Morgunblaðið - 14.12.2003, Blaðsíða 29
hringja aftur hálftíma síðar.
Hann stóð við það og sagðist hafa
fundið öskju með beinum sem ég
gæti litið á ef ég kæmi strax. Ég var
fljótur niður í miðbæ og fann Vís-
indasafnið við þá götu sem kennd er
við Erling skakka Kyrpinga-Orms-
son sem fékk Magnús son sinn
krýndan konung yfir Noregi fimm
ára, brá sér til Þrándheims þegar
hann frétti að Þrændur hefðu gert
bandalag við Valdimar Knútsson
Danakonung en gerði síðar sjálfur
bandalag við Valdimar og þáði af
honum jarlstign yfir Noregi. Erling-
ur var hár maður og harðvaxinn,
baraxlaður, langleitur og skarpleit-
ur, ljóslitaður og gerðist hærður
mjög, bar höfuðið nokkuð hallt eða
skakkt og hefur fengið viðurnefnið
af því.
Ole Bjørn Petersen vísaði mér
niður í kjallarageymslu og þar lágu
höfuðskel og lærleggur á loki af
pappaöskju, auk nokkurra beina-
brota í plastpoka. Á hauskúpunni er
um fjögurra sentímetra löng
sprunga á vinstra gagnauga, um
tveimur sentímetrum ofan við aug-
að. Neðri kjálkann vantar, en allar
tennur eru í efri gómi. Lærlegg-
urinn hefur greinilega klofnað á efri
þriðjungi en gróið saman, skakkt
þó. Hinn lærleggurinn sem apótek-
araekkjan skilaði til safnsins 1919
sást hvergi. Þetta var stór stund.
Þarna horfði ég ef til vill í tómar
augntóttir fornkappans sem lét lífið
fyrir Helgu hina fögru frá Borg en
fékk aldrei að njóta hennar. Þeir á
Vísindasafninu hafa ekki hafnað því
formlega að þetta séu bein Gunn-
laugs ormstungu, enn fylgir bein-
unum miði sá sem Petersen gamli
skrifaði árið 1919. Þeim texta lýkur
þannig: „Öll spurningin um að
þekkja þessar beinaleifar Gunn-
laugs ormstungu er þó mikilli óvissu
háð og varla verður nokkru sinni
komist að endanlegri niðurstöðu.“
Ormurinn langi
Ég tók það rólega morguninn eft-
ir í húsi frænku minnar, úti fyrir
skein laugardagssólin og var komin
hátt á suðurhimininn þegar ég rölti
út og hélt áfram að skoða gamla
Niðaróssbæinn, fór út að Hlöðum,
sem heitir nú einungis Lade, gekk
umhverfis Hlaðakirkju og horfði
heim til gamla Hlaðabæjarins gegn-
um voldugt rimlahlið úr járni. Þar
sem Hlaðajarlar sátu áður og Har-
aldur Hálfdanarson gerði að aðsetri
sínu ræður nú húsum kolonialmaj-
orinn Reidan sem á matvörukeðj-
una Rima 1000. Frá Hlöðum hélt ég
út á Hlaðhamar og skimaði yfir
mannmergðina sem naut sumars og
sólar og svamlaði í fjöruborðinu þar
sem Ólafur konungur Tryggvason
lét smíða Orminn langa eftir Orm-
inum skamma sem hann tók frá
Rauði hinum ramma norður í
Sálpta. Síðar um daginn settist ég
niður utan við gamalt veitingahús á
eystri bakka Niðar, þar sem heitir
Baklandet sem er líklega Niðar-
bakkalandið þar sem Ólafur kon-
ungur skipaði að skyldi vera kaup-
staður, gaf mönnum tóttir til að
gera sér þar hús en lét gera kon-
ungsgarð upp frá Skipakrók. Þarna
er nú röð gamalla húsa sem eru sum
meira en tveggja alda gömul og
standa hugsanlega á hinum fornu
tóttum.
Þegar ég reis úr rekkju árla
sunnudagsmorguns var blíðunni
lokið í bili, komið þokuloft og rign-
ing en hlýtt, 17 stiga hiti; það var
svo sem ekki slæmt. Fáir voru á
ferli í miðbænum þegar ég ók þar í
gegn og stefndi á Grákarlinn sem
rís í rúmlega 550 metra hæð upp úr
skóglendinu vestan Þrándheims
sem nefnt er Bymarka eða Bæj-
arskógurinn; þar er aðalútivistar-
svæði Þrándheimsbúa, sumarpara-
dís á skógarstígum, vetrarparadís á
skíðaslóðum. Akvegurinn hlykkjast
fyrir fjallið með sjónum, sums stað-
ar undir háum hömrum, út með
Þrándheimsfirði og Flakkfirði, svo
suður þá láglendu og frjósömu sveit
Bynes eða Bæjarnes.
Ferð um fornar sögur – Noregsferð í fót-
spor Snorra Sturlusonar eftir Þorgrím
Gestsson er gefin út af Sögufélaginu og
Hinu íslenska bókmenntafélagi. Bókin
er 232 bls. að lengd og prýdd fjölda
mynda.
Hinar fornu Hlaðir hafa löngum verið höfðingjasetur og stórbýli. Nú eru bæjar-
húsin í miðjum Þrándheimi, sem var áður nefndur Niðarós, en Þrándheims-
nafnið haft um sveitirnar í kring, sem heita nú Þrændalög. Íbúðarhúsið sem nú
stendur á Hlöðum er í eigu eiganda einnar stærstu keðju matvælaverslana í
Noregi.
Fólk nýtur veðurblíðunnar undir Hlaðhamri í Þrándheimi, skammt frá Hlöðum.
Þarna lét Ólafur konungur Tryggvason gera skipið Orminn langa og hafði Orm-
inn skamma, skip Rauðs hins ramma, að fyrirmynd.
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 14. DESEMBER 2003 29
KENNARAHÁSKÓLI Íslands og
Fræðslumiðstöð Reykjavíkur hafa
undirritað samstarfssamning þar
sem Kennaraháskólinn tekur að sér
að bjóða grunnskólum Reykjavíkur
námskeið á grundvelli stefnumót-
unar fræðsluráðs í starfsáætlun
fræðslumála í Reykjavík og sí-
menntunaráætlana skólanna.
Markmiðið með samningnum er
að tryggja framboð á námskeiðum
fyrir grunnskóla Reykjavíkur í
samræmi við stefnumótun fræðslu-
ráðs. Fræðslumiðstöð Reykjavíkur
ber ábyrgð á að endurnýja samn-
inginn árlega og miðla upplýsing-
um til Kennaraháskólans um nýja
stefnumótun. Kennsluráðgjafar
munu veita ráðgjöf um framkvæmd
námskeiðanna ef skóli óskar eftir
því. Kennaraháskólinn ber ábyrgð
á að bjóða grunnskólum í Reykja-
víkur námskeið og sér um kynn-
ingu á þeim, t.d. í bæklingi eða á
vefsíðu, og framkvæmd þeirra í
samráði við viðkomandi skóla.
Kennaraháskólinn ber einnig
ábyrgð á vottun námskeiðanna.
Stofnuð verði samráðsnefnd þess-
ara aðila ásamt fulltrúum skóla-
stjóra og kennara.
Áherslur á þessu skólaári eru:
Einstaklingsmiðað nám og sam-
vinna nemenda, fjölbreyttir náms-
og kennsluhættir og fjölbreytt
námsmat í skóla án aðgreiningar,
sjálfsmynd nemenda og fé-
lagsfærni, tengsl skóla og grennd-
arsamfélags. Reykjavíkurborg hef-
ur markað þá stefnu að þróun
kennsluhátta sé í átt að einstak-
lingsmiðaðra námi en nú er með
áherslu á samvinnu nemenda og
skóla án aðgreiningar, segir í
fréttatilkynningu.
KHÍ og borgin
semja um námskeið
FORSVARSMENN Skipaafgreiðslu
Húsavíkur afhentu á dögunum
fulltrúum meistaraflokks Völsungs
í knattspyrnu 50.000 kr. til styrktar
knattspynudeildinni í tilefni af frá-
bærum sigri félagsins á Íslands-
mótinu í knattspyrnu innanhúss á
dögunum.
Þeir Helgi Pálsson,
framkvæmdastjóri Skipaafgreiðsl-
unnar, og Hannes Höskuldsson,
eigandi hennar, segja þetta lið í
stefnu fyrirtækisins að styrkja
íþróttastarf á Húsavík og verðlauna
menn þegar góðum árangri er náð.
Arngrímur Arnarson, fyrirliði Ís-
landsmeistaranna, og Höskuldur
Skúli Hallgrímsson, formaður
knattspyrnuráðs, tóku við gjöfinni
og þökkuðu fyrir stuðninginn. Þeir
segja svona stuðning ómetanlegan
og sýna vel hug fyrirtækisins til fé-
lagsins og eflaust væru fleiri sem
hugsuðu á sömu nótunum.
Morgunblaðið/Hafþór
Arngrímur Arnarson, Höskuldur Skúli Hallgrímsson, Hannes Höskuldsson
og Helgi Pálsson.
Skipaafgreiðslan
styrkir Íslands-
meistara Völsungs
STJÖRNUSPÁ mbl.is