Morgunblaðið - 12.04.2005, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 12.04.2005, Blaðsíða 25
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 12. APRÍL 2005 25 MENNING ÞÚ MÁTT gjarnan tala við mig meðan ég vinn hérna við borðið,“ segir Patrick Reyntiens, lærifaðir flestra glerlistamanna í Evrópu í dag og þótt víðar væri leitað. Reyntiens var staddur hér á landi í síðustu viku í tilefni af alþjóðlegu þingi um glerlist sem Listasafn Kópavogs – Gerðarsafn efndi til. Reyntiens stendur á áttræðu en er kvikur og lifandi í hreyfingum og tali. Talsmáti hans er einstaklega breskur, hann dregur seiminn og minnir á köflum á breskan að- alsmann. „Listamenn og aðalsmenn eiga það sameiginlegt að þeir fara ekki á eftirlaun. Þeir geta það ekki. Þeir halda bara áfram að vera það sem þeir eru þangað til þeir hrökkva upp af. Þetta á líka við um hunda,“ segir Reyntiens og leggur þar með tóninn í viðtalinu, breskur húmor svífur yfir vötnum. „Ég sagði þetta við gamlan kunn- ingja minn, Sean Connery, þegar ég frétti af því að hann hefði verið aðlaður. Hann sagði að þetta væri gott að vita því hann væri eiginlega sitt lítið af hverju, listamaður, að- alsmaður og hundur.“ Og þegar ég spyr hvernig fund- um þeirra Connerys hafi borið sam- an segir hann að fyrir mannsaldri eða svo hafi Connery verið ungur og óþekktur í Edinborg og unnið fyrir sér sem módel í listaháskól- anum. „Hann var mjög upptekinn af líkamsrækt og hentaði því mjög vel fyrir okkur í listadeildinni,“ seg- ir Reyntiens og heldur áfram að vinna að hugmynd sem hann hefur fengið meðan á dvöl hans hér í Reykjavík hefur staðið. „Ég kom í mjög fallega kirkju og fékk þessa hugmynd. Ég er búinn að hitta svo margt fólk og tala svo mikið undanfarna daga að það er gott að þegja og vinna svolítið. Leifur vinur minn var svo góður að bjóða mér að vinna hér á vinnustof- unni sinni,“ segir þessi aldna kempa sem er ljúfmennskan uppmáluð. „Ó, þú ert búinn að kveikja á seg- ulbandinu, ég verð að gæta að því hvað ég segi,“ bætir hann við og hendurnar eru stöðugt að, hann hefur teiknað grunnflöt að gluggum kirkjunnar og límir útklippt lituð bréfsnifsi yfir gluggaflötinn. „Þetta er skissa, hugmynd, ekkert verður til nema maður vinni. Hugmyndin þróast meðan ég vinn,“ segir hann og það er greinilegt að honum finnst þetta ekki mikil speki heldur einfaldlega staðreynd sem reynslan hefur fært honum. Reyntiens er einn þekktasti lista- maður samtímans í hinni fornfrægu list steindra glugga og verk hans skipta tugum ef ekki hundruðum. Hann hefur kennt og leiðbeint fjölda listamanna í greininni á rúm- lega hálfrar aldar ferli og skrifað bækur um sögu steinds glers og handverkið sjálft sem eru grund- vallarrit í greininni. Leifur Breið- fjörð sýnir mér eintak sitt af bók- inni um handverkið sem er nærri dottin í sundur af mikilli notkun. „Þetta er biblía glerlistamannsins,“ segir Leifur. Innihaldið sem skiptir máli „Aðferðin við gerð steindra glugga hefur sáralítið breyst í gegnum aldirnar. Það er að vísu hægt að setja saman gler án blýs núna en það er í rauninni eina breytingin sem orðið hefur. Þetta er eins og að hjóla og sitja hest,“ segir Reyntiens. „Það er bara ein aðferð við þetta og þegar búið er að ná tökum á henni þá er það inni- haldið sem skiptir máli en ekki að- ferðin sjálf.“ Reyntiens segir að upphafið að gerð steindra glugga megi rekja aftur til 12. aldar. „Steindir gluggar voru sjónvarp þess tíma. Í glugg- unum birtust sögur úr biblíunni og af dýrlingum kirkjunnar og al- menningur, sem var ólæs og skildi ekki latínu prestanna, fékk bibl- íusögurnar milliliðalaust með þess- um hætti. Fólkið dáðist að glerinu sem var eins og gagnsæir gim- steinar og það var í rauninni mjög eðlilegt að kirkjan tæki þessa list upp á arma sína þar sem í glerlist- inni fólst staðfesting á því undri sem ljósið er í veröldinni. Glerlistin hefur allar götur verið tengd sterk- um böndum við trúarbrögð en einn- ig við frið því í stríði er gler eitt af því fyrsta sem eyðileggst. Í fegurð glersins og ljóssins sem skín í gegn- um það felst loforð um frið og ein- drægni í veröldinni.“ Dýrt listform sem ferðast ekki Reyntiens hættir augnablik að vinna og horfir á mig og segir með áherslu. „Í seinni heimsstyrjöldinni eyðilagðist óhemjumikið af ómet- anlegum glerlistaverkum í kirkjum í Bretlandi, Frakklandi og Þýska- landi. Þetta hafði hins vegar þau áhrif að eftir styrjöldina var eft- irspurnin eftir glerverkum við end- urbyggingu kirkna og opinberra bygginga mjög mikil og það hleypti nýju lífi í þessa fornu list. Gróskan var geysileg á sjötta, sjöunda og allt fram á níunda áratuginn en mér hefur fundist sem heldur væri að draga úr henni aftur á síðustu 10– 15 árum. Myndlistarmennirnir eru að fjarlægjast glerlistamennina en tengslin þarna á milli voru mjög sterk á áratugunum eftir stríð.“ Reyntiens segir að listin að gera steinda glugga skipi nokkra sér- stöðu í listheiminum. „Þetta er ekki mjög gróðavænleg listsköpun. Það er ekki hægt að selja steinda glugga aftur og verkin sjálf geta ekki ferðast á milli staða. Um leið er þetta dýrt listform og fólk hugs- ar sig um tvisvar áður en það pant- ar steinda glugga í kirkjurnar sín- ar. Það sem ég á við er að steind glerverk eru ekki ætluð til einka- nota, fólk kaupir þau ekki eins og málverk til að hengja upp heima hjá sér, listasöfn kaupa þau ekki og listmiðlarar versla ekki með þau. Þetta er list fyrir almenning sem er til sýnis endurgjaldslaust. Þannig hefur það alltaf verið.“ Glerlist | Bretinn Patrick Reyntiens sótti Ísland heim List fyrir almenning Morgunblaðið/Árni Torfason Patrick Reyntiens glerlistamaður: „Aðferðin við gerð steindra glugga hefur sáralítið breyst í gegnum aldirnar.“ Eftir Hávar Sigurjónsson havar@mbl.is BÓKAFORLAGIÐ Bjartur á sér bróðurforlag í Danmörku, sem notið hefur nokkurrar velgengni og nefnist Hr. Ferdinand. Forlag- ið stefnir nú á frekari landvinn- inga og vinnur um þessar mundir að stofnun annars Hr. Ferdin- ands, að þessu sinni í Noregi. Norski markaðurinn góður Að sögn Snæbjörns Arngríms- sonar, forleggjara hjá Bjarti og Hr. Ferdinand, hefur það staðið til í nokkurn tíma að hefja útgáfu í Noregi. „Norski markaðurinn er að mörgu leyti góður. Þar er eng- inn virðisaukaskattur á bókum, verðið er hátt og salan er frekar mikil. Okkur langaði að prófa hvernig það er.“ Hann glensar með að Þýska- land, Frakkland, Ítalía og Spánn séu næst á dagskránni. „Nei, við viljum bara sjá til hvernig þetta gengur vegna þess að okkur hefur gengið vel í Danmörku. Það var alltaf hugmyndin að fara til Nor- egs. Danski markaðurinn er miklu erfiðari, 25% virðisauka- skattur og bóksala frekar lítil miðað við hin Norðurlöndin. Við ættum því að geta þetta í Noregi, en sjáum til hvernig gengur.“ Dante-klúbburinn fyrstur Eitt af því sem stuðlað hefur að velgengni forlaganna Bjarts og Ferdinands er rétturinn til útgáfu bóka Dans Browns, sem meðal annars er höfundur Da Vinci- lykilsins vinsæla, sem og útgáfa Harry Potter-bókanna vinsælu hérlendis. En hvað ætlar hið nýja forlag að gefa út í Noregi? „Við munum byrja hægt eins og í Danmörku, með eina bók til að byrja með til að kynnast mark- aðnum. Það verður Dante- klúbburinn eftir Matthew Pearl, sem við gáfum út hjá Bjarti fyrir jólin,“ segir Snæbjörn. Hann bætir við að norska þýð- ingin sé vel á veg komin. „Við sjáum hvernig það virkar og síðan höldum við áfram, eða söltum þetta.“ Bókaútgáfa | Forlagið Bjartur færir út kvíarnar til Noregs Hr. Ferdinand eign- ast tvíburabróður Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur ingamaria@mbl.is Morgunblaðið/Þorkell Snæbjörn Arngrímsson: Við ætt- um að geta þetta í Noregi.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.