Morgunblaðið - 23.03.2005, Page 28

Morgunblaðið - 23.03.2005, Page 28
28 MIÐVIKUDAGUR 23. MARS 2005 MORGUNBLAÐIÐ UMRÆÐAN OFANGREIND fyrirsögn er kjör- orð veðurfræðidagsins í ár. Víða um heim er veður og vatn í afgerandi hlutverki í þeirri viðleitni að bæta aðstæður og kjör fólks með sjálfbærum hætti. Á sama tíma og efna- hagur heimsins verður stöðugt viðkvæmari fyrir veðri og veðurfari hafa þekkingarlegar framfarir innan veð- urfræðinnar orðið æ hraðari. Það hefur m.a. orðið til þess að menn gera sér æ betur grein fyrir því að ýmsar at- hafnir mannkynsins geta haft áhrif á veður, vatn og veðurfar með aukinni áhættu á mörgum sviðum. Þá mótast heilbrigði manna, fæðuframleiðsla, aðgengi að vatni, samgöngur, þróun þéttbýlis, ferðamennska, stjórnun orkuauðlinda og margt fleira af þróun þekkingar og bættri þjónustu innan veður- og vatnafræðinnar um allan heim. Þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna Árið 2000 settu SÞ upp ákveðin þróunarmarkmið nýrrar þúsaldar sem að hluta til voru staðfest 2002 með aðgerðaáætlun sem kennd er við Jóhannesarborg. Sum þessara mark- miða hafa sterka skírskotun til starf- semi og stuðnings Alþjóðaveður- fræðistofnunarinnar WMO og veðurstofa heimsins og eru þessi helst:  Að á næstu 15 árum fækka þeim sem lifa við örbirgð, hung- ur eða skort á ómenguðu drykkjarvatni um helming.  Að auka öryggi íbúa heimsins með því skoða þol samfélaga gagnvart náttúruhamförum, meta áhættu af þeim og innleiða skipulag sem varar við þeim, eykur viðbúnað samfélaga gagnvart slíkum hamförum eða mildar afleiðingar þeirra.  Að vakta veðurfarsbreytingar og meta afleiðingar þeirra bæði innan eigin þjóðríkis sem og á stærri svæðum um allan heim.  Að tryggja með hnattrænni samvinnu sjálfbæra þróun um- hverfisins. Þessi markmið hafa eðlilega mismikið erindi til einstakra aðild- arríkja WMO en ljóst er að þrjú síðastnefndu eru þess eðlis að Ísland á að láta þau til sín taka. Framfarir í fjar- könnun, einkum utan úr geimnum, hafa leitt til stóraukinnar þekkingar og skilnings á lofthjúpi og höfum jarðarinnar og samspili þarna á milli. Vöktun á þróun umhverfis á sjó og landi bæði frá degi til dags og til lengri tíma fer nú að miklu leyti fram með notkun gervihnatta og eru flestir þættir umhverfis og náttúru mæl- anlegir með þessum hætti. Framfarir í veðurspám á síðustu 5–10 árum má að stærstum hluta rekja til aukinnar notkunar á upplýsingum frá gervi- hnöttum um daglegt ástand and- rúmslofts og yfirborðs. Þá er með sí- vaxandi nákvæmni hægt að fylgjast með ástandi og breytingum á yfir- borði lands og hafs, t.d. mengun á landi eða sjó, útbreiðslu hafíss, sjáv- arhita o.fl. Það er því mikilvægt, að á þessu ári mun Ísland stíga með gerð samstarfssamnings fyrsta skref til aðildar að EUMETSAT, en það eru samtök Evrópuríkja um þróun og rekstur veðurgervihnatta. Áhætta og forvarnir Á árunum 1992–2001 fórust liðlega 620 þúsund manns af völdum nátt- úruhamfara í heiminum og um tveir milljarðar manna urðu fyrir meira eða minna tjóni af þeirra völdum. Efnahagslegt tjón af völdum nátt- úruhamfara er áætlað á sama tíma um 18.000 milljarðar króna. Um 90% af þessum náttúruhamförum eru tengdar veðri eða vatni. WMO hefur á síðustu árum beitt sér fyrir því að skipulega verði unnið að því að meta áhættu af völdum náttúruhamfara og beina síðan fjármagni í það að vakta náttúruna og koma í veg fyrir tjón eða milda áhrif hamfara, fremur en að kröftum og mun meira fé sé varið í að glíma við afleiðingar þeirra. Er vaxandi skilningur um allan heim á réttmæti þessarar stefnu. Hér á landi hefur verið unnið eftir þessari stefnu gagnvart ofanflóðahættunni síðan 1997 og hefur Veðurstofa Íslands gegnt þar lykilhlutverki. Hefur stofn- unin hvatt til þess að tekin verði upp svipuð stefna varðandi aðrar tegundir náttúruvár. Veðurfar og sjálfbær þróun Á mörgum sviðum sjálfbærrar þró- unar hefur veður, vatn og veðurfar af- gerandi áhrif. Almenn lífsskilyrði, þróun búsetu, fæðuöflun og heilbrigði eru aðeins nokkrir þættir sem mótast mjög af veðri og vatni. Ljóst er að veðurfar heimsins hefur verið að breytast nokkuð síðustu öldina eða svo þótt enn séu skiptar skoðanir um ástæður þess og afleiðingar. Þekking og skilningur á þessum breytingum og áhrifum þeirra fæst með mæl- ingum og rannsóknum og er WMO og veðurstofur heimsins þar í veiga- miklu hlutverki. Lega Íslands er þannig, að rannsóknir á breytingum í andrúmslofti og á hafsvæðum um- hverfis landið eru taldar mikilvægar til að auka skilning á veðurfari alls heimsins. Því þarf að skapa betri að- stæður hér á landi til þátttöku í al- þjóðlegu samstarfi á þessu sviði. Alþjóðlegi veðurdagurinn er um allan heim notaður til að vekja athygli á starfsemi þjóðarveðurstofa og WMO. Hvergi er að finna jafnvíðtækt og árangursríkt alþjóðasamstarf og innan veður- og vatnafræðinnar og er WMO oft nefnt sem fyrirmynd- arstofnun innan SÞ. Í veðurfræðinni eru raunar engin landamæri og um 150 ára samstarf þjóða á milli í glím- unni við duttlunga veðurs og veð- urfars hefur skilað meiri árangri en í nokkurri annarri grein náttúruvís- inda. Á þetta er ástæða til að minna og fagna einu sinni á ári. Veður, vatn, veðurfar og sjálfbær þróun Magnús Jónsson skrifar í tilefni af Alþjóðaveðurfræðideginum ’Í veðurfræðinni eruraunar engin landamæri og um 150 ára samstarf þjóða á milli í glímunni við duttlunga veðurs og veðurfars hefur skilað meiri árangri en í nokk- urri annarri grein nátt- úruvísinda.‘ Magnús Jónsson Höfundur er veðurstofustjóri. VINNA að endurskoðun stjórn- arskrár íslenska lýðveldisins er haf- in. Stjórnmálaflokkarnir hafa orðið ásáttir um verkefnið þótt skoðanir kunni að vera eitthvað skiptar um á hvað beri að leggja mesta áherslu. Sjö manna nefnd hefur verið skipuð sam- kvæmt tilnefningum flokkanna til að hafa forystu um endurskoð- unina, formaður henn- ar Jón Kristjánsson. Formenn þeirra flokka sem nú eru í stjórn- arandstöðu taka allir sæti í nefndinni og sýnir það með öðru mat á þýðingu þeirrar vinnu sem framundan er. Sérstök sérfræð- inganefnd undirbýr mál í hendur stjórn- málamannanna og fær- ir í búning að vilja þeirra. Tilkynnt hefur verið að vinna nefnd- arinnar eigi að vera fyrir opnum tjöldum og þær heimildir sem nefndin mun styðjast við verði aðgengilegar almenningi. Þetta er gott upphaf og þess verður að vænta að al- menningur notfæri sér það tækifæri til áhrifa sem í þessu felst. Stjórnarskrá er eins- konar grundvallarsátt- máli þjóðríkisins og lögfesting hans sætir eðlilega tíðindum. Sem kunnugt er þarf Al- þingi tvívegis að taka afstöðu til breytinga á stjórnarskrá og alþingiskosningar að fara fram á milli. Hér er því lagt upp í langa veg- ferð og skiptir þá úthaldið máli fyrir þá sem ætla sér hlut í niðurstöðu. Umhverfisréttur ómissandi þáttur Fjölmörg atriði koma til álita við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það málasvið sem hvergi kemur við sögu með beinum hætti í gildandi stjórnarskrá eru umhverfismál. Þar er um að ræða stærsta mál samtím- ans sem meira en nokkuð annað snertir heill og hamingju og raunar tilvist alls mannkyns horft til framtíðar. Á engu öðru sviði hefur orðið jafn ör þróun síðasta ald- arþriðjung sem liðinn er frá því Stokk- hólmsráðstefna Sameinuðu þjóðanna 1972 setti umhverfi mannsins á dagskrá al- þjóðasamfélagsins. Tuttugu árum síðar fylgdi í kjölfarið Ríó- ráðstefnan um um- hverfi og þróun og tíu árum síðar ráðstefnan í Jóhannesarborg um sjálfbæra þróun. Ríó- yfirlýsingin lagði grunninn að rétt- arþróun á sviði um- hverfismála og Ríó- sáttmálarnir um vernd- un loftslags og líffræðilegrar fjöl- breytni hafa hlotið staðfestingu flestra þjóða, þar á meðal Ís- lendinga. Það er því eðlilegt að lykilhugtök á sviði alþjóðlegs um- hverfisréttar verði tekin upp í íslensku stjórnarskrána. Þarna er m.a. um að ræða sjálfbæra þróun, réttinn til heilnæms umhverfis og að nátt- úran njóti vafans ef líkur eru á skaðsemi (varúðarreglan). Dýpkun lýðræð- ishugtaksins með stjórnarskrárvörðum rétti almenn- ings og almannasamtaka til áhrifa á ákvarðanir í umhverfismálum hlýtur einnig að verða á dagskrá svo og ákvæði um þjóðaratkvæði innan skilgreindra marka. Þetta síðartalda varðar að sjálfsögðu einnig önnur þýðingarmikil svið stjórnarskrár- innar. Tækifæri til að bæta úr vanrækslu Hart hefur verið tekist á hérlendis síðasta áratuginn um marga þætti er snúa að umhverfismálum. Ástæðan er vöntun á stefnumörkun og skýrri framtíðarsýn þeirra sem með völd hafa farið á þessu skeiði. Þetta hefur komið sárlega niður á brýnni laga- setningu um ýmsa þætti umhverf- ismála. Tvívegis á tíunda áratugnum var af hálfu umhverfisráðuneytisins gerð tilraun til að lögfesta meg- inreglur umhverfisréttar. Í fyrra skiptið á 117. löggjafarþingi (621. mál) og aftur á 122. löggjafarþingi 1997-98 (704. mál). Þótt þetta væru stjórnarfrumvörp var þeim ekki fylgt eftir. Sama sagan endurtók sig þegar staðfesta skyldi Árósarsamn- inginn svonefnda um rétt almenn- ings og almannasamtaka til áhrifa í umhverfismálum. Tvívegis voru stjórnartillögur þar að lútandi dregnar til baka, að því er virðist af ótta ríkisstjórnar við að þær styrktu málstað náttúruverndar og gætu komið í veg fyrir tiltekin fram- kvæmdaáform. Slík málafylgja er sannarlega víti til að varast. Vilji menn treysta hér leikreglur með hliðstæðum hætti og gert hefur verið og unnið er að í grannlöndum okkar gefst gullið tækifæri við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þjóðin hefur þörf fyrir sammæli í stað afdrifaríkrar sundurþykkju þegar um er að ræða verndun lands og sjávar og ráðstöfun nátt- úruauðlinda. Endurskoðun stjórnarskrár og umhverfisréttur Hjörleifur Guttormsson fjallar um stjórnarskrá lýðveldisins Hjörleifur Guttormsson ’Vilji menntreysta hér leik- reglur með hlið- stæðum hætti og gert hefur verið og unnið er að í grann- löndum okkar gefst gullið tækifæri við endurskoðun stjórnarskrár- innar.‘ Höfundur er fyrrverandi alþingismaður og ráðherra. GUÐMUNDUR Árni Stefánsson, alþingismaður, og fyrrverandi bæj- arstjóri í Hafnarfirði, fór mikinn í grein sinni um einkavæðingu í starf- semi grunnskóla. Þar sparar Guðmundur ekki, svo sem oft áður, stóru orðin um menn og málefni. Í greininni setur Guðmundur Árni ofan í við félaga sína í framtíðarhópi Samfylkingarinnar, en ein af hugmyndum hópsins, sem settar voru fram á haustdög- um, fjallaði um áherslur í rekstri grunnskólans. Var þar m.a. talið fýsilegt að líta til þeirra hugmynda sem lágu að baki tilraun um að fela einkaaðilum framkvæmd kennsluþáttar grunn- skólans í Áslandi. Ekki dettur mér í hug að stíga ofan í þann grugguga pytt sem eru málefni Samfylking- arinnar í nútíð, né framtíð, en get þó ekki annað en stungið niður penna til andsvara við rakalausum þvættingi alþingismannsins sem birtist í grein- inni. Samfylkingin í Hafnarfirði barðist með oddi og egg gegn öllum til- raunum til nýsköpunar í grunnskóla- starfi í Hafnarfirði á liðnu kjör- tímabili með liðsinni alþingis- mannsins, Guðmundar Árna, sem hrópaði á Alþingi að fyrir dyrum stæði uppboð á börnum í Áslandi. Þar var klifað á einkavæð- ingu, markaðshyggju og gróðafíkn meirihlutans í Hafnarfirði, í rekstri grunnskólans í Áslandi. Samfylkingin lagði sig fram með öllum mögu- legum ráðum og notaði öll þau brögð í áróðri sem gátu nýst í baráttu gegn „einkavæðingu grunnskólans í Áslandi“. Samningurinn um fag- legan rekstur Áslandsskóla var ekki settur upp með ætlaða gróðahyggju Samfylkingarinnar að leiðarljósi, slíkur málflutningur dæmir sig sjálf- ur. Samningurinn var þvert á móti gerður til að stuðla að nýsköpun, fjöl- breytni og efla með því samanburð og samkeppni í grunnskólastarfi. Unga fólkið flykktist í Áslandið, fólk sem bar miklar væntingar til hverfisskólans. Meirihluti Sjálfstæð- isflokks og Framsóknarflokks, boðaði byltingarkenndar hugmyndir og var tilbúinn að veita þeim brautargengi. Breytingar á grunnskólakerfinu sem að sjálfsögðu hlytu að kalla á mikla umræðu, en væri liður í eðlilegri framþróun í íslensku skólasamfélagi. Grunnskólinn í Áslandi, einka- framkvæmd kennsluþáttar og einka- framkvæmd í byggingu skólans hefur skilað sínu og ber það þess glöggt merki í framsæknum sveitarfélögum. Íbúar í Áslandi nutu þess líka að leik- skóli og grunnskóli tók til starfa sam- tímis því að íbúar fluttu í hverfið. Fullbúinn, glæsilegur grunn- og leik- skóli, sem þjónar hlutverki sínu. Eitt af „kosningaloforðum“ Sam- fylkingarinnar fyrir síðustu sveit- arstjórnarkosningar var að fyrsta verk þeirra yrði að ganga af þessari tilraun dauðri. Og hver eru svo orð al- þingismannsins um tilraunina: „Til- raunin stóð í örfáa mánuði, eða þar til hún varð gjaldþrota, faglega, fjár- hagslega og pólitískt.“ Aðförin, ein og sér, að því fólki sem tókst á við þessa nýbreytni í skóla- starfi á vart sinn líkan í siðmenntuðu landi. Já, yfir miklu getið þið glaðst samfylkingarmenn. Stóru orðin al- þingismannsins um refsingu kjós- enda í Hafnarfirði um verk okkar sjálfstæðismanna á liðnu kjörtímabili byggjast væntanlega ekki á þeirri staðreynd að flokkurinn fékk mesta fylgi í sveitarstjórnarkosningunum 2002 frá árinu 1974 og 5 bæjarfull- trúa kjörna í bæjarstjórn Hafn- arfjarðar. Og hvað er það svo helst sem fulltrúar Samfylkingarinnar geta státað sig af á þessu kjör- tímabili? Er það ef til vill ein- staklingsmiðað nám eins og farið var af stað með í Áslandsskóla? Er það nýr grunnskóli á Völlum sem íbúar þurfa að bíða eftir til haustsins 2006? Eða kannski bryggjuhverfið á Norð- urbakkanum sem þeir fundu allt til foráttu á liðnu kjörtímabili? Af hverju ætlar þessi máttlausi, reikuli bæj- arstjórnarmeirihluti fyrrum Alþýðu- bandalags og Alþýðuflokks, Samfylk- ingarinnar, að státa? Þingmaðurinn hefur væntanlega einnig eitthvert innlegg inn í þá umræðu. Þingmaðurinn og framtíðar- hópur Samfylkingarinnar Magnús Gunnarsson svarar grein Guðmundar Árna Stefánssonar ’Af hverju ætlar þessimáttlausi, reikuli bæj- arstjórnarmeirihluti fyrrum Alþýðubanda- lags og Alþýðuflokks, Samfylkingarinnar, að státa?‘ Magnús Gunnarsson Höfundur er oddviti Sjálfstæð- isflokksins í Hafnarfirði og fyrrver- andi bæjarstjóri.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.