. Þá voru
farnar ófáar ferðir út í Blaðaturn og
Smárabar til að kaupa hamborgara
og kók og Síríussúkkulaði. Stundum
sagði hún okkur frá prakkarastrik-
um mömmu okkar og systkina henn-
ar á yngri árum og hvað hinir og
þessir karlar voru miklir menn. Jól-
in voru alltaf tilhlökkunarefni því að
þá kom amma heim til okkar og
borðaði með okkur og átti með okk-
ur gleðileg jól. Hún var alltaf mjög
skemmtileg á þessum tímum og var
miðpunktur gleði og skemmtunar.
Ófáar skyrtur hennar enduðu þó í
hreinsun eftir væga snertingu við
matardiskana. Aldrei gleymum við
jóladeginum þegar öllum var boðið í
hangikjöt með tilheyrandi og ís og
ávextir á eftir og síðan var liðinu
skipað að slaka á meðan amma gekk
frá á eftir. Þegar hún vann í Magn-
úsarbakaríi gátum við komið þar við
svangir eftir skóla og hún læddi að
okkur einhverjum kræsingum sem
við síðan gæddum okkur á við ról-
urnar á Stakkó.
Orð fá því ekki lýst hvað við eigum
eftir að sakna ömmu mikið. Okkur
fannst amma gefa okkur og öðrum
svo mikið, en hún sagði alltaf að hún
fengi það margfalt til baka í sam-
verustundum með þeim sem henni
voru kærastir.
Við vonum að henni líði vel á þeim
stað þar sem hún er nú og biðjum
Guð að geyma hana. Hún mun ávallt
lifa í minningu okkar. Við þökkum
fyrir allar þær stundir sem við átt-
um saman með henni. Það voru for-
réttindi að eiga hana að sem okkar
besta vin og ömmu.
Magnús og Jón Helgi Gíslasynir.
Okkur langar í fáeinum orðum að
minnast ömmu okkar á Íslandi.
Fjarlægðin gerði það að verkum að
samverustundirnar urðu ekki marg-
ar en samt finnst okkur við hafa
þekkt hana vel því að pabbi okkar
var óþreytandi að segja okkur frá
henni. Þegar við heimsóttum hana,
eða hún okkur, sýndi hún ávallt svo
mikla velvild í okkar garð sem ekki
þurfti að tjá með orðum, og alltaf
vissum við hvað henni þótti vænt um
okkur og fyrir það erum við mjög
þakklátar. Við vitum líka að hún
tókst á við mikla erfiðleika í lífinu og
sorgir, en var hetja sem aldrei lét
bugast og brosti við lífinu.
Okkur fannst mjög gaman að
heimsækja ömmu til Íslands í sumar
og er sérstaklega minnisstætt hve
mikinn áhuga hún sýndi á því sem
við vorum að fást við þótt hún væri
ekki hraust. Hún hlustaði með at-
hygli, kom með athugasemdir eða
tók undir með gleðibrosi þótt hún
skildi ekki allt sem við sögðum við
hana.
Við kveðjum ömmu okkar á Ís-
landi með söknuði.
María Lára og Aðalbjörg
Jóhanna Jónsdætur,
Þýskalandi.
Aðalbjörgu Jóhönnu Bergmunds-
dóttur kynntist ég sem móður vinar
míns. Eftir kynni af henni leyndi sér
ekki hvert vinur minn og systkini
hans sækja þá eiginleika að láta ekki
hugarvíl og skapdrunga þyngja sér
lífsbaráttuna. Þessa eiginleika hlutu
þau í móðurarf því Alla í Borgarhól
var glaðsinna svo af bar, gestrisin og
fordómalaus.
Eftir því sem árin líða og eftir
kynni af fleira fólki á borð við Öllu,
þá trúi ég því að létt skaphöfn og
einbeittur vilji til að gleðjast og sjá
hið spaugilega í tilverunni geti snúið
við líkamlegum erfiðleikum og
þungri skapgerð og þannig auðveld-
að fólki lífsbaráttuna. Alla fékk sjálf
að reyna margt um dagana. Áður en
hún missti eiginmann sinn 37 ára að
aldri, frá átta börnum, höfðu þau
hjón misst einn barnungan son sinn.
Síðar missti hún annan son í sjóslysi
við Vestmannaeyjar.
Þrátt fyrir þau áföll sem Alla varð
fyrir í lífinu lét hún ekki bugast
heldur vissi hvað til síns friðar
heyrði. Hún vildi koma börnum sín-
um til manns og skapa þeim þau
tækifæri sem hún hafði kost á að
veita þeim. Það gerði hún með sóma,
en ekki er vafi að á stundum hefur
verið erfitt að ala önn fyrir börn-
unum af launum fiskverkakonu. Alla
hafði það jákvæða lífsviðhorf til að
bera að vera þakklát fyrir það sem
lífið gaf henni, þá góðu heilsu sem
hún lengst af naut og gjörvileika
barna hennar sem á legg komust.
Fyrir mig, sem kynnist Öllu þegar
við Jón sonur hennar vorum í
menntaskóla á öndverðum áttunda
áratugnum, þá var það óhjákvæmi-
legt að kynnast þeim öllum sem ætt-
ir áttu að rekja í Borgarhól vegna
höfðinglegrar móttöku og þeirrar
fölskvalausu gleði sem þeim kynnum
fylgdi. Fyrir utan systkinin þá er
ekki heldur annað hægt en minnast
á bróður Öllu, Bjössa Berg, ógleym-
anlegur þeim sem honum kynntust,
maður sérstæður í háttum og fram-
komu.
Jóni vini mínum, dætrunum Mar-
íu Láru og Aðalbjörgu Jóhönnu,
systkinum hans og öðrum ástvinum
Aðalbjargar Bergmundsdóttur vott-
um við Ásta okkar innilegustu sam-
úð, um leið og við gleðjumst yfir ævi
hennar, kynnum við hana og því sem
hún var ástvinum sínum öllum.
Bolli Héðinsson.
Elsku litla prinsessan okkar.
Nú ert þú farin frá okkur, þú sem
kenndir okkur svo margt.
við eigum eftir að sakna þín svo
mikið.
Við munum svo vel fallega brosið
þitt sem lýsti upp alla daga, nú mun
minningin um það ylja okkur á erf-
iðum stundum.
Við áttum margar góðar og
skemmtilegar stundir saman
bæði heima og á spítalanum, það
eru minningar sem eru okkur svo
kærar. Við þökkum þér fyrir allt sem
þú kenndir okkur. Það var sama
hversu veik þú varst, alltaf gastu
brosað.
Dóttir, í dýrðar hendi
drottins, mín sofðu vært,
hann sem þér huggun sendi,
hann elskar þig svo kært;
þú lifðir góðum guði,
í guði sofnaðir þú;
í elífum andar friði
ætíð sæl lifðu nú.
(Hallgr. Pét.)
Elsku Dagmar okkar. Við kveðjum
þig með söknuði og vitum að við hitt-
umst seinna.
Amma og afi, Álakvísl.
Í dag kveðjum við litlu frænku og
hetjuna okkar, hana Dagmar Hrund.
Við munum ennþá þegar við sáum
hana fyrst, þá nýfædda. Við fengum
að halda á henni og þessi stóru augu
litu upp til okkar svo skýr og forvitin.
Hún var svo falleg. Mamma okkar
gat ekki haft augun af henni og var
alltaf að segja hvað hún væri falleg.
Það voru teknar myndir af okkur
systrunum með hana í fanginu. Við
vorum svo montnar. Síðan áttum við
einungis örfá skipti í viðbót með
henni áður en hún veiktist. Mamma
og pabbi sögðu okkur að Dagmar
Hrund væri orðin alvarlega veik. Við
skildum þetta ekki og biðum eftir því
að læknarnir gæfu henni meðul til að
lækna hana og svo myndi hún koma
heim. Það tók okkur langan tíma að
skilja hvað það þýddi að vera svona
mikið veikur eins og Dagmar Hrund
var. Við fréttum alltaf af henni
nokkrum sinnum í viku frá Bryndísi
mömmu hennar eða Ásu ömmu henn-
ar og svo fórum við líka oft inn á
Barnaland til að skoða myndir af
henni og lesa hvernig gengi. Við
hlökkuðum alltaf til að fá að hitta
hana, stundum sáum við hana bara í
gegnum rúðu á bíl. Við þurftum að
passa okkur því hún var svo við-
kvæm. Stundum þegar við vorum að
DAGMAR HRUND
HELGADÓTTIR
✝ Dagmar HrundHelgadóttir
fæddist á Land-
spítala – háskóla-
sjúkrahúsi við
Hringbraut 23. októ-
ber 2001. Hún lést á
Astrid Lindgren-
sjúkrahúsinu í
Stokkhólmi í Svíþjóð
8. september síðast-
liðinn og fór útför
hennar fram frá
Fossvogskirkju 19.
september.
fara að hitta fjölskyld-
una sögðu mamma og
pabbi okkur að nú gæt-
um við hitt Dagmar
Hrund. Þá hlökkuðum
við alltaf ennþá meira
til að fara. Hún var allt-
af brosandi og litla fal-
lega andlitið hennar
ljómaði. Við ætluðum
að fá að passa hana og
leika meira við hana
þegar henni væri batn-
að. Við töluðum oft um
það. Rétt áður en Dag-
mar Hrund veiktist
svona mikið núna í sept-
ember þá fórum við inn á Barnaland
og sáum fullt af nýjum fallegum
myndum og þá stóð að hún hefði
þyngst og væri orðin 8,4 kg. Við vor-
um svo ánægð að við héldum upp á
það og okkur fannst eins og núna
myndi allt fara að ganga betur. Dag-
mar Hrund var svo rosalega dugleg.
Hún var alltaf að sanna og sýna að
hún væri kraftaverkastelpa. Okkur
fannst hún vera hetja. Við eigum eftir
að sakna hennar sárt en við munum
aldrei gleyma henni. Bjartur þór
bróðir hennar var svo góður stóri
bróðir og við vitum að hann, Bryndís
og Helgi eiga svo erfitt núna. Þau
hafa öll verið svo sterk og dugleg og
Dagmar Hrund gat ekki átt betri fjöl-
skyldu.
Elsku Bryndís, Helgi og Bjartur
Þór, við vitum að þessi orð eru fátæk-
leg í ykkar miklu sorg og söknuði, en
við biðjum þess að Guð gefi ykkur
styrk.
Arnar Már, Katrín Huld,
Viktoría Ósk og Guðjón Atli
Vignisbörn.
Elsku litla hetjan mín með stóru
fallegu augun og stóra fallega brosið.
Ég var svo heppin að fá að knúsa
þig og kyssa. Þó svo að það væri ekki
oft þá kenndir þú mér svo margt, það
var þér að þakka að ég kynntist þín-
um yndislegu foreldrum, sem eru bú-
in að vera svo dugleg, Bjartur þinn sá
ekki sólina fyrir þér, enda ekki annað
hægt, því þú heillaðir alla svo mikið.
Þín barátta var erfið, en þú með
þínum ótrúlega krafti lést hana ekki
mikið á þig fá, við verðum að hugga
okkur með öllum góðu og yndislegu
minningunum um þig, dúllan mín.
Elsku Dagmar Hrund, kallið er
komið og veit ég að þú ert lítill engill
sem vakir yfir mömmu, pabba og
Bjarti þínum.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni.
Sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson.)
Elsku Bryndís, Helgi og Bjartur
Þór. Litli engillinn ykkar lifir í hjört-
um okkar sem vorum svo lánsöm að
fá að kynnast henni, ég bið Guð og
alla hina englana að vaka yfir ykkur
og styrkja í þessum mikla og erfiða
missi, því hún Dagmar Hrund var
ykkur allt.
Elísabet Sóley Stef-
ánsdóttir, Halldór, Harpa
Katrín og Sólveig Birna.
AFMÆLIS- og minningargreinum má skila í tölvupósti (netfangið er
minning@mbl.is, svar er sent sjálfvirkt um leið og grein hefur borist)
eða á disklingi. Ef greinin er á disklingi þarf útprentun að fylgja. Nauð-
synlegt er að tilgreina símanúmer höfundar og/eða sendanda (vinnu-
síma og heimasíma). Ekki er tekið við handskrifuðum greinum.
Um hvern látinn einstakling birtist ein aðalgrein af hæfilegri lengd á út-
farardegi, en aðrar greinar séu um 300 orð eða 1.500 slög (með bilum) en
það eru um 50 línur í blaðinu (17 dálksentimetrar). Tilvitnanir í sálma
eða ljóð takmarkast við eitt til þrjú erindi.
Minningargreinum þarf að fylgja formáli með upplýsingum um hvar og
hvenær sá sem fjallað er um er fæddur, hvar og hvenær dáinn, um for-
eldra hans, systkini, maka og börn og loks hvaðan útförin verður gerð og
klukkan hvað. Ætlast er til að þetta komi aðeins fram í formálanum, sem
er feitletraður, en ekki í greinunum sjálfum. Þar sem pláss er takmark-
að getur þurft að fresta birtingu greina, enda þótt þær berist innan hins
tiltekna frests.
Frágangur afmælis-
og minningargreina