Morgunblaðið - 27.01.2004, Page 24
LISTIR
24 ÞRIÐJUDAGUR 27. JANÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ
SEGJA má að nýtt upphaf sé
meginþema þeirra tónleika sem
hér eru til umfjöllunar. Ný tón-
leikaröð í Hallgrímskirkju hóf
göngu sína um helgina, Tríó
Reykjavíkur fagnaði nýju ári á
hefðbundinn hátt, og eftir því sem
ég best veit voru þetta fyrstu tón-
leikar söngkonunnar Helgu Rósar
Indriðadóttur í Salnum í Kópa-
vogi, þó hún hafi „debúterað“ hér
á landi fyrir nokkrum árum. Vert
er því að staldra aðeins við og líta
til framtíðar; hverjar eru horfurn-
ar í íslensku tónlistarlífi?
Í nýafstaðinni athöfn þar sem
Íslensku tónlistarverðlaun voru af-
hent var greinilegt að menn voru
mjög ánægðir með ástand mála. Í
fjölmiðlaumfjölluninni um verð-
launin var gjarnan rætt um fram-
rás íslenskrar tónlistar á erlendum
markaði og voru það ekki bara
orðin tóm. Nægir að nefna stór-
glæsilegan árangur Hilmars Arnar
Hilmarssonar, sem samdi tónlist-
ina í kvikmyndinni In the Cut, og
almennt talað virðist umfjöllun er-
lendra gagnrýnenda um íslenskt
tónlistarfólk vera sérlega lofsam-
leg. Yfirlýsing nýskipaðs mennta-
málaráðherra í Kastljósi á dög-
unum um að forgangsverkefni sé
að koma byggingu tónlistarhússins
margumrædda á almennilegt
skrið, gefur fyrirheit um að eitt-
hvað enn betra sé í vændum.
En er ástandið í alvörunni svona
gott? Eins og borgarstjóri benti á í
athöfninni þegar tónlistarverð-
launin voru afhent þá er undir-
staða alls hins blómlega tónlistar-
lífs starfsemi tónlistarskólanna. Í
leiðinni notaði hann tækifærið til
að stæra sig af hinum veglega
styrk sem borgaryfirvöld veita
tónlistarskólunum. Fékk maður á
tilfinninguna að hann vildi sjálfur
fá verðlaun. Skýtur það skökku við
því styrkurinn er lögboðinn og
kemur tónlistaráhuga borgarstjóra
ekkert við. Eiginlega hefði borg-
arstjóri átt að fá skammarverð-
laun, því staðreyndin er sú að
starfsemi tónlistarskólanna er í
járnum um þessar mundir og má
einkum rekja það til tveggja þátta
þar sem borgaryfirvöld koma mjög
við sögu. Annars vegar hafa tón-
listarskólarnir í Reykjavík sætt
talsverðum niðurskurði undanfarið
og hins vegar hefur R-listinn gert
allt til að rangtúlka kjarasaming-
inn sem gerður var síðast við tón-
listarkennara. Kennar hafa þannig
verið sviknir um launahækkanir
sem þeim hafði verið lofað á hausti
liðnu, en þær áttu að koma til
vegna lengingar skólaársins í sam-
ræmi við grunnskólana. Skrifast
það á afskiptasemi borgaryfirvalda
af innra starfi tónlistarskólanna,
að af þeim hefur ekki orðið.
Reyndar sagði formaður Félags
tónlistarkennara, Sigrún Grendal,
að þessi rangtúlkun borgaryfir-
valda hefði verið óviljaverk (Mbl.
25.10. 2003). Annað hefur komið á
daginn þar sem óviljaverkið hefur
hvorki verið leiðrétt, né fyrir það
bætt. Væri því nær að tala um ein-
beittan brotavilja borgarstjóra og
félaga hans er reyna að sleppa
sem billegast frá því að styðja við
menninguna en monta sig þó af
henni á opinberum vettvangi.
Ný tónleikaröð
í Hallgrímskirkju
Hörður Áskelsson, organisti og
kórstjóri, var einn þeirra sem sá
um að afhenda Íslensku tónlist-
arverðlaunin, enda hefur hann
fengið þau sjálfur.
Hann stóð líka
fyrir tónleikum í
Hallgrímskirkju í
hádeginu síðast-
liðinn laugardag,
og spilaði þar á
orgelið. Fyrst á
dagskrá var Fant-
asía í G-dúr, BWV
577 eftir Jóhann
Sebastian Bach.
Eftir aðeins
nokkra takta
hætti Hörður
óvænt leik sínum
og var ekki laust við að maður
hrykki við; hafði hann kannski
ruglast í ríminu? Nei, svo var ekki,
tónleikarnir voru hluti af tónleika-
röð undir yfirskriftinni Klaisorgel-
ið hljómar, en þar munu ýmsir
organistar ekki aðeins spila, held-
ur einnig tala við áheyrendur og
segja þeim frá tónlistinni sem þeir
flytja.
Hörður fjallaði í stuttu máli um
formskipan Fantasíunnar eftir
Bach, en tók síðan til við að út-
skýra mismunandi raddir orgels-
ins, hvernig þær eru framkallaðar
og með hvaða pípum. Mörgum hef-
ur örugglega fundist það fróðlegt,
organistinn var a.m.k. skýrmæltur,
talaði rólega og er greinilega van-
ur kennari.
Eftir erindi sitt settist Hörður
aftur við orgelið og lék nú án þess
að hika alla fantasíu Bachs. Var
flutningurinn ákaflega vandaður,
viðkvæmt fingraspilið var jafnt og
var túlkunin markvisst byggð upp.
Næst á dagskrá var Tierce en
taille úr Gloríukafla messu eftir
Couperin. Þar kynnti Hörður nán-
ar þau mörgu blæbrigði sem hægt
er að framkalla með orgelinu, og
þegar hann svo spilaði var það
margbrotið og stórfenglegt, en
líka kristaltært. Tónlist Couperins
er einstaklega hrífandi og skilaði
fegurð hennar sér fyllilega til
áheyrenda.
Ekki síðri var hin volduga Got-
neska svíta op. 25 eftir Boëllmann,
en þar var orgelið eins og heil
hljómsveit í meðförum Harðar.
Orgelið hefur lengi verið kallað
drottning hljóðfæranna, og víst er
að ekkert annað hljóðfæri býr yfir
eins mörgum túlkunarmöguleik-
um. Þegar Hörður lék heyrðust
ótal mismunandi raddir sem sköp-
uðu alls konar litblæ, og var túlk-
un hans sérlega sannfærandi,
hömlulaus þegar við átti, en einnig
innhverf og þrungin dulúð.
Lokaatriði tónleikanna var Tví-
söngur eftir Kjell Mørk Karlsen,
en verkið hlaut fyrstu verðlaun í
alþjóðlegri keppni sem Hallgríms-
kirkja stóð fyrir í tilefni vígslu
orgelsins fyrir um tíu árum. Hér
var flutningur Harðar í fremstu
röð og skapaði svo mikla hrifningu
að þegar hann var búinn flykktist
fjöldinn allur af æstum tónleika-
gestum að listamanninum og
heimtaði að fá nánari upplýsingar
um orgelið. Ég er viss um að
marga þeirra hefur langað til að
komast í spilatíma hjá Herði.
Helga Rós í Salnum
Síðar sama dag kom Helga Rós
Indriðadóttir sópran fram í Saln-
um í Kópavogi og söng fyrst nokk-
ur íslensk lög, þar á meðal Kveðju
Þórarins Guðmundssonar og
Draumalandið eftir Sigfús Einars-
son. Söngkonan virtist tauga-
óstyrk, en það leið fljótt hjá og var
þá auðheyrt að hún býr yfir kraft-
mikilli og glæsilegri rödd. Senni-
lega hentar hún betur í óperu en í
ljóðasöng, en samt var margt vel
gert á tónleikunum. Aðdáunarvert
var hve Helga Rós söng fallega
veikt í laginu Die Stille í Söngva-
sveig op. 39 eftir Schumann og þó
að hún missti örlítið fókusinn á
stöku stað í þessum lögum var
tæknileg hlið söngsins að öðru
leyti eins og best verður á kosið.
Ég var hins vegar ekki alveg
nógu ánægður með túlkunina á
tónlist Schumanns, sem almennt
talað einkennist af óheftu tilfinn-
ingaflæði. Helga Rós flutti lögin
allt of varfærnislega, maður sá
fyrir sér tónskáldið í spennitreyju
og það var ekki sérlega áhugavert.
Schumann var að vísu brjálaður,
en hann dvaldi ekki á geðveikra-
hæli fyrr en seint á ævinni og því
er óþarfi að túlka tónlist hans eins
og hann hafi verið kominn út úr
heiminum þegar hann samdi hana.
Píanóleikarinn, Elisabeth Föll,
átti stóran hlut í því hve túlkunin
var óáhugaverð; hún studdi söng-
inn ekki nægilega, það var lítill
kraftur í leik hennar, innlifunin
var takmörkuð, blæbrigðin fátæk-
leg – og hvað var þá eftir? Jú,
tæknilega var spilamennskan sam-
kvæmt bókinni, en það var líka
það eina.
Tónleikarnir voru betri eftir hlé,
en þá fluttu þær stöllur sex söngva
op. 48 eftir Grieg og síðan fimm
lög eftir Sibelius (Demanten på
marssnön, Sånet på vattnet, Flick-
an kom ifrån sin elsklings möte,
Var det en dröm? og Svarta ro-
sor). Hér var túlkunin óheftari,
sérstaklega hjá Helgu Rós, en Föll
hefði gjarnan mátt sleppa meira
fram af sér beislinu; hún tiplaði á
tánum allan tímann og var eins og
hún þyrði ekki að taka almenni-
lega á hljóðfærinu. Dró það tals-
vert úr áhrifamætti söngsins, sem
var synd því bæði söngkona og pí-
anóleikari höfðu í rauninni allt til
að bera til að gera þessa tónleika
að eftirminnilegri skemmtun.
Hcab Naitsabes Nnahój!
Talsvert líflegri stemning ríkti á
nýárstónleikum Tríós Reykjavíkur
á sunnudagskvöldið. Ásamt
tríóinu, sem samanstendur af þeim
Guðnýju Guðmundsdóttur fiðlu-
leikara, Gunnari Kvaran sellóleik-
ara og Peter Maté píanóleikara,
komu fram söngvararnir Sigrún
Hjálmtýsdóttir/Diddú og Bergþór
Pálsson. Á efnisskránni var alls
konar léttmeti, tangó, valsar, atriði
úr óperettum og fleira.
Þau Bergþór og Sigrún eru
skemmtikraftar af Guðs náð, bæði
eru prýðilegir leikarar og krydd-
uðu söng sinn tilburðum sem
vöktu mikla kátínu meðal tónleika-
gesta. Óþarfi er að telja upp hvert
einasta atriði tónleikanna, en mað-
ur verður þó að nefna Wunderbar
eftir Cole Porter þar sem Bergþór
talaði með þýskum hreim og bauð
hina „ómótschtæðilegu Diddú“ vel-
komna; hið drepfyndna Anything
You Can Do úr Annie Get your
Gun eftir Irving Berlin, og syrpu
úr Carousel eftir Rodgers, en þar
vantaði bara kúrekahattana til að
fullkomna atriðið.
Hljóðfæraleikararnir fluttu
nokkur lög án þess að söngur
kæmi við sögu og er ég ekki frá
því að sumum þeirra hefði mátt
sleppa. Þar á meðal var hugleiðsl-
an úr Thais eftir Massenet og
Tzigane eftir Ravel, sem pössuðu
einhvern veginn ekki inn í dag-
skrána. En hrífandi tangó eftir Pi-
azzola átti miklu betur heima
þarna, hann var glæsilega fluttur
og vakti stormandi lukku meðal
áheyrenda.
Eins og áður sagði var listafólk-
ið ærslafengið, en þó keyrði fyrst
um þverbak þegar undarleg kona
með slöngulokka (Gunnar í dul-
argervi sýndist mér) truflaði Berg-
þór þegar hann var að tilkynna
breytingu á efnisskránni og heimt-
aði að fá að spila á sellóið. Bergþór
leyfði það með semingi og þá til-
kynnti hún með skækri röddu að
hún ætlaði að flytja verk eftir
Hcab Naitsabes Nnahój. Svo upp-
lýsti hún að það væri Jóhann Seb-
astian Bach aftur á bak og að
verkið héti Vögguvísa fyrir gamla
hænu. Það samanstóð af stefnu-
lausu sargi og gaggi, og var ekki
ósvipað sumu af því sem maður á
örugglega eftir að heyra á næstu
Myrku músíkdögum.
Þetta var frábær uppákoma sem
auðvitað er ekki svipur hjá sjón
þegar henni er lýst svona í blaða-
grein. En ljóst er að þeir sem
heima sátu misstu af miklu; ég
held að ég geti fullyrt að þetta hafi
verið bestu nýárstónleikar sem ég
hef farið á.
Vögguvísa fyrir gamla hænu
TÓNLIST
Hallgrímskirkja
ORGELTÓNLEIKAR
Hörður Áskelsson, organisti. Hallgríms-
kirkja.Tónlist eftir Bach, Couperin, Boëll-
mann og Karlsen. Laugardaginn 24. jan-
úar.
Salurinn í Kópavogi
PÍANÓTÓNLEIKAR
Helga Rós Indriðadóttir, sópran og El-
isabeth Föll píanóleikari. Laugardaginn
24. janúar. Tónlist eftir Þórarin Guð-
mundsson, Sigfús Einarsson, Árna Thor-
steinsson, Sigvalda Kaldalóns, Schu-
mann, Grieg og Sibelius.
Hafnarborg
NÝÁRSTÓNLEIKAR
Tríó Reykjavíkur ásamt Sigrúnu Hjálm-
týsdóttur og Bergþóri Pálssyni, Sunnu-
daginn 25. janúar. Tónlist eftir Brahms,
Mozart, Rodgers, Massenet, Boccherini,
Porter, Berlin og fleiri.
Morgunblaðið/Ásdís
Tríó Reykjavíkur, Gunnar Kvaran, Guðný Guðmundsdóttir og Peter Máté
píanóleikari, ásamt Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og Bergþóri Pálssyni.
Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Hörður Áskelsson organisti og kórstjóri.
Jónas Sen
FRAM kemur í fréttatilkynningu að höf-
undurinn sé að verða fimmtugur og þetta sé
þriðja ljóðabók hans. Ólöf Björg Björns-
dóttir hefur unnið að kápunni sem er í
sterkum litum, vel snotur. Titilsíða er engin.
Ekki heldur bókarnúmer. Ljóðin eru kring-
um tuttugu talsins á jafnmörgum blaðsíðum.
En önnur hver síða er auð. Blaðsíðutal er
ekkert. Efnisskrá ekki heldur. Ekki er þess
heldur getið hver annast hafi prentvinnsl-
una. Af öllu þessu má ráða að bókin sé af-
rakstur heimilisiðnaðar. Út af fyrir sig er
ekkert nema gott um það að segja. Með
tölvu og góðum prentara, skurðarhníf og
lími er vandalaust að búa til þokkalega bók.
Það hafa fleiri gert með góðum árangri.
Þannig er Í djúpum rótum hjartans ein
meðal fjölda lítilla ljóðabóka sem séð hafa
dagsins ljós þessi árin og kenna má við
einkaframtakið. Skáldin eru tíðast á ungum
aldri. Eru þá að þreifa fyrir sér, leggja lúð-
ur við eyra í þeirri von að þeim berist ein-
hver endurómur frá viðbrögðum lesenda.
En lesendurnir eru grátlega fáir, undan-
tekningarlaust! Og viðbrögðin eftir því.
Heiti þessarar bókar boðar að skáldið vilji
tala opinskátt, vera einlægur, koma til dyr-
anna eins og hann er klæddur. Enn þykir
sem sé hæfa að ákalla hjartað þegar kafað
er ofan í sálardjúp eftir persónulegum hugð-
arefnum, stundum til að dreyma en oftar til
að rannsaka og leggja mat á eigið sjálf. Til
forna töldu menn augljóst að hjartað væri
bústaður tilfinninganna, sálarlífsins – hugar
borg. Þess vegna notum við orð eins og
hjartanlegur, hjartagóður og hjartahlýr.
Fyrirsagnir ljóða eins og: Í djúpum rótum
hjartans, Ímynd hins liðna, Bjartir litir, Ilm-
ur, Trúr, Hugarró – benda til að skáldið leit-
ist við að tala beint frá hjartanu og bókin
rísi þannig undir nafni. Friðrik vill líka vera
jákvæður, horfa á björtu hliðarnar í lífinu,
samanber upphafslínur ljóðsins Bjartir litir:
»í björtum litum / reyni ég / að sjá tilveruna
í nýju ljósi« Þessu jákvæða viðhorfi er sums
staðar fylgt eftir með því að skírskota til
trúar og tilbeiðslu samanber ljóðin Fiskisag-
an flýgur, Ímynd hins liðna, Trúr og Myndin
af gúrúinum.
Þannig má ætla að Friðriki sé nokkur al-
vara með þessum ljóðum sínum, þó svo að
hann eigi líka til að gantast með ljóðlistina.
Skal þá sérstaklega bent á ljóð sem bera yf-
irskriftina Doctor (þannig ritað) og Sígar-
ettan. Bæði eru saman sett af fáeinum alló-
samstæðum orðaleikjum sem tengdir eru
saman með rímorðum. Undir fyrr talda ljóð-
inu stendur raunar: »Samið í gríni.«
Fáeinar rit- eða prentvillur benda til að
Friðrik sé einyrki í ritbúskapnum. Glöggt
má geta sér til að hann ætli þessum ljóðum
sínum engan veginn stærri hlut en þau rísa
undir.
Og það er alltaf lofsvert ef menn kunna
sér þannig hóf í sjálfsmati og metnaði.
Í einlægni sagt
BÆKUR
Ljóð
eftir Friðrik Ágústsson.
Útg. höfundur. Reykjavík, 2003.
Í DJÚPUM RÓTUM HJARTANS
Erlendur Jónsson