Morgunblaðið - 06.11.2003, Side 10
FRÉTTIR
10 FIMMTUDAGUR 6. NÓVEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ
„RÉTTLÆTI án landamæra“ er yf-
irskrift landsfundar Vinstrihreyfing-
arinnar – græns framboðs, VG, sem
haldinn verður 7.–9. nóvember nk. í
Hveragerði. Steingrímur J. Sigfús-
son, formaður VG, kynnti dagskrá
fundarins í gær ásamt Svanhildi
Kaaber, varaformanni VG, og Krist-
ínu Halldórsdóttur, framkvæmda-
stjóra VG. Steingrímur sagði að yf-
irskrift fundarins vísaði bæði út á við
og inn á við. „Við viljum ekki nein
landamæri í vegi réttlætisins hér inn-
anlands og í okkar samfélagi, þar sem
allir eiga að hafa sömu tækifærin. Það
sama gildir út á við í hinum stóra
heimi.“ Yfirskrift fundarins vísar ekki
síst til hnattvæðingar síðustu ára og
verður fjallað um áhrif og afleiðingar
hnattvæðingar.
Gestir landsfundarins verða þeir
Stellan Hermansson, framkvæmda-
stjóri Nordic Left Green-hópsins á
Evrópuþinginu, og Tórbjörn Jacob-
sen frá Færeyjum sem kemur á fund-
inn sem fulltrúi systurflokka VG í
vestnorrænu löndunum, þ.e. þjóð-
veldisflokksins færeyska og Inuit
Atagatigit í Grænlandi. Stellan mun
flytja erindi um ýmsar hliðar Evrópu-
mála.
Landsfundurinn hefst kl. 17.30 með
setningarathöfn á föstudag og á laug-
ardag verða m.a. pallborðsumræður
og vinna í málefnahópum. Þá er ljóst
að breytingar verða gerðar á forystu
flokksins, þar sem Svanhildur Kaaber
gefur ekki kost á sér í embætti vara-
formanns og Kristín Halldórsdóttir
lætur af embætti ritara, þar sem hún
gegnir nú störfum sem framkvæmda-
stjóri flokksins. Katrín Jakobsdóttir,
formaður Ungra vinstri grænna, hef-
ur gefið kost á sér í varaformanns-
embættið en ekki er kunnugt um
fleiri frambjóðendur í þessi embætti.
Landsfundur VG 7.– 9. nóvember
„Réttlæti án
landamæra“
Morgunblaðið/Ásdís
Svanhildur Kaaber, Steingrímur J. Sigfússon og Kristín Halldórsdóttir
kynntu dagskrá landsfundar VG sem verður um næstu helgi.
HALLDÓR Ásgrímsson utanríkis-
ráðherra sagði á Alþingi í gær að
bæta þyrfti starfsaðferðir öryggis-
ráðs Sameinuðu þjóðanna, SÞ. Hann
sagði að það gengi ekki að þjóðir
hefðu jafn ríkt neitunarvald og raun
bæri vitni. Vísaði hann m.a. til þess að
Bandaríkin hefðu aftur og aftur beitt
neitunarvaldi í öryggisráðinu vegna
tillagna um Ísrael og Palestínu.
Þessi ummæli féllu í kjölfar fyrir-
spurnar Steingríms J. Sigfússonar,
formanns Vinstrihreyfingarinnar
-græns framboðs, um afstöðu Hall-
dórs til lögmætis innrásar Banda-
ríkjamanna og Breta í Írak fyrr á
árinu í ljósi þess að engar sannanir
hefðu fundist fyrir gereyðingarvopn-
um Íraka.
Steingrímur sagði að svo virtist
sem sú hætta sem umheiminum hefði
stafað af þáverandi stjórnvöldum í
Írak hefði verið ýkt. Steingrímur
spurði einnig hvort ríkisstjórnin hefði
hugleitt þann möguleika að draga til
baka stuðning sinn við innrásina í
Írak og láta taka Ísland af lista yfir
þær þjóðir sem studdu stríðið. Þá
spurði hann hver væri afstaða ís-
lensku ríkisstjórnarinnar til áfram-
haldandi bandarískra yfirráða í Írak.
Ástæðurnar margþættar
Utanríkisráðherra sagði í fyrstu að
það hefði verið pólitísk ákvörðun að
styðja hernað Bandaríkjamanna og
Breta í Írak en sú ákvörðun hefði
einnig byggst á grundvelli alþjóða-
laga. „Að vandlega íhuguðu máli tók
ríkisstjórnin þá ákvörðun að lýsa yfir
stuðningi við innrás Bandaríkjanna
og Bretlands í Írak. Ákvörðunin er
fyrst og fremst stuðningur við það
sjónarmið að Sameinuðu þjóðirnar
urðu að fylgja eftir ákvörðunum sín-
um um afvopnun Íraks.“ Ráðherra
sagði enn fremur að ástæður hern-
aðaraðgerða í Írak hefðu verið marg-
þættar og að þær hefðu ekki ein-
göngu snúist um spurninguna um
gereyðingarvopn Íraka. „Þótt engin
gereyðingarvopn hafi enn fundist í
Írak þá hlýddu Írakar ekki ályktun-
um Sameinuðu þjóðanna um afvopn-
un.“ Bætti hann því við að Írakar
hefðu gert vopnaeftirlitsmönnum SÞ
og Alþjóðakjarnorkumálastofnunar
eins erfitt fyrir og kostur var. „Ís-
lensk stjórnvöld telja það alvarlegt
mál þegar ályktunum SÞ er ekki
fylgt,“ sagði hann.
„Í ljósi þess sem ég hef sagt er af-
staða íslenskra stjórnvalda óbreytt.
Ekki er heldur ástæða til þess að óska
eftir því að Ísland verði tekið af þeim
lista sem nefndur hefur verið enda
væri það sérkennileg sögufölsun.“
Hann sagði einnig að það skipti
miklu máli að Bandaríkjamönnum og
öðrum samstarfsríkjum í Írak takist
sem fyrst að tryggja öryggi og stöð-
ugleika í Írak. Það væri forsenda þess
að endurreisnarstarf gæti hafist í
Írak og að þjóðin geti með lýðræð-
islegum hætti kosið sér nýja ríkis-
stjórn.
Síðar í umræðunni sagði ráðherra
að það væri vitað mál að gereyðing-
arvopn hefðu verið til staðar í Írak.
„Það er vitað mál að þau voru til. Það
liggur ljóst fyrir. Það er hins vegar
ekki vitað hvað varð um þau,“ sagði
hann.
Utanríkisráðherra ræddi starfsaðferðir Öryggisráðs SÞ
Þjóðir hafi allt of ríkt
neitunarvald hjá SÞ
Afstaða íslenskra stjórnvalda
óbreytt í Íraksmálinu
Morgunblaðið/Ásdís
Þingmennirnir Guðni Hjörleifsson og Magnús Stefánsson á þingfundi.
ALLS 184 manns eru á við-
bragðslista íslensku frið-
argæslunnar, að því er fram
kemur í skriflegu svari Hall-
dórs Ásgrímssonar utanrík-
isráðherra við fyrirspurn
Þórunnar Sveinbjarnardóttur,
þingmanns Samfylking-
arinnar. Svarinu hefur verið
dreift á Alþingi.
Af þessum 184 er 21 að
störfum. Konur á viðbragðs-
listanum eru 62 eða 34% og
karlar eru 122 eða 66%. Það
sem af er þessu ári hefur 41
verið sendur til starfa erlend-
is fyrir íslensku friðargæsl-
una. Alls voru 36 sendir á
vettvang í fyrra og 17 árið
2001. Þá kemur fram í
svarinu að umsækjendur um
friðargæslustörf skuli hafa
háskólamenntun eða hafa
með öðrum hætti aflað sér
sérhæfðrar þekkingar og
reynslu.
Launakostnaður
172 milljónir
Þá kemur fram í svarinu að
áætlaður kostnaður við ís-
lensku friðargæsluna í ár eru
264,7 milljónir króna. Þar af
er launakostnaður 172 millj-
ónir króna. „Samkvæmt fjár-
lagafrumvarpi verða framlög
til friðargæslu 329,8 milljónir
kr. árið 2004. Gert er ráð fyr-
ir að framlög fari hækkandi á
næstu árum og stefnt að því
að þau verði 550 milljónir
króna árið 2006 og að frið-
argæsluliðar á vettvangi
verði þá 50,“ segir í svarinu.
184 á við-
bragðslista
friðar-
gæslunnar
ÁSBJÖRN Gíslason, forstjóri Sam-
skipa erlendis, segir útlit fyrir að
velta fyrirtækisins fyrir utan Ís-
land verði tæpir 10 milljarðar
króna á þessu ári en hafi verið um
6,5 milljarðar í fyrra. Félagið hafi
verið að auka umsvifin sem að hluta
til mun falla inn á þetta rekstrarár
en að fullu árið 2004. Vegna þessa
stefnir í að veltan erlendis verði
12–14 milljarðar króna á næsta ári.
Ásbjörn segir veltutölur Sam-
skipa, sem höfð voru eftir Ingi-
mundi Sigurpálssyni, forstjóra
Eimskipafélagsins, í Morgun-
blaðinu í gær, réttar fyrir árið
2002. Hins vegar sýni áætlanir fyr-
ir þetta og næsta ár stóraukna
veltu. Þrátt fyrir það hafi ekki
þurft að fjölga starfsmönnum mik-
ið.
Sem dæmi um aukin umsvif segir
Ásbjörn að keyptur hafi verið
helmings hlutur í T&E ESCO í
Eistlandi þar sem Samskip taki
þátt í rekstri gámasiglingakerfis
með fjórum gámaskipum. Þá hafi
rekstur á Northern Continental
Lines, sem sé með tvö gámaskip,
verið tekinn yfir. Alls hafi gáma-
skipum Samskipa í Eystrasalti
fjölgað um sjö. Jafnframt hafi verið
opnaðar skrifstofur í Kóreu, Kína,
Larvik í Noregi og ný flugskrif-
stofa á Schiphol-flugvelli í Hollandi.
Á þessu ári verður rúmlega 50%
af heildarveltu Samskipa erlendis
segir Ásbjörn og yfir 60% árið
2004.
Mikil
veltu-
aukning
Samskipa
erlendis
MIKIÐ hefur verið um særðar gæsir
víðs vegar um landið en að sögn Jó-
hanns Gunnarssonar, bónda að
Hraunbrún við Víkingavatn, virðist
gæta ákveðins agaleysis hjá gæsa-
skyttum. Jóhann segir að gæsa-
skytturnar noti haglabyssur með
mun fleiri skotum en leyfilegt er.
„Menn mega vera með þrjú skot
en fara ekkert eftir þeim reglum.
Það er skotið nánast á hverju einasta
kvöldi. Þeir liggja fyrir gæsunum
þar sem er sandur því þær þurfa að
komast í sand vegna meltingar. Þar
er hægt að fá gríðarlega mörg tæki-
færi til að skjóta en svo finna menn
ekki gæsirnar í myrkrinu. Að auki
skjóta þeir af allt of löngu færi.“
Að sögn Jóhanns þvælast særðar
gæsir um og verða svo refum að bráð
eða hreinlega veslast upp og drep-
ast. „Það er skelfilegt að búa við það
að horfa upp á þetta allt haustið,“
segir Jóhann og bætir við að veiði-
menn særi mun fleiri gæsir en þeir
drepi. „Ég held að kennslan þurfi að
vera miklu meiri áður en menn fara
út í svona til þess að þetta geti verið
svo viðunandi sé,“ segir Jóhann en
hann vonast til þess að bændur sem
leigja tún til skyttna hafi frumkvæði
að því að banna veiðar að kvöldlagi.
Örlar á agaleysi
hjá gæsaskyttum
LANDSSÖFNUN fermingarbarna fór frá síðastliðinn þriðjudag þegar þau
gengu í hús fyrir Hjálparstarf kirkjunnar. Þetta var í fimmta sinn sem
fermingarbörn á Íslandi safna peningum til verkefna Hjálparstarfsins í
Afríku. Börnunum var boðið að fá í heimsókn ungt fólk frá Pókot í Kenýa,
þau Irene Doomo og Madanyang Salomon. Þau fræddu börnin um um-
skurð, stöðu kvenna, venjur við giftingar, veiðar og daglegt líf í Pókot. Í
fyrra söfnuðust 4,7 milljónir króna. Söfnunin er orðin mikilvægur hluti í
fjáröflun til verkefna Hjálparstarfs kirkjunnar.
Fermingarbörn söfnuðu fé