Morgunblaðið - 21.11.2004, Qupperneq 27
náði hámarki við brúna á Skálm
um kl. 22.30. Það einangraði Álfta-
verið. Þetta var lítið hlaup miðað
við hin hefðbundnu Kötluhlaup.
Mynduðust tvær sigskálar í jökul-
inn og telur Sigurður Þórarinsson
líklegt að vatnið sem hljóp fram
hafi bráðnað vegna smávegis eld-
goss, sem ekki hafi náð upp úr
jöklinum. Hann segir það þó ekki
fullsannað.
1999, 18. júlí
Aðfararnótt 18. júlí kom skyndi-
lega allmikið hlaup í Jökulsá á Sól-
heimasandi. Upptök hlaupsins voru
í sigkatli sem myndaðist í Sól-
heimajökli. Eftir hlaupið sást að
sigkatlar sem fyrir voru stækkuðu
og sprungur mynduðust í jöðrum
þeirra. Eftir því sem leið á sumarið
fjölgaði kötlunum og þeir dýpkuðu.
Ástæða þessa var mjög aukinn
jarðhiti. Er talið mögulegt að ket-
illinn efst í Sólheimajökli og hlaup-
ið hafi orðið til vegna lítils eldgoss.
Heimildir
Einar H. Einarsson. Mýrdalur.
Árbók Ferðafélags Íslands.
Reykjavík 1975.
Sigurður Þórarinsson. Katla og annáll
Kötlugosa Árbók Ferðafélags Íslands.
Reykjavík 1975.
Lilja Árnadóttir, Gísli Gestsson,
Guðrún Sveinbjarnardóttir. Kúabót í
Álftaveri I-VIII. Árbók Hins íslenzka
fornleifafélags 1986.
Guðrún Larsen. Eldgos á Kötlukerfi á Nú-
tíma; einkenni þeirra og áhrif á næsta um-
hverfi. Jökull 49. ár. 2000.
Einar Ólafur Sveinsson. Byggð á
Mýrdalssandi. Skírnir 121 ár. 1947.
Heimasíða Raunvísindastofnunar:
www.raunvis.hi.is/~mtg/myrdj.htm
Náttúruhamfarir & mannlíf: www.
islandia.is/hamfarir
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 21. NÓVEMBER 2004 27
Klapparstíg 44,
sími 562 3614
Falleg handunnin
skandinavísk jólavara
Skálmarbær er efst í Álftaveriog dregur nafn af ánniSkálm. Ábúendur í Skálm-arbæ hafa oft orðið fyrir bú-
sifjum af völdum Kötlu. Gísli Vigfús-
son man greinilega upphaf
Kötlugossins 1918, en þá var hann á
sjöunda ári.
„Það var feiknalega gott veður
um morguninn, sól og blíða, þar til
dundi yfir og gosið kom,“ segir Gísli.
„Það var ýmislegt á döfinni hjá
mönnum í Álftaveri. Þeir voru að
koma af afrétti. Ég var nú ekki gam-
all maður þá og tók ekki þátt í svo-
leiðis.“
Gísli segir að um hafi verið að
ræða svonefnt miðsafn sem Álftver-
ingar voru að sækja í öðrum leitum
haustsins. „Það var búið að fara
nokkrum dögum áður og búið að
fara með ær og lömb í Vík í slát-
urhúsið skömmu áður en gosið
kom,“ segir Gísli. En hvernig urðu
þau í Skálmarbæ vör við gosið?
„Það leyndi sér ekki þegar litið
var í vestur- og norðurátt. Hlaupið
kom að vestan og fór eftir Skálm
skammt norðan við bæinn heima,
síðan austur og suður úr. Það flæddi
mjög nálægt bænum bæði að norðan
og austan. Ég reikna með að dálítið
hafi týnst af skepnum, en ekki veit
ég hvað það var margt.“
Gísli segir að ekki hafi verið
margar kindur heimavið en skepnur
voru í úthaga vestan og norðan við
Skálmina. Þar fór hlaupið yfir allt.
„Það kom ekki aska alveg undireins
og seinni part dagsins kom hlaupið.
Það var mjög mikill jakaburður og
stórir ísjakar í flóðinu. Ísinn var svo
mikill að þetta voru eins og brotsjóir
þegar hann var að steypast fram yf-
ir sig og detta. Þetta var mikið jök-
ulhlaup og það breytti mikið öllu.
Það voru grasfitjar með fram
Skálminni vestur úr. Grasrótin vast
þar upp í rúllur og svart hraunið var
bert eftir. Nú er þetta gróið aftur.“
Gísli man eftir stórum jökum sem
urðu eftir þegar hlaupið fjaraði og
þeir entust lengi. Á Mýrdalssandi
urðu eftir svokallaðar hrannir og
miklar bleytur mynduðust í kring-
um jakana. Gísli segir að töluverður
hávaði og ljósagangur hafi fylgt
gosinu.
„Ég man eftir mikilli þrumu eða
skruggu, rétt áður en við urðum vör
við að hlaupið var að koma fram.
Svo ætla ég ekkert að reyna að lýsa
því hvernig varð seinna um nóttina
og daginn eftir. Það var mikil
ókyrrð í lofti, svartamyrkur og mik-
ið af eldingum og þrumum enda-
laust. Um kvöldið, svona heldur fyr-
ir miðnótt, var farið að fjara
hlaupið. En ljósagangur var að
aukast og skruggur. Mér var verst
við eldingarnar og þrumurnar. Mað-
ur var svo ófróður, hélt að allt væri
búið þegar ljósið var komið en svo
var atgangurinn mikill þegar þrum-
an kom.“
Gísli segir að þegar hann var á
bernskuárum hafi ýmsum staðið
ógn af Kötlu og búast megi við því
sama í dag. „Ef hún kæmi núna er
ég hræddur um að það stæði ýmsum
ógn af því, líkt og 1918.“ Aðspurður
segir Gísli að sér hafi staðið ógn af
Kötlu. En hvernig þótti honum að
eiga Kötlu fyrir nágranna?
„Ég ólst upp með því. Gat búist
við að hún kæmi hvenær sem var, en
held ég hafi ekki haft miklar
áhyggjur af því. Ég hef oft hugsað
til þess á veturna, þegar allt er undir
ís og snjó og fólk að fara yfir Mýr-
dalssand í dimmviðri með snjó og
snjómuggu, ef kæmi svona flóð. Það
yrði agalegt og færi yfir allt. En
þetta er passað vel með mælitækj-
um. Ég held að menn hafi alist upp
við þetta og verið eftirtektarsamir,
ef þeir fóru á Sandinn til Víkur eða
eitthvað.“
Gísli telur ólíklegt að hann eigi
eftir að lifa annað Kötlugos og
hlaup. „Ég hugsa að ég sjái það
ekki, það dragist það lengi,“ segir
Gísli. Aðspurður segist hann kann-
ast vel við að fólk hafi vitnað í
Krukksspá. Meðal annars að þegar
hlaup úr Kötlu næði austur í Beru-
flóð eða Auðnablár í Meðallandi
hefði Krukkur spáð því að þá brynni
Katla í sjó fram eftir það. „Þá hefur
mér dottið í hug eldsupptökin í Vest-
mannaeyjum, Surtsey, Syrtlingi og
Heimaey. Það voru miklar hamfarir
þar,“ sagði Gísli Vigfússon.
Var verst við þrumurnar
Gísli Vigfússon í Skálmar-
bæ er fæddur 2. júlí 1912.
Hann sagði Guðna Einars-
syni og Ragnari Axelssyni
frá Kötlugosinu 1918.
Gísli Vigfússon við hólana ofan við Skálmarbæ.
Morgunblaðið/Rax