Morgunblaðið - 12.04.2005, Blaðsíða 44

Morgunblaðið - 12.04.2005, Blaðsíða 44
44 ÞRIÐJUDAGUR 12. APRÍL 2005 MORGUNBLAÐIÐ G lugginn á Panorama-herberginu á áttundu hæð Hótel Nordica minnir að mörgu leyti á bílrúðu, sem er vel við hæfi þegar verið er að ræða vegamynd. Reyndar ferðuðust Ernesto Guevara og Alberto Gran- ado um á mótorhjóli en myndin heitir einmitt Mótorhjóladagbækurnar (Diarios de moto- cicleta) og er opnunarmynd kvikmyndahátíð- arinnar IIFF 2005. Með hlutverk Ernestos, sem gengur ekki enn undir nafninu Che, fer Gael García Bernal. Útsýnið er mikið og kýs Gael að sitja við borðið þannig að hann horfi beint út um gluggann. Í víðfeðmu útsýninu endurspeglast víðsýnin sem Gael hefur tileinkað sér en hann hefur heimspekilega sýn á heiminn. Samræðurnar fara á flug og er umfjöllunarefnið ferðalög á sál og líkama. Gael brosir allan tímann og er óhjákvæmilegt að komast hjá því að finna fyrir sjarma hans. Persóna hans er þó ekki þvinguð að neinu leyti og sjarminn alltaf viðkunn- anlegur en ekki yfirþyrmandi. Hann talar ensku þýðri röddu með hreim frá heimaland- inu, Mexíkó. Hann talar lágt og með því virka samræðurnar á einhvern hátt nánari. Hann er tilbúinn að gefa af sér þrátt fyrir að hafa rætt myndina margoft áður enda hefur hún fengið góða dóma og farið víða. Það sem hann hefur ekki gert áður er að koma til Íslands. Frá suðri til norðurs „Ég hef aldrei komið svona norðarlega áður. Það er gaman að koma svona norðarlega eftir að hafa verið þetta sunnarlega á hnettinum í Chile og Argentínu. Það kom mér líka á óvart hvað Ísland er stórt. Mér finnst alltaf gaman að uppgötva eitthvað nýtt og svo er afslappað andrúmsloftið hérna,“ segir Gael, sem kom hingað frá London þar sem hann er við æfing- ar á Blóðbrullaupi Federicos Garcías Lorca. Þar kemur inn tenging við Ísland því Björn Hlynur Haraldsson leikur einnig í leikritinu og segir Gael hann vera bæði frábæran mann og leikara. Þetta er þó ekki fyrsti snertiflöturinn sem hann hefur við Ísland því hann hitti Sturlu Gunnarsson þegar leikstjórinn var við tökur í Mexíkó. Önnur óbein tenging við landið er að í hinni mögnuðu Y tu mamá también klæddist hann ferðamannastuttermabol frá Íslandi í einni senunni. Landslagið í upphafi Mótorhjóladagbók- anna líkist mjög íslensku landslagi og þegar tjaldið fýkur á brott frá þeim félögum ofan í á, mætti halda að verið væri að gera heimild- armynd um íslenska útihátíð. Tónninn í þess- ari stórskemmtilegu mynd er líka mjög léttur í upphafi, verið er að segja ferðasögu tveggja ungra manna en ekki fara með byltingaræv- intýri. Gael leikur Ernesto á tíma þar sem hann er að breytast í þann leiðtoga sem hann á eftir að verða. Þetta er nefnilega ekki saga af því hvað einn maður getur breytt miklu heldur hvernig margir menn breyta einum manni. Pressan kom innan frá Gael segir að það þurfi að hafa margt í huga þegar verið er að leika persónu sem hefur svona mikla sögu á bak við sig. „Tilvist hans hafði mikil áhrif á hvernig ég og milljónir manna voru aldar upp. Staðurinn sem ég kem frá varð líka fyrir miklum áhrifum frá kúb- önsku byltingunni og hann var einn leiðtoga hennar. Pressan var mikil en hún kom líka mikið til frá sjálfum mér. Við þurftum að ákveða á hvaða hátt við ætluðum að sýna þessa persónu í myndinni. Það sem við dáum í fari Che Guevara er ævintýraþrá hans, hann er hugsjónamanneskja og það smitar útfrá sér. Við þurftum auðvitað að setja þetta í samhengi við það sem var að gerast á þessum tíma,“ seg- ir hann en ferðalagið átti sér stað árið 1952. Hann segir að farið hafi verið í smáatriðin. „Við þurftum að hafa upplýsingar um allt sem var að gerast á þessum tíma, hvað þeir lesa, hvernig þeir tala, í hverju þeir eru og þar fram eftir götunum. Undirbúningurinn var langur eða um fimm mánuðir. Við fórum til Kúbu, víða um Argentínu, til Mexíkó, og hittum fólk sem þekkti þá. Þetta var frábær lífsreynsla, ein- hver sú fallegasta sem ég hef lent í,“ segir Gael og segir að leikstjórinn Walter Salles hafi átt stærstan þátt í því að þetta var svona góð lífs- reynsla. „Það sem gerði þessa mynd mögulega var frábær maður sem sameinaði okkur öll og það var Walter Salles. Við kláruðum líka myndina nákvæmlega á tíma. Þetta er eina myndin sem ég hef leikið í sem það hefur tek- ist,“ segir hann og er það afrek miðað við fjölda tökustaða og vegalengdirnar. „Líka mið- að við að litlum peningum var eytt í þessa stóru mynd og þessar stóru hugmyndir.“ Þeir sem hafa séð myndina taka eftir því að mótorhjólið sem þeir ferðast á er ekkert sér- staklega traustvekjandi. „Á undirbúningstím- anum þurftum við að æfa okkur á hjólinu þrisvar sinnum í viku. Við vorum orðnir nokk- uð góðir í endann,“ segir Gael sem hafði fyrir reynslu af mótorhjólaakstri „en ekki á svona gömlu hjóli“. Opinn fyrir nýrri reynslu Ávallt er sagt að ferðalög víkki sjóndeild- arhringinn en þó má segja að fólk þurfi að vera opið fyrir reynslunni til að breytast. „Ernesto og Alberto vildu vera hluti af þeirra eigin sam- hengi. Ferðin var ekki bara til að fullnægja forvitni þeirra heldur líka til að verða hluti af þessum stað sem þeir eru frá, sem er góður byrjunarpunktur. Takmarkið er samt að verða hluti af mannkyninu. Þetta er ekki leit sem endar en hún leiðir mann á réttar slóðir. Þú þarft að vera agaður og líka opinn fyrir nýrri reynslu,“ segir Gael, sem var 23 ára á ferðalag- inu líkt og Guevara. Gael hefur reynt að tileinka sér þetta hug- arfar. „Já, ég hef gert það allt frá því að ég ferðaðist fyrst um Mexíkó. Þetta er svo fjöl- breytt land bæði hvað varðar kynþætti og menningu. Ég er frá Guadalajara sem er mjög ólík Mexíkóborg. Sem barn viltu uppgötva hvaðan þú ert og vera hluti af heiminum en ekki bara heimalandinu,“ segir hann en svipuð útþrá blundar í mörgum Íslendingum. Ferðalögum fylgir oft líka heimþrá og segist Gael sakna einföldu hlutanna frá heimaland- inu. „Ég sakna lyktarinnar á morgnana, sem er mjög sérstök því það er bæði rakt og heitt. Ég sakna litlu hlutanna eins og maís í maís- tortillum því mér finnst ekki gott að borða brauð. Auðvitað sakna ég líka fjölskyldu minn- ar. Það sem ég sakna mest frá Mexíkó er þessi tilfinning, sem ég hafði á meðan ég bjó þar, um að vilja vera á öðrum stað. Þegar maður fer burt enduruppgötvar maður sjálfan sig í sam- hengi heimaslóðanna þrátt fyrir að vera að ganga í gengum nýja reynslu. Maður finnur sinn stað en á sama tíma er maður orðinn frjálsari,“ segir Gael en í þessu felst hliðstæða við reynslu Guevara í myndinni. Hann hittir fólk sem hefur áhrif á hann og lætur hann end- urskoða eigin veruleika og markmið. Hann spyr sig í myndinni hvort það sé heimurinn sem er að breytast eða hann sjálfur og vissu- lega er það maðurinn sem breytist. Gagnleg fegurð Margir fallegir staðir eru í myndinni en sér- staklega er það áhrifamikið þegar Maccu Piccu í Perú birtist þeim í allri sinni dýrð. „Þetta er ótrúlegur staður. Í raunveruleik- anum birtist hann allt í einu, á sama hátt og í myndinni. Það er svo mikil fegurð sem er þarna í leynum. Ég hef ekki oft á ævinni séð eitthvað eins fallegt og þetta. Við vorum þarna í tvo daga, vöknuðum um fimmleytið og gátum fylgst með sólarupprásinni. Inkarnir virðast líka hafa mjög næmt auga fyrir fegurð. Hlutir eru ekki aðeins til vegna þess að þeir séu gagn- legir heldur eru þeir líka fallegir.“ Hann segir reynsluna af því að búa í London ekki vera næstum eins kyrrláta. „Núna bý ég í London og það getur gert mann brjálaðan. Þar er svo mikil mengun af hlutum sem eru hvorki þægilegir né fallegir. Fólk virðist líka lifa og vinna bara til að borga leiguna. Mér finnst það skrýtið en það er ekki fólkinu að kenna heldur er þetta bara svona. En auðvitað er þetta frá- bær borg, sem hefur uppá margt að bjóða,“ segir Gael, sem þekkir líka vel kosti borg- arinnar en hann stundaði nám í virtum leiklist- arskóla í London, Central School of Speech and Drama, í þrjú ár. Fjölbreytileiki í kvikmyndum Gael er ánægður með að yfirstandandi kvik- myndahátíð gefi áhorfendum tækifæri til að sjá fjölbreytilegt úrval mynda víða að úr heim- inum. „Það er nauðsynlegt fyrir mig sem áhorfanda að sjá myndir frá mörgum stöðum í heiminum og sjá þar með mismunandi sam- hengi, skynjun og viðhorf. Sem áhorfandi er ég leiður á því að horfa á formúlumyndir, sem byggðar eru á söluvænlegri formúlu frekar en mannlegri formúlu. Það er alltaf verið að reyna að gera lífið einfaldara en það er,“ segir Gael, sem sjálfur reynir að hafa þessa fjöl- breytni að leiðarljósi. Talið berst að kvikmyndahefð í Mexíkó og á Íslandi. „Það eru ekki svo margar myndir sem koma frá Mexíkó, hlutfallslega mun færri en frá Íslandi. Á síðasta ári voru um 25 myndir gerðar í þessu landi þar sem yfir hundrað milljónir búa. Þetta nær í raun ekki að sinna menningarlegri nauðsyn. En á sama tíma verður fólk að vera opið fyrir nýjum hlutum og hvernig þeir endurspegla eigin sjálfsmynd því það er hluti af því að vera manneskja,“ segir hann og minnist á tækifærin sem kvikmynda- gerð hefur gefið honum. Gael hefur vissulega verið í mörgum spenn- andi myndum, sem hafa vakið athygli. Hann er 26 ára gamall en hefur leikið frá því hann var barn. Fyrsta stóra myndin sem hann lék í var Amores perros, sem vakti mikla athygli. Hann leikur líka í annarri mynd sem sýnd er á IIFF en það er Slæm menntun (La mala educación) eftir stórleikstjórann Pedro Almodóvar. Myndin, sem verður frumsýnd næstu helgi á hátíðinni, hefur fengið góða dóma og verður spennandi að sjá hana. Ekki er annað að sjá en að Gael velji hlut- verk sín af kostgæfni. „Í fyrsta lagi þarf sagan að vera góð og áhugaverð. Hún þarf að hreyfa við mér og krefjast þess að vera sögð. Það er það sem mér finnst spennandi, að eitthvað sé það mikilvægt að saga þess verði að vera sögð. Ég reyni að velja hlutverk af innsæi og nauð- syn og svo skiptir leikstjórinn og aðrir leikarar auðvitað miklu máli.“ Gael fylgir þeirri stefnu að gera áhugamálið að vinnu og vinnuna að áhugamáli og er ánægður með starfið sem hann hefur valið sér. „Ég er mjög ánægður því ég reyni að gera að- eins það sem mér líkar við. Ég er stoltur af því að hafa gert það. Þótt hlutirnir gangi ekki allt- af upp er ég ánægður því ég gerði eitthvað sem ég vildi gera. Mér líður ekki eins og þetta sé vinna, þetta er leikur fyrir mér.“ Kvikmyndir | Gael García Bernal leikur aðalhlutverkið í Mótorhjóladagbókunum Morgunblaðið/Brynjar Gauti Gael García Bernal lærði heilmikið á ferðalagi sínu um Suður-Ameríku líkt og Ernesto Guevara. Hann er heimspekilega þenkjandi og hefur áhugaverða sýn á lífið. Kvikmyndahlutverk velur hann ekki síst eftir því hvort sagan hreyfi við honum og krefjist þess að vera sögð. Það er ekki á hverjum degi sem kynþokkafullar mexík- anskar kvikmyndastjörnur heimsækja Ísland. Inga Rún Sigurðardóttir ræddi við Gael García Bernal um ferðalög á líkama og sál. Langferð og stórar hugmyndir Ferðin var ekki alltaf auðveld hjá félögunum Ernesto Guevara de la Serna (Gael García Bern- al) og Alberto Granado (Rodrigo de la Serna) en þeir fóru frá Argentínu til Venesúela. ingarun@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.